12.12.1972
Sameinað þing: 28. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1103 í B-deild Alþingistíðinda. (817)

109. mál, menntun fjölfatlaðra

Fyrirspyrjandi (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir greinargóð svör, og mér þykir vænt um að heyra, að unnið hefur verið að þessum málum. Að sjálfsögðu er sá skóli, sem nú er í gangi, algert bráðabirgðaúrræði og varla þess að vænta, að hann geti skapað þessum börnum eðlilega þjónustu, sem er annars háttar og miklu meiri en venjuleg skólabörn þarfnast. En því er ekki að leyna, að þarna er um virðingarverða tilraun að ræða og ánægjulegt, að úr skuli verða bætt á næsta ári.

Varðandi sérkennslumiðstöðina vildi ég geta þess, að ég held, að það sé mál, sem beri að leggja megináherzlu á, vegna þess að þar muni skapast aðstaða, ekki aðeins fyrir þennan hóp af börnum, sem þurfa sérkennslu, heldur fyrir ýmsa aðra hópa, sem einnig eru mjög þurfandi fyrir aðstoð, eins og nú er ástatt.