12.12.1972
Sameinað þing: 28. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1101 í B-deild Alþingistíðinda. (815)

109. mál, menntun fjölfatlaðra

Fyrirspyrjandi (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Síðasta Alþ. samþykkti svo hljóðandi þál., með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að athuga möguleika á lagasetningu um ráðstafanir til að bæta menntunaraðstöðu fjölfatlaðra barna og unglinga.“

Menntun fjölfatlaðra og ýmissa annarra hópa afbrigðilegra barna og unglinga hefur orðið út undan í okkar þjóðfélagi. brátt fyrir víðfeðmt og ágætt skólakerfi. Það er e.t.v. vegna þess, að þarna er um að ræða aðila, sem koma við sögu á öðru sviði, þ.e.a.s. oftast fólk, sem þarf læknishjálpar við og heyrir því að verulegu leyti undir annað rn. Þetta hefur orðið til þess, að þær stofnanir, sem hafa sinnt kennslu fjölfatlaðra, hafa lent í örðugleikum með reksturinn. Vil ég þar sérstaklega geta skóla Styrktarfélags fatlaðra og lamaðra í Reykjadal í Mosfellssveit, sem árum saman hefur stundað kennslu fyrir fjölfötluð börn og reyndar oftast lent í miklum rekstrarörðugleikum vegna þess, að togazt hefur verið á um, hvað af kostnaðinum tilheyrði menntmrn. og hvað heilbrmrn. Á síðustu árum hefur eflzt áhugi fyrir því að skipuleggja þessi mál og bæta það ástand, sem verið hefur. Einkum hefur verið staðnæmzt við álit og till., sem Þorsteinn Sigurðsson fræðslufulltrúi Reykjavíkurborgar gerði fyrir nokkru um sérkennslumiðstöð ríkisins. Það er mál, sem hefur verið í athugun og ég álít, að geti verið mjög merkt mál til lausnar á þessum vanda. Þess vegna hef ég leyft mér að flytja fsp., sem hljóðar á þessa leið: „Hvað hefur verið gert til þess að framkvæma þál. frá 16. maí 1972 um menntun fjölfatlaðra?“