12.12.1972
Sameinað þing: 28. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1095 í B-deild Alþingistíðinda. (806)

99. mál, framkvæmd leyfisveitinga og annarra veiðitakmarkana í sjávarútvegi

Fyrirspyrjandi (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 123 hef ég leyft mér að leggja fram fyrirspurn til hæstv. sjútvrh. um framkvæmd leyfisveitinga og annarra takmarkana í sjávarútvegi. Fsp. þessi á að sjálfsögðu rætur sínar að rekja til þess, að á undanförnum árum hefur mjög færzt í vöxt að takmarka veiði með leyfisveitingum og ýmsum öðrum takmörkunum. Þetta á einkum við um rækjuveiði, skelfiskaveiði og humar og að litlu leyti í sambandi við síldveiðar. Þessi mál eru að sjálfsögðu mjög vandmeðfarin, því að slíkar leyfisveitingar hafa áhrif á afkomu ekki aðeins einstaklinga, sem slíkar veiðar stunda, heldur einnig mjög mikil áhrif á afkomu heilla byggðarlaga.

Ýmislegt virðist nú benda til þess, að slíkar leyfisveifingar eða veiðitakmarkanir geti færzt í vöxt, a.m.k. ef dæma má af tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar, sem hún lét fiskveiðilaganefnd í té og kaus af einhverjum ástæðum að birta opinberlega, — þótt ekki væri það með samþykki fiskveiðilaganefndar, það er annað mál. En í þessum till. er lagt til, að nánast allar veiðar verði háðar leyfum. Með leyfi forseta, vill ég lesa úr þessum till. Þar segir: „til þess að auka aðhald við veiðarnar vill Hafrannsóknastofnunin leggja til, að allar togveiðar, dragnótaveiðar, nótaveiðar, botnvörpuveiðar og þorskanetaveiðar verði háðar leyfum.“

Nú hefur hins vegar komið mjög í ljós, m.a. á mörgum fundum, sem fiskveiðilaganefnd hefur haldið, og í mörgum viðræðum meðlima þeirrar nefndar og nefndarinnar í heild við menn í sjávarútvegi, að framkvæmd leyfisveitinga er að ýmsu leyti gagnrýnd og af ýmsum talið, að þær hafi ekki náð tilætluðum árangri. Og því er ekki að neita, að ýmis dæmi eru þessa, eins og t.d. í Ísafjarðardjúpi, þar sem ljóst er, að ágangurinn á rækjustofninn er allt of mikill, þannig að til stórvandræða horfir. Bæði fjölmargir einstaklingar og atvinnuvegurinn í heild eru í vandræðum vegna þess lélega afla, sem þar hefur fengizt upp á síðkastið. Sem nýlegt dæmi mætti nefna hörpufiskveiðar í Breiðafirði, sem varð að stöðva allskyndilega, þegar ákveðnu hámarksveiðimagni var náð, og hefur það bann valdið töluverðum deilum og umkvörtun frá ýmsum aðilum. Því er ekki heldur að neita, að hjá mörgum, sem við hefur verið rætt um þessi mál, kemur í ljós, að þeir kenna fyrst og fremst sjútvrn. um framkvæmd þessa máls og að verr hefur alloft til tekizt en til var stofnað. Iðulega heyrist því fleygt, að ekki hafi verið farið eins og skyldi að ráðum fiskifræðinga. Það er ekki að ástæðulausu, að fjöldi manna virðist þeirrar skoðunar. Því er ekki að neita, að í ýmsum viðræðum í fjölmiðlum við fiskifræðinga hefur það komið fram eða virðist vera þeirra skoðun, að ekki hafi verið farið við leyfisveitingar og veiðitakmarkanir að þeirra tillögu. Ég vil leyfa mér að geta þess hér, þó að þau atriði hafi raunar verið strikuð út úr tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar, þegar þær voru birtar, að í hinum upphaflegu till. kom einnig fram frá sérfræðingum Hafrannsóknastofnunarinnar nokkur gagnrýni á framkvæmdir á þessu sviði og að þessu leyti, sem ég hef nú nefnt.

Mér virðist mikilvægt að fá skoðun og álit hæstv. sjútvrh. á þessu, sérstaklega ef takast mætti að leiðrétta þann misskilning, sem virðist vera á þessu sviði á milli fiskifræðinga og sjútvrn. og áhrif hefur á alla, sem þessum veiðum eru tengdir. Því, hef ég leyft mér að leggja fram fsp. og sérstaklega nefnt þar þrjá liði, sem varða það einkum, hvort leitað sé umsagnar Hafrannsóknastofnunarinnar og farið að hennar ráðum eins og frekast má verða.