11.12.1972
Neðri deild: 22. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1084 í B-deild Alþingistíðinda. (790)

23. mál, framkvæmd eignarnáms

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta frv. var lagt fram í Ed. og hefur verið samþ. þar óbreytt. Frv. á rætur að rekja til þess, að á Alþ. var 22. apríl 1970 samþykkt svofelld þál:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta endurskoða gildandi lagaákvæði um framkvæmd eignarnáms, m.a. að því er varðar eignarnám á löndum og lóðum í þágu ríkisins og sveitarfélaga, og verði frv. til nýrra laga um framkvæmd eignarnáms lagt fyrir næsta Alþingi.

Í frv. verða m.a. kveðið á um skyldu matsmanna til að taka beina afstöðu til tiltekinna atriða, sem áhrif hafa á verð eignarnámslands, og sundurliða og gera allnákvæma grein fyrir, á hvaða forsendum matsfjárhæð er byggð.

Þá verði í frv. reglur um ákvörðun þóknunar matsmanna og um skil matsgerðar til ákveðinnar stofnunar.“

Flm. þessarar þáltill. voru alþm. úr öllum flokkum, sem þá voru á þingi, Auður Auðuns, Halldór E. Sigurðsson, Geir Gunnarsson og Bragi Sigurjónsson, og var þáltill. flutt að frumkvæði Sambands ísl. sveitarfélaga. Til þess að framkvæma þessa endurskoðun var skipuð þriggja manna n. Í henni áttu sæti Gaukur Jörundsson prófessor, Páll Líndal borgarlögmaður og Hallgrímur Dalberg skrifstofustjóri. 19. maí 1972 skilaði n. álitsgerð og þá fyrst og fremst þessu frv. og þeirri grg., sem fylgir með því, og auk þess mjög langri og ítarlegri grg., sem ekki þótti fært að láta prenta með frv., en er að sjálfsögðu til afnota fyrir þá n., sem fær frv. til meðferðar.

Það þarf ekki að rekja það hér, að eitt af ákvæðum í okkar stjórnarskrá er ákvæði í 67. gr. um friðhelgi eignarréttarins, þar sem segir, að eignarrétturinn sé friðhelgur, engan megi skylda til þess að láta af hendi eign sína, nema almenningsþörf krefji, þarf til þess lagaboð og komi fullt verð fyrir.

Fljótt á litið mætti sýnast, að eignarrétturinn væri allvel tryggður með þessu ákvæði og þá fyrst og fremst með því ákvæði, að fullt verð komi fyrir, þegar verðmæti er tekið eignarnámi.

En það er hins vegar svo, að þrátt fyrir þetta stjórnarskrárákvæði er mjög mikið lagt á vald löggjafans í þessu efni, vegna þess að það er mjög undir löggjafanum komið, hvernig þessar bætur, sem eiga að koma fyrir eignarnumið verðmæti, eru teknar til. Um það efni hafa verið í gildi lög nr. 61 1917. Það frv., sem hér liggur fyrir, á, ef að lögum verður, að leysa þau lög af hólmi. Auðvitað er þetta frv. byggt á grundvelli stjórnarskrárinnar fyrst og fremst, því stjórnarskrárákvæði, sem ég vitnaði í. Enn fremur má segja, að það sé að nokkru leyti byggt á þeim l. um framkvæmd eignarnáms, sem nú eru í gildi, en þó eru gerðar ýmsar veigamiklar breytingar á þeim 1. Ég sé ekki ástæðu til að fara ítarlega út í þær breytingar allar, en þær eru mjög í samræmi við anda þann, sem var í þáltill., sem hér var samþ. á sínum tíma.

Það eru allítarlegar aths. með frv., þar sem m.a. er gerð grein fyrir og skýrðar þær breytingar, sem um er að tefla í einstökum greinum, og sé ég ekki ástæðu til þess að tefja tímann nú með því að fara ítarlega út í það. Grundvallarbreytingin má segja, að sé sú, að nú er það svo, að þegar eignarnám á sér stað, eru bætur metnar af matsmönnum, sem dómkvaddir eru í hvert og eitt skipti til þess að meta bæturnar. En eftir þessu frv. á að nokkru leyti að vera til föst stofnun, sem framkvæmir þetta mál, þ.e.a.s. það er gert ráð fyrir því, að formaður matsnefndar eignarnámsbóta sé fastskipaður og annar til vara til 5 ára í senn. Þeir skulu hafa lokið. embættisprófi í lögfræði. Síðan er svo gert ráð fyrir því, að formaður kveðji hverju sinni til fjóra hæfa menn til þess að framkvæma matið með sér. Þessi regla á að stuðla að því að skapa meiri festu í matið en talið hefur verið, að hingað til ætti sér stað. Það er gert ráð fyrir því, að það sé aðeins eitt stig af þessu eignarnámsmati, gagnstætt því, sem nú er. Síðan eru í frv., án þess að ég fari að rekja það nánar, miklu fyllri ákvæði en í núgildandi l. um málsmeðferð fyrir þessari eignarmatsnefnd, hvernig aðilar skuli til kvaddir, hvernig málin skuli undirbúin, hvernig málsmeðferð sé fyrir n. o.s.fr. Enn fremur eru miklu fyllri ákvæði en í núgildandi l. um þann matsúrskurð, sem matsnefndin á að kveða upp. Hún á samkv. því ákvæði að gera miklu fyllri grein fyrir ýmsum atriðum í sambandi við matið og á hverju hún byggir niðurstöðu sína en samkv. núgildandi lögum. Mörg önnur nýmæli má segja, að séu í þessu frv., en að sumu leyti eru þau sjálfsagt byggð á því, sem tíðkazt hefur í framkvæmd, án þess að hafi verið stuðzt við orðuð lagafyrirmæli.

Ég álít, að þetta frv. sé mjög vel samið. Það eru hæfir menn, sem hafa að því unnið, og ég er ekki í nokkrum vafa um, að í því felst mikil bót frá núgildandi lögum um framkvæmd eignarnáms. Auðvitað má lengi deila um einstök atriði, en þetta held ég, að sé óvefengjanleg niðurstaða, þegar á heildina er litið, og það var álit hv. Ed., sem afgreiddi frv. óbreytt, eins og ég sagði.

Ég skal svo ekki taka lengri tíma til að gera grein fyrir frv. Það yrði að fara út í ýmis lögfræðileg atriði, ef það ætti að gera. Ég tel heppilegra, að sú n., sem fær frv. til meðferðar, leggi vinnu í að kynna sér það og fái til viðtals við sig þá menn, sem sömdu frv., og enn fremur getur hún, eins og ég sagði, fengið til athugunar þá ítarlegu grg., sem frv. fylgdi, en ekki þótti fært að prenta með frv.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til. að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.