19.10.1972
Neðri deild: 5. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í B-deild Alþingistíðinda. (75)

16. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Það fer ekki á milli mála, að þeir hv. stjórnarandstæðingar, sem hér hafa talað, hafa ekki áttað sig á eðli þess máls, sem hér er um að ræða.

Hv. 3. þm. Sunnl. talaði hér allan rímann um það, að ríkisstj. væri að taka fé úr verðjöfnunarsjóði og ríkisstj, væri að ráðast á verðjöfnunarsjóð, ætlaði að brenna hann upp í eldi o.s.frv. Veit hv. þm. ekki, að þetta mál ber þannig að, að eigendur sjóðsins, sem ég hef kallað, fulltrúar sjómanna, fulltrúar útvegsmanna og fulltrúar fiskiðnaðarins í landinu, sneru sér til ríkisstj. og báðu um þetta? Þeir gerðu till. um, að þessu yrði ráðstafað á þennan veg. Það var ríkisstjórnarinnar að segja til um það, hvort hún vildi fallast á till. þeirra eða ekki, eins og lög gera ráð fyrir. Ríkisstj. er ekkert að taka úr þessum sjóði handa sér, það er vitanlega reginmisskilningur. En þá er rétt að koma nokkru nánar að eðli þessa sjóðs.

Það er rétt, það átti að vera einn megintilgangur sjóðsins að bæta þessum aðilum, sjómönnum, útgerðarmönnum og fiskiðnaðarmönnum, upp áfall, sem þeir kynnu að verða fyrir vegna lækkandi verðs á erlendum markaði. Það er rétt. En lög sjóðsins segja líka, að það skuli taka tillit til annars í sambandi við greiðslur úr sjóðnum, og það hefur verið gert margsinnis. Og hvað segja lögin? Af hverju las ekki hv. 3. þm. Sunnl. upp þetta ákvæði, fyrst hann var að reyna að svara því, sem ég hafði sagt, þar sem ég hafði vitnað í þetta. 7. gr. frv. er þannig: „Við upphaf hvers árs eða framleiðslutímabils skal sjóðsstjórnin að fenginni staðfestingu sjútvrh. ákveða verðgrundvöll þann, sem miða skal við verðhækkun samkv. 5. gr. eða verðlækkun samkv. 6. gr.“ Og svo segir: „Skal hún þá einkum hafa hliðsjón af verðlagi þriggja undanfarinna ára, svo og af niðurstöðum Verðlagsráðs sjávarútvegsins um afkomu framleiðslunnar.“ Það er þetta, sem hefur verið gert. Ég heyrði, að hv. 3. þm. Sunnl. hafði ekki hugmynd um, hvernig þetta er framkvæmt. Ég skal ekkert ásaka hann um það út af fyrir sig. Ég vissi ekki fyllilega, hvernig þessu var háttað, lengi vel um greiðslur úr verðjöfnunarsjóði.

Viðmiðunarverð í verðjöfnunarsjóðinn, sem ákveðið er og greiðslurnar úr sjóðnum miðast við, er ekki sett eftir því, hvað ákveðið er um hráefnisverð á fiski. Viðmiðunarverð er sett hjá verðjöfnunarsjóði miðað við, að það fáist fyrir útfluttar afurðir tiltekið verð á einingu. Og ef þetta viðmiðunarverð er sett jafnvel fyrir ofan það, sem er markaðsverð á einhverju tímabili, þá verður greitt úr sjóðnum. Og það er þetta, sem hefur verið gert hvað eftir annað, að viðmiðunarverð hefur verið sett svo hátt, að þannig hefur verið greitt úr sjóðnum einmitt eftir þessari reglu, að það ber að taka tillit ekki eingöngu til verðlagsins á afurðunum á erlendum markaði, heldur einnig til rekstraraðstöðu framleiðslunnar. Nú var það í þetta skipti till. Verðlagsráðs sjávarútvegsins, fulltrúa sjómanna, bátaútgerðarmanna og fiskiðnaðarmanna, að sá háttur yrði hafður á að ákveða viðmiðunarverðið svo hátt, að þessi greiðsla kæmi út úr sjóðnum, og þá þyrfti enga lagabreytingu. Það var rétt. Það var vitanlega hægt að framkvæma þetta svona, eins og þeir lögðu til. Þá yrði engin lagabreyting. Á þetta vildi ég ekki fallast fyrir mitt leyti, og hinir opinberu fulltrúar í stjórn verðjöfnunarsjóðs mæltu gegn þessu og töldu, að það væri mjög óæskilegt að fara að setja viðmiðunarverðið svo hátt, að greiðslur úr sjóðnum yrðu með þessum bætti. Og af því var það, að við lögðum til, að í þetta skipti, fyrir þetta tiltekna tímabil, yrði tekin úr sjóðnum samkv. samkomulagi þeirra aðila, sem eiga sjóðinn, tiltekin fjárhæð og henni deilt út eftir ákveðnum reglum, en viðmiðunarverðið yrði ekki hreyft, af því að vitanlega var hér um greinilegt bráðabirgðaástand að ræða, en ekki nein viðurkenning á því, að hér gæti orðið um varanlegt ástand að ræða.

Hv. 3. þm. Sunnl. vitnaði hér mjög í ummæli mín, sem ég hafði látið hér falla um það leyti, sem var verið að ákveða að stofna til þessa sjóðs. Skoðanir minar í þessum efnum hafa sannarlega ekki breytzt, og ég álít, að sjómenn og útgerðarmenn og fiskiðnrekendur í landinu eigi þetta fé og það séu þeir, sem eigi að ráðstafa því. (Gripið fram í.) Já það er það sem er, þeir hafa óskað eftir þessu. Ef hv. þm. hefur ekki skilið það, sem ég er að segja: þetta er tillaga þeirra, þeir hafa beðið um þetta. (Gripið fram í.) Já, fulltrúar þeirra, sem fara með þessi mál. það eru þeir, sem hafa gert tillöguna. Eins og ég segi, þá kom till. þeirra upphaflega fram í öðru formi, sem ég hef verið að lýsa, en við nánari athugun féllust þeir á að breyta henni, og frv. er lagt fram til staðfestingar á samkomulagi, sem þeir gerðu, og til þess að koma því fram, sem þeir báðu um. Vitanlega var hækkun fiskverðsins nú þeirra vandi. Það var vitanlega hægt að fá meiri hluta í Verðlagsráði sjávarútvegsins til þess að hækka fiskverð um 15%, en þá kom auðvitað upp sá vandi, hvernig til tækist með að greiða þetta, og þá var það ljóst, að fiskiðnaðurinn í landinu gat í einstaka greinum greitt það verð, sem um hefði verið að ræða, en í öðrum greinum ekki.

Það, sem hér hefur því verið sagt af hv. 3. þm. Sunnl. og eins af hv. 7. þm. Reykv., er í rauninni algerlega byggt á misskilningi, því að þeir setja málið þannig upp, að ríkisstj. sé að taka fé úr þessum sjóði, og helzt að skilja, að hún sé að taka það handa sér. Hér er um það að ræða, að ákveðnir aðilar hafa á góðum tímum lagt fé til hliðar, og ég hef lagt á það áherzlu fyrir mitt leyti, að það eru þeir, sem eiga þetta fé, og það eru þeir, sem eiga að fá það fé, sem rennur út úr sjóðnum aftur. Ég tel fyrir mitt leyti, að vandi þessara aðila verði alveg sá sami, hvort hann verður fyrir verðfall á þeirra útflutningsafurðum eða hvort hann verður fyrir það, að aflinn hefur minnkað. Þetta er þeirra fé, og ef þeir vilja ráðst. því sér til handa, þá er réttmætt að verða við því. Hitt hef ég sagt allan tímann og segi og mun beita valdi mínu til þess, á meðan ég er ráðherra, sem þessir aðilar verða að leita til um staðfestingu, að ég vil sjá um það, að fé, sem kann að verða greitt úr sjóðnum, renni á eðlilegan og réttlátan hátt til þeirra, sem lagt hafa fé í sjóðinn. Af því er haldið þannig á málinu nú, að þegar svo stendur á, að t.d. ein fisktegundin, þ.e.a.s. karfinn, eða sú vinnsla getur ekki risið undir því verði, sem þarf í rauninni að vera á þessum fiski, ef hann á að verða veiddur, þá hef ég lagt áherzlu á það, að greiðslur til þess að reyna að halda uppi verði á karfa komi úr þeim hluta sjóðsins, sem myndazt hefur af karfaafurðunum, til þess að hér sé ekki um óeðlilegar millifærslur á milli aðila að ræða. Það er auðvitað eins og hver önnur fjarstæða að tala um, að það sé verið að kippa hér stoðum undan þessum sjóði, — sjóði, sem er upp á 1100 millj. kr., — þó að upphæð sem nemur eins árs vöxtum af þessum sjóði, sé ráðstafað núna, þegar sérstaklega stendur á, til þeirra, sem eiga sjóðinn.

Það er svo til marks um það, hvað menn meina með því, sem þeir segja, að hv. 3. þm. Sunnl. talar hér um, að núv. ríkisstj. sé að brenna upp þennan sjóð í eldi verðbólgu, og var svo óheppinn í því efni að minnast á, að á síðasta þingi hefðu verið sett lög um að tryggja þennan sjóð í erlendum gjaldeyri. En hvernig liggja þessi mál við í rauninni? Í tíð núv. ríkisstj. þótti sjálfsagt að setja svona öryggi á þennan sjóð, að tryggja hann í erlendum gjaldeyri, en í tíð fyrrv. ríkisstj. kom þessi tillaga margsinnis fram, og hún kom fram frá eigendum sjóðsins, sjómönnum, útvegsmönnum og fiskiðnaðarmönnum, og hvaða afgreiðslu fékk hún þá? Þá kom það ekki til mála að tryggja sjóðinn. Þá var þessu neitað. En svo þegar búið er að tryggja þennan sjóð í erlendum gjaldeyri, þá koma þeir, sem neituðu áður, og segja, að nú séum við að brenna hann upp, brenna upp verðgildi hans með okkar verðbólgustefnu.

Ég tók, líka eftir því, að hv. 3, þm. Sunnl. vildi sem minnst gera úr því, að fiskiðnaðurinn í landinu og útgerðin hefðu orðið fyrir einhverjum erfiðleikum vegna minnkandi fiskafla, en lagði hins vegar höfuðáherzlu á það, að mikil hækkun vinnulauna væri aðalvandinn. Það er vitanlega ekkert nýtt, að það sé ágreiningur á milli t.d. mín og þeirra sjálfstæðismanna um það, hver eigi að vera laun þess fólks, sem vinnur að fiskiðnaðinum í landinu. Þeir sjá alltaf ósköp í því, ef hækkuð eru laun þeirra manna, sem lægst eru launaðir í landinu og m.a. vinna í frystihúsum landsins. Ég tel, að sú launahækkun, sem ákveðin hefur verið þeim til handa, hafi verið alveg óhjákvæmileg og aðeins til samræmis við það, sem búið var að ákveða um launakjör þeirra, sem voru betur settir með launakjör í landinu, og fyrrv. ríkisstj, hafði samþykkt. Andstaða gegn þeirri launahækkun var vitanlega ekkert aunað en tilraun til að svelta sjávarútveginn með vinnuafl og ætla að reyna að halda vinnuaflinu þar niðri í launakjörum, þegar annað vinnuafl hafði verið verðlagt svo hátt sem gert var í tíð fyrrv. ríkisstj., og það hefði vitanlega orðið fiskiðnaðinum í landinu að mestum skaða. En þegar ég sagði, að þeir erfiðleikar, sem hér væri við að etja hjá okkar fiskiðnaði, stöfuðu fyrst og fremst, eins og rannsóknarnefndin segir, sem er að athuga þessi mál. af minnkandi fiskafla og óhagstæðara hráefni til vinnslu, þá er það vegna þess, að það var búið að taka tillit til hækkandi vinnulauna við þá útreikninga, sem lagðir höfðu verið til grundvallar áður. Auðvitað átti fiskiðnaðurinn í landinu og önnur framleiðsla ekki að fá alla þá miklu fiskverðshækkun, sem orðið hafði. Hann varð að láta eitthvað út af þessu í formi hækkaðra vinnulauna. Alveg eins og í upphafi ársins var búið að gera ráð fyrir því í tekjuáætlunum fiskiðnaðarins, að fiskiðnaðurinn ætti að fá hærra verð en árið á undan, af því að það hafði orðið verðhækkun, eins varð hann að taka á sig hækkandi útgjöld í formi hækkandi launa, og þannig hafði verið reiknað.

Þessar áætlanir hafa ekki brugðizt að neinu leyti varðandi þetta. Þar sem þessar áætlanir hafa brugðizt, þá er það í sambandi við minna fiskmagn, sem frystihúsin hafa haft til vinnslu, og óhagstæðara fiskmagn. Ég held ég hafi lesið það í Alþýðublaðinu annaðhvort í gær eða í morgun, að það skýrði m.a. frá því, að forstjóri fyrir einu stóru frystihúsi á Norðurlandi, frystihúsinu á Húsavík, hefði látið það koma fram, að á 7 fyrstu mánuðum þessa árs væri rekstrarafkoma frystihúss hans betri en á sama tíma árið á undan, hún hefði batnað. Og hann var spurður að því, hvernig stæði á þessu, hvort hann hefði einhverja sérstaka aðferð til þess að fá svona góða útkomu, á sama ríma og önnur frystihús teldu sig vera rekin með halla. Hann benti einfaldlega á það, sem er í fullu samræmi við þær athuganir, sem fram hafa farið hjá hagrannsóknastjóra, að meginskýringin á þessu lægi í því, að hann hefði nálega eingöngu þorsk til þess að vinna úr og mjög sæmilegan fisk, en þorskurinn hefur hækkað það mikið í verði og er það hagstæður í vinnslu, að samkvæmt reikningum hagrannsóknastjóra á hann að gefa betri raun á þessu ári án alls viðbótarstuðnings en hann gerði á árinu á undan. En það sama gildir ekki um t.d. vinnslu á karfa eða vinnslu á ufsa. Afurðir af þessum fisktegundum hafa ekki hækkað neitt í námunda eins mikið og afurðirnar úr þorskinum. Og því er það, að þessar ráðstafanir eru gerðar þannig, að það er sérstaklega miðað við það í framkvæmdinni hjá fiskiðnaðinum í landinu, sem hefur þetta með höndum, að beita þessum greiðslum þannig, að það verði fremur þeim til hagsbóta, sem hafa þarna versta afkomuna, heldur en hinum. Það er mesti misskilningur að halda, að það sé ríkisstj., sem hafi ákveðið, að færa hér eitthvað á milli. Það eina, sem hún gerði, var, að hún mælti með því, að tiltekin fiskverðshækkun til sjómannanna og útgerðarinnar ætti sér stað einnig í sambandi við karfa og ufsa, en ekki þær aukagreiðslur, sem ganga til þessarar vinnslu í gegnum framkvæmdakerfi frystihúsanna. Það fór nú svo, að Verðlagsráð sjávarútvegsins ákvað ekki aðeins þá fiskverðshækkun á karfa og ufsa, sem ríkisstj. mæltist til, heldur ákvað verðlagsráðið enn meiri hækkun á þessum tegundum en við höfðum lagt til. þó að rekstur þeirra væri þetta erfiður.

Það er auðvitað hægt að segja, að ef ekki hefði komið til nein vinnulaunahækkun, þá hefðu frystihúsin verið sæmílega stödd í dag, þó að aflinn hefði minnkað um 13–15% og þó að samsetning aflans væri óhagstæðari. Ef vinnulaunahækkunin hefði ekki komið til, þá hefði allt sloppið. Það er vitanlega hægt að setja dæmið þannig upp. En það er vitanlega alveg rangt. Það var grundvöllur til þess að hækka laun fólksins, sem vann að fiskvinnslunni, og það var réttmætt, að það ætti sér stað vegna hækkandi verðlags og tiltölulega góðrar afkomu í þessum rekstri, en það verður svo aftur að játa, að þegar til þess kemur, að aflinn minnkar og verður miklu óhagstæðari, þá verður auðvitað að taka tillit til þess.

Hv. 7. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason, spurði hér mjög um það og taldi í rauninni, að það væri algert tímamótamarkmið í þessu að vita um það, hvort hér væri um bráðabirgðaráðstafanir eða ekki að ræða. Í þessum efnum tel ég ekki, að neitt annað sé hægt að segja en að biðja hv. þm. að lesa frv. Það er bara um bráðabirgðaráðstöfun. Þar er skýrt tekið fram, að þetta á að gilda bara tiltekinn ríma, fram að áramótum, síðan er ákvæði frv. úr gildi numið. Þetta liggur því í rauninni alveg skýrt fyrir, og ég hef þegar sagt, að á þessu stigi er ekkert hægt að segja um það, hvaða ráðstafanir kunna að verða gerðar í þessum efnum í desembermánuði, þegar málefni sjávarútvegsins í heild verða gerð upp. Fulltrúar sjávarútvegsins nú við þessa verðákvörðun töldu sig ekki vilja standa að því að fara að semja á þessum tíma árs um rekstrarafkomuna á næsta ári. Þeir vildu bíða þangað til í desember með slíkt, eins og jafnan hefur verið.

Það er alveg rétt hjá hv. 7. þm. Reykv., að sá vandi, sem kemur fram m.a. við fiskverðsákvörðunina nú og metinn er að geti numið við sæmilega góða veiði í kringum 88 millj. á þessum 3 mánuðum, það væri alveg rangt að meta þann vanda þannig, að þetta væri fjórði parturinn af ársvandanum. Auðvitað veiðist á þessum tíma fjarri því að vera fjórði hluti af heildarársaflanum. Ef þyrfti að veita útgerðinni í landinu stuðning til jafns við það, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., í 12 mánuði eða í heilt ár, þá yrði auðvitað vandamálið miklum mun meira en þarna er um að ræða. En það er eins og ég sagði, það er í rauninni alveg ómögulegt um það að segja á þessu stigi, hversu mikill vandi þetta kann að verða, og þá verður líka að taka inn í þetta heildardæmi, eins og alltaf hefur verið gert, það sem horfir til hins betra hjá útgerðinni. Það er auðvitað ekkert smáræði, sem hefur gerzt, einnig til hins betra. Eins og ég hef sagt áður, er auðvitað alvarlegt, þegar aflinn minnkar t.d. um 10%. Þá er hætt við því, að slíkt þýði á ársgrundvelli í kringum 1200–1400 millj. kr., það er rétt. En sú hækkun, sem nú hefur orðið á fiskmjöli, mun færa okkur á ársgrundvelli varla undir 700–800 millj. kr., bara sú verðhækkun. Fleira kemur hér til, sem einnig horfir til hins betra. Þetta verður vitanlega allt að gerast upp í sambandi við hag útgerðarinnar, þegar tekin verður ákvörðun um rekstrarafkomuna síðar á árinu.

En það bætir sig enginn á því að slá hér fram órökstuddum tölum, í rauninni alveg út í bláinn, eins og því miður hefur verið gert í blöðum landsins, þegar þessi mál hafa verið rædd þar nú að undanförnu. Ég minnist þess t.d., að nokkur af blöðunum hér í Reykjavík fullyrtu það dag eftir dag, að vandamál frystihúsanna væru af þeirri stærðargráðu nú, að það mundi þurfa allan verðjöfnunarsjóðinn eða 1000 millj. kr. til þess að bjarga rekstri þeirra fram að áramótum. Og spurt var af miklum þjósti: Hvað á svo að gera eftir áramótin? Þeir nefndu sem sagt 1000 millj. En hagrannsóknastjóri, sem hefur lagt grundvöllinn að öllum útreikningum varðandi þessi mál í mörg ár, reiknar dæmið þannig út, að þetta séu ekki 1000 millj., heldur 15 millj., 15 millj. fram að áramótum. En menn geta auðvitað geisazt um þetta í marga daga og sagt stórar sögur um þetta og skrifað heilu leiðarana á eftir um vitleysuna. En það bætir sig enginn á því að vera með fleipur af þessu tagi. Hið rétta er það, eins og hér hefur komið fram, að það var þörf á því nú að hækka fiskverð til þess að bæta launakjör sjómanna, þannig að laun þeirra væru til samræmís við það, sem algengist er í landinu, og á þetta féllust útvegsmenn, og það var líka réttmætt, að fiskverð hækkaði nokkuð á þessum haustmánuðum til þess að bæta afkomu bátaflotans, vegna þess að heildarafli bátanna hafði orðið minni en reiknað var með. Það atriði síðan, að fallizt var á það að borga frystihúsunum í landinu ekki aðeins 15 millj., eins og hagrannsóknastjóri taldi, að þau þyrftu að fá til þess að jafnast á við þann grundvöll. sem miðað hafði verið við, — að fallizt var á að borga þeim á þessu tímabili 26 millj, kr., en ekki 35, eins og þau höfðu óskað eftir, það er atriði, sem hægt er auðvitað að tala um fram og til baka, hvort gengið hafi verið of langt til móts við frystihúsin eða of skammt. En hér var ekki um neitt stórmál að ræða miðað við þetta tímabil. En þetta mál verður nú tekið fyrir í þn. og skoðað, og það gefst þá eflaust tækifæri til þess að halda áfram umr. um það síðar, ef óskað verður eftir.