12.12.1972
Sameinað þing: 28. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1103 í B-deild Alþingistíðinda. (818)

287. mál, kennsla í sjúkraþjálfun

Fyrirspyrjandi (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Þeim, sem vinna að heilbrigðismálum hér, hefur lengi verið ljóst, að hér er þörf á skóla fyrir sjúkraþjálfara. Skortur á þessum starfshópi hefur verið mjög tilfinnanlegur undanfarin ár, enda þótt hér starfi að jafnaði nokkur fjöldi erlendra sjúkraþjálfa. Íslenzkir sjúkraþjálfar eru flestir menntaðir á Norðurlöndum, og hafa ýmsir aðilar unnið mjög gott starf við að auðvelda þeim aðgang að skólum þar. Árið 1969 ræddi yfirlæknir á Reykjalundi, Haukur Þórðarson, þessi mál ítarlega við ýmsa lækna Landsspítalans og við stjórn Félags ísl. sjúkraþjálfara, og var einhugur um það, að æskilegast væri, að hér yrði um háskólanám að ræða, þar sem sú stefna er nú að ryðja sér til rúms víða um lönd, þótt hún sé ekki framkvæmd enn á Norðurlöndum. Í apríl 1970 ritaði yfirlæknir háskólarektor bréf, þar sem gerð er grein fyrir þörf innlendrar menntunar á þessu sviði og farið fram á, að kannað verði, hver leið skyldi valin til kennslu hérlendis, og þá helzt í formi námsbrautar við Háskóla Íslands. Síðan fóru fram viðræður milli háskólarektors og læknadeildar með þeim afleiðingum, að nefnd þriggja lækna til þess að kanna þessar leiðir var skipuð í des. 1970. Sú n. hefur skilað grg. og ályktun og gerði það í des. 1971. Einnig hefur komið hér á vegum landlæknisembættisins sérfræðingur frá Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni. Hún skoðaði hér stofnanir og kannaði aðstæður allar til kennslu og gaf síðan skýrslu um ferð sína. Ég held, að það sé fullljóst, að hún lagði til, að hér yrði settur á stofn skóli. Tíminn líður og skortur á sjúkraþjálfum er eðlilega mjög mikill og margs konar heilbrigðisstarfsemi getur ekki notið sín vegna þessa skorts. Fjöldi ungs fólks bíður eftir því að fá að hefja slíkt nám, og því er ekki að neita, að þetta nám mun líka auka á fjölbreytnina í háskólastarfinu. Því spyr ég hæstv. menntmrh., hvort nám í sjúkraþjálfun geti hafizt haustið 1973.