13.12.1972
Efri deild: 23. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1123 í B-deild Alþingistíðinda. (848)

2. mál, Fósturskóli Íslands

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Við 3. umr. þessa máls hafa komið fram brtt., sem varða nafngift þeirrar skólastofnunar, sem hér er um að ræða. Hv. 6. þm. Reykv. lauk hér í ræðustóli fyrir fáeinum andartökum lofsorði á nafngift þá, sem hefur verið valin skólastofnun af nýrri gerð. Nú er um að ræða breytingu á nafni skóla, sem þegar starfar. Ég vil ekki láta hjá líða að gera í stuttu máli grein fyrir afstöðu minni til þeirrar nafngiftar, sem orðið hefur ágreinisefni, þótt segja megi máske, að hér sé um nokkurn orðaleik að ræða en orð eru ekki einskis virði.

Það er ekki nýtt undir sólinni, að vandalaust eða fjarskylt fólk taki að sér að annast annarra manna börn og foreldrar komi börnum sínum til umönnunar til fólks, sem þeim er lítt eða ekki vandabundið. Í fornöld á landi okkar var slíkt meira að segja þýðingamikill þáttur í þjóðlífinu. Það var nokkuð föstum reglum bundið, hverjir tóku að sér annarra manna börn, hverjir gátu tekið að sér börn fólks af ákveðnum stigum í þjóðfélaginu. Sú kona, sem annast annara manna barn, nefnist fóstra, og karl, sem gerir hið sama, heitir fóstri þessa barns. Sá verknaður að fóstra öðrum barn hét og heitir fóstur eða fullum stöfum barnfóstur. Og í Grágás er meira að segja talað um lögfóstur, fóstur veitt skv. lagareglum. Í Heimskringlu segir: „Sá þætti ótignari, er öðrum fóstraði barn“. Og í Njálu er svo komizt að orði, að fjórðungi bregði til fósturs. Kunnur er málhátturinn: fé er fóstri líkt. Og dálæti á mönnum heitir að taka við þá ástfóstri. Þetta orð, fóstur, er að áliti málfræðinga skylt því að fóðra, veita næringu, og er haldið, að það sé einna fyrst hatt um það, sem mjög mun hafa tíðkazt a.m.k. hjá höfðingjaættum að fornu, að önnur kona en móðirin hefði ungbarn á brjósti. Þær konur hafi verið þær fyrstu, sem fóstrunafnið hlutu.

Þegar svo kom í þjóðfélagsþróun hér á landi, að sérstakar stofnanir komust á laggirnar til að annast börn á ungum aldri, var starfslið þeirra eingöngu konur, og í samræmi við forna málhefð hlutu þessar konur starfsheitið fóstrur. Menntastofnun, sem veitti þeim fræðslu nefndist í samræmi við það fóstruskóli. Hér er nú fjallað um lagasetningu um þennan skóla, en gert er ráð fyrir því í frv., sem fyrir liggur, að hann sæki bæði konur og karlar og hljóti þaðan jöfn réttindi til starfa við barnfóstur. Því kemur það til álita, hvort breyta eigi nafni stofnunarinnar og þá á hvern hátt. N., sem samdi þetta frv., gerði að tillögu sinni, að nafni skólans yrði breytt og hann nefndur fóstrunarskóli. Og það er stutt þessum rökum í áliti nefndarinnar: „Skólinn er jafnt fyrir karla sem konur, sbr. 1. gr. 2. mgr. Þykir rétt að árétta það með því að breyta nafninu úr fóstruskóla í fóstrunarskóla sbr. að sínu leyti nafni hjúkrunarkvennaskóla í hjúkrunarskóla með 1. nr. 35/1962.“

Þegar um þetta frv. var fjallað í menntmrn., kom m.a. til álita þessi till. um breytt nafn fósturskóla í fóstrunarskóla. Þá sýndist mönnum það, að fóstrun væri óþarft nýyrði um þann verknað, sem hingað til hefur í íslenzku máli heitið fóstur. Fóstrun er tvímælalaust nýyrði, a.m.k. finnst það ekki í orðabókum, og virðist myndað hliðstætt hjúkrun. En af þeirri ástæðu, að til er orð um sama verknað jafngamalt tungunni, orðið fóstur, sem þar að auki er þjálla í samsetningu, sbr. fósturskóli og fóstrunarskóli, þá varð það niðurstaða í menntmrn. að leggja til. að skólinn heiti, eftir að hin nýju lög taki gildi, fósturskóli. Því hefur heyrzt fleygt manna á milli, að einhverjum þyki óviðurkvæmilegt að kenna þennan skóla við fóstur, vegna þess að til er annað orð, sem ekki hefur sömu merkingu, heldur merkir barn í móðurkviði, og mun vera tökuorð úr dönsku „foster“. Þetta getur ekki að mínu viti stuðzt við nein rök um það, að hætta sé á ruglingi af þeirri nafngift að nefna skóla, sem menntar fóstrur, fósturskóla, því að engum dettur í hug, að skóli geti verið fyrir ófædda burði. Ég vil alls ekki gera því skóna, að nokkur láti stjórnast af ótta við, að gárungar hafi þessa nafngift í flimtingum á þann hátt, að þeir dragi dár að stofnuninni með útúrsnúningi úr nafninu.

Auk brtt. um að breyta nafninu í fyrra horf, svo sem n. vildi hafa, sem frv. samdi, fóstrunarskóli, hefur einnig komið fram till. um nafnið fóstraskóli. Þá er lagt til að draga nafn stofnunarinnar af karlkynsheitinu fóstri eins og fóstruskóli er dregið af kvenkynsheitinu fóstra. Til þess sé ég ekki heldur neina ástæðu, og það er óbreytt álit mitt, að eðlilegast og þjálast nafn þessarar stofnunar sé fósturskóli.