05.12.1972
Sameinað þing: 25. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1021 í B-deild Alþingistíðinda. (724)

91. mál, iðnfræðsla

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Hæstv. iðnrh. skýrði nýlega frá bráðabirgðaiðnþróunaráætlun, þar sem stefnt væri að því, að iðnaðarvörur yrðu um 60% útflutningsins innan 10 ára. Vissulega er mikilsvert að stefna að þessu markmiði, því að áhættusamt er að hyggja á sjávarútveginum sem næstum eina útflutningsatvinnuveginum. Eigi þetta markmið hins vegar að nást, þarf að gera margþættar ráðstafanir, og sennilega er ekkert mikilvægara en að efla verkkunnáttuna. Reynzlan annars staðar frá bendir ótvírætt til þess, að heilbrigður og vaxandi iðnaður byggist framar öðru á þekkingu og verkkunnáttu. Því þarf á næsta áratug að gera stórfelldar ráðstafanir til að auka verkmenntunina á sviði margvíslegra iðngreina. Hér er ekki aðeins að ræða um að efla þá iðnfræðslu, sem fyrir er, heldur að gera hana miklu fjölþættari og láta hana ná til iðnverkafólks og svonefndrar fullorðinsmenntunar. Vel má vera, að til þess að ná þessu marki þurfi að gera róttækar breytingar á skólakerfinu. Það er t.d. mjög mikilvægt, að iðnnámi verði skipaður sízt óvirðulegri þess í skólakerfinu en menntaskólanámi. Jafnvel ætti að steypa menntaskólum og iðnskólum saman, eins og Norðmenn stefna nú að með nýrri skólalöggjöf. Það er í tilefni af þessu, sem ég hef beint þeirri fsp. til hæstv. menntmrh., hvaða ráðstafanir ríkisstj. hafi í undirhúningi til efla og auka iðnfræðsluna.