12.12.1972
Sameinað þing: 29. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1115 í B-deild Alþingistíðinda. (836)

Umræður utan dagskrár

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Ég hafði vissulega ekki ætlað mér á hinu háa Alþ., að jómfrúrræða mín yrði þátttaka í málefni, sem væri til umræðu utan dagskrár. En í sambandi við það mál, sem hér hefur komið til umr., langar mig til að vekja athygli hv. alþm. á því, hvort sé ekki líka á ferðinni ákaflega veigamikið atriði í sambandi við uppeldismálin, og á ég þar við, að frá mínum bæjardyrum séð er það, sem fyrst og fremst skapar meinsemdina, sambandsleysið milli eldri kynslóðanna og æskunnar. Einhvern veginn hefur lífsbaráttan þróazt þannig á síðari árum, að unga fólkið á í svo erfiðri baráttu við það að afla sér lífsþægindanna, að það hefur naumast tíma til þess að sinna uppeldi barnanna sinna. Og þar með vantar að mínum dómi sambandið við gamla fólkið til þess að vera hinn holli og ráðgefandi aðili í því að skapa og móta uppeldi unga barnsins.

Við vitum öll, að við ungu barni, 4–5 ára gömlu, blasa ótalmörg forvitnileg vandamál, þegar það er að líta í kringum sig, — vandamál. sem það þarfnast skýringar á. Það er enginn til að hlusta á spurningar þessa unga þjóðfélagsborgara, því að foreldrarnir eru svo uppteknir að brauðstritinu, striti hins daglega lífs, að þeir hafa allt of oft naumast tíma til að sinna uppeldi barna sinna. Og hversu oft er það ekki til þess að losa sig við nöldur og nauð krakkanna, að þau eru keypt af sér með því að senda þau út í búð til að kaupa sér pylsu, kaupa sér kók eða fara á bíó. Þess vegna vil ég leggja áherzlu á það á þessari virðulegu löggjafarsamkomu, að því verði gefinn miklu meiri gaumur en nú er að styrkja þjóðfélagsborgarana í heild til þess að viðhalda samstarfinu við gömlu kynslóðina á heimilunum. Við skulum taka það til alvarlegrar athugunar, að það er miklu þýðingarmeira atriði heldur en menn kunna að halda að stuðla að því, að eldri kynslóðin sé þátttakandi í heimilinu sjálfu, og er ég þó ekki að vanmeta þær aðgerðir, sem gerðar hafa verið til þess að skapa gamla fólkinu viðunandi lífskjör á elliheimilum og dvalarheimilum sem slíkum. En ég vil benda á, að það gæti verið mjög áhrifamikið, ef stjórnvöld í landinu vildu gera einstaklingunum og heimilunum viðráðanlegt og léttbærara að viðhalda sambandinu við gamla fólkið á heimilum, til að mynda í auknum persónufrádrætti, í auknum skattfrádrætti, ef gamla fólkið gæti haft betri aðstöðu til þess að dvelja á heimilunum og vera þannig virkur þátttakandi í uppeldi ungu kynslóðarinnar.