05.12.1972
Sameinað þing: 25. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1025 í B-deild Alþingistíðinda. (731)

92. mál, vátrygging fiskiskipa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hæstv. sjútvrh. fyrir það svar, sem hann gaf við fsp. minni, en ég hlýt að harma það, að málið skuli ekki hafa þokazt lengra á veg heldur en hann upplýsti. Eins og hann réttilega gat um, liggur fyrir að ákveða rekstrargrundvöll sjávarútvegsins fyrir næsta ár, og á fundi Landssambands ísl. útvegsmanna, sem nýlega var haldinn, lýsti ráðh. því yfir, að hann mundi stefna að því að reyna að ná nú fyrir jólin samkomulagi við þessa aðíla eða þessi heildarsamtök sjávarútvegsins um rekstrargrundvöll sjávarútvegsins fyrir næsta ár. Það liggur í augum uppi, að þetta er eitt af þeim málum, sem snerta mjög hag og rekstrarafkomu sjávarútvegsins, og því verður að teljast miður farið, að ekki hafi meira þokazt í þá átt að lækka vátryggingariðgjöld fiskiskipa, eins og hæstv. ríkisstj. vissulega hefur tilkynnt í málefnasamningi sínum, að hún muni beita sér fyrir.