12.12.1972
Sameinað þing: 29. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1108 í B-deild Alþingistíðinda. (824)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Þegar ég kveð mér nú hljóðs utan dagskrár í upphafi fundar í Sþ., munu eflaust flestir gera ráð fyrir því, að ég hyggist ræða þann efnahagsvanda, sem nú er að sjálfsögðu efst í huga hv. þm. og raunar alþjóðar. En svo er ekki. Það er um fleiri vandamál að ræða í íslenzku þjóðfélagi en efnahagsvandamál. Fyrir nokkrum vikum beindi ég fsp. til hæstv. dómsmrh. um refsimál og fangelsismál. Hæstv. ráðh. gaf mjög greinargóð svör við fsp. mínum, og svör hans og þær umr., sem hér urðu, vöktu verðskuldaða athygli alþjóðar. Eitt af því, sem ég reyndi að vekja athygli á í fáum orðum, sem ég sagði um málið hér, og hlaut staðfestingu hæstv. ráðh í svörum hans, var, að sérstakt vandamál væri því fylgjandi, að hér væru í þjóðfélaginu fjölmargir svokallaðir síbrotamenn, sem hefðu á herðum sér fangelsisdóma, sem ekki hefði verið hægt að láta fullnægja, þannig að þeir gengju lausir, sem svo er kallað, og gerðust þá oft brotamenn að nýju. Það kom einnig fram í þessum umr., að afbrot unglinga væru óeðlilega tíð. Um það var rætt og um það sammæli og fullur skilningur af hálfu hæstv. dómsmrh., að þar væri um alveg sérstakt vandamál að ræða.

Nú um síðustu helgi gerðust atburðir, sem vekja á ný sérstaka athygli á þessu stóralvarlega vandamáli. Fjölmiðlar hafa greint frá því, að síðasta helgi hafi orðið ein mesta afbrotahelgi, sem sögur fara af á síðustu árum. Og það hef ég fengið staðfest af öðrum aðilum, sem vita nákvæmlega, hvað hefur gerzt, að þetta er sízt ofmælt. En fjölmiðlar hafa þegar greint frá því, þannig að það er á alþjóðarvitorði, að þeir, sem aðgangsharðastir reyndust um s.l. helgi, voru tveir unglingar, 16 og 17 ára, og athæfi þeirra með þeim hætti, að í raun og veru var ekki um það að ræða, sem við venjulega köllum afbrot, þ.e.a.s. það var ekki fyrst og fremst um þjófnað að ræða, heldur um skemmdaverk. Það kemur og í ljós og hefur verið staðfest af fjölmiðlum, að þeir unglingar, sem þegar hafa verið teknir höndum af lögreglunni, hafa á herðum sér marga fyrri dóma. Það kemur hér í ljós eins og á góma bar í fsp.-tíma fyrir nokkrum vikum, að ýmislegt af því, sem nefnt er ,,afbrot“, — ég segi afbrot í gæsalöppum, og dæmt er fyrir, er í raun og veru ekki afbrot í venjulegum skilningi, heldur sjúkdómseinkenni eða uppeldisvandkvæði, sem að sjálfsögðu þarf að taka með allt öðrum hætti á heldur en ef um afhrot í venjulegum skilningi refsilaga er að ræða. Ég tel sem sagt, að þessi helgi hafi undirstrikað nauðsyn þess að taka með alveg sérstökum hætti á þessum málum og veita þeim enn þá meiri athygli heldur en átt hefur sér stað. Það kom fram í þeim umr., sem hér fóru fram, að það er að sjálfsögðu, eins og við var að búast, fullur skilningur af hálfu hæstv. dómsmrh. og yfirvalda á því, að hér er um sérstakan vanda að ræða og auðvitað mjög vandmeðfarinn. En ég tel, að atburðir síðustu helgar — og það kann að eiga eftir að koma fleira í ljós í sambandi við þá en fjölmiðlar þegar hafa greint frá, — séu áminning til okkar allra, til löggjafarsamkomunnar, til stjórnvalda, til embættismanna, um að sinna því máli, sem hér er um að ræða, í miklu ríkara mæli en hingað til hefur verið gert. Ég tel hér vera um svo stórt mál að ræða, að full ástæða sé til þess, að á það sé minnt hér á hinu háa Alþ., til þess að allur almenningur í landinu geri sér þess grein, að löggjafarsamkoman viti, að hér er um mikinn vanda að ræða, sem taka verður á með öðrum hætti en venjulegu refsimáli. Hér er auðvitað að ræða refsivert athæfi, þar sem um innbrot og þjófnað er að ræða, en ekki fyrst og fremst um það, heldur um heilbrigðisvandamál og uppeldisvandamál, sem eru ekki eingöngu verkefni lögreglu, heldur miklu fleiri aðila í þjóðfélaginu.

Þess vegna minnist ég þessa máls hér, að ég vildi undirstrika það, sem ég sagði um þetta mál, líka af gefnu tilefni, fyrir nokkrum vikum, að þau yfirvöld, sem hlut eiga að máli, lögregluyfirvöld og dómsmrn., heilbrigðisyfirvöld og barnaverndaryfirvöld, taki höndum saman með skipulegum hætti til þess fyrst og fremst að forða þeim unglingum, sem hér eru á glapstigum, frá því að halda áfram að ganga glapstigu og einnig að forða þjóðfélaginu frá því mikla böli, sem atburðir s.l. helgar bera vitni um.