12.12.1972
Sameinað þing: 28. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1094 í B-deild Alþingistíðinda. (803)

286. mál, úrbætur í heilbrigðismálum í Ólafsfirði og Norður-Þingeyjarsýslu

Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin. Það er ánægjulegt að heyra það, að hann vonar, að í sambandi við læknamál Ólafsfirðinga sé búið að tryggja þeim nokkurn veginn lækni þennan vetur. En það er að vísu ekki nóg. Það þarf að reyna eins og mögulegt er að tryggja, að þarna sé læknir í næstu framtíð. Í sambandi við Norður-Þingeyjarsýslu vil ég bara minna á, að þetta er snjóþyngsta hérað landsins og vegalengdirnar miklar. Ég sagði áðan, að t.d. frá Húsavík til Þórshafnar séu 224 km. Það er alveg rétt, sem kom fram hjá ráðh., að það hefur stundum verið enn verra. Það hefur stundum verið enginn læknir í Norður-Þingeyjarsýslu. Ég minnist þess, þegar ég var á ferðalagi í Norður-Þingeyjarsýslu fyrir einum 4 árum og kom í júlímánuði að einu túninu þannig, að það var að helmingi dautt og ekki nema sauðgróður á hinum hlutanum, og þá sagði húsfreyjan: Þetta er nú ekkert hjá öryggisleysinu að hafa engan lækni. — Ég man líka eftir því í Ólafsfirði, þegar ég var þar í sumar, að gömlu mennirnir komu og sögðu: Ef við fáum ekki lækni hingað, þá verðum við að flytja burt. — Þar sem eru staðhættir eins og í Norður-Þingeyjarsýslu og Ólafsfirði, þá er þetta e.t.v. eitt stærsta byggðamálið, að leysa heilbrigðisþjónustuna á viðunandi hátt. Ég vænti þess, að ráðh. reyni að beita kröftum sínum til þess, eins og hann hefur gert í þessum málum, að fá lækni t.d. á Kópasker eða Raufarhöfn, ef nokkur möguleiki er til þess.