06.12.1972
Neðri deild: 21. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1052 í B-deild Alþingistíðinda. (751)

104. mál, fangelsi og vinnuhæli

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Fyrir nokkrum vikum flutti formaður Alþfl. allmargar fsp. til hæstv. dómsmrh. um fangelsismál og ýmis skyld atriði. Í snörpum umr., sem urðu um þær fsp., skoraði hæstv. ráðh. á þingheim allan og alveg sérstaklega á stjórnarandstöðuflokkana að sýna í verki stuðning sinn við umbætur á þessu sviði, þegar tækifæri gæfist til, sem verða mundi innan skamms. Hæstv. ráðh. hefur endurtekið þessa áskorun, og ég vil því lýsa yfir, að ég og flokkur minn fagna því, sem til umbóta er í þessu frv., og við munum ekki láta standa á okkur um stuðning við, að það fái greiðan gang í gegnum þingið og þingið standi síðan við þau fyrirheit, sem frv. gefur, ef að lögum verður.

Í þeim fsp., sem formaður Alþfl. lagði fram, var spurt um Ýmis atriði varðandi fangelsismál. Svörin, sem voru skýr og glögg, sönnuðu þann almannaróm, að fangelsismál hafi verið og séu í hinum mesta ólestri hér á landi. Það kom í ljós, að fangelsisaðbúnaður er hér slæmur, að ungum og óhörðnuðum mönnum, sem fremja fyrsta afbrot, er blandað saman við síbrotamenn í þessum stofnunum, að aðstaða til að veita föngum tækifæri til vinnu er slæm, og mætti svo lengi telja. En síðast, en ekki sízt, vil ég nefna, að ótrúlegur fjöldi manna hér á landi, sem hefur verið dæmdur til fangelsisvistar, bíður eftir að fara í fangelsi og taka út dóm. Ég hygg tvímælalaust, að þetta ástand sé mjög slæmt, bæði fyrir löggæzlumenn og fyrir þjóðina sem heild. Það er ekki hægt að vefengja fullyrðingar þeirra löggæzlumanna, sem mesta hafa reynsluna af því, að ýmsir afbrotamenn beinlínis skáka í því skjóli, að þeir muni ekki, a.m.k. ekki um langa framtíð, þurfa að afplána dóma, sem þeir verði fyrir. Þess eru og mörg dæmi, þó að um það hafi ekki fengizt tölulegar upplýsingar, að menn hafi brotið af sér aftur, á meðan þeir biðu eftir fangelsisrými. Þetta ástand verður til þess að torvelda mjög löggæzlustörf. Að lokum munu þess vera allmörg dæmi, að menn, sem hafa fengið fangelsisdóm, en ekki komizt að í fangelsum um nokkurt skeið, hafa síðan komizt á betrunarveg, fengið atvinnu og rétt við heimili sín, en síðan skyndilega fengið kall um það, að nú sé laust rúm, og orðið að fara til að sitja fangelsisdóm af sér. Allt er þetta til þess að draga úr virðingu fyrir lögum og rétti í landinu, og ástand sem þetta hlýtur að valda því, að fangelsisdómar missa þan almennu áhrif til að fyrirhyggja afbrot, sem þeir eiga að hafa. Ég hef ávallt skilið það svo, að fangelsisdómur væri að þessu leyti til tvíþættur. Hann er refsing eða betrun, ef það tekst, varðandi þann mann, sem hefur brotið af sér, en tilvist dómgæzlunnar, löggæzlunnar og fangelsanna á einnig að verða til að fyrirbyggja, að menn verði fyrir því að brjóta af sér. Þetta ástand tel ég því tvímælalaust vera svo slæmt, að það er aðkallandi að gera á því úrbætur.

Hæstv. dómsmrh. ræddi nokkuð um þetta mál og leitaðist við að draga úr áhyggjum, sem ýmsir hafa látið í ljós um það. Í því sambandi velli hann vöngum yfir því, að fangelsi hér á landi hafi hingað til ekki verið til betrunar, og það er vafalaust rétt, en einnig, hvort fangelsi yfirleitt væru til betrunar, og get ég líka verið sammála hæstv. ráðh. um það. Hann ræddi um ákærufrestun og náðun, og ég er honum fullkomlega sammála um að heita þeim leiðum eins og hægt er. Í sambandi við náðun, sem ráðh. ræddi allítarlega, finnst mér, að við ættum fyrst og fremst að íhuga, hvort allir landsmenn hafi nokkurn veginn jafnt tækifæri til þess, að mál þeirra séu skoðuð og náðun íhuguð, því að mig grunar, að þeir, sem hafa möguleika til að afla sér áhrifamanna til að tala máli sínu, muni í raun og veru hafa meiri möguleika á að verða náðaðir heldur en litla fólkið, sem þekkir ekki neina fína menn.

Í sambandi við þessar vangaveltur ráðh. fannst mér, að sú grundvallarhugsun, sem hann lét í ljós og ég er í meginatriðum sammála, eigi að koma til við löggjafarsetningu Alþingis, þegar refsingar eru ákveðnar, og í þeim efnum hefur vissulega verið um nokkra þróun í rétta átt að ræða, og í starfi dómstólanna, m.ö.o., það eigi að íhuga, áður en fangelsisdómur er kveðinn upp, hvort slíkur dómur sé hin réttu viðbrögð þjóðfélagsins við afbroti, sem hefur verið framið. Eftir að fangelsisdómur hefur verið kveðinn upp, er nauðsynlegt, að sú aðgerð þjóðfélagsins standi og menn verði, hverjir sem þeir eru, hvort sem þeir eru fátækir, umkomulausir og allslausir eða fínir menn, sem geta keypt sér sterkan málsvara, að afplána slíkan dóm.

Hitt skal ég að lokum segja, að í sambandi við fangelsisvist finnst mér sjálfsagt að hafa einnig reglur um, að möguleikar séu á að stytta fangelsisvist og jafnvel náða á því stigi, ef það starfsfólk, sem hæstv. ráðh. benti á, að gert er ráð fyrir í fangelsum framtíðarinnar hér á landi, telur, að aðstæður viðkomandi manna séu þannig, að náðun væri rétt.

Ég vil að lokum beina þeirri fsp. til hæstv. ráðh., hvort nokkur beinn undirbúningur undir byggingu ríkisfangelsis, sem er meginstofnunin, sem frv. gerir ráð fyrir, hafi átt sér stað. Hafa verið gerðar teikningar af slíkri stofnun? Hafa menn nokkra hugmynd um, hvað hún mundi kosta? Rétt er hjá ráðh., að það er öryggi í að hafa í lögum ákvæði um vissar fjárupphæðir á hverju ári. í þessu tilfelli er lagt til, að það verði 15 millj. kr. En mér kæmi ekki á óvart, þótt þessi eina stofnun, ríkisfangelsið, mundi kosta 10–20 ára framlög, og er því hætt við, að a.m.k. á vissu árabili. muni þetta reynast allt of litil upphæð. En svo kynni að vera, ef komizt yrði yfir þann hjalla að reisa þessa meginstofnun fangelsiskerfisins á Íslandi að fjárþörfin yrði eitthvað minni þar á eftir. Ég er þeirrar skoðunar, að Alþ. hafi ekki verið tregt til að veita fé til þessara mála. Hins vegar hafi staðið á því, að það væru undirbúnar ákveðnar framkvæmdir og komið til Alþ. með þær og sagt: Þessa stofnun verðum við að hyggja. Komið þið með fé. Ef þannig stæði á, trúi ég ekki, að það hefði staðið á Alþ. eða muni standa á Alþ. að leggja fram það fé, sem óhjákvæmilegt er.