06.12.1972
Neðri deild: 21. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1057 í B-deild Alþingistíðinda. (761)

21. mál, Jafnlaunaráð

(Svava Jakobsdóttir):

Herra forseti. Frv. það, um Jafnlaunaráð, sem hér liggur fyrir á þskj. 21 og nú er flutt af 4 þm. auk mín, lá fyrir Alþ. á s.l. vetri, en hlaut þá ekki afgreiðslu. Um frv. urðu allmiklar umr. í fyrra í þessari hv. d., og ætti því að vera óþarft að fylgja því úr hlaði nú með langri ræðu. Meginhlutverk Jafnlaunaráðs, ef að lögum verður, er í fyrsta lagi að fá skýlaus ákvæði í lögum um launajafnrétti og bann við misrétti á vinnustöðum og í öðru lagi að tryggja framkvæmd laga um jafnrétti kynjanna í atvinnulífinu og tryggja þeim jafna möguleika til starfs, en þetta hvort tveggja felst bæði í íslenzkum lögum og í samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 100 og nr. 111, sem Ísland hefur fullgilt.

Engum dettur lengur í hug að neita því, að misrétti gagnvart konum á sér stað á vinnustöðum. Umr. víða um heim snúast nú um, hvernig megi uppræta það, jafnt í þeim löndum, sem þegar hafa tryggt jafnrétti í lögum og þeim, sem eiga slíkt eftir. Þetta er alþjóðlegt vandamál og sjálf átti ég þess kost að sannreyna það á þingi Sameinuðu þjóðanna fyrir skömmu, að þetta vandamál er litið alvarl. augum og það er talinn smánarblettur á hverri þeirri þjóð, sem leiðir þetta vandamál hjá sér. Ekki get ég neitað því, að mér þótti ákaflega lærdómsríkt að hlýða á málflutning fulltrúa hjá Sameinuðu þjóðunum um stöðu kvenna. Einkum hreifst ég af máli og viðhorfi fulltrúa hinna nýfrjálsu ríkja, en í ræðum þeirra kom fram tvenns konar grundvallarskilningur: annars vegar sá, að ekkert ríki væri frjálst, nema allir þegnar þess væru frjálsir, hins vegar sá, að sú uppbygging atvinnuvega og þjóðlífs, sem þeir nú ynnu að, væri óframkvæmanleg nema með þátttöku alls vinnufærs fólks og virkri aðild bæði kvenna og karla. Í rauninni er um svipaðar forsendur að ræða hjá okkur að mörgu leyti, og ég held, að við Íslendingar verðum að horfast í augu við það og viðurkenna það sem staðreynd. Við verðum að hætta að líta svo á, að vinnuafl kvenna sé aðeins til bráðabirgða, að það heyri til undantekninga, að konur leiti á vinnumarkaðinn. Það er spá mín, að þegar farið verði að líta á konur sem jafnréttháa fyrirvinnu og karla og vinnu þeirra sem jafnverðmætt vinnuafl í þjóðfélaginu, þá muni slík stofnun sem Jafnlaunaráð verða óþörf. En því miður er raunin sú, að misrétti þekkist víða á vinnustöðum hjá okkur og mjög erfitt hefur reynzt að ráða bót á því. Þess vegna er þetta frv. um Jafnlaunaráð fram komið.

Frv. er nú lagt fram í nær sömu mynd og það kom frá allshn. Nd. á síðasta þingi. Verkefni Jafnlaunaráðs er rakið í 4. gr. frv. Það skal m.a. vera ráðgefandi í málefnum, er varða launajafnrétti. Það skal fylgjast með þjóðfélagsþróuninni, sem varðar þetta lagaefni, og gera till. til breytinga til samræmis við tilgang þessara laga. Það skal stuðla að góðri samvinnu atvinnurekenda og launafólks um þau mál, sem hér um ræðir, og eiga frumkvæði að því að rannsaka, hver brögð kunni að vera að misrétti í kjaramálum, að því leyti er lög þessi varða, svo og taka við ábendingum annarra um brot á ákvæðum laganna og rannsaka mál af því tilefni. Þá skal Jafnlaunaráð kveða upp úrskurð í deilumálum, sem skotið er til þess, og ef eigi takast sættir, sem Jafnlaunaráði er ætíð skylt að reyna, skal úrskurður Jafnlaunaráðs vera bindandi sem ráðningarsamningur milli aðila og fullnaðarúrlausn kjaradeilu. Flm. þessa frv. telja mjög mikilvægt, að til sé sérstök stofnun skipuð mönnum, sem eru sérstaklega til þess hæfir eða kallaðir til að fjalla um mál, sem að mörgu leyti eru svo sérstæðs eðlis, að þan eiga ekki samleið með öðrum málum.

Sú breyting er gerð á frv. frá því í fyrra, að nú er gert ráð fyrir, að bera megi úrskurð Jafnlaunaráðs undir hina almennu dómstóla innan þriggja mánaða. Þessi breyting er gerð til að koma til móts við óskir þeirra, sem telja, að aðeins með því móti sé fyllsta réttaröryggis gætt. Ég persónulega vil bæta því við, að ég get fyllilega sætt mig við þessa breytingu. Með þessari skipan mála vinnst tvennt: Úrskurður Jafnlaunaráðs veitir skjóta úrlausn í kjaradeilu, sem getur skipt einstaklinginn miklu máli, en ef ástæða þykir til áfrýjunar, getur úrskurður hinna almennu dómstóla í landinu orðið mikilvægur í þeim málum, sem um ræðir og eðli sínu eru mannréttindamál. Úrskurður dómstóls getur því orðið stefnumótandi um framþróun þessara mála í heild og haft áhrif langt út yfir hið einstaka tilfelli.

Í 6. gr. er gerð tilraun til þess að vernda einstaklinginn, sem má gera ráð fyrir, að sé yfirleitt úr hópi láglaunafólks. Í 6. gr. stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú breyta dómstólar úrskurði Jafnlaunaráðs til lækkunar, og á þá atvinnurekandi ekki endurkröfurétt á launþegann fyrir tímabilið frá uppkvaðningu úrskurðar Jafnlaunaráðs til niðurstöðu dómstóla:

Ég vænti þess, að hv. alþm. skilji, að hér er um mjög mikilsverðan rétt fyrir launþegann að ræða, þar sem ella gæti farið svo, að hann treysti sér ekki til að leita aðstoðar Jafnlaunaráðs, enda þótt brýn þörf væri á. Flm. þessa frv. vænta þess, að þessi hv. d. veiti því brautargengi á þann veg, að tilgangi þess verði náð.

Ég get að lokum upplýst, að það er fylgzt með þessu máli í öðrum löndum. Norska Stórþingið hefur haft uppi fsp. um framgang þessa máls hér, og frv. um Jafnlaunaráð, sem lagt var hér fyrir í fyrra, var tilefni umr. og till. í danska þinginu. Með því að samþykkja þetta frv. geta því íslenzkir alþm. haft áhrif á þróun þessara mála á Norðurlöndum og þannig veitt mikilvægan stuðning þeim aðilum, sem berjast fyrir afnámi misréttis þar.

Herra forseti. Ég legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og til allshn.