05.12.1972
Sameinað þing: 25. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1026 í B-deild Alþingistíðinda. (733)

285. mál, tryggingamál sjómanna

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Á það hefur verið bent, að þeim fsp., sem ég hef hér borið fram, væri ekki beint til þess ráðh., sem með þessi mál fer. Ég skal ekkert um það dæma. Hér er um hrein sjávarútvegsmál að ræða eða hagsmunamál sjávarútvegsins og því eðlilegt, að fsp. sé beint til þess ráðh., sem með þessi mál fer. Ef þetta er eitthvað innbyrðis deilumál hjá hæstv. ríkisstj., undir hvaða rn. slík mál heyra, þá er það nærtækt fyrir þann hæstv. ráðh., sem þessi mál réttilega heyra undir, að svara fsp. Fsp. mín varðandi þetta atriði hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hefur ráðh. í hyggju að beita sér fyrir einföldun á tryggingakerfi sjómanna, annaðhvort með breytingu á gildandi lagaákvæðum, nýrri lagasetningu eða með því að koma á viðræðum milli heildarsamtaka sjómanna og atvinnurekenda um málið?“

Mál þessi hafa á undanförnum árum þróazt á þann veg, að til þess að uppfylla ákvæði gildandi l. og ákvæði í samningum milli samtaka sjómanna og útvegsmanna þurfa útvegsmenn nú að kaupa, að því er mér skilst, 5–6 tryggingar. Þessar tryggingar munu vera, eftir því sem ég þekki til, tryggingar samkv. almannatryggingalögum, slysatrygging samkv. sérstökum samningi milli sjómanna og útvegsmanna, trygging vegna ákvæða 2. mgr. 205. gr. siglingalaga, farangurs- eða fatatryggingar, iðgjöld til lífeyrissjóða, og loks verða útgerðarmenn að kaupa sér eina allsherjarábyrgðartryggingu til þess að vera þess megnugir að standa við skuldbindingar sínar, ef eitthvað ber út af. Ég held, að allir geti verið sammála um það, að ef þess er nokkur kostur, verði gerð þarna einföldun á, þannig að ekki verði eins flókið tryggingakerfi á milli sjómanna og útgerðarmanna og nú er.

Breyting sú, sem gerð var á Alþ. hinn 18. maí s.l. á 205. gr. siglingal., varð til þess að vekja nokkrar umr. um þessi mál í blöðum og öðrum fjölmiðlum, og mér er tjáð, að hæstv. ríkisstj. hafi veitt nokkurn ádrátt um, að málið skyldi nú á þessu hausti tekið til athugunar og endurskoðunar. Af þessari ástæðu hef ég leyft mér að bera fram þá fsp., sem hér um ræðir. Sé hún ekki rétt fram borin til hæstv. sjútvrh., vænti ég þess, að hæstv. trmrh. verði þess umkominn að veita svör við því, sem um er beðið.