12.12.1972
Sameinað þing: 28. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í B-deild Alþingistíðinda. (820)

287. mál, kennsla í sjúkraþjálfun

Fyrirspyrjandi (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir upplýsingar hans. Mér þykir leitt að heyra, að hann skuli ekki geta ákveðið það hér með, að hafin gerði kennsla í þessari námsbraut í haust, vegna þess að ég held, að hér geti ekki verið um neitt stórfyrirtæki fyrir háskólann að ræða. Ég hef stundum sagt, að mér þyki mjög óeðlilegt, að við, sem getum menntað hæði lækna og lögfræðinga, skulum draga það árum saman, vitandi nauðsynina að mennta sjúkraþjálfa. Þar að auki er vitað, að margir, sem fara í læknadeildina, ná ekki prófi í fyrsta hluta, og fyrir þá liggur mjög bein braut yfir í sjúkraþjálfun, margir þeirra mundu æskja eftir slíku námi. Það hefur komið til greina, að sameiginleg kennsla færi fram fyrir sjúkraþjálfa og lækna fyrstu árin. Þess vegna væru þeir, sem ekki ná fyrsta hluta prófsins, búnir að stytta sér leiðina með því að snúa sér að sjúkraþjálfaranámi. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir neinum kostnaði við þetta nám í fjárl., og má þá búast við því, að þetta dragist enn lengur. Mér þykir mjög leitt til þess að vita, ef það á að fara svo, að við þurfum enn að bíða, vegna þess að sá skortur, sem hér er á sjúkraþjálfum, kostar ríkissjóð örugglega mikið. Þar að auki kostar að sjálfsögðu allmikið að hafa nokkurn fjölda, — ég held, að það séu 10 nú í augnablikinu, — við nám í þessum fræðum erlendis.