19.10.1972
Neðri deild: 5. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í B-deild Alþingistíðinda. (76)

16. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. lauk máli sínu með þeim orðum m.a., að hér væri ekki um neitt stórmál að ræða. Hér er vissulega um mjög mikið stórmál að ræða og mikið vandamál og sannkallað alvörumál. Og það er mjög miður, ef á að reyna að hylja kjarna þessa máls í reyk með málalengingum og mjög tvíræðum og vafasömum fullyrðingum, eins og hæstv. sjútvrh. hefur gert tilraun til. Þetta er að vísu ekkert nýtt af nálinni hjá þessum hæstv. ráðh. Hann hefur löngum skipað sér í fyrsta sess meðal þm, í tviræðum málflutningi, og svo að maður hafi nú kurteíslegt orðbragð um það, í því að vera mjög leikinn í því að hagræða sannleikanum.

Þegar sett voru brbl. að tilstuðlan þessa ráðh. á árinu 1971 um hækkun fiskverðs, þá befur ráðh. sagt og sagði það með miklum þunga í útvarpsumr. hér nýlega, að það væri ekki einn eyrir tekinn úr verðjöfnunarsjóðnum. Þetta má kannske bókstaflega til sanns vegar færa. En hæstv. ráðh. rýrði tekjurnar, sem sjóðurinn átti að fá, þannig að það kom 65–70 millj. kr. minna inn í sjóðinn til áramóta. Það er kannske hægt að segja við almenning: Það var ekkert tekið úr sjóðnum. En auðvitað var staða sjóðsins rýrð, og efnislega er þetta sama, hvort maður rýrir tekjur sjóðsins, þannig að hann fær minna, eða hann færir inn í sjóðinn þessa óbreyttu upphæð og hún er svo tekin út. En þetta er leikni hjá hæstv. sjútvrh.

Hæstv. sjútvrh. lagði á það mikla áherzlu í sinni síðari ræðu, þegar hann var að svara hinni ágætu ræðu hv. þm. Guðlaugs Gíslasonar, að fulltrúar sjómanna og útgerðarmanna og fiskvinnslunnar hefðu beðið um þessa lausn og þeir ættu þennan sjóð og hann hefði náðarsamlegast orðið við beiðni þeirra um, að sjóðnum yrði ráðstafað svona. Er það þá ekki rétt, sem mér hefur verið sagt, að fulltrúar þessara atvinnuvega hafi komið á fund hæstv. sjútvrh., áður en hann fór til Bandaríkjanna, til þess að ræða við hann um úrlausn þess mikla vanda, sem sjávarútvegurinn var í, og hæstv. ráðh. hafi þá í skyndingu sagt við þessa fulltrúa sjávarútvegsins: Það er engin lausn, sem um er að ræða hér, annað en til bráðabirgða, að þið takið eitthvað úr verðjöfnunarsjóðnum, við tölum ekkert um efnahagsmálin fyrr en kemur fram að áramótum? — Var það hæstv. sjútvrh., sem gaf ávísunina á sjóðinn fyrstur manna, en ekki beiðnin frá þessum mönnum, og dæmið liggi þá, þegar umbúðirnar eru teknar utan af, þannig fyrir, að þeir hafi eftir þessa kveðju og meðan ráðh. var í Bandaríkjunum reynt að stilla upp till., sem miðaðar eru við þann eina grundvöll, sem sjútvrh. hafði sagt, að þeir gætu fengið úrlausn á? Það má svo segja eftir á: Þeir báðu um og lögðu fram till. um, að svona yrði farið að. Þetta sýnir líka leikni þessa hæstv. ráðh.

Það er alveg laukrétt, sem fram kom hjá hv. þm. Guðlaugi Gíslasyni, að það var tilgangur og er andi þessarar löggjafar og um það á ekki að vera ágreiningur, að þessi sjóður væri fyrst og fremst varasjóður þeirra, sem í hann leggja, til þess að mæta erfiðu árunum eftir góð ár, á þeim tíma, þegar lagt er inn í sjóðinn við hækkandi verðlag. Ef á að kippa fótunum undan þessum grundvelli löggjafarinnar með einum eða öðrum krókaleiðum og mismunandi skýringum á orðalagi sjóðsins, þá á sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, að taka lögin til endurskoðunar að því leyti, til þess að þetta verði alveg tvímælalaust. Ég get að vísu alveg skilið, að það sé ekki óeðlilegt að taka aflabrest og verðbreytingar erlendis að einhverju leyti saman. Það eru atvik, sem aðilarnir ráða ekki við. Þegar verðfall verður erlendis eða þegar verðminnkun verður á heildarsölunni erlendis, vegna þess að aflinn hefur minnkað stórlega, þá má segja, að slíkt sé nokkuð svipaðs eðlis, og það mætti í slíku tilfelli nota fé sjóðsins einmitt sem bjargráðasjóð, þegar illa gengur af ástæðum, sem þannig eru og eru í eðli sínu þær sömu. En það eru gjörólíkar aðrar ástæður, sem hér hafa komið til. að ríkjandi stjórn á hverjum tíma geti spilað þannig sínum spilum, að hún geti gert sínar ráðstafanir og miðað við það, að hversu vitlausar sem þær eru og hversu æsandi þær eru fyrir verðbólguna í landinu, þá verði það þó tekið úr þessum sjóði. Þetta eru atriði, sem verður að setja algerlega loku fyrir, að verði hægt að nota þennan verðjöfnunarsjóð til þess að bæta og bæta afleiðingar af efnahagsráðstöfunum ríkisstj., sem situr, sem eru þess eðlis að auka verðbólguna og kippa grundvellinum undan blómlegum rekstri atvinnulífsins í landinu. Ef þetta kemur ekki ljóst fram í lögunum, þá verður að koma því inn í lögin.

Hæstv. sjútvrh. tók það margsinnis fram, að hér væri um bráðabirgðaráðstafanir að ræða, og það er í sjálfu sér það eina góða, sem er í þessu máli. Hann tók það líka fram, að fulltrúar útvegsins hefðu ekki viljað miða till. sínar við það, að greitt yrði úr verðjöfnunarsjóði fram til miðs árs 1973. En skyldi vera, að ráðh. hafi haft einhverja löngun til þess, að hæstv. ráðh. hafi gjarnan viljað, að þetta væri ekki aðeins bráðabirgðaráðstöfun? Ef það er ekki, þá þykir mér vænt um, að hæstv. ráðh, lýsi því yfir, og í raun og veru eigum við að geta ætlazt til þess af honum hér, að hann lýsi því yfir sem stefnu sinni í þessu máli, að hvað sem öðrum ákvörðunum í efnahagsmálum líður, þá sé það meiningin og tilgangur þessa sjóðs og eigi að vera, að hann sé fyrst og fremst bjargráðasjóður fyrir útveginn, þegar illa gengur, þegar bregðast hlutir, sem við ráðum ekki við, eins og verðlag, og við skulum þá nefna aflabrest einnig, eins og það yrði þá sérstaklega metið af hlutaðeigandi aðilum. Það væri mikill fengur, ef hæstv. sjútvrh. fengist til þess að gefa yfirlýsingu um það, að hann væri samþykkur þessari skoðun, sem ég hér hef sett fram, og ég vil mega mælast til þess, ef hann treystir sér til þess, að hann staðfesti það.

Það er alger misskilningur hjá hæstv. sjútvrh., að ég hygg, að nokkuð hafi verið um það rætt í blöðum, — það hefur þá farið fram hjá mér og ég hef séð allt annað í blöðum, — að það kostaði 1000 millj. kr. fyrir sjóðinn að greiða þessar uppbætur fram til áramóta. Það hefur þvert á móti verið sagt í blöðunum, eftir að það var upplýst af opinberum aðilum, sem hæstv. ráðh. staðfestir hér, að þetta kostaði fram til áramóta 88 millj. kr., og það er mat manna, að það sé um 1/10 hlutinn af ársaflanum, sem um er að ræða á þessu tímabili. En sé það rétt metið, sem einnig er hægt að vitna til opinberra aðila um, þá eru þetta 800–900 millj. kr. á ársgrundvelli, eins og blöðin hafa verið að tala um. Hafi það komið fram í einhverju blaði, að það kostaði 1000 millj. kr. fram að áramótum, þá fullyrði ég, að þá eru það mistök þess blaðs, og það hefur enginn lagt nokkra minnstu áherzlu á það og ég minnist alls ekki að hafa séð slíkt í ritstjórnargreinum eða fjallað um það í leiðurum blaða.

Ég var farinn að halda, að hæstv. sjútvrh. ætlaði að fara að segja okkur, að þetta kostaði ekki 88 millj., heldur 15 millj. Það mátti skilja það á orðum hans, þegar hann allt í einu fór að tala um, að Jón Sigurðsson, sem gegnir starfi hagrannsóknstjóra, hafi reiknað út, að þetta kostaði fram að áramótum 16 millj. kr., en alls ekki 1000 millj kr. En svona talar hæstv. ráðh. Þm. þurfa að hafa sig við til að átta sig á því, sem hann er að fara. Svo kom hann og sagði 15 millj. í staðinn fyrir 25 millj., það væri hluti frystihúsanna, en ekki heildarupphæð, sem hann sjálfur hafði talað um, 88 millj. kr.

Ég legg áherzlu á, að það verði ekki vafið inn í málaþras meginefni þessa máls. Þetta er mjög alvarlegt mál. Ég hef enga ástæðu til þess að ætla, að hæstv. sjútvrh. sé annars sinnis nú en hann var, þegar þessi lög voru sett og hv. þm. Guðlaugur Gíslason vitnaði til. Og því þá að vera að vefja þetta mál öllum þessum umbúðum, sem hér hefur verið gert, eins og hæstv. ríkisstj. eigi ekki neina sök á því, hvernig komið er um rekstur atvinnuveganna í landinu? Það eru fleiri en sjávarútvegurinn, — ég veit ekki betur en iðnaðurinn sé búinn að senda bænaskjal til ríkisstj. eða aðvörun um það, að afkoman sé orðin þannig, að atvinnuvegurinn standi ekki undir tilkostnaðinum í landinu. Það er ekki veiðitapi þar að kenna. Sannleikurinn er sá, og það vil ég að lokum árétta, að þegar við erum að tala um minnkandi afla, þá má að sjálfsögðu afsaka sig með minnkandi afla í afkomu útvegsins, ef hann er minnkandi á einhverjum ríma, þó að það sé rétt, að útvegurinn á alltaf og hefur alltaf verið viðbúinn vissum sveiflum. En hins vegar er það algerlega rangt, að hæstv. ríkisstj. geti falið sig á bak við það núna og afsakað aðstöðuna í efnahagsmálum, verðlags- og kaupgjaldsmálum í landinu eða verðbólgumálum með því að eitthvað lítillega hafi minnkað afli á vissum ríma á sumartímanum sérstaklega, hér á landi og þá sérstaklega á þorski, þegar það er upplýst af hæstv. forsrh., þegar hann flytur sína stefnuræðu, að útflutningsmagnið, sem skiptir máli fyrir þjóðarbúið í það og það skiptið, — útflutningsmagnið á þessu ári, á þeim ríma, sem við erum að tala um, verði meira á þessu ári en á s.l. ári vegna birgðaminnkunar, af því að birgðir hafa verið það miklar í landinu, og verðhækkanir munu að meðaltall verða um 7%. Á fiskimjölinu einu er meira en tvöföldun á verði. Fyrir afkomu þjóðarbúsins lítur þetta allt öðruvísi út heldur en fyrir hinar einstöku greinar útvegsins. Þótt eitthvað minnki þorskur á ákveðnum tíma og aðrar fisktegundir, þá bætist það upp hjá þjóðarbúinu, að loðnuafli verði meiri en í mannaminnum hefur verið, eins og varð hér á s.l. ári og vonir hæstv. sjútvrh. standa til að verða muni núna, og við skulum allir vona, að geti orðið til mikilla uppbóta í rekstri þjóðarbúsins. Og enn njótum við verðhækkana erlendis á sjávarafurðum.

Það er allt of mikið gert af því sem sagt, að hæstv. ríkisstj. afsaki, hvernig komið er, hvernig alls staðar hallar undan fæti, með aflaminnkun.

Ég legg svo megináherzlu á það, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, athugi lögin vendilega í samræmi við það, sem ég sagði í upphafi máls míns, og menn geri sér grein fyrir því, að við megum ekki til lengdar, enda þótt bráðabirgðaráðstafanir séu gerðar, spilla þessari löggjöf, sem er ein merkasta löggjöf, sem sett hefur verið fyrir okkar þjóðarbú, eins og því háttar, með öllum þeim sveiflum, sem eru fyrst og fremst í sjávarútveginum, og til hagsbóta fyrir alla aðila sjávarútvegsins. Þetta skyldi að mínum dómi verða meginverkefni n., þegar hún athugar þetta mál nánar.