23.10.1972
Sameinað þing: 5. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í B-deild Alþingistíðinda. (83)

1. mál, fjárlög 1973

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson:

) Herra forseti. Út af ræðu hv. 2. þm. Vesturl., sem var að ljúka hér máli sínu og fór um stefnu og störf ríkisstj. mörgum og stórum orðum, vil ég minna hv. þm. á það, að það var einn af þm. Sjálfstfl., maður, sem var fjárhagsnefndarmaður, doktor í hagfræði, sem lýsti því yfir í lok síðasta kjörtímabils, að stefna viðreisnarstjórnarinnar væri gengin sér til húðar, það væri hrollvekja að hugsa til þeirra verkefna, sem fram undan væru í efnahagsmálum, og gengislækkunarstefnu viðreisnarstjórnarinnar væri ekki lengur gjaldgeng. Þetta veit hv. 2. þm. Vesturl. og hefði gjarnan mátt muna, þegar hann ræddi hér um þessi mál áðan. Ég vil líka segja það í sambandi við ræðu hans, þegar hann sagði um sjávarútveginn, að hann yrði ekki búinn undir það að taka við 6% kauphækkunum 1. marz í vetur, fyrst hann væri það ekki núna, að taka við því, sem þá kæmi, hvað má þá segja um það, sem gert var haustið 1970. Þá var kaupgjaldið lágt, svo lágt, að það var almennt viðurkennt, að það væri óhugsandi, að það yrði hægt að halda því þannig áfram. Þá aflaðist vel og hækkandi verðlag var á fiski. Samt voru atvinnuvegirnir ekki taldir undir það búnir af Viðreisnarstjórninni að taka við fullri vísitölu, ott þess vegna var verðstöðvunin sett á og ríkissjóður látinn bera baggann. Ég hel, að það sé hollt fyrir þá hv. alþm., sem nú tala hátt um það, sem nú er að gerast, það sé aðeins verk núv. ríkisstj., að minnast þess, hvað þeir urðu sjálfir að gera, áður en til þess kom að leiðrétta kaupgetu í landinu og samræma á hinum almenna vinnumarkaði í samræmi við það, sem nauðsyn bar til að gera.

Út af því, sem þessi hv. þm. sagði um niðurgreiðslurnar, þá er það svo um fjölskyldubætur sem þátt í niðurgreiðslum, að sá þáttur var tekinn upp af viðreisnarstjórninni, og það er þess vegna aðeins að fara í kjölfar hennar, þegar slíkar bætur eru auknar. En ástæðan til þess, að hætt var við að greiða niður fiskinn á sínum tíma, var sú, að það var talið, að það væri afskaplega erfitt að fylgjast með því, hvort niðurgreiðslan væri raunverulega niðurgreiðsla á neyzlufiski í landinu. Þetta held ég, að hv. fyrirrennari minn, 2. þm. Norðurl. e., muni hafa upplýst hér hv. Alþ., og það er grundvöllur fyrir því, að það er ekki talið hyggilegt að taka upp niðurgreiðslu á fiski.

Út af því, sem þessi hv. þm, talaði um hafrannsóknirnar og skelfiskinn, þá verð ég að segja það, að það mun ekki reynast erfitt verk, að leiðrétta það, ef niður hefur fallið. En ég hygg að það sé svo, þó að ég hafi ekki fulla vitneskju um það, að gert sé ráð fyrir því, að sú fjárveiting, sem þar er um að ræða, sé miðuð við fulla útgerð á skipunum allt árið, þessum þremur, en það sé hins vegar ekki reiknað með, að svo verði, og leiguskip komi þar inn á milli. Ef þessi skilningur minn er rangur, sem ég hef ekki haft aðstöðu til að athuga, þá mun þetta áreiðanlega verða leiðrétt.

Út af því, sem hv. 5. þm. Reykn. sagði hér áðan, þá var margt skemmtilegt og gott, sem kom fram í þeirri ræðu. Eitt af því, sem hann sagði, var, að það væri gaman að byggja stóra skóla á þremur árum, ósköp ánægjulegt að geta gert það. En þetta voru að hans dómi loftkastalar, sem menn gætu ekki leyft sér í raun. En ég má til með að segja þessum hv. þm. það, fyrst hann man það ekki, að í lögum er, að það skuli byggja gagnfræða- og barnaskóla á 3 árum. Þetta eru lög, sem voru sett af þáverandi menntmrh., formanni Alþfl., Gylfa Þ. Gíslasyni. Ég og fleiri, sem vöruðum við þessu á sínum tíma og höfum gert enn þá, höfum verið taldir of íhaldssamir, óþarflega íhaldssamir, því að þetta væri framkvæmanlegt. Minn skilningur er jafn nú og hann var þá, að þetta væri lítt framkvæmanlegt, þó að ekki væri tekið tillit til annars en þeirra möguleika, sem heimabyggðirnar höfðu til þess að hrinda svo stórum verkum í framkvæmd.

Hv. þm. talaði um bremsunefndina, og ég get sagt honum það til ánægju, að hún hefur verið endurvakin. Hún starfaði eitthvað á viðreisnarárunum, þó hygg ég, að það hafi verið heldur lítið, því að það var svo þá, að einn af ráðherrum þeirrar ríkisstj. sat í bremsunefndinni, og það hefði ég talið að væri lítt framkvæmanlegt, að einn ráðh., hver sem hann er, gæti átt sæti í þeirri n.

Ég skal ekki fara langt út í það að ræða við hv. þm. Jón Ármann um skattalögin, en ég verð að segja það, að mér hefur fundizt það ömurlegt hlutverk fyrir flokk, sem kallar sig Alþfl. og taldi sig a.m.k. á tíma vera forsvari alþýðunnar, að það skyldi verða hans hlutverk í skattamálum að greiða atkv. með því, að hlutafjáreigendur fengju skattfrjálsar vissar tekjur af hlutafjáreign sinni og önnur slík fríðindi, en skyldi svo lenda í því að greiða atkv. gegn því, að persónuskattar væru felldir niður, sem koma þó verst við þá, sem minnstar hafa tekjurnar. Svona er nú lífið skrýtið, að Alþfl. skyldi lifa þetta. Og ég hefði a.m.k. á vissu skeiði ævi minnar viljað óska honum skárra hlutverks en þetta.

Hv. þm. sagði, að væri verið að hringja í lífeyrissjóðina og eggja þá á að kaupa spariskírteini ríkissjóðs. Það má vel vera, að þetta sé svo, ég veit það ekki. En ég lít á þetta sem umhyggju fyrir lífeyrissjóðunum, svo að þeir eigi möguleika til að verðtryggja fé sitt og geti því síðar meir borgað sínum félagsmönnum lífeyri með verðtryggingu, eins og opinber sjóður ríkisins gerir.

Þetta með hlutfallareikninginn og allt það er nú nýtt, ef hann er orðinn sá reikningur, sem ekki má nota. En í flestum tilfellum hugsa ég, að hv. þm. Jón Ármann noti hlutfallareikninginn í sambandi við sin viðskipti o.fl.

Þá kem ég að hv. 2. þm. Norðurl. e. Hann flutti hér langa ræðu áðan, og kenndi þar margra grasa. Ég verð að segja, að það eina, sem verkaði hálfilla á mig, og hef ég ekkert við því að segja, þó að hv. 2. þm. Norðurl. e. gagnrýni mína fjármálastjórn, eins og ég gerði við hann, en það var það, þegar hv. þm. Magnús Jónsson talaði um, að fjárl. hefðu hækkað í fyrra um 50%. Ég ætla honum annan hlut en mörgum öðrum þm., af því að ég veit, að hann þekkir hér vel til og kann þar vel með að fara. Þetta var það eina, sem mér líkaði mjög miður, að hann skyldi setja dæmið þannig upp. Nú verð ég að segja það eins og er, að hv. þm. Magnús Jónsson man vel eftir því, þegar fjárl. voru afgreidd haustið 1970, — það var daninn eftir að hann skrifaði undir samningana við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja um kaup og kjör þeirra, — og þá var hann búinn að áætla, hvað þetta mundi kosta á árinu. Ég hef alltaf talað um það svo, að þessar 270 millj, hafi átt að nægja til að mæta þessu. En ég hygg, að ég muni það rétt, að það, sem raunverulega var gert ráð fyrir í þessu sambandi, var, að 220 millj. mundu nægja, því að 50 millj. mundu verða greiddar af ríkisfyrirtækjum af fé, sem ekki kæmi beint inn í ríkiskassann, og þannig væri þar um ofurlítinn afgang að ræða. Nú skiptir þetta ekki máli. En er sanngjarnt, er hægt að hugsa sér, að þegar útkoman úr þessu dæmi verður 577 millj., er þá hægt að líta á það eins og þetta hafi ekki verið með í sambandi við fjárlagaafgreiðslu og ríkisreikning fyrir árið 1971? Er hægt að hugsa sér, að þessi ákvörðun, svo stór og mikilvæg sem hún er. sé hægt annað en að færa yfir á reikning hv. 2. þm. Norðurl. e.? Ég sé ekki, að það sé fært.

Ég nefni annað dæmi. Það eru greiðslurnar, sem voru til ríkisspítalanna, m.a. vegna rekstrarhalla frá fyrri árum, sem var rúmar 80 millj. Ég lit einnig á það, að þetta eigi að skrifa á reikning viðreisnarstjórnarinnar. Sama er að segja um flugmálin. Ég er sannfærður um það, að þáv. flugmrh. hefur ekki talið það annarra manna verk að útvega 33 millj., sem þá voru settar í flugmálin. En ég vil færa það útgjaldamegin á reikning þessara hv. þm. Ég minnist þess einnig, að við fjárlagaafgreiðsluna 1970 vegna ársins 1971 voru lækkaðar útflutningsuppbætur um 100 millj. frá því, sem fjárlagafrv. gerði ráð fyrir. Rökstuðningur fyrir þessari lækkun var sá, að vegna aukinna niðurgreiðslna mundi salan aukast svo mikið innanlands, að það mundi þurfa meiri fjárhæð. Nú var ekkert við þessu að segja. Það gat verið ósköp eðlilegt að rökstyðja þetta með þessum hætti. En niðurstaðan var 132 millj. kr. umfram áætlun fjárl. Það var ekki ákvörðun núv. ríkisstj. og hún hafði ekkert með þetta að gera annað en það að greiða það út úr kassanum umfram fjárlög.

Ég vil líka segja það í sambandi við vegalagaafgreiðsluna, sem var gerð hér á hv. Alþ., eftir að fjárl. voru afgreidd, það voru 232 millj. kr. Niðurstaða fjárl. hækkar um þessa upphæð. Og hún var ákvörðun fyrrv. ríkisstj. með samþykki okkar þm. úr stjórnarandstöðu líka, og ég var ekki þar undanskilinn. En að fara að gera samanburð á milli þessara tveggja fjárl. og látast eins og þeir viti ekki af þessum tölum, þess háttar hlutir líka mér ekki. Ég vil líka bæta því við í sambandi við halla á vegagerðinni, sem er 65 millj. kr., ekki var það ákvörðun núv. ríkisstj. Þetta kom inn í dæmið við lokauppgjörið og ekkert að gera nema skrifa töluna. Lántökur vegna vegagerðar, sem höfðu líka áhrif á þennan reikning, um 70 millj. kr., lánahreyfing vegna Landsvirkjunar, sem einnig varð að inna af hendi, vegna þess að það var ekki ákveðið að hækka tekjustofn fyrirtækisins eins og krafizt var, og þess vegna var þetta gert. En þessar upphæðir, sem ég hef hér talið, eru yfir 1200 millj. kr., eða 1233 millj. kr. Nú er langt frá því, að ég sé með tæmandi tölur. En er það réttur samanburður að sleppa þessari fjárhæð alveg úr ákvörðun fyrrv. ríkisstj. og fara að bera saman fjárl., sem afgreidd voru, án þess að taka þetta með í dæmið? Nei, það er ekki réttur samanburður, og þetta er það, sem mér líkaði verst í ræðu hv. 2. þm. Norðurl. e.

Út af viðskiptunum við Seðlabankann og prósentureikningnum og öllu því, þá er það annars eðlis, þó að allir viti, að það er náttúrulega ekki eðlilegt að bera þetta saman tölulega séð. Það, sem mestu máli skiptir í þessu, er það, hver sé prósentan af heildarniðurstöðu fjárl. Það vita það allir hv. þm., að það er ekki alveg sama, hvort upphæð fjárl. er þessi eða hin, og það er a.m.k. ekki samræmi í því að tala aðeins um fjárl. sem há, þegar það á við, en taka ekki tillit til niðurstöðu þeirra, þegar það á við, eins og í þessu sambandi. Hér er ekki verið að leika neinn skollaleik. Það er verið að fara fram með staðreyndir í þessu máli, hver staða ríkissjóðs var við Seðlabankann á tímabilinu frá 1963 til 1972, 30, sept. ár hvert, tölulega og hlutfallslega við útgjöld fjárlaga. Það má, eins og ég segi, hver hafa sína skoðun á þessu, eftir því sem honum sýnist, en staðreyndirnar eru þessar.

Hv. 2. þm. Norðurl. e. kom að því í sambandi við afkomuna 1971, að það hefði borið nauðsyn til að ná í meiri tekjur, fyrst þær ákvarðanir voru teknar að greiða tryggingabæturnar frá 1. ágúst, svo sem gert var. Það má svo sem segja vel, að það hefði verið eðlilegt. Hitt verð ég að segja, að eftir því útliti og því mati, sem var á tekjumöguleikum ríkissjóðs þá, hefði mátt gera ráð fyrir, að endar hefðu náð saman þrátt fyrir þessa ákvörðun, ef ekki hefðu legið á bak við margir duldir þættir, sem mér voru a.m.k. ekki ljósir, þegar þessar ákvarðanir voru teknar, enda þykist ég sjá það greinilega nú, að það hefði mátt ætla, að svo mundi verða, miðað við það sem síðar hefur komið fram. Hins vegar hafa ýmsir útgjaldaliðir komið fram á þessu fjárlagaári, sem ég reiknaði ekki með þá, auk þess sem þá var til staðar það, að kjarasamningar voru þá allir lausir og ekki var ljóst, hve mikil verðbólga leyndist á bak við verðstöðvunarmúrinn, svo að þess vegna var talið hyggilegt að fara með gát að þessu þá.

Hv. 2, þm. Norðurl. e. talaði um arfinn, sem ég hefði talað svo mikið um og hefði eingöngu verið hinn góði arfur að hans dómi, þó að ég hefði ekki viljað líta svo á það. Jú, það er nú það. Ekki er það nú tilviljun samt, að það átti að hækka ellilaunin, eftir að árið 1971 var liðið og kosningar um garð gengnar. Ekki er það heldur tilviljun ein, að launasamningarnir, sem voru gerðir haustið 1970, áhrif þeirra komu ekki fram fyrr en í árslok 1971. Það er ekki heldur tilviljun, að ákveðið var að hækka framlag til landnámsins, en gildistakan átti ekki að vera fyrr en 1. jan. 1972. Það var sett inn heimild um, að mætti nota hluta af þessu á árinu 1971, en það var ekki meira en það heldur. Ég held, að það hafi ekki heldur verið tilviljun, að skattalögin, sem viðreisnarstjórnin setti og ég hef áður vikið að og skal ekki fara að orðlengja frekar um nú, þau áttu ekki heldur að taka gildi fyrr en árið 1971 væri liðið. Ég held, að það hafi ekki heldur verið tilviljun, að það var ekki ákveðið, að nein útgjöld væru vegna verðstöðvunarinnar eftir 1. sept., svo að það þurfti hvorki að standa í því að hækka fjárl. um þá fjárhæð né afla tekna til þess að mæta því. Ég held hins vegar, að það hafi öllum verið ljóst, að það var ekki hægt að komast hjá því að halda þeirri verðstöðvun áfram, og það hefði orðið að mæta þeim útgjöldum, hverjir sem voru í ríkisstj. Hv. þáv. stjórnarsinnar vissu það ósköp vel líka, að allir almennir kjarasamningar voru lausir og kæmu til meðferðar um haustið. Þeir höfðu ekki talið, eins og ég sagði áðan, atvinnuvegina færa um að bera það, sem þurfti fram að þeim tíma, sem fullar dýrtíðaruppbætur eða verðlagsuppbætur, svo að eitthvað hefði þurft að aðhafast þá. Og ég held, að það hafi ekki heldur verið tilviljun með Lánasióð íslenzkra námsmanna, sem nú þykir lítið til koma fjármagnið, sem til hans er veitt, það var þó ekki nema 58 millj. á árinu 1970 og 90 millj. á árinu 1971, nú þykja 273 millj. kr. lág tala, það er þó þreföldun frá árinu 1971. En það voru fleiri atriði í löggjöf frá þessum árum, sem áttu að koma til útgjalda fyrst eftir að árið 1971 var liðið.

Hv. 2. þm. Norðrl. e. talaði einnig um fjáröflun og framkvæmdaáætlunina og útþensluna í efnahagskerfinu og deildi á núv. ríkisstj. fyrir það, hve ör hún hefði verið á fé bæði á fjárl. og framkvæmaáætlun vegna framkvæmda á yfirstandandi ári. Ég veit, að hækkun á framkvæmdaáætluninni var mikil á milli áranna 1971 og 1972, og sannarlega hefði ég viljað, að hann hefði orðið minni. En við megum ekki gleyma því, að niðurstaðan á árinu 1971 var sú, að kostnaður við framkvæmdirnar varð miklu meiri en gert var ráð fyrir á framkvæmdaáætluninni. Það var halli á sjálfri framkvæmdaáætluninni. Auk þess varð þá að útvega ýmsum lánasjóðum, eins og t.d. búnaðarsjóðunum, bráðabirgðalán til þess að standa undir þeim verkefnum, sem þeir þurftu þá að standa undir. Ég vil líka minna á það, að það verður ekki snúið aftur um útvegun fjár til framkvæmda eins og Laxárvirkjunar, Lagarfossvirkjunar og Mjólkárvirkjunar. Það verður að halda þessari fjártútvegun áfram, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, eftir að þetta er komið af stað. Svo var um marga aðra hluti, að framkvæmdir voru hafnar og það var búið að útvega fé til eins árs að sumu leyti og annað ekki. Framhaldið hlaut að segja til sín. Ég vil líka minna á, að það var engin ánægja með það hér á hv. Alþ., m.a. hjá þessum hv. þm., að ekki skyldi vera útvegað meira fé til framkvæmda í vegaframkvæmdir í Norðurlandsáætlun. Það kostaði þó sitt að gera það, sem gert var. Sama er að segja um Austurlandsáætlun. Ég vil minna einnig á það, að endurbygging frystihúsanna er verkefni, sem verður að leysa, hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Viðreisnarstjórn hafði ekki tekið það mál á sína dagskrá. Nú verður ekki komizt hjá því að útvega fjármagn til þess að koma þessu verki í framkvæmd. Það er vitað eða talið a.m.k., að það sé ekki og verði ekki hægt að annast sölu á markaði Bandaríkjanna, nema frystihúsin séu endurbætt og það verulega. og það þarf stórkostlega fjármuni til þess. Sama er að segja um uppbyggingu sláturhúsanna. Það er óhugsandi að komast fram hjá því að þurfa að endurbyggja sláturhúsin um mestallt land. Það vita allir, að við höfðum ekki um tíma útflutningsleyfi á eitt einasta sláturhús. Nú erum við hins vegar farnir að fá það, en það þarf stóra fjármuni til þess að endurbyggja sláturhúsin. Og svo er einnig með mjólkurvinnslustöðvarnar. Það þarf ekki orðum að því að eyða, að við byggjum ekki upp fiskiskipaflota okkar, nema við höfum til þess mikið fjármagn. Togarkaupin, sem nú er verið að gera, gerast ekki hljóðalaust og fjármagnslaust. Það má svo sem halda því fram, að það hafi verið hægt að dreifa þessu á eitthvað lengri tíma, og sannarlega hefði það verið nauðsynlegt. En til þess hefði þá þurft að hefja verkið fyrr. Hér er um að ræða atriði, sem skiptir sköpum fyrir ýmis byggðarlög landsins, hvort tekst eða tekst ekki. En það tekur peninga úr fiskveiðasjóði að koma þessu í framkvæmd. Ég vil líka minna á það, sem kom fram í sjónvarps- eða útvarpsviðtali hjá Gunnari Friðrikssyni, formanni iðnrekendafélagsins, í gærkvöldi. Hann sagði, að það þyrfti stórkostlegt fjármagn til þess að hrinda í framkvæmd þeim áformum, sem iðnaðurinn væri uppi með, og á fyrsta stigi málsins mundi þetta fyrst og fremst vera fjármögnun, sem þyrfti að koma til, og fjárútlát. Allt er þetta gert til þess, að á síðara stigi geti þetta fjármagn komið til baka í ríkum mæli. Ég vil segja það einnig í sambandi við kennsluna og allt það tal, að mér finnst, að það hefði mátt gera meira að því að fara sér hægar í framkvæmdum á ýmsum stöðum á þessu ári heldur en gert hefur verið. Ég hygg, að það hafi þó fyrst og fremst verið á vegum ríkisins, sem nokkuð hafi verið haldið í þetta og reynt að skipuleggja vinnubrögðin í þessum framkvæmdum, sem m.a. var gert með niðurskurðinum með þeim hætti að nýta þetta fjármagn sem bezt og gera það svo, að ákveðnum framkvæmdum, sem ekki voru annaðhvort undirbúnar eða hægt að fresta, þeim yrði frestað. Og ég held, að það sé nú deginum ljósara, að það hefur náðst nokkur árangur í þessu og haft þau áhrif að draga úr spennunni hér á vinnumarkaðinum.

Þá kom hv. 2. þm. Norðurl. e. inn á það, sem hann kallar að éta fyrir sig fram, það var að innheimta söluskattinn mánaðarlega. Það er nú svo með hað sem fleira, að þar getur maður nú siglt í kjölfarið. Hv. 2. þm. Norðurl. e. gerði þetta á árinu 1970. Þá flýtti hann innheimtu söluskatts um einn mánuð og náði sér í fjárhæð, eins og ég ætla að reyna, sem gerði nú gæfumuninn, náði mikið til í þann mismun, er var á afkomu ríkissj. það ár. Ég vildi, að ég yrði eins heppinn. En ég vil segja það, að við afgreiðslu fjárl. fyrir þetta ár var reiknað með þessu í tekjuáætluninni, svo að það er ekkert að gerast hér annað en það, sem þá var reiknað með. Hins vegar er það staðreynd, að með þessu móti höfum við sameiginlega tæmt þessa möguleika, svo að ekki verður hægt að flýta þessu öllu meira en nú er orðið.

Ég vék áðan að viðskiptunum við Seðlabankann og hlutfallareikningnum í því sambandi og skal ekki fara lengra út í það. Hitt vil ég segja, að við erum sammála um það, að nauðsyn beri til að reyna að draga úr þeirri hagsveiflu, sem mikill yfirdráttur ríkissjóðs hjá Seðlabankanum hefur. Sú tilraun, sem gerð var á vegum Seðlabankans í sumar með sölu á ríkissjóðsvíxlum, var af hendi hans hugsuð þannig og okkar líka að gera þessa sveiflu minni með því, að ef spariféð væri geymt þarna, þá kæmi það inn í bankann aftur, þegar þess væri meiri þörf. Úr þessu varð ekkert, eins og hv. 2. þm. Norðurl. e. veit, svo að það mun ekki breyta þessu dæmi í neinu. En ég held, að við séum báðir sammála um það, að þessi stefna, sem mörkuð er með þessu fjárlagafrv. um að koma upp rekstrarfjársjóði, sem þarna er gert, er rétt, og við erum víst líka báðir sammála um, að það er erfitt að komast að þessu marki nema eftir þeirri leið, sem valin er. Við lifum ekki þá tíma, þegar hægt er að hafa í pokahorninu, eins og hv. 2. þm. Norðurl. e. talaði um.

Út af brbl. og samdrættinum, sem ætti sér stað í sambandi við þau, þá vil ég í fyrsta lagi segja það um samskiptin við atvinnuleysistryggingasjóð, að mér finnst þau á engan hátt óeðlileg. Sá sjóður er nú orðinn geysilega sterk stofnun, og það var á sínum tíma farið inn á þessa braut og það er ekki verið að gera hér annað heldur en draga úr þessum útgjöldum. Ég veit, að það verður að greiða þau seinna. Um það hefur verið talað. En að þessu sinni var þetta talið hyggilegt og m.a., þegar rætt var bæði við atvinnurekendur og stéttarfélögin um þessar aðgerðir, þá var það þeirra mat og vilji, að það yrði reynt að fara í þetta með þeim hætti, að það þyrfti ekki að afla tekna til að mæta þessu. Og þá var það óframkvæmanlegt nema með þessu móti, sem gert er. Það hefur verið reynt að ná samkomulagi á milli fjmrn., var gert þá í upphafi um ákveðnar framkvæmdir, sem gætu beðið, og við þær eru þær tölur miðaðar að mestu, sem ég var hér með í dag. Ég skal hins vegar endurtaka það, sem ég þá sagði, að ég er engan veginn sannfærður um, að við náum 400 millj., en ég tel, að það samkomulag sé þó það, að það eigi að komast verulega langt í því. Og ég vona, að þetta takist, en það var mat okkar allra, sem um fjölluðu, að það væri betra að velja þessa leið heldur en fara í það, sem áður hafði verið gert, að lækka verklegar framkvæmdir um vissa prósentutölu, því að slíkt er litt framkvæmanlegt, ekki sízt eftir að búið er að gera ákveðna samninga um verk, þannig að það er orðið bundið, og þess vegna er ekki að minni hyggju framkvæmanlegt að koma málunum fyrir á þann hátt.

Það er rétt, sem hv. 2. þm. Norðurl. e. sagði hér í sambandi við sparnaðinn, sem ég ætla nú að koma betur að seinna, að slíkar tilraunir eru mjög óraunhæfar, nema þær séu gerðar að undangenginni athugun og rannsóknum og samráði við hagsýsluna, eins og ég skal koma að síðar.

Þá talaði bv. 2. þm. Norðurl. e. um það, að líkur væru fyrir því, að tekjur færu verulega fram úr áætlun á þessu ári, 1972. Nú vildi ég vona, að hann mælti þar rétt, því að ég tel, að ef tekjur færu verulega fram úr áætlun fjárl., þá mundi ég raunverulega ekki kvíða niðurstöðunni. En hins vegar get ég ekki sagt það enn þá, að ég sé nógu bjartsýnn á það. Ég held, að það mundi vera hægt að segja alveg eins um fjárl. 1971 og 1972, að ef tekjur hefðu ekki farið fram úr áætlun fjárl. 1972, þá hefðu þau ekki orðið hallalaus, þó að ekki hefði verið breytt neitt frá því, sem hv. 2. þm. Norðurl. e. var búinn að ákveða sem fjmrh., því að það var svo mikið, að það byggðist eingöngu á umframtekjum, sem urðu verulegar á þessu ári.

Hv. 2. þm. Norðurl. e. sagði, að ég hefði sagt, að fjárlagafrv. væri spegilmynd af stefnu ríkisstj. á hverjum tíma, og ég tel, að þetta sé rétt með farið, ég tel, að svo sé. Ég tel t.d., að það hafi speglað sig greinilega í fjárl. fyrir árið 1972 sú breyting á félagslegu sviði, sem þá var ákveðin. Það kom fram í ýmsum framlögum, bæði til uppbyggingar á sviði menntamála, íþróttamála, flugmála, hafnamála, rafveitna o.fl., o.fl. Það er hins vegar ekki hægt að gera ráð fyrir því, að aukning á slíkum sviðum og á sviði tryggingamála sé endurtekin í stórum stíl ár frá ári. Þess vegna fannst mér, að það skyti nokkuð skökku við það, sem hv. þm. sagði. Ég vil í sambandi við fjárl. 1972 nefna breytingu á stefnu eins og framlag til Byggðasjóðs og margra fleiri þátta, sem ég álít, að hafi verið gerbreytt frá því, sem áður var. Ég vil líka segja það, að sú stefna, sem tekin var með verkaskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga með tekjustofnal. og skattal., hafi verið stórkostleg breyting gagnvart landsbyggðinni, því að það vita allir, sem til þekkja, að landsbyggðarsveitarfélögin höfðu ekki möguleika til neinnar verulegrar uppbyggingar áður. En það hafa þau nú, vegna þess að skylduútgjöldin, eins og til trygginganna, sjúkrasamlaganna og lögreglukostnaðar, tóku svo mikinn hluta af tekjumöguleikum þessara byggðarlaga, og að minni hyggju eru því þessi lög eitt mesta átakið, sem gert hefur verið í að jafna aðstöðu í byggð landsins.

Hv. 2. þm. Norðurl. e. kom að því, þegar hann fór að ræða um frv. fyrir 1973, að þá fannst honum skorta þar á, að nóg fé væri veitt til skólamála, hafnamála, flugmála og slíkra málaflokka, sem að minni hyggju hefur þó orðið veruleg breyting á, síðan þessi ríkisstj. kom til valda. Ég hafði satt að segja ekki gert ráð fyrir því, að menn byggjust við því, að það yrði gert eins mikið átak í þessu á þessu ári og gert var í fyrra. A.m.k. fer það ekki vel saman, þegar talað er um að draga úr útgjöldum og úr spennunni í efnahagskerfinu. Hins vegar held ég, að þessum málum sé fullkomlega vel sinnt núna, og er orðin ærið mikil hækkun á þessum tveimur síðustu árum.

Út af þeim umr., sem hafa orðið um lánasjóð námsmanna, þá drap ég á það hér áðan, að fjárveiting til þessa sjóðs hefur hækkað um 2/3 — hefur þrefaldazt á tveim árum. Hann var einn af þeim útgjöldum, sem áttu að koma til verulega eftir 1971. Í þeirri grg., sem gerð er fyrir þessari till., er bent á það, hvað tekið er með, og það, sem raunverulega á skortir í því efni af því, sem á að taka með, er sú hækkun, sem hefur orðið á framfærslu á milli þessara ára. Hins vegar er það ekki skoðun fjmrn. og ekki menntmrn. heldur að taka hærra stig eða bæta við einu stigi, svo sem gert var ráð fyrir í þessari áætlanaþörf. Hins vegar verður að segja það um þann sjóð, að það er mikil nauðsyn að endurskoða þá löggjöf. Það kom fram í sambandi við undirbúning fjárlagafrv., þá er okkur sagt frá því, að kona eins vel metins borgara í þessu landi hafði ásamt vinkonu sinni stundað nám í háskólanum sér til gamans núna tvo síðustu vetur, og hún hafði ekki gert ráð fyrir því, að það skapaði sér möguleika til þess að fá námslán, því að hún leit ekki á sitt nám með þeim hætti. En vinkonan sagði henni hins vegar frá því, að hún væri búin að fá sitt námslán. Og ég spurði fulltrúa fjmrn. í stjórn lánasjóðsins, hvort þetta væri virkilega svo, að ef kona hans eða annarra álíka manna færu upp í háskóla og tækju þar þátt í námi til gagns og gamans, þá væri hægt að fá námslán út á þetta þrátt fyrir þær ástæður, sem þetta heimili hefði. Hann sagði mér, að svo væri. Ég lít svo á, að við verðum að segja það kalt og rólega, að við höfum ekki efni á að gera svona hluti. Námslánasjóðurinn, framlagið eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrv., er hærri fjárupphæð heldur en við veitum til háskólans og margra ágætra verka annarra, og við verðum að gera okkur grein fyrir, hvað við getum og hvað við getum ekki. Það er a.m.k. afskaplega skrýtið á sama tíma að deila á hækkun útgjalda, en loka svo augunum fyrir slíkum útgjöldum sem þessum. Þess vegna tel ég, að það sé alveg nauðsynlegt að endurskoða þessi lög, svo sem gert verður, og að gera þau í samræmi við það, sem nauðsynlegt og eðlilegt er, til þess að það fólk geti stundað nám, sem þarf fjárhagslega aðstoð eða stuðning til þess að koma sinni námslöngun í framkvæmd.

Út af því, sem hv. 2. þm. Norðurl. e. sagði um samninga þá, sem gerðir væru á milli skóla og menntmrn. um framkvæmdir, að við þá yrði alltaf að standa og þess vegna væri það óraunhæft, ef till. menntmrn. hefðu ekki verið teknar eins og rn. hefði gert ráð fyrir, þá verð ég að segja, að þá þekki ég ekki hv. 2. þm. Norurl. e. rétt, ef hann hefur alltaf tekið till. menntmrn. án þess að íhuga þær. Það er ég sannfærður um, að hann hefur ekki gert, því að það mundi hvorugur okkar gera. En í sambandi við þá samninga, sem gerðir hafa verið um ýmis verk, þá verð ég að segja, að það var svona og svona framkvæmdin á þeim hlutum hjá fyrrv. ríkisstj. T.d. eru einir 3–4 stórir skólar og dýrir í framkvæmdum í kjördæmi hv. 2. þm. Norðurl. e. Samningarnir, sem gerðir höfðu verð milli menntmrn. og heimahéraðanna um þessar framkvæmdir, voru um það að greiða framkvæmdirnar upp á 4 árum, eins og við tölum um að gera. En þegar 3 ár voru liðin, var búið að veita fé á fjárl. fyrir 48–50%, en á fjórða árinu átti svo að greiða hinn hlutann. Það er ekki létt verk að framkvæma svona samninga, og það er afskaplega erfitt að koma þeim í framkvæmd, þannig að það sjáist ekki fyrir því á fjárl., að það hefði verið gert.

Nú verðum við að játa það, sem vorum viðriðnir fjárlagaafgreiðslu í fyrra, að við hikstuðum á þessu og stóðum ekki fullkomlega við samningana, enda hefði það verið óframkvæmanlegt, því að við höfðum ekki peninga til þess og gátum ekki gert það. Og satt að segja var það nú svo, að þeir heimamenn höfðu ekki heldur möguleika til að taka við þeim, því að þeir höfðu ekki fjármagnið sjálfir. En við skulum gera okkur grein fyrir því, að ef talað er um samninga, sem eiga að halda, þá er ekki hægt að framkvæma þá á þennan hátt, að fjórða árið eigi að borga eins og öll hin þrjú. Þess vegna gengur nú á ýmsu með þetta eins og fleira.

Í sambandi við það, sem hv. þm. sagði um arfinn, þar sem hann kom að hagsýslustörfunum, þá skal ég með ánægju segja það, að ég hef áður hér á Alþ. lýst því yfir og vil endurtaka það, að sú skipan mála er rétt, og ég sagði það oft og mörgum sinnum í umr. um fjárlög hér á hv. Alþ. sem stjórnarandstæðingur, að ég hefði ekki nokkra trú á sparnaði í ríkisrekstrinum fyrr en væri búið að vinna það mál fyrir fram eftir þeim vinnubrögðum, sem upp voru tekin með undirnefnd fjvn. og í samstarfi við hagsýsluna. Og ég geri mér vonir um það, að með því átaki, sem nú á að fara að gera í þeim efnum, náum við nokkrum árangri. En árangurinn næst ekki, nema okkur takist að ná samstarfi við viðkomandi rn. og ríkisstofnun. En þetta verk var gott verk, og ég get hælt hv. 2. þm. Norðurl. e. fyrir hans þátt í því. Og ég held, að ég geti með góðri samvizku sagt það, að meðan ég var í stjórnarandstöðu, þá vann ég að þessum málum í undirnefnd fjvn. alveg af fullum trúnaði og var alveg óhlífinn við að taka á mig sem aðra óþægindi af því, sem það er að fara í svona verk. En ég er alveg sannfærður um, að þannig á að vinna að þessum málum.

Ég vil segja það um niðurgreiðslurnar, að ég endurtek það, sem ég sagði hér í dag, að eins og niðurgreiðslur geta verið sjálfsagðar og réttmætar, eins eiga þær sitt hættusvið, ef gengið er mjög langt í þeim. Og ég er alveg sannfærður um það, að ef hv. 2. þm. Norðurl. e. hefði verið fjmrh. nú, þá hefði hann ekki frekar en ég tekið inn á fjárlagafrv. nú þann þátt niðurgreiðslna, er tekinn var í sumar, meðan það mál var ekki meira uppgert en það er nú á þessu stigi. Hann hefði ekki farið að gefa svo undir fótinn í því efni, að hann hefði tekið þá ákvörðun fyrir fram, áður en aðrir þættir voru leystir. Hitt er svo annað mál, eins og ég sagði í dag, að hvað verður ofan á í þeim efnum kann ég ekki að segja fyrir um nú. En það er alveg augljóst, að niðurgreiðslur eiga sín takmörk og við erum náttúrlega komnir mjög langt í því. Ég minnist þess, þegar ríkisstj. kom til valda í fyrrasumar og var farið að tala um að auka niðurgreiðslur, þá kom það fram hjá hagstofustjóra, að þessi niðurgreiðslusvið væru í raun og veru öll tæmd, og það verður nú að segjast eins og er, að langt hefur verið gengið í því.

Út af þessu með nefndirnar, þá er mjög mikill misskilningur að halda, að ég sé eitthvað viðkvæmur í sambandi við það. Mér finnst, að ríkisstj. hafi klárað sig allvel, því að við erum búnir að slátra þarna nærri 40 nefndum. Þó að aðrar hafi komið til, þá var það ekki nema það, sem við mátti búast, því að hver ríkisstj. hlýtur alltaf að þurfa að nota nefndaformið að einhverju leyti til þess að vinna þau verk, sem hún þarf að láta vinna að, og það er eðlilegur þáttur í þingræðislandi. Ég hafði t.d. gaman af því, þegar ég las í Alþýðublaðinu um daginn, að þeir voru að býsnast mjög yfir þeim nefndakostnaði, sem væri hjá þessari ríkisstj. Menntmrn. var nú hæst í kostnaði við nefndirnar, og þegar betur varð að gáð, þá átti núv. menntmrh. 1.6% af þessum greiðslum til nefndanna á vegum menntmrn., en fyrirrennari hans 98.4. Mér fannst það ekki til þess að blása út, þegar svo var að staðið. Kostnaður við þær n., sem núv. ríkisstj. skipaði og til útborgunar kom á s.l. ári, var, eins og ég sagði í dag, um 11.5% miðað við þann lið nefndanna, sem stjórnvöld hafa skipað. Þá sleppti ég þessum tveimur fyrstu flokkunum. Ef þær voru aftur teknar með, þá var þar hluti úr prósentu. En ég tel mér trú um það og held, að það sé alveg öruggt, að einmitt með því að skrá nefndirnar eins og nú er gert, þá er komið visst taumhald þar, sem á eftir að fækka n. og a.m.k. að halda þeim ekki lengur lifandi en þörf gerist.

Þá kom hv. 2. þm. Norðurl. e. að tekjuöfluninni og viðskiptunum við útlönd. Það er alveg rétt hjá hv. þm., að það er eins með viðskiptin við útlönd og annað, að þeim eru takmörk sett, hve langt má ganga í skuldamyndun þar. En það er nú svo með viðskiptin á þessu ári og því síðasta, að í ágústlok var hallinn á viðskiptareikningi við útlönd 1 milljarður 476 millj. kr., en í fyrra um 2 milljarðar og tæpar 600 millj. eða 598.3, svo að þróunin, sem orðið hefur á þessu ári til þessa tíma, er þannig, að staðan á viðskiptareikningi er til muna betri en hún var á sama tíma í fyrra. Ég held, að það gripi inn á það, sem hv. þm. sagði í sambandi við söluna á spariskírteinunum. Hann byrjaði á því að segja, að enginn mundi þora að eiga peninga. Hins vegar var frásögnin með þeim hætti, að það var siður en svo, því að sala spariskírteina, sem eru mikil trygging í verðbólguþjóðfélagi, hafði ekki gengið eins og e.t.v. var búizt við. Mér finnst, að samræmið þarna og í viðskiptunum við útlönd sé nokkuð svipað, að það sé viss festa í þessu og verðbólgan og spennan, sem talað er um, sé í raun og veru ekki eins mikil og menn vilja vera láta. Ég vil líka segja það, að það er náttúrlega ekki sama, með hvaða hætti við myndum skuldir við útlönd. Á þessu ári hefur það verið gert, að það hefur verið dregið úr vörukaupalánunum, og ég er alveg sannfærður um, að það hefur haft sín áhrif á það, að viðskiptalega séð stöndum við betur við útlönd heldur en við mundum hafa gert, ef þeim hefði verið haldið óbreyttum. Hitt er svo ekki nema eðlilegt, að við tökum lán, eins og ég áðan gat um, í sambandi við kaupin á togurunum, í sambandi við kaup á flugvélum og virkjanir. Slíkt er gert með tilliti til þess, að þetta auki síðar meir gjaldeyristekjur þjóðarinnar og einmitt sá möguleiki, sem þessi tækjakaup skapi, geti verið orðinn til, þegar þarf að fara að greiða af þessum lánum. Þannig er þetta hugsað með slíkar stórframkvæmdir, sem verður að sjálfsögðu að fjármagna með erlendri lántöku og hefur alltaf verið gert.

Hv. 2. þm. Norðurl. e. sagði, að það væri ekki góð latína að taka lán til þess að greiða lán, en þetta gerði nú viðreisnarstjórnin, þegar hún var að greiða af lánunum vegna Reykjanesbrautar. Þá tók hún lán til þess að greiða lán. Og það er ekki fyrr en nú, að fjárveiting er tekin inn á fjárlög til þess að ljúka þessum greiðslum, vöxtum og afborgunum af þessum lánum. Áður hefur þetta verið gert með því, sem veggjaldið náði til, sem var slátrað illu beilli í vor fyrir mikla skammsýni, en svo var lán tekið til þess að greiða hinn hlutann. Nú er þetta tekið inn á ríkissjóð og eykur að sjálfsögðu bæði vexti og afborganir hjá ríkissjóði vegna þess arna. En það var í raun og veru ekki hægt að komast hjá því að gera þetta, því að það var ekki hægt að halda þessu lengur áfram.

Þá kom hv. 2. þm. Norðurl. e. að skattalögunum og skattvísitölunni. Þá varð mér að hugsa, þegar hann talaði um, að hann gleddist yfir því, að nú skyldi hafa verið tekin upp sú skattvísitala, sem gerð var, að sá væri munur á mér og honum, að hann ákvað að taka upp þessa skattvísitölu, þegar völdin voru fallin úr hans höndum, en ég ákveð að nota þessa skattvísitölu, meðan ég hef völdin. Þetta er munurinn, og hann er ekki svo lítill. því að það var ekki ofarlega í þessum hv. þm. að taka upp það kerfi skattvísitölu, sem hann nefndi hér í kvöld. Nú vil ég segja það í sambandi við það mál, að þessi ákvörðun er ekki stefnumörkun mín og ekki heldur ríkisstj. Ég álít, að rétta matið í þessu sé raunverulega framfærsluvísitalan, hækkunin á milli ára, en ekki það, að tekjur að öðru leyti eigi að koma þarna til, enda lít ég svo á, að hér sé um raunverulega skattalækkun að ræða. Hv. þm. sagði, að þeir hefðu gert till., sem við hefðum mátt hlusta á, á s.l. vetri í sambandi við skattalögin. Jú, rétt er nú það. Þeir gerðu till. um það að lækka tekjur ríkissjóðs af tekju- og eignarskatti um 1600 millj. kr. Mér er sem ég sjái hv. 2. þm. Norðurl. e., ef ég hefði eða við stjórnarandstöðumenn hefðum flutt slíka till., þegar hann var fjmrh. Ég held, að hann hefði ekki talið okkur verið ferjandi eða verjandi á einn eða annan hátt fyrir slíka tillögugerð. Og þess vegna varð ég mjög hissa á því, þegar hans nafn var komið á þennan tillöguflutning, svo fráleitur sem hann var.

Hv. 2. þm. Norðurl. e. sagði, að ég ætti að kynna mér betur viðhorf fyrirtækja til skattalaga viðreisnarstjórnarinnar. Nú er það svo, að ég hef kynnt mér álit fyrirtækjanna á frv., þegar það var hér til meðferðar á hv. Alþ. Og það var afskaplega langt frá því, að atvinnurekendurnir væru hrifnir af málinu þá. Það álit, sem þeir sendu fjhn. Alþ., var ekki til stuðnings við málið. Það voru mörg atriði, sem þeir töldu, og þeir töldu í raun og veru ekki hægt að taka þann þátt sérstaklega, heldur yrði að taka málið í heild. Og það var t.d. sá þáttur, sem sneri að aðstöðugjöldunum, sem þeim var ekki mínna í mun heldur en ýmislegt af því, sem þarna var. Og ég vil enn leyfa mér að vitna í hv. fyrrv. þm., Ólaf Björnsson prófessor. Hann benti réttilega á, að það væri óhugsandi að setja slík lög um skatta hlutafélaga án þess að vera áður búinn að endurskoða hlutafélagalöggjöfina og sníða skattalög síðar að nýrri hlutafélagalöggjöf. Hann benti með sterkum rökum á, að það væri óhugsandi að setja slíka löggjöf um skatt hlutafélaga sem þar var gert, án þess að löggjöfin um hlutafélög væri endurskoðuð fyrst. Smugurnar, möguleikarnir, sem gjaldendurnir hefðu í gegnum þetta kerfi, væru svo geysilegir, að það væri óhugsandi að láta þetta koma til framkvæmda. Og ég er honum alveg sammála um það.

Út af flýtifyrningunni vil ég segja það, að það er enginn misskilningur í því hjá mér. Ákvæðið um flýtifyrninguna í skattalöggjöfinni var með þeim hætti, að fyrirtækið gat notað þetta á einu ári, 30% flýtifyrningu, og þess vegna gat það valið sér ár, sem hafði mjög góða afkomu, og með því móti gert sig skattlaust. Hitt veit ég, að það var ekki hægt að endurtaka þetta ár eftir ár, — það var ekki framkvæmanlegt, — og með þessu móti slátraði það þeim möguleika, en það gat náð þessu, þegar það hafði mikinn tekjuafg.

Hv. 2. þm. Norðurl. e. sagði, að það skorti mjög á, að öll myndin af efnahagskerfinu lægi fyrir hér nú, þegar fjárlagafrv. væri lagt fram. Það er alveg rétt hjá hv. 2. þm. Norðl. e., að nauðsyn ber til, að svo sé. Og þess vegna tel ég, að það sé mjög áriðandi að afgreiða samtímis fjárlög og framkvæmdaáætlun. Það er afar óheppilegt að afgreiða fjárlög fyrir áramót og framkvæmdaáætlun á útmánuðum, eins og gert hefur verið. Inn á þetta svið þarf að fara, og auðvitað ber nauðsyn til þess að ná öllu efnahagssviðinu saman við fjárlagaafgreiðslu, og hugsunin er nú sú að reyna að keppa að því, að svo verði við fjárlagaafgreiðsluna. Ég get því lokið þessum orðum mínum með því að segja það, að ég vona, að hv. Alþ. geti afgreitt þessa þætti þrjá, fjárlagafrv., framkvæmdaáætlunina og efnahagsmálin, fyrir næstu áramót.