12.12.1972
Sameinað þing: 28. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1093 í B-deild Alþingistíðinda. (802)

286. mál, úrbætur í heilbrigðismálum í Ólafsfirði og Norður-Þingeyjarsýslu

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Vegna svara hæstv. heilbrmrh. um læknamál í Ólafsfirði vil ég gjarnan láta í ljós ánægju mína yfir því, að nú er um sinn ráðin bót á nauðsynlegustu læknisþjónustu á staðnum. Í þessu sambandi vil ég þó vekja athygli á því, að Ólafsfirðingar búa ekki einungis við öryggisleysi á sviði læknisþjónustu. Vandkvæði á því að fá þar lækna til starfa hafa óneitanlega sýnt fram á það svart á hvítu, hvað þetta byggðarlag er í raun sérstætt á sviði heilbrigðis- og öryggismála. Þar koma til samgönguerfiðleikar, þegar veður eru válynd. Á þessu vakti ég máls á síðasta Alþ., þegar ég mælti fyrir frv. um breyt. á l. um læknishéraðasjóði. Því miður fékk það ekki undirtektir á því þingi. En þannig er ástatt um samgöngur Ólafsfirðinga, að til að koma sjúklingum, sem orðið hafa fyrir meiri háttar slysi eða bráðasjúkdómum, í sjúkrahús er oft og tíðum ógerningur að fara annan veg heldur en Múlaveg, sem er, eins og kom fram í máli hv. 4. þm. Norðurl. e., oft og tíðum illfær. Því getur það oft gilt einu, þó að læknir sé á staðnum, þótt það sé auðvitað meginatriði vegna almennrar heilbrigðísþjónustu. Hér væri unnt að ráða bót á að minni hyggju með því að gera frekari öryggisráðstafanir, t.d. á þann hátt að gefa Vegagerð ríkisins fyrirmæli um að hafa mikilvirkari snjóruðningstæki til taks á Múlavegi en nú eru, en þar er fyrst og fremst við að styðjast fremur litla jarðýtu, sem er í eign Ólafsfjarðarkaupstaðar og þarf að sinna miklu fleiri verkefnum, t.d. að greiða fyrir mjólkurflutningum og flutningum á skólafólki innansveitar. Þá kemur einnig til, að sjúkraflugvöllur á Ólafsfirði er enn óuppbyggður og því oftast ófær, þegar snjóar. Hann er einnig ólýstur, þannig að hann væri ófær af þeim sökum mestan hluta sólarhringsins í skammdeginu, þótt hann væri fær vegna snjóa eða aurbleytu. Á þetta vildi ég gjarnan benda hæstv. heilbrmrh. og samgrh. í sameiningu, þar sem auðvelt virðist úr þessu að bæta og bein lífsnauðsyn er, að það sé gert.

Að síðustu vil ég á það benda, að undanfarin ár hefur jafnan verið nokkur fjárveiting til byggingar sjúkraskýlis í Ólafsfirði og lagfæringar á aðstöðu lækna. Nú hefur hins vegar verið gripið til þess ráðs að fella þessa fjárveitingu niður, að því er mér er tjáð. Þetta tel ég, að sé ekki til bóta í heilbrigðisþjónustu við Ólafsfirðinga, hvað sem öðru líður og vona ég, að hér sé um mistök að ræða.