12.12.1972
Sameinað þing: 28. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1102 í B-deild Alþingistíðinda. (816)

109. mál, menntun fjölfatlaðra

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Svar við fsp. hv. 3. þm. Reykn. er svo hljóðandi:

N. skipuð fulltrúum frá menntmrn., heilbr: og trmrn. og Reykjavíkurborg hefur síðan á árinu 1971 unnið að athugun á málefnum barna og unglinga, er þarfnast sérkennslu af ýmsu tagi. Voríð 1972 skilaði n. till. til menntmrn. um stofnun skóla fyrir fjölfötluð börn. Rn. féllst á till. n. í meginatriðum og var undinn að því bráður bugur að koma skólanum á fót. Húsnæði var útvegað í húsakynnum þeim, sem Heyrnleysingjaskólinn hafði áður til afnota að Stakkholti 3 í Reykjavík. Til þess að veita skólanum forstöðu var ráðin Bryndís Víglundsdóttir, sem undanfarin ár hefur starfað sem kennari við skóla fatlaðra í Bandaríkjunum. Í skólanum eru nú 7 börn. Þar af eru 4 í heimavist. Við skólann starfa í vetur auk forstöðukonunnar 4 fóstrur og einn kennari. Matseld, ræsting og þjónustubrögð eru sameiginleg með Heyrnleysingjaskólanum, sem enn hefur heimavist sína að Stakkholti 3. Ætlunin er, að skóli fyrir fjölfötluð börn starfi næsta vetur á sama stað, en fái þá rýmra húsnæði, þar sem Heyrnleysingjaskólinn mun, þá hafa flutt alla starfsemi sína úr húsinu. Áætlað er, að tala nemenda verði þá 20–25, þar af 13–15 í heimavist. Samkv. skyndikönnun, sem n. á vegum heilbr.- og trmrn. gerði árið 1971, er vitað um 31 barn, sem talið er, að þarfnist vistar í skóla fyrir fjölfötluð börn. Hins vegar er talið, að við nákvæmari könnun mundi koma í ljós, að þörfin sé raunverulega talsvert meiri.

N. sú, sem enn er að störfum og áður getur, mun m.a. kanna möguleika á að koma upp sérkennslumiðstöð, þar sem m.a. væri sköpuð aðstaða til að halda spjaldskrá yfir öll þroskahömluð börn á landinu. Í þessari n. eiga sæti Adda Bára Sigfúsdóttir, tilnefnd af heilbr.- og trmrn., Jónas R Jónsson tilnefndur af Reykjavíkurborg, og Þorsteinn Sigurðsson, tilnefndur af menntmrn.

Að því er varðar lagasetningu um menntunaraðstöðu fjölfatlaðra barna og unglinga er þess að geta, að í frv. til l. um grunnskóla, sem nú er til endurskoðunar á vegum menntmrn., mun væntanlega verða ákvæði varðandi börn og ungmenni, er þarfnast sérkennslu af ýmsu tagi, bæði þau, er stundað geta nám í almennum skólum með sérstakri aðstoð, og börn, sem vista þarf í sérstökum kennslustofnunum.