23.10.1972
Sameinað þing: 5. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í B-deild Alþingistíðinda. (82)

1. mál, fjárlög 1973

Jón Árnason:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. lauk framsöguræðu sinni fyrir frv. til fjárlaga fyrir árið 1973 með þeim orðum, að hann vonaðist til. að hv. stjórnarandstæðingar hafi ekki gleymt fortíð sinni, þegar þeir fara að tala um fjárlagafrv. nú. Maður skyldi halda, að hæstv. fjmrh. gerði sér einnig grein fyrir því, að það eru fleiri en stjórnarandstæðingar, sem eiga sér nokkra fortið í þessum efnum, og óneitanlega var ræða hæstv. fjmrh. nú fyrir fjárlagafrv. nokkuð hjáróma við þá gagnrýni, sem hann og aðrir fyrrv. stjórnarandstæðingar héldu uppi á viðreisnartímabilinu. Fjárlagafrv. það, sem hér liggur nú fyrir, er annað í röðinni frá valdatöku núv. stjórnarflokka. Það má því gera ráð fyrir, að hér birtist sú efnahagsstefna, ef nokkur er, sem mörkuð er í þessu fjárlagafrv. og segja má, að hæstv. forsrh. greindi frá í stefnuræðu sinni, að sé óbreytt frá því, sem fram kemur í fjárlögum yfirstandandi árs. Það eru hins vegar öllum hv. alþm. enn í fersku minni þau varnaðarorð, sem stjórnarandstaðan beindi til ríkisstj., þegar augljóst var, að hverju stefndi um útþenslu í ríkiskerfinu með afgreiðslu fjárlaga, sem fólu í sér hækkun um hvorki meira né minna en nokkuð yfir 6 millj, kr. Ríkisstj. hlustaði ekki á varnaðarorð stjórnarandstöðunnar, og allt var keyrt í gegn, eins og kunnugt er, án nokkurra breytinga. Nú er enn bætt við yfir 3000 millj. kr., og enda þótt þar sé enn um allstórt stökk að ræða, vantar enn allmikið á, að fjárlagafrv. sýni rétta mynd af greiðsluþörfinni, eins og hún blasir við og miðað við það, að ríkisstj. haldi óbreyttri stefnu. slík útþensla, sem birtist í þessum tveimur fjárlagafrv., þegar tillit er tekið til þess, að breyting á skráningu íslenzku krónunnar hefur ekki átt sér stað, er algengt einsdæmi.

Aðeins tveimur mánuðum eftir að fundum Alþingis lauk á s.l. vori, sá ríkisstjórnin sér ekki annað fært en að grípa til sérstakra bráðabirgðaráðstafana í efnahagsmálum. Í þessum bráðabirgðaráðstöfunum er gert ráð fyrir að koma á verðstöðvun til áramóta, fresta greiðslu 21/2 stigi kaupgjaldsvísitölunnar og binda kaupgjaldsvísitöluna að öðru leyti við 117 vísitölustig til áramóta. Var talið, að þessar bráðabirgðaráðstafanir mundu kosta ríkissjóð um 400 millj. kr. Þessari upphæð hugðist ríkisstj. ná með því að skera niður einstaka útgjaldaliði í fjárlögum, og var þá gefið í skyn af hæstv. forsrh., að haft mundi samráð við undirn. fjvn., á hvaða liðum fjárlaganna niðurskurðurinn skyldi eiga sér stað. Slíkt hefur hins vegar ekki átt sér stað, og er ég ekki út af fyrir sig að kvarta undan því og tel, að það sé fyrst og fremst ríkisstj. að taka ákvörðun um og bera ábyrgð á þessari ráðstöfun sinni. Hins vegar væri fróðlegt að fá betri upplýsingar frá hæstv. fjmrh. heldur en áðan komu fram í hana ræðu um það, á hvaða fjárlagaliðum niðurskurðurinn átti sér stað. Það kom skýrt fram um þessar 100 millj. kr., sem farið var fram á við atvinnuleysistryggingasjóðinn, að yrði frestað greiðslu á, en að öðru leyti vantar upplýsingar að verulegu leyti um, á hvaða fjárlagaliðum þær 300 millj., sem þar er um að ræða, koma niður. Og það væri mjög æskilegt, að það kæmi skýrar fram en kom fram í ræðu hæstv. fjmrh. hér áðan.

Um s.l. áramót kom svo á fjörur ríkisstj. enn eitt vandamálið. Sýnilegt var þá, að öll útgerð í landinu og þá um leið fiskiðnaðurinn var að stöðvast. Ríkisstj. viðurkenndi, að fiskverð yrði að hækka, en jafnframt, að enda þótt verðlag í markaðslöndunum væri hagstæðara en dæmi væru til um áður, þá gæti það ekki staðið undir hækkuðu fiskverði innanlands. Og þegar svo var komið, þá grípur ríkisstj. til þess ráðs að láta Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins greiða það sem á vantar í þessum efnum. Vitanlega er, að það var allt annað verkefni, sem verðjöfnunarsjóðnum var ætlað, heldur en að greiða niður rekstrarkostnað fiskiðnaðarins og útgerðarinnar, sem er í sambandi við vantandi grundvöll undir útgerðinni og fiskiðnaðinum. Hann átti fyrst og fremst að verða til þess að mæta hugsanlegum sveiflum í verðlagi á erlendum mörkuðum á sjávarafurðum. Það hefur verið rætt um það hérna, að þetta séu um 88 millj. kr., var talað um hér af hæstv. sjútvrh., reynt að gera lítið úr þessu dæmi miðað við það, hvað vandamálið í rauninni er stórt. Og til þess að gera sér nokkra grein fyrir, hvað hér er um stórt og alvarlegt vandamál að ræða, sem verður að ráða lausn á strax upp úr næstu áramótum, þá er rétt að fara hér yfir þann lista, sem nú hefur verið gengið frá um það, hvað á að koma til viðbótar söluverði afurðanna á erlendum markaði til þess að standa undir þessu á þessu tímabili, og það eru ekkert litlar upphæðir í hverri einingu sem þar er um að ræða, miðað við það, sem greitt er núna. Það er t.d. í fyrsta lagi, að það á að greiða úr verðjöfnunarsjóði á hvert einasta kg. af frystum þorskflökum 9 kr. úr sjóðnum. Á ýsu á að greiða 5 kr. á hvert flakakg. fram til áramóta. Á steinbít á að greiða 11 kr. á hvert kg úr verðjöfnunarsjóðnum, á karfaflök hvorki meira né minna en 14 kr. á hvert einasta kg, ufsa 11 kr., á löngu 8 kr., grálúðu 10 kr. og heilfrystan fisk, eins og hann kemur fyrir upp úr sjónum, á að greiða 4 kr. á hvert kg. Það er augljóst mál, að þessi upphæð, sem núna er fundin, 88 millj. kr., byggist, eins og reyndar hefur komið fram, fyrst og fremst á því, að á þessu tímabili er ekki gert ráð fyrir því, að um mikið aflamagn verði að ræða. En þegar við hugsum til alls vertíðaraflans og þegar á að greiða allt upp í 14 kr. á hvert flakakg. af frystum fiski, þá sjá allir heilvita menn, að hér er um mjög stórt vandamál að ræða, vegna þess að til viðbótar þessu á eftir að koma, eins og var upplýst hér áður í þessum umræðum, bað eiga eftir að koma 5 vísitölustig, sem falla strax um áramótin, og síðar á árinu koma 7 vísitölustig, sem búið er að semja um, að eigi að koma til framkvæmda 1. marz. Og það er vitað, að sjávarútvegurinn, úr því hann er ekki við því búinn að taka á sig neina verðhækkun núna, verður það ekki frekar þá.

Í dag byggist afurðaverðið á hærra söluverði erlendis heldur en dæmi eru til um nokkurn tíma áður. Það má því vart búast við því, að bætt afstaða sjávarútvegsins, útgerðarinnar eða fiskiðnaðarins, kæmi til með að jafna sig með því, að það verði enn hægt að hækka fiskverð á erlendum mörkuðum. Enda þótt við viljum vera bjartsánir, þá eigum við að vera það raunsæir að gera okkur grein fyrir því, að sagan frá fyrri árum geti endurtekið sig. Það átti sér stað á árunum 1967 og 1968, að þrátt fyrir óvenjumikinn aflabrest, sem þá átti sér stað bæði á síldveiðum og bolfiskveiðunum, borskveiðunum, þá féllu afurðir þessarar útflutningsvöru verulega í verði. Hins vegar kann að vera, að það hafi m.a. verið vegna þess, að við séum ekki það stórir, þó að við teljumst stór framleiðsluþjóð í sjávarútvegi, að það hafi getað haft nein úrslitaáhrif á markaðsverðið í viðskiptalöndunum. En svona var það, og því skyldi ekki vera ástæða til þess að ætla, að slíkt geti endurtekið sig öðru sinni. En ef verður gengið áfram í þá átt, sem er gert, að taka úr verðjöfnunarsjóðnum, þannig að þegar kemur fram á vorið og vertíð lýkur, þá verði að mestu leyti búið að tæma það, sem í honum er, hvað gætum við þá gert, ef til þess kæmi, að verðlag lækkaði á okkar sjávarafurðum? Ég held, að þjóðin stæði þá höllum fæti og þá hafi verið illa farið með þær skynsamlegu ráðstafanir, sem gerðar voru á viðreisnartímanum og einmitt voru byggðar upp á því tímabili, þegar verðlag stóð vel eins og nú og aflabrögð voru sæmileg.

Við höfum í okkar þjóðfélagi fleira en verðjöfnunarsjóð. Það hefur verið rætt um það nú að undanförnu, að erfiðleikar útgerðarinnar stafi m.a. af minnkandi afla og lakari samsetningu í sjávarafurðunum en áður hafi átt sér stað. Það er enginn vafi á því, að minnkandi afli hefur sín áhrif í þessum efnum. En til þess að mæta því höfum við annan sjóð, sem heitir Aflatryggingasjóður, og það er fyrst og fremst hans að grípa inn í, þegar slíkt ástand skapast í okkar landi í sambandi við sjávarútveginn eins og nú hefur átt sér stað. Og vitanlega átti hann að vera fær um það, Aflatryggingasjóðurinn, að hlaupa hér undir bagga í sambandi við minnkandi afla, en ekki ganga á þennan sjóð, sem átti allt öðru hlutverki að gegna. Á þetta vil ég benda, m.a. með tilliti til þess, að ríkisstj. haldi ekki áfram að byggja rök sín á svo fölskum forsendum sem hún gerir í þessum efnum. Hitt er annað mál. að vaxandi verðbólga í landinu, og aukinn tilkostnaður á öllum sviðum, eins og hæstv. forsrh. reyndar viðurkenndi í sinni ræðu, er orsök þess m.a., hvernig komið er fyrir sjávarútveginum í dag. Ég verð að segja það, að því verður hins vegar ekki trúað, að hæstv. ríkisstj. finni ekki aðra leið til þess að leysa rekstrarvanda sjávarútvegsins um n.k. áramót, þegar til þess kemur að fá rekstrargrundvöll fyrir sjávarútveginn á næsta ári.

Eins og ég sagði áðan, þá er gert ráð fyrir því í fjárlfrv., að kaupgjaldsvísitalan haldist allt næsta ár, miðað við 117 vísitölustig. Í fjárlfrv. eru hins vegar engir möguleikar, eins og það liggur hér fyrir, eða greiðsluafgangur til þess að mæta þeim kostnaði, sem af því mun leiða að halda kanpgjaldsvísitölunni óbreyttri. Það er því sýnilegt, að einhverra ráða verður að leita til þess að halda áfram. Það verða að skapast einhverjir tekjumöguleikar eða tilfærslur í efnahagsmálunum, til þess að hægt verði að byggja á því, — sem fjárlagafrv. byggir, að miða við 117 vísitölustig.

Hæstv. fjmrh. sagði hér áðan í ræðu sinni, að við afgreiðslu síðustu fjárlaga var reynt að draga úr niðurgreiðslunum, og var það harðlega gagnrýnt af stjórnanandstöðunni. En síðan sagði hæstv. ráðherra: „Það reyndist hins vegar ekki unnt að draga úr niðurgreiðslunum eins og ákveðið var í fjárlögum yfirstandandi árs“ Ákvað ríkisstj. því, eins og fram kemur í aths. við frv., þegar í upphafi þessa árs að láta ekki koma til framkvæmda þá ákvörðun Alþ., sem tekin var við samþykkt fjárlaga fyrir árið 1972, þ.e. að lækka niðurgreiðslurnar á mjólkinni. Þessi fjárlagaliður hækkar því fjárlagafrv. nú um 375 millj, kr., og þá er gert ráð fyrir óbreyttum niðurgreiðslum að undanskildum þeim niðurgreiðslum, sem komu til framkvæmda í júlímánuði s.l. í sambandi við bráðabirgðaráðstafanirnar í efnahagsmálunum. En síðan hafa enn komið til niðurgreiðslur úr ríkissjóði um s.l. mánaðamót í sambandi við hækkað fiskverð. Þá er enn gripið til þess að greiða niður til þess að halda kaupgjaldsvísitölunni óbreyttri, þ.e. í 117 vísitölustigum. Fiskverðið hækkaði um 15%, svo sem kunnugt er. Hæstv. ráðh. sagði einnig um niðurgreiðslurnar, að það væri takmörk fyrir því, hvað langt mætti ganga í niðurgreiðslum, og þá að sjálfsögðu sérstaklega í einstökum greinum niðurgreiðslnanna.

Það er rétt að gera sér grein fyrir þeim valkosti, sem ríkisstj. tók að þessu sinni, þegar hún ákvað niðurgreiðslurnar til þess að mæta hækkuninni vegna fiskverðsins. Fiskur er almenn neyzluvara á Íslandi, svo sem kunnugt er. Það kemur því hart niður á öllum almenningi, þegar verð á fiski hækkar. En þá kemur til álita hjá hæstv. ríkisstj., á hvern hátt er unnt að sleppa sem ódýrast peningalega í sambandi við þessar niðurgreiðslur. Og það er gott dæmi um það, hvað greiðslur úr ríkissjóði til að halda niðri kaupgjaldsvísitölu geta stundum verið óraunhæfar, eins og hæstv. fjmrh. réttilega gat um, að það eru takmörk fyrir því, hvað má fara í einstökum efnum til þess að halda niðri kaupgjaldsvísitölunni að greiða niður einstaka liði. Sem sagt, ríkisstj. tók þá ákvörðun að hækka fjölskyldubætur, og það var vegna þess og þess eins, að það er alveg öruggt, að það kostaði ríkissjóð minnst. En hvernig kemur svo fiskverðshækkunin niður á öðrum en þeim, sem fá fjölskyldubætur? Ætli ríkisstj. hafi gert sér grein fyrir því? Skyldi kaupmáttur öryrkjanna, sem fá lágmarkslaun, öryrkja, sem fá ekki fjölskyldubætur, vera sá sami og áður? Eða skyldi kaupmáttur gamla fólksins, — það borðar fisk eins og aðrir, en fær kannske ekki fjölskyldubætur, — ætli kaupmáttur þess sé sá. sami og hann var, áður en fiskverðið hækkaði? Nei, það væri hollt fyrir þessa ríkisstj. hinna vinnandi stétta og hinna lægst launuðu og þeirra, sem búa við erfiðust kjör í okkar landi, — það væri gott fyrir ríkisstj. að gera sér grein fyrir, hvaða áhrif slíkar ráðstafanir, sem hún hefur nú farið út í í þessum efnum, hafa einmitt á þessa þegna þjóðfélagsins.

Nei, það er því miður oft þannig, að það er hægara að dæma aðra fyrir verkin, sem unnin eru, heldur en að standa við loforð eða ádeilur eða gera betur en aðrir gerðu, sem deilt var á áður, og það hefur sannazt á núverandi stjórnarflokkum.

Það er að sjálfsögðu margt í þessu fjárlagafrv., sem þyrfti og væri ástaeða til að ræða sérstaklega, ýmis smærri atriði. En slíkt á að sjálfsögðu sér alltaf stað, þegar fjárlagafrv. er lagt fram, að það er eitt og annað af smærri atriðum, sem vantar inn í fjárlagafrv., þegar það er lagt fram á Alþ., og við það er ekkert að athuga sérstaklega. Enda er það svo, að minni málin, ýmis minni mál, sem vitanlega verða nokkur fjárveitingaupphæð, þegar til samans kemur, það eru ekki þau, sem skipta sköpum í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna. Það er stefnan, sem tekin er, þegar ákveðið er að byggja hvert fjárlagafrv. upp. Það er hún, sem ræður hér mestu um, og það er varla á færi hv. alþm. að koma með þær brtt. við það fjárlagafrv., sem lagt er fram. Þeir hafa ekki aðstöðu til þess að móta neina ákveðna stefnu með tillögugerð, sem getur haft nein úrslitaáhrif til breytinga í þessum efnum. Enda þótt það hafi verið reynt við afgreiðslu síðustu fjárlaga, þá er það staðreynd, sem við horfumst í augu við, að á það var ekki hlustað á sínum tíma. Samt sem áður stóð ríkisstj. frammi fyrir því vandamáli aðeins tveimur mánuðum eftir að þingfundum lauk á s.l. vori, að hún varð að fara í þá átt, sem hafði verið bent á, að draga saman seglin. Það voru engar aðrar leiðir til þess að halda atvinnuvegunum gangandi. Enda þótt það segi í bráðabirgðaráðstöfunum, að það sé vegna minnkandi afla og óhagstæðrar samsetningar í sambandi við aflamagnið, þá vita allir, að það er þenslan, það er síaukinn kostnaður á öllum sviðum, sem ræður úrslitum í sambandi við rekstur atvinnufyrirtækjanna.

Það eru nokkur smáatriði, sem ég hirði ekki um að nefna, sem ég hef komizt að raun um í sambandi við lestur fjárlagafrv. og ég tel sjálfsagt, að fjvn. muni koma með till. um, þegar hún hefur lokið við athugun sína á frv., áður en það kemur hér til umr. aftur á Alþingi. En ég vil taka undir það, sem kom fram hjá síðasta hv. ræðumanni, og ég þarf ekkert að spyrja í þeim efnum, eins og hann spurði, í sambandi við fjárveitingar til fiskleitar vegna humarveiða, rækju- og annarra skelfiskveiða, það er ekki eyrir í þessu frv. til þess að mæta þeim kostnaði, og má það merkilegt heita, að ríkisstj. skuli leggja fram frv. á Alþingi, þegar um er að ræða jafnþýðingarmikla atvinnugrein og þessi þáttur sjávarútvegsins er orðinn, og ætla ekki til hennar eina einustu krónu, eins og er í þessu frv.

Það er, eins og fram kemur í fjárlagafrv., aðeins ætlað fé til þess að standa undir útgerð þriggja fiskileitarskipa, og við vitum, hver skipin eru. Það eru Bjarni Sæmundsson, Árni Friðriksson og mótorskipið Hafþór. Þetta eru allt saman svo stór skip, að þeim verður á engan hátt komið við sem fiskileitarskipum á grunnmiðum. En þessar fiskveiðar eru einvörðungu stundaðar á grunnmiðum, og það er nauðsynlegt að halda áfram leit að þessum fiskstofnum, sem hafa leitt af sér svo mikla björg í bú, sérstaklega í sambandi við skelfiskinn, að menn gera sér vart grein fyrir því í dag, hvað hér er um mikið hagsmunamál að ræða, ekki fyrir sérstök byggðarlög ein út af fyrir sig, heldur fyrir þjóðina alla. Og það má alveg merkilegt heita, að ríkisstj. skyldi vera svo blind að leggja fram fjárlagafrv., þar sem ekki er ætluð króna til þess að sinna þessu nauðsynjamáli á nokkurn hátt.

Það hefur á undanförnum árum verið fjárveiting í þessum efnum til þess að leigja skip, vegna þess að við höfum ekki yfir að ráða sérstökum skipum, sem ætluð eru til þess. En það er vissulega full þörf á því. Við eigum að byggja hagstæð skip fyrir þessa starfsemi og afhenda okkar fiskifræðingum. Það er, eins og ég sagði áðan, ekki aðeins til þess eins að leita að nýjum fiskimiðum. Okkur er brýn þörf á því að fylgjast með stofninum og sjá, hvað hann þolir. Hér er um mjög alvarlegt og mikið hagsmunamál að ræða, og það getur alveg skipt sköpum í sambandi við nýtingu á þessum afla í framtíðinni, að hér verði skynsamlega farið að, ekki aðeins að leita að nýjum miðum, heldur að sá fiskstofn, sem fundinn er, verði hagnýttur á skynsamlegan hátt. En við getum ekki fylgzt með því, nema því aðeins að við veitum nokkurt fjármagn til þess og sköpum sérfræðingum og fiskifræðingum aðstöðu til þess að vinna það nauðsynjaverk.

Ég er ekki í neinum vafa um það, að hæstv. ríkisstj. og hæstv. fjmrh. hafa gert sér grein fyrir því að fjárlagafrv., eins og það liggur fyrir hér í dag, er engin endanleg mynd og ekkert í námunda við það, sem fjárlög koma til með að líta út, þegar Alþingi hefur afgreitt þau á þessu þingi. Þar vantar, eins og fram hefur komið í þessum umr., geysilega stórar upphæðir. Að ætla ekki krónu til þess að halda áfram niðurgreiðslum, en ætla samt að byggja efnahagslífið á næsta ári á því, að vísitalan haldist í 117 stigum, það finnst mér vera svo fáránlegt, að það sé varla hægt að setja slíkt fjárlagafrv. hér inn á Alþingi án þess að gera einhverja grein fyrir því, hvað sé hugsað. Það geta sjálfsagt ýmsar ráðstafanir komið til viðbótar, sem hægt er að gera til þess að skapa einhvern rekstrargrundvöll. Það getur vel verið, að ríkisstj. hugsi sér að auka tekjurnar í ríkissjóð með nýjum skattaálögum. En ég held, að það væri gott fyrir hæstv. ríkisstj. að gera sér grein fyrir því, hvað hefði gerzt um síðustu kosningar, sem fram fóru fyrir tæplega tveimur árum, ef hún hefði þá í hreinskilni sagt kjósendunum; við ætlum nú að taka við, ef við fáum meiri hluta, en við erum ákveðnir í því á næstu tveimur árum að bæta a.m.k. 10 þús. millj. kr. í nýjum álögum á ykkur, kjósendur góðir. — Hvað halda þessir hæstv. ráðherrar, að þeir hefðu fengið mörg atkvæði, ef þeir hefðu sagt frá þessu fyrir fram, hvað þeir hyggðust og hvað þeir ætluðu að gera? Þeir hljóta að hafa haft einhverja hugmynd um það, hvað þeir ætluðu að gera í efnahagsmálunum. Svo mikið voru þeir á þremur kjörtímabilum samfleytt búnir að gagnrýna og sannfæra sjálfa sig um, að svona ætti ekki að fara að, eins og viðreisnarstjórnin og fyrrverandi stjórnarflokkar héldu á efnahagsmálunum. Þeir héldu langar ræður á hverju einasta þingi við afgreiðslu fjárlaga um það, hvað þessi stefna væri háskaleg, sem viðreisnarstjórnin hélt í efnahagsmálum, og vitanlega gátu þeir ekki haldið slíku fram og komið fram fyrir kjósendur, þessir hv. ræðumenn, þessi hæstv. ríkisstjórn og þeirra stuðningsflokkar, er þeir voru að deila á fyrrv. ríkisstj. fyrir stefnu hennar í efnahagsmálum, ef þeir réðu ekki yfir einhverjum haldbetri og betri úrræðum í þeim efnum. Hvað hefur svo komið á daginn? Ég er hræddur um, að þeir hefðu ekki fengið mörg atkvæði, ef þeir hefðu sagt kjósendunum fyrir fram frá þessari staðreynd, að yfir 10 þús. milljónir skyldu verða lagðar á þá, ef þeir fengju að ráða og mynda ríkisstj. að kosningum loknum. En þetta er það, sem blasir við þjóðinni í dag, þetta er sannleikur málsins.

Nú hefur hæstv. ríkisstj. snúið sér til sérfræðinga. Hún hefur gefizt upp. Hún hefur upplýst það fyrir þjóðinni, að hún hafi engin ráð sjálf, hún viti ekkert, hvað eigi að gera í þessum málum. Og það er glöggt dæmi um það, að ríkisstj. er búin að upplýsa þetta, að hún hefur skipað sérstaka n. sér til aðstoðar núna eftir eitt ár. Þegar hún er búin að hafa þessi mál til meðferðar í heilt ár, þá fyrst gerir hún sér grein fyrir því, að hún hefur enga leið út úr ógöngunum. En nú er dæmið orðið allt miklu erfiðara heldur en það var, þegar þeir tóku við. Ef þeir hefðu haft vit á því að viðurkenna það strax í upphafi, að þeir hefðu ekkert vit á þessum málum og þess vegna þyrftu þeir að leita til annarra manna, þá hefði þetta kannske verið auðveldara, ef þeir hefðu borið þá gæfu til þess að fara eftir því ,sem þeir vísu menn hefðu lagt á ráðin um að gera. Nei, það var ekki því að heilsa, því miður. Það var okkar ógæfa, íslenzku þjóðarinnar, að þeir vildu ekki viðurkenna þetta. Þeir streittust við í heilt ár að leita að einhverjum leiðum. Þeir tæmdu flesta sjóði. Það er aðeins verðjöfnunarsjóðurinn, þeir hefðu sjálfsagt getað gripið til hans líka með brbl., eins og svo margs annars, sem þeir hafa gert á þessu tímabili. Nú grípa þeir til verðjöfnunarsjóðsins, þótt það sé engin heimild samkvæmt gildandi Íögum að láta hann greiða þetta, og það viðurkenna þeir með því, að þeir leggja núna fram lagafrv., sem á að heimila að greiða þetta úr sjóðnum, sem annars var ætlað allt annað verkefni, eins og allir vita. En svona eru þessi mál, og svo er komið sem komið er, og ríkisstj. hefur loksins viðurkennt það sjálf, að hún hafi ekkert vit á þessum málum, og þess vegna hefur hún leitað til sérfræðinganna eftir þó þetta langan tíma. Það tók hana meira en ár. Hún gat haldið upp á ársafmælið, áður en hún var búin að sannfæra sjálfa sig, að hún réði ekki við þessi mál, og varð að leita til sérfræðinganna. En þá skulum við vona það, ríkisstj. beri gæfu til þess, ef þessir vísu menn, sem eru viðurkenndir margir hverjir að hafa mikið vit á þessum málum, ef þeir koma með raunhæfar till. um úrbætur og ráðleggingar til ríkisstj. í þessum efnum, að hún beri þá gæfu til þess að fara að þeirra ráðum, þegar þar að kemur.