12.12.1972
Sameinað þing: 29. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1116 í B-deild Alþingistíðinda. (837)

Umræður utan dagskrár

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka þátt í þessum umr., en ræða hæstv. heilbrmrh. gaf mér tilefni til þess. Mér þótti í ræðu hans gæta mjög mikillar þröngsýni á heim vanda, sem hér er við að glíma, og þótti sem hann hefði í raun og veru skort vilja til þess að fjalla um þetta mál eins og það liggur fyrir. Staðreyndin í þessu máli er sú í mjög mörgum tilfellum, eins og allir þeir vita, sem hafa unnið að fræðslu- og skólamálum í þjóðfélaginu, að eins og fræðslukerfinu er nú háttað, er fram til 14–15 ára aldurs öllum nemendum sniðinn í aðalatriðum sami stakkur. Það er ekkert leyndarmál meðal þeirra, sem við þessi mál fást, að mikill fjöldi af þessum nemendum gefst hreinlega upp undan þeim kröfum, sem þjóðfélagið leggur þessum smæstu borgurum á herðar þegar á fermingaraldri og í 2. bekk gagnfræðaskóla, á viðkvæmasta aldursskeiðinu. Ég get nefnt dæmi um nemendur, sem hafa, meðan þeir áttu þess kost að sitja í skóla, verið til mikillar fyrirmyndar um alla framkomu og á allan hátt. Síðan einn góðan veðurdag er þessum vesalingum sparkað út í kaldan raunveruleikann. Í mörgum tilfellum veitist þessum unglingum mjög örðugt að fá atvinnu við sitt hæfi, og þeir eru látnir standa oft og tíðum mjög mikið á eigin fótum. Það er staðreynd, og ég held, að það komi ekkert við þeirri baráttu mannsins að reyna að bæta kjör sín. Auðvitað stefnir maðurinn fram á veg. En það er ekkert lögmál til, sem segir, að við getum ekki aukið þroska einstaklingsins, um leið og við reynum að búa í haginn fyrir alla þegna þjóðfélagsins. Ég fæ ekki séð neitt ljótt við það, og ég get alls ekki fallizt á, að aukna glæpahneigð unglinga sé hægt að rekja til þess, að það vegnar e.t.v. fleiri mönnum á Íslandi vel fjárhagslega nú en fyrir svo og svo mörgum árum. Ég fellst ekki á þessa skoðun hæstv. heilbrmrb. En ég veit, að það er alveg sama, um hvaða mál er talað, hæstv. heilbrmrh. lítur alltaf á þau gegnum sín rauðu gleraugu, og við vitum vel, hvar fiskur lá undir steini í ræðu hans hér áðan.

Á undanförnum árum hafa heyrzt mjög háværar raddir um nauðsyn þess að lengja skólaskylduna. Þessi krafa er sett fram einhliða og án þess, svo að mér sé kunnugt, — en það veit hæstv. menntmrh. betur, — án þess að mér sé kunnugt um, hvaða verkefni eða hvernig eigi að bregðast við þeim nemendum, sem þegar hafa gefizt upp á skólabrautinni í 1. bekk og 2. bekk. Það er án efa eitt af hollari verkefnum, sem hægt er að fá í dag þeirri æsku landsins, sem ekki unir hinu bóklega, þrönga, þrautleiðinlega og gagnslitla skólanámi, að fræðsluyfirvöld geri verulegt átak í þá átt að vekja þessa vesalinga, sem ekki festa yndi við þetta, hafa dregizt aftur úr í bóknáminu kannske í 8, 9 eða 10 ára bekk og eiga svo að draslast í 3–4 vetur til viðbótar, fá lágt í öllum prófum, standa sig hvergi og litið er niður á þá af bekkjarsystkinum þeirra og skólasystkinum. Það væri vissulega hollt, ef við gætum fundið handa þeim holl verkefni að glíma við t.d. úti í strjálbýlinu eða við sjávarsíðuna. Ég hef kennt nemendum, sem hafa fallið á unglingaprófi og komið aftur ári síðar fullir af áhuga. Og það hefur verið skemmtilegt að kenna þeim hóp, sem þá hefur viljað taka sig á. Kennarar, sem hafa kennt nemendum, sem ekki hafa staðizt gagnfræðapróf, hafa flosnað frá námi á yngra aldri, en komið aftur eftir 2–3–4 ár, þeir segja mér, að það sé undraverður árangur, sem þetta fólk nái.

Ég ætla ekki að þreyta um þetta mál frekar neinar kappræður. En ég legg áherzlu á það í þessu sambandi, að við þurfum að líta til 13, 14 og 15 ára aldursins, útvega þeim nemendum, sem ekki ráða við hinar bóklegu greinar skólanámsins, holl verkefni til þess að vinna að, að þeir megi kynnast lifnaðarháttum lands og þjóðar til sjávar og sveita og við séum ekki að binda þá á skólabekk og velja handa þeim verkefni, sem þeir ráða ekki við.