11.12.1972
Efri deild: 21. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1079 í B-deild Alþingistíðinda. (779)

16. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Frsm. minni hl. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur á þskj. 148 og 149, varð sjútvn. ekki sammála um afstöðu til frv. Við í minni hl. berum fram sérstakt nál. á þskj. 149 og gerum þar í nokkrum orðum grein fyrir afstöðu okkar.

Eins og kom fram í ræðu hv. frsm. meiri hl., var þetta mál mjög rætt hér í 1. umr., og mun ég ekki sjá ástæðu til þess að fara þess vegna í langar umr. um málið. Við erum í sjálfu sér því hlynntir, að útveginum sé tryggður sá grundvöllur, sem þeir töldu í verðlagsráðinu, að nauðsyn væri á, að hann fengi, en það er ágreiningur um, með hvaða hætti á að tryggja þennan grundvöll. og kemur það fram í brtt. okkar. Mun ég nú lítillega fjalla um nál. okkar í minni hl.

Það lágu fyrir umsagnir frá nokkrum aðilum, sem hafði verið sent frv. til umsagnar. Þó eru sumir, sem sáu ekki ástæðu til að svara því, og fannst mönnum það undarlegt, þar sem um hrein hagsmunasamtök var þar að ræða.

Ég sagði við fyrri umr. hér, að það hefði verið fallizt á þetta undir vissum skilyrðum, og við endurtökum í nál., að verðlagsráð taldi þetta einu leiðina til að tryggja þennan rekstrargrundvöll vegna afstöðu hæstv. ríkisstj. Það kom líka fram í orðum hæstv. ráðh., að hann telur, að verðjöfnunarsjóðurinn sé eign öflunar og vinnslunnar og þess vegna ekki ágreiningur um það atriði, hverjir standa að sjóðnum og hverjir hafa þar íhlutunarrétt. Við teljum hins vegar, að í ákvæðum til bráðabirgða í 1. gr. frv. felist fordæmi, sem ekki megi lögfesta, ef Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins á í framtíðinni að koma að því gagni, sem til var ætlazt í upphafi og var grundvallaratriði fyrir stofnun hans, þ.e. að hann verði einvörðungu notaður til verðjöfnunar, er tímabundnar verðlækkanir verða á erlendum markaði á þeim tegundum sjávarafurða, sem lagt hafa sjóðnum til fé samkv. 5. gr. gildandi l. um sjóðinn.

Auðvitað var rétt hjá hæstv. frsm., að alltaf er hægt að breyta l., það er alltaf að ske og á sér stað, og þess vegna getur það vel verið rétt að breyta l. um þennan sjóð eins og einhverja aðra sjóði. En þá teljum við það ekki eiga að gerast við þær aðstæður, sem ríkja, og í þessu tilfelli. Það má stokka það mál allt upp í einu og koma með alveg nýtt og sérstakt frv. um það og rökstyðja það á margan hátt. Það er allt annað mál, finnst okkur, og þarf allt annan undirbúning. Við erum þess vegna ekki sammála um að blanda því inn í þetta sinn. Við teljum ekki, að sjóðnum hafi verið ætlað það hlutverk að verða hagstjórnartæki ríkisstj. við ákvörðun á rekstrargrundvelli sjávarútvegsins eða fiskiðnaðarins og fjármagn þannig veitt úr sjóðnum til þess að leysa tímabundinn vanda, sem er að meira eða minna leyti heimatilbúinn, eins og ég sagði í fyrri umr. Það er viðurkennt, að við höfum fengið minni þorskafla, það er alveg rétt. Hann var ekkert átakanlega minni á vetrarvertíðinni en hefur verið oft áður. Hins vegar breyttist sókn bátanna þannig, að sumir fóru úr þorskinum yfir í loðnuna og sköpuðu þannig mikil verðmæti. Hins vegar er haustið oft erfitt. Það er ekki nýtt, að það sé erfitt og óvissa ríkjandi um afla á haustmánuðum. Blessunarlega hafa nokkrir bátar núna fengið góðan ufsaafla, en þorskmagnið í aflanum hefur verið minna en oft undanfarin ár og þess vegna erfiðleikar í því sambandi. Það er þó ekki svo stór vandi, að allt þurfi að fara á annan endann þess vegna.

Við leggjum til lítils háttar breytingu: „Við síðasta málsl. í ákvæði til bráðabirgða í 1. gr. frv. bætist: og ábyrgist ríkisstj., að framlagið nú sé sem lán og endurgreiðist sjóðnum með venjulegum útlánsvöxtum banka á næsta ári, eftir því sem um kann að semjast milli hennar og stjórnar sjóðsins.“ Við tökum hér fram: „á næsta ári“, auðvitað hefði verið hugsanlegt að lengja þennan tíma, en við lögðum þetta til þannig og vonum, að þetta sé talið raunhæf lausn, alveg eins og eitthvað annað, vegna þess að ágreiningurinn er raunverulega um vinnubrögð við að hjálpa flotanum, en ekki um það, að hann hafi ekki þurft á þessari aðstoð að halda eins og atvik liggja fyrir núna að mati bæði öflunar og vinnslu.