11.12.1972
Neðri deild: 22. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1089 í B-deild Alþingistíðinda. (798)

114. mál, verðlagsmál

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Hér er um að ræða frv., sem gerir ráð fyrir því að framlengja þá skipan, sem í gildi hefur verið um nokkra hríð um val á aðilum í verðlagsnefnd. En sá háttur hefur verið hafður á nú um nokkurra ára bil, að þessi skipan hefur verið framlengd með sérstökum lögum á hverju ári, ákvörðun hefur aðeins staðið til eins árs í senn, þ.e. að verðlagsnefnd skuli skipuð 9 fulltrúum, 4 af hálfu launþegasamtakanna og 4 svo aftur af hálfu atvinnurekendasamtakanna og einum, sem tilnefndur er sem formaður nefndarinnar af hálfu ráðuneytisins. Hér er sem sagt um sams konar framlengingu að ræða og verið hefur. Þó er ein breyting gerð á, að ekki er ákveðið í þessu frv., að þetta skuli gilda aðeins til eins árs, heldur um óákveðinn tíma. Það sýnist ekki vera ástæða til þess að leggja hér fyrir hv. Alþingi frv. af þessari tegund á hverju einasta ári, það er búið að gera það í 4 ár, og af því er nú valinn sá kostur að framlengja um óákveðinn tíma það fyrirkomulag, sem hefur gilt. Það er þó opið, hvenær sem Alþingi vill gera breytingu þar á.

Ég veit, að öllum hv. þm. er málið svo vel kunnugt, að það er óþarfi að fara um það fleiri orðum, og óska ég aðeins eftir því, að að lokinni þessari umr. gangi málið til fyrirgreiðslu til hv. fjhn.