06.12.1972
Neðri deild: 21. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1056 í B-deild Alþingistíðinda. (753)

104. mál, fangelsi og vinnuhæli

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég vil aðeins láta í ljós ánægju mína yfir því, að þetta frv. er fram komið. Ég tel, að það verðskuldi í alla staði fyllstu athygli í þinginu og skjóta og góðra meðferð, bæði varðandi efnishlið málsins og einnig í sambandi við fjárhagshlið þess, sem nú síðast hefur verið nokkuð til umr.

Ég held, að það hafi verið fyrir 4–5 árum, ég hygg 5 árum, að gerð var áætlun um fangelsismál af hálfu dómsmrn., þar sem dregnir voru fram vissir áfangar, sem unnið skyldu að til endurbóta á málunum, eins og þau þá stóðu. Þar í voru endurbætur á þeim fangelsum, sem fyrir voru, og einnig breytingar á fyrirkomulagi. Sérstaklega á ég þar við endurbætur á Litla-Hrauni, sem hafa verið framkvæmdar. Einnig voru ráðagerðir um breytingar á Síðumúla. Síðan þetta var, hefur einnig, eins og vikið var að áðan, verið komið upp fangageymslu í lögreglustöðinni, sem er mjög fullkomin til þeirra þarfa, sem hún er ætluð. Þá hafði einnig verið gerð á því tímabili áætlun um ríkisfangelsi eins og hæstv. forsrh. gerði grein fyrir, sem byggt yrði í einu lagi, og það voru uppi ákveðnar skoðanir um staðsetningu þessa ríkisfangelsis. Sakadómari hafði sérstaklega ásamt með öðrum sérfræðingum unníð að þessari áætlun um ríkisfangelsi af hálfu rn. og með húsameistaranum í sambandi við teikningar að því og í samráði við norska sérfræðinga á þessu sviði. Síðan hafa sumar þessar athuganir verið framkvæmdar eins og þá var áætlað, aðrar verið í endurskoðun. Varðandi ríkisfangelsið, eins og hæstv. ráðh. upplýsir, eru nú ráðagerðir um að byggja það ekki í einu lagi, heldur í áföngum, eftir því sem mér skilst, og er ekki nema gott eitt um það að segja.

Það er sjálfsagt rétt hjá hæstv. forsrh. og dómsmrh., að þessi mál séu ekki í því lagi, sem þau ættu að vera hjá okkur, og þess vegna er mjög góðra gjalda vert, að fram er komið þetta frv. til endurbóta á eldri löggjöf, sem vissulega hefur ekki komið til framkvæmda að öllu leyti, eins og henni var ætlað á sínum tíma. Auk þess er sá áratugur, sem liðinn er, frá því að hún var sett, þess eðlis, að ýmsar nýjar hugmyndir hafa komið fram á sviði fangelsismála hjá nágrannaþjóðunum, sem sjálfsagt verðskulda athygli og leiða til þess, að rétt sé að endurskoða fyrri áætlanir í þessum málum og taka mið af þeim, þegar nýjar áætlanir og ákvarðanir eru gerðar.

Ég vildi aðeins láta í ljós ánægju mína yfir því, að frv. er fram komið, og tel rétt, að þingið veiti því fyllsta stuðning, bæði að efni til og einnig varðandi þær fjárskuldbindingar, sem eðlilega hljóta að felast í ákvörðun um löggjöf eins og þessa.