06.12.1972
Neðri deild: 21. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1044 í B-deild Alþingistíðinda. (750)

104. mál, fangelsi og vinnuhæli

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Umræður um fangelsismál hafa verið allmiklar að undanförnu, þ. á m. í fjölmiðlum, og hafa þau sætt allmikilli gagarýni, og slíkt hefur jafnvel komið fram hjá hv. alþm. Ég skal vissulega ekki neita því, að fangelsismál hér á landi eru ekki í því ástandi, sem æskilegast væri. En ég held þó, að það sé engan veginn hægt að segja, að þau séu í því óstandi, sem sumir hafa viljað vera láta, að mér hefur skilizt. Sannleikurinn er sá, að ýmislegt hefur verið reynt að gera til úrbóta í þeim efnum á undanförnum árum og ýmiss konar viðleitni í þá átt hefur verið á döfinni og skal ég aðeins nefna það, að Kvíabryggja var á sínum tíma tekin í notkun, að vísu upphaflega gert ráð fyrir því, að þar væru vistmenn, sem væru að vinna af sér barnsmeðlög, en hefur síðan færzt í það horf, að þar hefur verið um afplánun refsifanga að ræða að mestu leyti. Enn fremur má nefna það, að um nokkurn tíma hefur staðið yfir viðbygging við Vinnuhælið á Litla-Hrauni, og er henni nú lokið og hún tekin í notkun, og hefur mjög mikil breyting orðið á þar vegna þess. Loks er að geta þess, að unnið hefur verið að því að undanförnu að undirbúa fangelsi í Síðumúla, sem áður var geymslustöð handtekinna manna, og standa vonir til, að það geti komið í notkun nú um áramótin eða upp úr áramótum. Hitt er rétt, að það má benda á, að fangelsismálum sé að ýmsu leyti ábótavant hér á landi, t.d. ef borið er saman við ásigkomulag í öðrum löndum, þó að mér þyki sannast sagna víða pottur brotinn í þessum efnum, ef grandskoðað er. Og þá er það ekki hvað sízt, að ekki hafa komizt í framkvæmd þær fyrirætlanir sem settar voru fram í lögum um fangelsi frá 1961. Þau lög hafa til þessa að sumu leyti aðeins orðið bókstafur, og stafar það af því, að fjárveitingar hafa ekki verið fyrir hendi til að gera þau átök í fangelsismálum, sem gert var ráð fyrir í þeim lögum. Hið lögboðna fjárframlag, sem þar var gert ráð fyrir, hefur af ýmsum ástæðum reynzt allt of lítið, og fjárveitingar á fjárlögum hafa ekki verið auknar.

Áður en ég vík að því að gera grein fyrir þessu frv., sem hér liggur fyrir, þykir mér rétt að gera örstutt yfirlit yfir ásigkomulag þessara mála hér í dag, hvernig aðstæðurnar í þessum efnum eru nú.

Nú eru rekin hér á landi 3 fangelsi, þar sem afplánunarfangar eru vistaðir. Það er í fyrsta lagi vinnuhælið að Litla-Hrauni, en þar er rúm fyrir 52 fanga. Í öðru lagi er það vinnuhælið á Kvíabryggju, þar sem rúm er fyrir 15 fanga, og hegningarhúsið við Skólavörðustig, þar sem rúm er fyrir 27 fanga. Auk þess eru víða á landinu fangaklefar, sem eru ætlaðir til vistunar handtekinna manna og gæzlufanga. Stærsta fangelsi slíkrar tegundar er í nýju lögreglustöð inni í Reykjavík, þar sem rúm er fyrir 23 í einmenningsklefum, þar af 5 í kvennadeild, en auk þess eru þar 2 stórir hópklefar. Þar eru ekki vistaðir gæzluvarðhaldsfangar.

Eins og menn vita, fer afplánun refsinga nú aðallega fram á vinnuhælinu á Litla-Hrauni. Eins og ég sagði í upphafi, var það svo til skamms tíma, að á vinnuhælinu að Kvíabryggju voru aðallega vistaðir menn, sem skulduðu barnsmeðlög, en á síðustu mánuðum hafa svo til eingöngu verið vistaðir þar afplánunarfangar. Í hegningarhúsinu í Reykjavík eru afplánunarfangar yfirleitt vistaðir um skamman tíma, aðallega meðan þeir bíða eftir vist á vinnuhælunum eða meðan þeir eru til lækninga í Reykjavík, og hluti af því húsnæði, sem þar er til umráða, er fyrst og fremst ætlaður fyrir gæzluvarðhaldsfanga, þó að það verði að segja eins og er, að það húsnæði, sem þar er ætlað gæzluvarðhaldsföngum, er ekki fullkomlega við hæfi. Svo bætist við, eins og ég nefndi áðan, Síðumúli, væntanlega um áramótin eða upp úr áramótunum, og þar er rúm fyrir 12 menn.

Skv. þeim lögum sem nú gilda um ríkisfangelsi, frá 1961, skal byggja í Reykjavík eða nágrenni ríkisfangelsi, sem rúmi 100 fanga. Hafa verið gerðar frumteikningar að slíku fangelsi, en frekarí undirbúningsvinna hefur þar ekki átt sér stað. Því hefur verið ætlaður staður í Úlfarsárlandi undir Úlfarsfelli. Hins vegar hafa nú um nokkurra mánaða skeið staðið yfir athuganir á möguleikum á að reisa fangelsi, sem tæki við hlutverki hegningarhússins við Skólavörðustíg sem gæzluvarðhaldsfangelsi fyrir Reykjavík og nágrenni og þar sem einnig væri hægt að koma fyrir kvennafangelsi, og er þetta ætlað sem tveir þættir úr hlutverki ríkisfangelsishugmyndarinnar. Til greina kemur einnig að starfrækja í þessu fangelsi móttökudeild, þar sem fangar, sem eiga að fara í afplánun, kæmu inn til fyrstu athugunar og yrðu síðan sendir þaðan í vinnuhælin. Gerðar hafa verið frumteikningar af þessu fangelsi og rætt við Reykjavíkurborg um lóð fyrir það. Það er gert ráð fyrir því, að slíkt fangelsi gæti rúmað allt að 50 fanga og yrði staðsett við Tunguháls í Reykjavík. Að því er varðar aðrar áætlaðar byggingarframkvæmdir, eins og er, er þess helzt að geta, að fyrirhugað er að reisa vinnuskála við vinnuhælið á Litla-Hrauni, þar sem nú er mjög aðkallandi að koma þar upp vinnuaðstöðu vegna fjölgunar vistmanna.

Eins og ég rakti hér á hv. Alþingi fyrir nokkru vegna fyrirspurnar, sem fram kom, var talið, að um síðustu áramót ættu 237 menn óafplánaða refsidóma, og sá dagafjöldi, sem þeir ættu þannig óafplánaða, væri tæp 137 ár. En eins og ég lét getið þá, má gera ráð fyrir því, að mjög verulegur hluti þessa fólks taki ekki út refsingu sína, enda er mjög mikill hluti dómanna orðinn gamall og dómþolar komnir í sátt við þjóðfélagið, ef svo má segja, þannig að vafasamt er að láta þá nú fara að hefja afplánun, og má því vænta þess, að verulegur hluti af þessum fangelsisárum annaðhvort verði eftirgefinn eða fyrnist. Það má segja, að aðalástæðan fyrir því, hversu mikið hefur safnazt saman af óafplánuðum refsidómum, sé sú, að fangelsisrými hefur ekki verið fyrir hendi, en jafnframt er þó alltaf nokkuð af refsidómum, sem erfitt reynist að láta koma til framkvæmda vegna persónulegra aðstæðna eða þess, að dómsmeðferðin hefur tekið svo langan tíma, að framkvæmd refsingarinnar er kominn út öllu samhengt við brotið og hinn dómfelldi þá oftast horfinn frá brotaferli og orðinn nýtur þjóðfélagsþegn.

Ég hef veitt því athygli, að einmitt þetta hvað það dregst að láta menn afplána refsidóma og hvað margír dómar eru óafplánaðir, hefur sætt gagnrýni. Ég held, að það sé þörf á því að skoða það mál talsvert nánar, áður en yfir því ástandi eru kveðnir upp mjög harðir dómar. Ég held því miður, að fangelsi hér á landi hafi aldrei verið til þess fallin að hafa betrunaráhrif á menn, og ég hef ekki trú á því, að fangelsi verði yfirleitt til þess fallin. Þess vegna get ég ekki tekið þátt í neinni kröfuhörku um, að það sé undinn alltaf og hvernig sem á stendur að því bráður bugur að stinga mönnum inn. Það er þung refsing að vera settur undir lás og slá. Það er þung refsing fyrir unga menu, sem ekki hvað sízt hrasa, að vera lokaðir inni, að verða að sofa fyrir læstum dyrum með járnrimla fyrir gluggum. Ég hygg, að það væri gagnlegt, að menn hugleiddu, hversu þungbært þetta hlýtur í raun og veru að vera. Þess vegna er það, að þó að fangelsi séu auðvitað nauðsynleg og óhjákvæmilegt sé, að loka vissa menn inni, og verði alltaf, þá held ég, að það eigi í lengstu lög að reyna að komast hjá því. Og þess vegna er það, að horfið var að því ráði fyrir allmörgum árum að breyta hegningarlögunum á þá lund að veita heimild til svokallaðrar ákærufrestunar, sérstaklega þegar ungir menn eiga í hlut. Og það hafa átt sér stað mjög margar slíkar ákærufrestanir. Ég hygg, að segja megi, að þær hafi gefið góða raun. Sem betur fer, er það svo um marga þá, sem hrasa á ungum aldri, að þeir sjá að sér og geta orðið hinir nýtustu þjóðfélagsþegnar. Þegar þannig er um ákærufrestun að tefla, eru þeir, sem hana fá, undir eftirliti. Sá maður, sem alveg sérstaklega hefur annazt þetta eftirlit, er Oscar Clausen, sem um mörg ár hefur rekið Fangahjálpina. Hann hefur skýrt frá því, að hann hafi haft afskipti eða undir hans eftirliti hafi verið eitthvað um það bil 1350 unglingar, og hann telur, að í um 90 af hverjum 100 tilfellum hafi þessi ákærufrestur gefið góða raun. Þetta eru orð hans um það. Ég hef ekki aðrar skýrslur tiltækar um það efni. En jafnframt því, sem horfið hefur verið að ákærufrestun í æ ríkara mæli, hefur það verið aukið að náða menn, og má kannske segja, að hafi verið farið fulldjarflega í því efni. Ég hef heyrt það líka stundum, að náðanir hafa sætt gagnrýni. En náðunin er í því fólgin, að þegar maður hefur setið og afplánað nokkurn hluta af refsingunni, þá er gefinn eftir sá tími, sem eftir er, og maðurinn þá settur undir eftirlit. Það má segja, að um þessar náðanir hafi myndazt nokkrar reglur, og aðalreglan er sú, að náðun hefur verið veítt, þegar fangi hefur afplánað helming af refsingu sinni, ef um fyrstu afplánun er að ræða. Síðan hefur náðun verið veitt, þegar afplánaðir hafa verið 2/3 hlutar, þegar um aðra afplánun er að tefla, síðan eftir afplánun 3/4 hluta, þegar um þriðju afplánun er að ræða o.s.frv. En þeir, sem oftar hafa afplánað, hafa yfirleitt ekki átt kost á styttinga refsivistarinnar með þessum hætti. En það, hve mjög hefur verið gripið til náðunarinnar, byggist kannske að nokkru leyti á því, að skv. ákvæðum í hegningarlögum er það svo, að það er aðeins hægt að beita reynslulausn skv. þeim lögum, þegar refsing er 1 árs fangelsi eða meira og afplánaðir hafa verið 2/3 hlutar refsingarinnar. En það má segja, að í framkvæmdinni hafi verið talsvert farið vægar í þetta með því að beita náðun í ríkara mæli.

Það má sjálfsagt sitt hvað segja um náðunina, og segja sumir, að hún hafi almennt veikjandi áhrif á gildi refsingarinnar. Ég vil segja það, að hvað sem öllum almennum áhrifum líður, þá verður alltaf fyrst og fremst að hafa í huga og taka tillit til og miða við þann einstakling, sem í hlut á. Og ég verð að segja það, að hvað sem öllum reglum líður, þá er ég t.d. veikur fyrir því að náða ungan mann, sem hefur verið dæmdur í fangelsi, þegar mér eru færðar fullar sannanir fyrir því, að þessi ungi maður eigi kost á skiprúmi, geti komizt á togara eða því um líkt. Þá er það mín persónulega skoðun, að hann sé þar betur kominn og það borgi sig að taka nokkra áhættu í því efni, þó að sjálfsagt sé um allmörg tilvik að ræða, þar sem menn hrasa á nýjan leik.

Ég hef hér aðeins minnzt á þessi atriði, sem mér hefur stundum virzt, að sættu nokkurri gagnrýni manna á milli, sem ég held, að sé sprottin af nokkrum misskilningi og sé að nokkru leyti sprottin af röngu viðhorfi til þeirra manna, sem hafa lent á þessari braut. Ég lít á þá, sem lenda í þessu, sem ógæfumenn, sem menn ættu að fara varlega í að kasta steini að. Það er að vísu svo, að í ýmsum tilfellum og því miður of mörgum tilfellum reynist þarna vera um að ræða síbrotamenn, sem virðist ekki verða bjargað. Og þá er auðvitað ekki um annað að ræða en að vista slíka menn á hæli. En sumt í þeirri gagnrýni, sem fram hefur komið á fangelsismálin tel ég á rökum reist.

Með þessu frv., ef að lögum verður, er ætlunin að reyna að bæta úr þeim ágöllum ýmsum, sem með réttu má segja, að séu á framkvæmd fangelsisrefsingar hér á landi nú, m.a. þeim ágalla, að það hefur ekki verið hægt og er ekki hægt að koma við þeirri deildaskiptingu, sem að sjálfsögðu ætti að vera í sambandi við þessi mál, og enn fremur að tryggja, að það sé fyrir hendi nægilegt húsnæði til að vista þá, sem nauðsynlegt er að vista með þessum hætti, og að það sé fyrir hendi aðstaða, sem hæfir þeim persónulegu högum, sem geta verið fyrir hendi hjá sumum þeirra, sérstaklega þegar um geðveila afbrotamenn er að tefla. En í því efni er nú mjög mikill brestur í kerfinu. Enn fremur þarf að vera hægt að láta gæzluvarðhaldsfanga hafa þá vist, sem eðlilegt er og þeir eiga í raun og veru siðferðilega kröfu á, vegna þess að þar er ekki um fanga í venjulegri merkingu að tefla, heldur eru það menn, sem eru til rannsóknar, og sekt þeirra er ekki sönnuð, en hins vegar nauðsynlegt að einangra þá. Þá er stefnt að því líka að hafa aðstöðu til að taka til sérstakrar meðferðar þá unglinga, sem hafa lent á afbrotabraut.

Í 1. gr. þessa frv. segir, að ríkið skuli eiga og reka öll fangelsi hér á landi. Það er sem sé með þessu frv. ákveðið sem eins konar framhald af því, sem gert var í fyrra, þegar ríkið tók að sér löggæzluna, að ríkið taki að sér einnig að öllu leyti rekstur héraðsfangelsanna og að rekstur þeirra teljist með almennum löggæzlukostnaði. En þessu ákvæði var ekki breytt í fyrra. Eins og er núna, greiða sveitarfélögin helming kostnaðar við héraðsfangelsi. Það er ástæðulaust að draga fjöður yfir, að þarna er nm allmikinn kostnaðarauka að tefla fyrir ríkið, mun vera um að ræða 10 millj. kr. á ári.

Það má annars segja almennt um þetta frv., sem hér liggur fyrir, að það er að höfuðstofni til byggt á fangelsislögunum frá 1961, en þó eru tekin upp í ýmis nýmæli, sem ég skal víkja að og eiga að miða að því að ná þeim markmiðum, sem ég minntist áðan á.

Í sjálfu sér er ekki breyting að því er varðar 2. gr. Þar er eins og í núgildandi lögum gert ráð fyrir ríkisfangelsi og vinnuhæli og svo unglingavinnuhæli og fangageymslu handtekinna manna og gæzluvarðhaldsfanga. Það er sem sagt gert ráð fyrir skiptingu í fangelsi og vinnuhæli. En því miður er það svo, að sú skipting hefur verið meir á blaði heldur en í reyndinni, vegna þess að vinnuhælin hafa hér í raun og veru verið notuð sem fangelsi. Það er gert ráð fyrir því, að ríkisfangelsið skuli eftir sem áður vera í Reykjavík eða nágrenni, en hins vegar er gert ráð fyrir þeim möguleika, að þetta ríkisfangelsi, þótt haft sé eitt samheiti yfir það, geti verið í tveimur eða fleiri byggingum, sem ekki þurfi að vera á sama stað. Það getur verið umdeilanlegt, hversu heppilegt það er að hafa mjög stórar stofnanir af þessu tagi, en sjálfsagt hlýtur þar líka að koma til hagkvæmnissjónarmið og kostnaðarsjónarmið, og verður að taka tillit til þess, en yfirleitt getur verið varasamt að hafa slíkar stofnanir sem þessar allt of fjölmennar.

Það er gert ráð fyrir því, að í ríkisfangelsi geti verið rúm handa allt að 100 föngum, og er kveðið á um deildaskiptingu. Það er einangrunarfangelsi, öryggisgæzludeild, geðveilladeild, kvennafangelsi, varðhald, gæzluvarðhald og móttökudeild. Ég vil sérstaklega benda í þessu sambandi á þrjú atriði þarna, sem ég tel mjög mikilvæg: Það er í fyrsta lagi móttökudeildin. Ég álít, að það sé mjög þýðingarmikið atriði í sambandi við fangelsismálin, að fangarnir séu teknir fyrst inn þannig á einn stað og skoðaðir og athugaðir og eftir þeirri athugun eða skoðun fari það, í hvaða deild eða á hvern stað þeim verður vísað. Ég vil enn fremur nefna kvennafangelsið. Því miður er það svo, að afbrot kvenna eru orðin alltíð, og það er ekki viðunandi annað en hafa fengelsi eða sérstaka deild fyrir þær. Og í þriðja lagi vil ég alveg sérstaklega nefna fangelsi fyrir hina geðveilu menn. En það, hvernig hefur verið ástatt um þá, er mikil saga, og sorgarsaga, því að það hafa verið mikil vandræði með þá menn, sem hafa framið voðaverk í brjálæði. Reglur ríkisspítalans, geðveikraspítalans á Kleppi, eru þannig, að þessir menn hafa ekki fengið þar rúm, og þess vegna hefur orðið að beita því neyðarúrræði að hafa þá í geymslu, e.t.v. langan tíma, í hegningarhúsinu hér í Reykjavík. Stundum hefur orðið að grípa til þess ráðs að vista þá erlendis. Það hefur verið gert og er verið að gera átak í því að reyna að bæta ástand í málum geðveikraspítalanna, og er það vel, — eða getur kannske einhverjum dottið í hug að segja, að það sé ofrausn að vera að gera ráð fyrir eins konar geðveikraspítala í fangelsi við hliðina á þeim geðveikraspítölum eða geðveikradeildum, eða hvað sem menn vilja kalla það, sem ríkið rekur? Það er að vísu alls ekki hægt að tala um neinn geðveikraspítala í sambandi við þetta mál, því að það er ekki gert ráð fyrir því, að deildin sé þannig. En þó verður hún að vera þannig úr garði gerð, að þar sé aðstaða til þess að taka við þessum mönnum og veita þeim þá hjúkrun og aðhlynningu, sem þarf. Á meðan ekki er talið samrýmast reglunum um geðveikradeildir ríkisspítalanna að taka við þeim þar, sé ég ekki annan kost en gera ráð fyrir sérstakri geðveikradeild við fangelsi, vegna þess að það er á engan hátt sæmandi fyrir íslenzka þjóðfélagið að láta þessa menn sæta þeirri meðferð, sem því miður hefur orðið að gera.

Það er gert ráð fyrir því, eins og nú er, að vinnuhælin séu tvö, þau sem nú eru á Litla-Hrauni og Kvíabryggju. En þá er jafnframt gert ráð fyrir því, að þegar það kemst í framkvæmd að byggja þetta ríkisfangelsi, þá sé um raunveruleg vinnuhæli að ræða á þessum stöðum, þar sem hægt sé að láta ríkja allt annað frjálsræði og umgengnishætti heldur en í fangelsi.

Það er gert ráð fyrir unglingafangelsi, sem taki allt að 25 fanga, en staðsetning þess er ekki bundin.

Fangelsi til geymslu handtekinna manna og gæzluvarðhaldsfanga skulu að jafnaði vera í tengslum við lögreglustöðvar á hinum einstöku stöðum.

Þá er það nýtt í þessu frv., að það er kveðið á um vinnuskyldu fanga nánar en nú er gert og um greiðslu fyrir vinnuna og sömuleiðis –og það vil ég sérstaklega undirstrika — um skyldu ríkisins til að sjá fyrir vinnuaðstöðu á þessum stöðum, og þá skal einnig sjá fyrir aðstöðu til tómstundaiðkana, eftir því sem við verður komið. Á þetta er ástæða til að leggja sérstaka áherzlu. Einnig er þar alveg sérstaklega kveðið á um það, að í unglingavinnuhæli skuli leggja alveg sérstaka áherzlu á kennslu. Verði hægt að koma þessu í framkvæmd, eins og gert er ráð fyrir í frv., álít ég, að í því felist mjög miklar umbætur frá því, sem nú er.

Eins og ég drap á áðan, er ákveðið, að afplánun skuli hefjast í ríkisfangelsinu, en aðstæður fangans allar metnar þar og ráðh. úrskurði síðan hvar hann skuli vistaður. Slík ákvæði eru nú ekki fyrir hendi í lögum, þó að það sé venjan, eins og ég minntist á áðan, að menn byrji að jafnaði á því að afplána refsinguna í hegningarhúsinu hér í Reykjavík.

Í núgildandi lögum eru ekki gerðar neinar sérstakar kröfur til þeirra manna, sem veita forstöðu fangelsum og vinnuhælum. Það er nýtt í þessu frv., að mælt er svo fyrir, að slíkir forstöðumenn fangelsa og vinnuhæla skuli sérstaklega hafa kynnt sér fangelsismál. Þetta atriði tel ég mjög mikilvægt. En það verður að segja eins og er, að hingað til hefur verið skortur slíkra manna hér á landi. En ég hygg, að það sé svo nú, að það megi gera ráð fyrir því, að það væru fáanlegir menn, sem hafa nokkra menntun á þessu sviði, og a.m.k. líklegt, að þegar svona ákvæði er komið inn og farið er að breyta eftir því, þá mundu einhverjir leggja þessi mál sérstaklega fyrir sig með það fyrir augum að taka að sér forstöðu þessara stofnana.

Þá er það nýmæli í þessu frv. að vissu leyti, að ráðh. er heimilað að skipa stjórnarnefndir yfirleitt við þessar stofnanir, vinnuhæli eða fangelsi, en eins og er, þá er sérstök stjórnarnefnd fyrir vinnuhælinu á Litla-Hrauni lögum samkv., en ekki við önnur af þessum fangelsum eða vinnuhælum.

Þá vil ég benda á það nýmæli, sem kemur fram í 12. gr., að við hverja stofnun, þar sem afplánun fangelsisrefsinga fer fram, skuli veitt almenn læknisþjónusta, og þar skal starfa, eftir því sem tök eru á hverju sinni, sérlært starfslið, svo sem geðlæknir, sálfræðingur, félagsráðgjafi og prestur. Auðvitað er það ekki nýmæli, að um almenna læknisþjónustu sé að tefla, en hitt er nýmæli, að það sé beinlínis lögboðið, að það skuli gert ráð fyrir því, að það starfi þannig sérlært starfslið við þessar stofnanir. Ég hygg, að í þeim efnum séum við talsvert á eftir öðrum þjóðum, t.d. nágrannaþjóðum okkar. Ég hygg, að þar sé gert meira að því, að sérlært starfslið, t.d. með þá kunnáttu, sem vikið er að í þessari gr., starfi við þessar stofnanir. Og það er ekki nokkur vafi á því, að sú handleiðsla, sem slíkir menn geta veitt, getur í ýmsum tilfellum komið að góðu gagni. En eins og er, þá er nú ekki fastráðinn í þessu efni nema presturinn, sem starfar við fangelsin, en að öðru leyti er þar meira um lausa þjónustu að tefla, þegar leitað er aðstoðar sérfræðinga í þessu efni.

Ég gat þess áðan, að ég hefði yfirleitt ekki trú á því, að fangelsi hefðu nokkurn tíma borið heitið betrunarhús með réttu, og ég drægi mjög í efa, að menn kæmu að öllum jafnaði betri menn út úr þessum stofnunum. Þetta er kannske fullmikið sagt. En hvað sem um það má segja, þá koma þeir þó a.m.k. út úr þessum stofnunum reynslunni ríkari. Þeir hafa fengið að þreifa á því, hvað það kostar að brjóta þannig af sér, og það ætti að vera þeim hvöt til þess að varast slíkt í framtíðinni. En þá er spurningin: Hvernig er tekið á móti þeim, þegar þeir koma úr vistinni? Því miður er það stundum svo, að þeir hafa dálítinn stimpil á sér, — stimpil, sem tekur dálítinn tíma að afmá, og þeir eiga sér líka margir hverjir frá fyrri tíð félaga, og þeim hættir stundum við að lenda í þeim félagsskap aftur og verða þá stundum freistingunum að bráð á ný og fara út á glapstigu aftur. Þess vegna er það auðvitað mjög mikið atriði og miklir þjóðfélagslegir hagsmunir við það bundnir, vil ég segja, að þessum mönnum sé leiðbeint og þeim sé veitt aðstoð, þegar þeir koma út af þessum stofnunum, þegar þeir hafa þannig unnið sig á vissan hátt, má segja, í sátt við þjóðfélagið. Það hefur hér farið fram að mínu áliti athyglisverð samkeppni á þessu sviði, en það hefur verið sjálfboðavinna að langmestu leyti. Þar vil ég fyrst nefna samtökin Vernd, sem ég hygg, að hafi starfað hér á landi allt frá árinu 1949, og hafa unnið mikið starf í þessu efni og áreiðanlega hjálpað mörgum manni. En þar hefur fyrst og fremst verið um fórnfúst sjálfboðastarf að ræða, þó að sú starfsemi hafi notið nokkurs styrks af opinberu fé. En þar er ekki um stórar upphæðir að ræða, og því eru takmörk sett, hvað hægt er að gera ráð fyrir, að einstaklingar leggi af mörkum sem sjálfboðastarf með þessum hætti. Í annan stað vil ég nefna þá starfsemi, sem margir þekkja einnig og margir fyrrv. fangar hafa haft kynni af, og það er sú starfsemi, sem kölluð hefur verið Fangahjálpin og Oscar Clausen rithöfundur hefur veitt forstöðu — eða réttara væri að segja rekið um mörg ár, því að um hann er sama að segja og Vernd að þessu leyti, að þó að hann hafi notíð nokkurs fjárstuðnings af opinberu fé, hafa það ekki verið nema smámunir samanborið við þá vinnu, sem hann hefur lagt fram í þessu sambandi. Hann gerir rn. formlega grein fyrir starfi sínu að þessum málum, og hann telur t.d. núna. nýlega, að það séu um 300 unglingar, sem séu undir hans eftirliti og njóti ákærufrestunar, en auk þess hefur hann afskipti af mjög mörgum mönnum, sem hafa komið út eftir að hafa afplánað eða eftir að þeir hafa verið náðaðir. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að starfsemi þessara aðila, sem ég hef hér nefnt, Verndar og Oscars Clausens, hefur borið mikinn árangur, og þessir aðilar eiga margfaldar þakkir skilið fyrir sitt starf. Ég man nú ekki, hvað háar fjárveitingar þessum aðilum eru ætlaðar í núverandi fjárlagrfrv., en framlag til þeirra beggja, held ég, að mér sé óhætt að fullyrða, að nái ekki milljón. Menn geta séð, að þarna er ekki um stórar fjárhæðir að tefla.

Það er svo með þetta eins og annað, að það má vel vera, að það gefist bezt og dugi bezt, meðan til eru og ef til eru einstaklingar, sem finna hjá sér hvöt til að vinna þetta fórnfúsa starf sem eins konar sjálfboðastarf. En ég held, að það sé ekki hægt að gera ráð fyrir því til frambúðar, að það sé unnt að byggja á slíku eingöngu. Það er líka reynsla nágrannalandanna, sem hafa gengið á svipaðri braut og við í þessum efnum. Þannig er það t.d. í Danmörku núna. Þar er verið að setja upp fasta opinbera stofnun, sem á að hafa þessa starfsemi með höndum. Þess vegna er einmitt tekið upp þetta nýmæli í 14. gr., þar sem kveðið er svo á: „Heimilt er að reka sérstaka stofnun til þess að annast umsjón og eftirlit með þeim, sem frestað er ákæru gegn, dæmdir eru skilorðsbundið eða leystir úr fangelsi með skilyrðum.“ Þarna er um algera nýjung að ræða að því leyti til. að það er gert ráð fyrir, að það megi setja á fót opinbera stofnun í þessu efni, og það er talsverð breyting frá því, sem verið hefur og nú er. Nú vita menn, að Oscar Clausen t.d., sem hefur innt mikið starf af hendi í þessu sambandi, er orðinn háaldraður maður, og þá er ekki tryggt, hver verður til að taka við merki hans. Þess vegna held ég, að það sé æskilegt að gera ráð fyrir þessu. Og ég vil segja meira, ég held, að hið opinbera eigi ekki að skjóta sér undan því að taka þetta verkefni að sér og koma því í fastari skorður en verið hefur, hafa eftirlit með þessum mönnum og hafa umsjón með þeim. Auðvitað er það svo eins og er, að fangelsispresturinn vinnur einnig mikið starf í þessu efni.

Þá er ég kominn að því ákvæðinu í þessu frv., sem er aðalnýmælið og e.t.v. mergurinn málsins. Það er sem sé það ákvæði, að það er gert ráð fyrir því, að árlegt framlag til bygginga, sem ráðgerðar eru í þessum lögum, skuli vera 15 millj. kr. á ári. Það er vissulega hægt að hreyfa mörgum mótmælum gegn því að lögbinda tillagið. Það má segja, að með því sé frjálsræði fjárveitingalöggjafans heft. En þannig getur staðið á, að sum verkefni eigi svo erfitt uppdráttar frá sjónarhóli fjárveitingalöggjafans, að það sé nauðsynlegt að setja fastar skorður. Og ég er ekki frá því, að reynslan sýni nokkuð ótvírætt, að hv. alþm. hefur verið gjarnara — og það þarf út af fyrir sig ekki að lá þeim það að líta á önnur verkefni, sem þeir hafa talið nauðsynlegri við afgreiðslu fjárl. heldur en byggingu fangelsa eða rekstur fangelsa. Ég held þess vegna, að ef þetta frv., ef að lögum verður, eigi ekki að talsverðu leyti að verða dauður bókstafur, eins og því miður hefur átt sér stað um fangelsislögin, sem hafa verið í gildi, þá verði að tryggja fastan og ákveðinn tekjustofn í þessu efni, þannig að það þurfi ekki að verða neitt úrlausnarefni á síðustu afgreiðsludögum fjárl., þegar margar þarfir kalla að, hvort eigi að veita þessa eða hina upphæðina í þessa framkvæmd. Þetta er í raun og veru aðalatriðið í sambandi við þetta mál, af því að tryggur fjárhagslegur grundvöllur er forsenda fyrir því, að hægt sé að koma við þeim umbótum í þessum málum, sem þetta frv. gerir ráð fyrir.

Ég vona og hef ástæðu til að ætla einmitt vegna orða, sem stundum hafa fallið frá sumum hv. alþm., að þetta frv. eigi greiðan gang í gegnum hv. Alþ. og að áhugi manna sé vakandi í raun og sannleika á því að bæta ástandið í þessum efnum, ekki aðeins í orði, heldur einnig á borði. Ég leyfi mér svo, herra forseti, að ljúka máli mínu. Ég held, að ég þurfi ekki að fara út í að skýra frv. frekar, vegna þess að aths., sem með því fylgja, segja nokkuð þar til um, og ég leyfi mér að óska þess, að því verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.