05.12.1972
Sameinað þing: 25. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1016 í B-deild Alþingistíðinda. (717)

281. mál, kennsluskylda og rannsóknarstörf prófessora

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Í 1. lið fsp. hv. 7. landsk. þm. er spurt, hver sé kennsluskylda prófessora við Háskóla Íslands og Kennaraháskólann.

Í 18. gr. l. nr. 84 1970, um Háskóla Íslands, segir á þessa leið:

„Háskólaráð ákveður, að. fenginni umsögn háskóladeildar, hver sé kennsluskylda einstakra háskólakennara. Nú unir kennari ekki úrlausn háskólaráðs, og má hann þá skjóta úrlausninni til menntmrh., sem leysir til fullnaðar úr þessu efni. Rektor á rétt á að vera leystur undan kennsluskyldu að nokkru eða öllu. Ef því er að skipta, ákveður rektor með samþykki menntmrh., hversu ráðstafa skuli kennslunni.“

Shlj. ákvæði að því er varðar kennsluskyldu einstakra háskólakennara, annarra en rektors, voru í lögum þeim, sem áður giltu um Háskóla Íslands, þ.e.a.s. lögum nr. 60 frá 1957. Þessi ákvæði hafa þó ekki verið framkvæmd til hlítar með þeim hætti, að háskólaráð hafi formlega ákveðið kennsluskyldu, heldur er fremur, að nokkrar meginreglur um þetta efni hafi mótazt í framkvæmd.

Háskólakennsla er allmargbreytileg að eðli og tilhögun, og veldur það því, að ekki er einhlítt að ákveða í eitt skipti fyrir öll, að kennari skuli annast tiltekinn fjölda kennslustunda á viku, svo sem tíðkast um önnur skólastig. Á undanförnum missirum hefur þó m.a. samkv. óskum menntmrn. verið unnið að því í Háskóla Íslands að koma þessum málum í fastara horf, enda mun fullur áhugi á því af hálfu Háskólans sjálfs, svo sem starfandi háskólarektor vék að í ræðu sinni á setningarhátíð Háskólans í haust. Í sambandi við undirbúning að nýskipan á tilhögun greiðslna fyrir stundakennslu í Háskóla Íslands fyrir skemmstu lagði háskólaráð fram till. um viðmiðunarreglur varðandi það, hvernig hver kennslustund skyldi metin til vinnustundar, þ.e.a.s. hversu mikinn tíma skuli ætla kennaranum til undirbúnings hverrar kennslustundar, eftir því, hvers eðlis kennslan er. Þótt reglur þessar hafi verið miðaðar við stundakennslu, er þess að vænta, að hafa megi hliðsjón af þeim við mat á kennslu fastra kennara, og væri þar með fengin stórum betri grundvöllur en áður til að ákveða kennslustundafjölda hvers kennara.

Þess var áður getið, að mótazt hefðu í framkvæmd vissar meginreglur varðandi kennsluskyldu háskólakennara. Að því er prófessora varðar, má telja það allfasta hefð, að miða skuli við 6 fyrirlestrastundir á viku að öðru jöfnu. Samkv. vinnustundamati því, sem getið var hér á undan, væri hver fyrirlestrarstund að jafnaði metin til fjögurra vinnustunda, þ.e.a.s. 6 fyrirlestrarstundir yrðu með undirbúningi taldar svara til 24 vinnustunda. Upplýsingar um kennslustundafjölda einstakra kennara er að finna í kennaraskrá Háskóla Íslands, sem gefin er út á hverju missiri.

Um Kennaraháskóla Íslands er það að segja, að í lögum þeim, sem um hann gilda, nr. 38 frá 1971, segir í 11. gr. m.a. á þessa leið:

„Um vinnutíma kennara, árlegan eða vikulegan, fer eftir kjarasamningum eða dómi kjaradóms. Í reglugerð skal kveða á um, hver sé kennsluskylda einstakra kennara.“

Reglugerð um Kennaraháskóla Íslands á grundvelli umræddra laga er í smíðum. Engir prófessorar hafa enn verið ráðnir til starfa við Kennaraháskólann, en ráðgert er, að fyrstu prófessorsstöðurnar verði auglýstar lausar til umsóknar, áður en langt um líður.

Í 2. lið fsp. er spurt, hvernig áætlað sé, að vinnutími prófessora skiptist milli kennslustarfa og rannsóknarstarfa. Um þetta efni eru ákvæði í fskj. 1 með kjarasamningi ríkisstarfsmanna 19. des. 1970, en þar segir svo í 13. gr.:

„Vinnuskylda háskólakennara samkv. samningum er 1832 klukkustundir á ári, sem ráðstafað er til kennslu ásamt undirbúningi hennar, stjórnunar, sérfræðiþjónustu og rannsókna. 40–60% vinnuskyldu háskólakennara skal varið til kennslu ásamt undirbúningi hennar og stjórnunar. Með samþykki einstakra kennara, t.d. við ráðningu, getur þetta hlutfall þó orðið hærra. Háskólaráð metur kennsluskyldu í klukkustundum á viku í samráði við deildir Háskólans og með hliðsjón af fyrrgreindu sjónarmiði. Háskólaráð getur veitt afslátt í kennsluskyldu, t.d. vegna rannsóknarverkefna. Með háskólakennurum er hér átt við alla vísindalega menntaða starfsmenn í þjónustu Háskólans og stofnana hans, sem stjórnarfarslega heyra undir Háskólann.“

Vakin er athygli á því, að í þeim 40–60% af vinnuskyldu háskólakennara, sem ætlazt er til, að varið sé til annarra starfsþátta en rannsóknarstarfa, er auk kennslu og undirbúnings hennar gert ráð fyrir stjórnunarstörfum. Á flesta háskólakennara, en þó einkum á prófessora, leggjast óhjákvæmilega töluverð stjórnunarstörf, bæði í sambandi við þátttöku í stjórnarstofnunum deilda og Háskólans í heild, en einnig ýmiss konar störf, sem lúta að skipulagningu kennslunnar og framkvæmd hennar auk beinnar leiðbeiningaraðstoðar við nemendur.

Í 3. lið fsp. er spurt, hvort prófessorar skili skýrslu um rannsóknarstörf sín. Þessu er því til að svara, að engin almenn ákvæði eru til um slík skýrsluskil. Að sjálfsögðu koma þó fram með ýmsum hætti grg. um árangur af vísindastörfum, sem unnin eru af starfsmönnum Háskólans. Ítarleg skrá um rit háskólakennara var lengi vel birt í Árbók Háskólans, en hefur upp á síðkastið verið birt sem sérstakt rit. Síðasta bindi hennar, sem nær yfir árin 1961–1965, kom út 1968, og skrá, sem nær yfir tímabilið 1961–1970, er nú svo til fullbúin undir prentun. Þá má og geta þess, að það færist í vöxt, að rannsóknarstörfum háskólakennara sé fenginn skipulagslegur grundvöllur með því að koma á fót sérstökum rannsóknarstofnunum á afmörkuðum fræðasviðum innan háskóladeildanna eða í tengslum við þær. Fæst með því móti gleggri yfirsýn, þar sem unnt er að fella rannsóknarverkefni einstakra kennara inn í skipulega starfsáætlun viðkomandi stofnunar. Slíkar starfsáætlanir eru hafðar til grundvallar við undirbúning fjárveitingatillagna, og er þá eðlilegt, að jafnframt liggi fyrir grg. um starfsemina á næsta fjárlagatímabili á undan.