11.12.1972
Neðri deild: 22. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1088 í B-deild Alþingistíðinda. (795)

30. mál, leigunám hvalveiðiskipa

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég er dálítið hissa á því, að það skuli vera ágreiningur um afgreiðslu þessa máls. Það er staðreynd, að það var reynt að ná samningum um leigu á þessu skipi, en tókst ekki, af því að fyrirsvarsmaður eignaraðila kaus heldur af ýmsum ástæðum, sem hafa getað verið til staðar, að leitað væri lagaboðs um leigu á skipinu. Það er misskilningur, að það hafi nokkru sinni staðið á eða strandað á því, að það væri ágreiningur um leigugjaldið. Það var ekki það, sem lá til grundvallar. Hitt er staðreynd, að það þurfti lagasetningu, til þess að þetta skip fengist í leigu, og það þurfti ákvörðun samkvæmt þeirri lagasetningu, til þess að skipið væri leigt. Þegar sú ákvörðun lá fyrir, tókst hins vegar greiðlega að gera leigusamninginn. Um leigusamninginn var ekki neinn ágreiningur. Það er því ekki rétt, sem segir í nál. minni hl.: „Fyrir þá sök er lagasetning um leigunám hvalveiðiskips til landhelgisgæzlustarfa óþörf.“ Hennar var þörf og hún var notuð, og það var aðeins hægt að gera þennan leigusamning í skjóli þeirrar lagasetningar, sem fyrir lá. Því hefði ég vænzt þess, að hv. minni hl., sem dregur ekki í efa, að hann segir, að landhelgisgæzlan hafi haft þörf fyrir aukinn skipakost, hefði getað mælt með staðfestingu þessa frv.

Það liggur í augum uppi, að hvað sem framtíðinni líður, er með öllu óviðunandi annað en þessi aðgerð verði staðfest, því að annars væri í rauninni sagt óbeint, að það hefði ekki verið þörf á þessari lagasetningu. Það er því óhjákvæmilegt að staðfesta þessi brbl. Það eru allir efnislega sammála um, að það hafi verið rétt eftir atvikum að taka þetta skip til gæzlunnar, af því að það hafi ekki verið kostur á hentugra skipi. Og það er ánægjulegt að upplýsa það, að ég held, að allir, sem með skipið hafa haft að gera, skipstjóri og skipshöfn önnur, hafi verið mjög ánægð með það og það hafi reynzt í alla staði vel. Mér sýnist þess vegna, að niðurstaðan í nál. minni hl. sé með öllu rangnefni, það ætti heldur að heita órökstudd dagskrá.