19.10.1972
Neðri deild: 5. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í B-deild Alþingistíðinda. (73)

16. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Þó að hæstv. sjútvrh. hafi lagt það til, að frv. yrði vísað til þeirrar n., sem ég á sæti í, sjútvn., þá tel ég þó rétt að ræða frv. nokkuð hér við 1. umr, og það kannske alveg sérstaklega vegna túlkunar hæstv. ráðh. á tilganginum með stofnun Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins. Ástæðan fyrir því, að ég tel þetta nauðsynlegt, er sú stefnumörkun hæstv. núv. ríkisstj., sem fram kemur í frv., að nota Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins í allt öðrum tilgangi en upphaflega var til ætlazt, þegar lög um hann voru samþ. hér á hinu háa Alþ. Frv. til l. um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins var lagt fram í byrjun þings 1968 og afgreitt sem lög frá Alþ. veturinn 1969. Lögin um verðjöfnunarsjóðinn voru mjög skýr, og tilgangurinn með stofnun sjóðsins og einnig hvernig fé skyldi aflað til hans og eftir hvaða reglum fé skuli greitt úr sjóðnum er alveg afmarkað og fastákveðið í tilteknum gr. laganna 1. gr. laganna hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Stofna skal sjóð, er nefnist Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins. Hlutverk sjóðsins er að draga úr áhrifum verðsveiflna, er verða kunna á útflutningsafurðum fiskiðnaðarins.“ Er þá að sjálfsögðu átt við verðsveiflur á erlendum mörkuðum. Enginn vafi er því á, í hvaða tilgangi sjóðurinn er stofnaður. Í 5. gr. l. er ákveðið, hverjar tekjur sjóðsins skuli vera. Þar segir í b-lið gr.: „Allt að helmingi af verðhækkun, sbr. 7. gr., sem verður á þeim afurðum fiskiðnaðarins til útflutnings, sem lög þessi ná til. Renna tekjur þessar til viðkomandi deilda sjóðsins.“ Það segir sig sjálft, að slík ákvörðun hlaut að hafa áhrif á fiskverð og skerða þar með einnig tekjur sjómanna og útvegsmanna, ef um verðhækkun væri að ræða á erlendum markaði. Það, sem hér gerist með stofnun verðjöfnunarsjóðsins, er, að verið er að leggja til hliðar nokkurn hluta af tekjum allra þessara aðila til að mæta tímabundnum verðhækkunum sjávarafurða, sem síðar kunna að verða á erlendum markaði.

Ef lesnar eru umr., sem urðu um þetta mál. er það var til meðferðar hér í þessari hv. d. veturinn 1969, kemur alveg greinilega í ljós, að allir, sem um það ræddu, voru alveg sammála um, að Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins væri óumdeilanleg eign þeirra aðila, sem þar áttu hlut að máli, þ.e. útvegsmanna, sjómanna og eigenda fiskiðnaðarins. Enginn lét uppi um þetta ákveðnari skoðun en einmitt hæstv. núv. sjútvrh., og mun ég víkja að því síðar.

6. gr. l. um verðjöfnunarsjóð fjallar um, í hvaða tilfellum eða undir hvaða kringumstæðum heimilt sé að inna af hendi greiðslur úr sjóðnum. Gr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Til greiðslu verðbóta úr verðjöfnunarsjóði kemur, þegar meðalverð framleiðslu til útflutnings á einhverri þeirra útflutningsafurða fiskiðnaðarins, sem lög þessi ná til, hefur lækkað á grundvelli eins árs framleiðslutímabils, sbr. 7. og 8. gr. Verðbætur skulu þó aldrei nema meira en helmingi verðlækkunarinnar og ekki umfram það fé, sem viðkomandi deild ræður yfir, þegar til greiðslu verðbóta kemur.“ Ég held, að enginn vafi geti leikið á því, eins og ég sagði áðan, í hvaða tilfellum og undir hvaða kringumstæðum stjórn sjóðsins er heimilt að inna greiðslur af hendi eða mæla með greiðslum úr sjóðnum. Ég held, að ef frv. það, sem hér liggur fyrir, verði samþ. óbreytt, sé þar ekki einasta um breytingu á lögum um verðjöfnunarsjóðinn að ræða, heldur er með breytingunni beinlínis verið að kippa stoðunum undan sjóðnum og fyrirsjáanlegt, að hann muni verða uppétinn, ef stjórnvöld ætla að framkvæma þá stefnu, sem í þessu frv. kemur fram, ekkert eftir til verðbóta, ef um verður að ræða verðlækkun sjávarafurða á erlendum markaði. Væri það illa farið, því að sjómenn sérstaklega hafa litið á sjóðinn sem tryggingu fyrir því, að þeir yrðu ekki fyrir kjaraskerðingu, þó að um yrði að ræða tímabundna verðlækkun sjávarafurða á erlendum markaði, slíkt hefði sem sé ekki áhrif á fiskverðið og þeir héldu óskertu kaupi sínu miðað við aflahlut.

Ég sagði áðan, að þegar frv. til l. um verðjöfnunarsjóð hefði verið til umr. hér í þessari hv. d. veturinn 1969, hefði enginn kveðið fastara að orði eða undirstrikað það rækilegar en einmitt hæstv. núv. sjútvrh., að verðjöfnunarsjóðurinn, ef til hans yrði stofnað, væri óskoruð eign þeirra aðila, sem þar eiga hlut að máli, og eigendur einir ættu að hafa ráðstöfunarrétt á greiðslum úr sjóðnum. Hann hefur sjálfsagt séð ástæðu til að undirstrika þetta vegna þess, að hann hefur þá begar borið nokkurn ugg í brjósti um, að stjórnvöld kynnu síðar meir að falla í þá freistingu að misnota sjóðinn og éta hann upp í allt öðrum tilgangi en til var ætlazt, þegar löggjöfin var sett. Mér þykir rétt að lesa stuttan kafla úr ræðu hæstv. ráðh., sem hann hélt, er málið var til 2. umr. hér í Nd. Hann sagði þá m.a. orðrétt, með leyfi hæstv. foraeta:

„Ef byggður er upp sjóður á þennan hátt, að lagður er til hliðar hluti af útflutningsverði sjávarafurða, þá skiptir auðvitað mjög miklu máli fyrir viðkomandi framleiðendur, ásamt svo með sjómönnum þar á móti, að þeir hafi lokavald yfir því, hvernig á að fara með þetta fé. Það er t.d. enginn vafi á því, að frystihúsamenn verða ekki ánægðir með það, þegar á þennan hátt verður tekinn verulegur hluti af útflutningsverðinu á seldum frystum fiski og lagður til hliðar, að þá geti sjóðsstjórnin, sem er að miklum meiri hluta skipuð öðrum fulltrúum en frá samtökum frystiiðnaðarins, ráðstafað þessu fé. Það er mín skoðun, að ráðstöfunin á því fé hefði átt að vera í höndum fulltrúa, varðandi t.d. frysta fiskinn, frá annars vegar samtökum frystihúsanna og hins vegar samtökum útgerðarmanna og sjómanna, sem eiga raunverulega þessi verðmæti, sem hér er um að ræða. En nú er lagt til í þessu frv.,“ sagði hæstv. sjútvrh. þá, „að hér verði um 7 manna stjórn að ræða, og ráðh. á að skipa 3 menn í stjórnina án tilnefningar, og síðan koma fulltrúar fiskseljenda og útgerðarmanna og sjómanna með sinn manninn hvor, en sjómennirnir eiga í þessu tilfelli að hafa fulltrúa frá Sjómannasambandinu og Farmannasambandinu, og svo eiga að koma tveir fulltrúar frá fiskiðnaðinum og þó gert ráð fyrir því, að fulltrúar fiskiðnaðarins geti verið hreyfanlegir eftir því, hvaða grein framleiðslunnar á þar hlut að máli. Það er auðvitað alveg ljóst mál, eins og stjórnin yrði upp sett samkv. þessum reglum, að þá hefðu fiskiðnaðarmenn tiltölulega lítið vald yfir þessu fé, sem þeir eiga þó í raun og veru.“ Og hæstv. núv. sjútvrh. lauk ræðu sinni orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Ég tel einnig, að þær reglur, sem á að setja um ráðstafanir á þessu fé, eigi ráðh. að setja samkv. ákvörðun sjóðsstjórnarinnar, en ekki að ráðh. setji þetta aðeins að fengnum till. sjóðsstjórnarinnar, því að á því er vitanlega grundvallarmunur.“ Hæstv. sjútvrh. er þarna greinilega á sama máli og enn frekar en aðrir hv. þm., sem um málið fjölluðu þá, mjög ákveðinn í því, hvernig skuli ráðstafa sjóðnum, og það er hans skoðun, að það eigi eingöngu að vera á valdi eigenda sjóðsins, en stjórnvöld eiga þar helzt hvergi að koma nálægt, þegar hann undirstrikar, að það eigi að vera eftir ákvörðun sjóðsstjórnar, en ekki að fengnum till. hennar. Þegar þetta allt er athugað, má það heita furðulegt, að hæstv. sjútvrh. skuli nú mæla með því frv., sem hér liggur fyrir, en ástæðuna þekkjum við allir.

Síðan núv. hæstv. ríkisstj. tók við, hafa rekstrarútgjöld fiskiðnaðarins vaxið hröðum skrefum, sennilega verulega umfram það, sem almennt hefur gerzt hjá öðrum atvinnugreinum. Stafar þetta m.a. af því, að vinnutímastyttingin kemur frekar fram sem bein kauphækkun hjá fiskiðnaðinum en öðrum atvinnugreinum, sem hægara eiga með að breyta rekstrarformi sínu í kerfisbundna 8 tíma vinnu 5 daga vikunnar.

Hraðfrystihúsamenn hafa tjáð mér, að þegar allar kaupbreytingar síðustu samninga eru komnar til framkvæmda, muni vinnulaunakostnaður og vinnulannatengdur kostnaður hafa hækkað milli 50 og 60% auk annarra hækkana á ýmsum rekstrarvörum fiskiðnaðarins. Það segir sig sjálft, að hér er um svo stórfelldar hækkanir að ræða, að engum þurfa að koma á óvart þeir rekstrarörðugleikar, sem fiskiðnaðurinn á við að búa þrátt fyrir verðhækkanir, sem orðið hafa á ýmsum tegundum sjávarafurða á erlendum markaði.

Hæstv. sjútvrh. hefur mjög látið að því liggja í ræðum og riti og nú síðast hér í ræðu sinni áðan, að rekstrarörðugleikar fiskiðnaðarins stöfuðu fyrst og fremst, og hann taldi í ræðu sinni áðan, að þeir stöfuðu næstum eingöngu af minna aflamagni. Um 13%, segir í grg, frv., að aflamagnið hafi minnkað, og endurtók hæstv. ráðh. það hér áðan. Nú dettur mér ekki í hug að halda því fram, að minnkandi afli skerði ekki að einhverju leyti afkomu frystiiðnaðarins. Það liggur auðvitað í augum uppi. En ég tel, að hæstv. ráðh. fari mjög í kringum sannleikann, þegar hann heldur því fram, að þetta sé aðalorsökin. Talið er, að keypt hráefni sé um helmingur af rekstrarútgjöldum fiskiðnaðarins, vinnulaun og vinnulaunatengd útgjöld um 25% og fastakostnaður og önnur útgjöld um 25%. Minna keypt hráefni þýðir auðvitað lægri hráefniskostnað og að verulegu leyti lægri launakostnað. Ég held, að ekki fái staðizt, að minnkandi fiskafli sé aðalorsakavaldur versnandi afkomu fiskiðnaðarins, heldur sé þar um að ræða hinar almennu hækkanir, sem orðið hafa á rekstrarútgjöldum atvinnuveganna í tíð núv. ríkisstj., og sé því um heimatilbúna erfiðleika fyrst og fremst að ræða, sem við eigum við að stríða. Má í þessu sambandi benda á, að hjá frystihúsi, sem framleiðir miðað við 200 millj. kr. útflutning, sem í flestum tilvikum þýðir þá mjög nálægt þeirri upphæð í rekstrarútgjöldum, þá eru vinnulaun þar af 25% eða um 50 millj. Ef vinnulaun og vinnulaunatengdur kostnaður hafa hækkað og koma til með að hækka á næsta ári um 50%, þá liggur það ljóst fyrir, að þetta eru um 25 millj. kr. aukaútgjöld fyrir slíkt frystihús. Ef þau hækka um 60%, þá eru það 30 millj. kr. aukin útgjöld. Ég tel, að þetta segi sína sögn. Ég þekki nokkuð til rekstar hinna stærri frystihúsa í minni heimabyggð. Ég veit ekki til, að þau hafi haft þann tekjuafgang, að þau þyldu slík aukaútgjöld á einu eða hálfu öðru ári. Ég tel því, að skýring hæstv. ráðh., sem hann hefur mjög haldið á lofti, bæði í fjölmiðlum landsins og nú síðast hér í ræðu sinni áðan, að minnkandi aflamagn og verri samsetning aflans væri, eins og hann telur, aðalorsökin og hann vill meina kannske einasta orsökin fyrir versnandi aðstöðu frystihúsanna, — ég tel það mjög mikla rangtúlkun á málinu. Frystihúsin og aðrir, sem fiskiðnað stunda, hafa alltaf orðið að reikna með því og verða að reikna með því, að sveiflur séu í aflamagninu. Þetta er reynsla áratuganna, og það dettur engum í hug að byggja rekstur sinn þannig upp eða reikna með, að hann geti byggt rekstur sinn þannig upp, að alltaf sé nákvæmlega sama aflamagnið frá ári til árs, þannig að ég tel, að það sé allt mjög orðum aukið og rangtúlkun, sú niðurstaða, sem hæstv. ráðh. hefur komizt að í sambandi við, að þetta sé eiginlega eini orsakavaldur erfiðleika frystihúsanna. Þegar þetta er athugað, þá tel ég það í alla staði óforsvaranlegt að ætla að ráðast á Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins á þann hátt, sem frv. gerir ráð fyrir, og láta hann borga brúsann vegna, að ég tel, óheillavænlegrar stefnu ríkisstj. í efnahagsmálum.

Ég kem þá að því aftur, sem ég benti á í upphafi máls míns, að þingheimur allur og enginn frekar en hæstv. sjútvrh. varð um það sammála, er lögin um verðjöfnunarsjóð voru samþ., að sjóðurinn væri óskoruð eign sjómanna og útgerðarmanna og fiskiðnaðarins. Eign sjóðsins er, eins og kunnugt er, í vörzlu Seðlabanka Íslands og varðveitt þar á bók eða sérstökum reikningi, og er að því leyti verðmætari en aðrir sjóðir í einkaeign, að hann er gengistryggður samkv. lögum, sem samþ. voru á síðasta Alþ. Ég vil í þessu sambandi benda á, að þegar l. um gengistryggingu verðjöfnunarsjóðs voru til umr. hér í þessari hv. d. á s.l. vetri, fóru þau, ef ég man rétt, í gegnum báðar deildir, bæði í gegnum þessa hv. d. og eins í gegnum hv. Ed. með shlj. atkv. Ég tel. að þetta sýni, hversu hv. alþm. töldu þá sjóðinn nauðsynlegan og það svo, að ekki einu sinni gengisbreyting mætti rýra gildi hans, hvað þá að það ætti að nota hann sem hagstjórnartæki í efnahagsmálum, þegar það sýnir sig, að sú stefna, sem hæstv. ríkisstj. hefur rekið og komið hér á, er fyrst og fremst það, sem skapar fiskiðnaðinum og sjávarútveginum þá erfiðleika, sem nú er við að glíma. Þessi er staða verðjöfnunarsjóðsins, og held ég, að um það sé enginn ágreiningur.

Í frv. því, sem hér liggur fyrir, felst vissulega ný stefnumörkun í kjara- og efnahagsmálum, því að það gerir beinlínis ráð fyrir því, að ef menn eru sammála um, eins og nú er, að bæta þurfi laun sjómanna og auka tekjur útgerðar og fiskvinnslu, þá skuli það ákveðið með lagasetningu frá Alþ., að þessir aðilar fari í eigin sparisjóðsbók í Seðlabankanum og bæti kaup sitt og tekjur af eigin fé, eftir því sem samkomulag verður innbyrðis. Þetta er að sjálfsögðu ákaflega einföld lausn á vinnudeilu. En ég er ákaflega hræddur um, að ef ætti að fara að beita þessu gagnvart launþegasamtökum almennt, að segja þeim að leysa deilur sínar við atvinnurekendur með því að fara í eigin sjóði og greiða sjálfum sér launauppbætur, þá yrði því ekki vel tekið. En það er nákvæmlega þetta, sem frv. gerir ráð fyrir gagnvart sjómönnum og þeim aðilum öðrum, sem þar eiga hlut að máli.

Og það er annað í sambandi við frv., sem ég vil spyrja um: Hefur hæstv. ríkisstj. gengið úr skugga um það, hvort ákvæði frv. stangast ekki beinlínis á við 67. gr. stjórnarskrárinnar, en þessi gr. kveður á um, að eignarrétturinn skuli friðhelgur og engan megi skylda til að láta af hendi eigu sína, nema almenningsþörf krefji, og þurfi til þess lagafyrirmæli og komi fyrir fullar bætur? Eins og ég hef áður bent á, eru allir sammála um, að Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins sé óumdeilanlega eign þeirra aðila, sem lagt hafa fé í hann. Það er því ekki nema eðlilegt, að vakin sé athygli á því og hæstv. ríkisstj. um það spurð, hvort hún telji, að 67. gr. stjórnarskrárinnar heimili, að frv. verði samþ. í því formi, sem það hefur verið lagt fram, þ.e.a.s. að ríkisvaldið hrifsi til sín hluta sjóðsins til lausnar á aðsteðjandi vanda í efnahagsmálum, sem er í algeru ósamræmi við tilganginn með stofnun sjóðsins. Mér sýnist, að það liggi ákaflega nærri því, að hér sé um eignaupptöku að ræða á fjármunum, sem einkaaðilar eiga og yrðu þá að koma fullar bætur fyrir, ef frv. verður samþ. óbreytt, að mínum dómi.

Ég vil að lokum taka það fram, að ég geri mér að sjálfsögðu fulla grein fyrir því, að leysa verður þann vanda, sem að steðjar í sambandi við útgerð og fiskvinnslu, þá mánuði, sem eftir eru af árinu. En ég tel, að breyta verði frv. í það horf, að um lán verði að ræða úr verðjöfnunarsjóði, en ekki framlag, og taka verði tillit til þeirra 88 millj. kr., sem frv. gerir ráð fyrir, að lagðar verði fram úr sjóðnum, og upphæðin tekin inn í dæmið, þegar rekstrargrundvöllur útgerðar og fiskvinnslu verður lagður um næstu áramót, eins og flestum mun ljóst, að óhjákvæmilegt verður að gera, ef ekki á til stöðvunar þessa atvinnuvegar að koma.

Ég hafði ætlað að ljúka máli mínu með því að beina þeirri fsp. til hæstv. sjútvrh., hvort eigendur verðjöfnunarsjóðsins gætu ekki treyst því örugglega og gætu á því byggt, að hæstv. ríkisstj. héldi ekki áfram eða ætlaði sér ekki að halda áfram á næsta ári að éta upp fé sjóðsins, fé þessara manna, sem allir eru sammála um, að sé þeirra óskoraða eign, og hvort þeir gætu ekki treyst þessu. Nú hefur hæstv. ráðh. að nokkru svarað þessari fsp. minni með umr. um það og því, sem hann sagði í þessu sambandi, að það væri ekki enn þá farið að róta þessum málum til hlítar og yrði ekki gert fyrr en um næstu áramót, til þess væri ekki aðstaða. Það er alveg rétt, að ekki er aðstaða til að taka endanlega ákvörðun um þetta, fyrr en búið er að gera upp afkomu ársins og kanna allar horfur og viðhorf, sem þá verða. Hitt mundi ég segja, að það væri mjög eðlilegt og eðlileg krafa einmitt vegna þess frv., sem hér er komið fram, að eigendur verðjöfnunarsjóðsins fengju að vita það með nokkrum fyrirvara, hvort það er ætlun hæstv. ríkisstj. að halda áfram að ganga í sjóðinn og skerða hann í sambandi við efnahagsráðstafanir, sem um næstu áramót hljóta að koma. Ég tel, að þeir eigi nokkurn rétt á því, að þeim sé gefið nokkurt svigrúm til þess að gera þá sínar gagnráðstafanir, sem þeir teldu eðlilegar.

Hæstv. ráðh. vildi skýra þetta frv. með því, að lögunum um verðjöfnunarsjóð fælist eiginlega heimild til þess að taka fé sjóðsins og verja á þennan hátt. En ég held, að það sé ákaflega hæpin túlkun. Þegar menn tala um viðmiðunarverð, þá er vitanlega átt við, að tekið sé tillit til þess við fiskverðsákvörðun, og þá tekið tillit til þess, þegar tekið er fé af seldum sjávarafurðum, að þetta hefur verið reiknað inn í dæmið, og framlag sjóðsins lækkað að sama skapi. En ég tel, að það fé, sem komið er í sjóðinn, verði ekki undir neinum kringumstæðum hreyft út úr honum aftur nema eftir þeim reglum, sem í lögum um sjóðinn er að finna og að mínum dómi eru alveg skýrar. Það er engum blöðum um það að fletta, að fé verður ekki með neinu öðru móti tekið út úr sjóðnum með eðlilegum hætti. Og hvers vegna væri hæstv. ráðh. að leggja fram þetta frv., ef hann teldi sig hafa heimild til að ganga í sjóðinn á þann veg, sem frv. gerir ráð fyrir og hann hér áðan vildi láta liggja að, að hann hefði heimild til. Ef svo væri, þá væri óþarfi að vera að leggja þetta frv. fram.

Ég skal nú ekki í bili orðlengja meira um þetta, en ég vil segja það, að ef þetta á að verða reyndin, að þannig eigi að brenna upp Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, sem allir þeir aðilar hafa lagt fé í, bæði sjómenn og aðrir, — ef það á að brenna það upp í óðaverðbólgu núv. ríkisstj., þá er það illa farið, og ég er sannfærður um, að ríkisstj. á eftir að fá að finna fyrir því og fá margar ákúrur fyrir að hafa þannig staðið að málum, og ég endurtek, ég efast um, að hún hafi nokkra heimild til þess, eins og lög verðjöfnunarsjóðsins eru.