13.12.1972
Efri deild: 23. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1128 í B-deild Alþingistíðinda. (856)

39. mál, orlof

(Björn Jónsson):

Herra forseti. Hér hefur áður af hæstv. félmrh. verið gerð grein fyrir efni þessa frv., og þarf ég því ekki að hafa ýkjamörg orð um það, ekki sízt þar sem fjhn. hefur komizt að sameiginlegri niðurstöðu um afgreiðslu málsins. Þó her að taka það fram, að í þeirri afgreiðslu er um að ræða fyrirvara tveggja nm., en ég hygg, að hann tákni ekki neinn djúpan ágreining um málið, sem hér er til meðferðar.

Þar sem nokkuð er um liðið, finnst mér rétt að benda aðeins á efnisatriði frv. Þau eru þá í fyrsta lagi það, er varðar breyt. á 7. gr. laganna, þ.e.a.s. að við gr. bætist ný málsgr. svofelld: „Vangreitt orlofsfé má taka lögtaki, sbr. lög nr. 29 16. des. 1885,“ — og það, sem ég hefði átt að nefna fyrst, að 3. málsgr. orðist svo: „Eigi skal reikna orlofsfé af orlofslaunum og orlofsfé.“ Í þessari brtt. er í raun og veru um að ræða aðalefni frv., þ.e.a.s. að niður falli það ákvæði 3. málsgr. 7. gr., sem hljóðar svo, að eigi skuli reikna orlofsfé af greiðslum, sem ekki eru tekjuskattsskyldar hjá orlofsþega. Og síðan gildir sama um orlofslaun og orlofsfé samkvæmt þeirri breyt., sem hér er á gerð. Þar sem hér er eiginlega um það að ræða, sem helzt skiptir máli, þykir mér rétt að fara nokkrum orðum um, hvernig þetta er til komið, vegna þess að það hefur m.a. sætt andmælum frá Landssambandi íslenzkra úfvegsmanna, sem telur, að með þessu hafi samkomulag, sem gert hafi verið í sambandi við vinnudeilurnar í nóvember og desember í fyrra, verið brotið. En hér er það um að segja, að ekki var um neitt samkomulag að ræða. Þetta kom ekki sem kaupskapur af neinu tagi með lögunum, heldur er bezt að segja hverja sögu eins og hún er, að dönsku orlofslögin voru mjög höfð til fyrirmyndar við samningu þessara laga, m.a. þetta ákvæði, að sá hluti tekna, sem eru tekjuskattsfrjáls, skuli ekki vera orlofsskyldur. En af hálfu ASÍ- fulltrúanna í orlofsnefnd, sem undirbjó breytingarnar í fyrra, var það svo, að talið var, að 2. gr. kæmi í veg fyrir, að sú framkvæmd yrði á þessu, sem síðan hefur að sumu leyti orðið. En í 2. gr. l. segir: „Lög þessi rýra ekki víðtækari eða hagkvæmari orlofsrétt skv. öðrum lögum, samningum eða venjum: Þ.e.a.s. hér var talið, að gæti eingöngu verið um smámuni eina að ræða, sem ekki skiptu neinu verulegu máli í framkvæmdinni vegna ákvæða 2. gr. En framkvæmdin hefur reynzt nokkuð á annan veg, þar sem verulegur hluti af útgerðarmönnum hefur neitað að greiða orlofsfé af þeim hluta tekna sjómanna, sem ekki eru tekjuskattsskyldar, og hafa orðið miklar deilur um málið af þeim sökum og jafnvel í sumum tilfellum svo harðar, að af þeim gæti leitt alvarlega árekstra. Þetta vil ég, að komi fram til skýringar á því, hvers vegna launþegar féllust á það, að þessi ákvæði stæðu í lögum. En þau voru talin algerlega meinlaus með tilliti til 2. gr.

Nú hefur komið á daginn, að framkvæmdin hefur ekki orðið á þá lund, sem þeir vildu, og eins hitt, að það hefur a.m.k. ekki reynzt lögfræðilega tryggt, að slík meðferð sem sjómenn hefðu sætt sig við í þessu efni væri algjörlega örugg. Af þessu ákvæði, ef það er tekið svona bókstaflega og 2. gr. ekki talin setja neitt fyrir þann leka, sem 7. gr. og þessi umgetna málsgr. gætu opnað, mundi slíkt einnig ná t.d. til giftra kvenna, sem eru að hálfu tekjuskattsfrjálsar og fengju þá sinn hlut skertan um helming. Býst ég ekki við, að neinum hafi dottið það í hug, enda mun enginn atvinnurekandi hafa reynt þá framkvæmd. Hins er líka að geta, að fjölmargir útgerðarmenn, — ég skal ekki segja hve mikill hluti, en mér er óhætt að segja fjölmargir hafa með tilliti til ákvæða 2. gr. greitt orlofsfé á allan aflahlut sjómanna, en um það hefur engin deila staðið af hálfu sjómannastéttarinnar, að gert skyldi. Og ég held, að mönnum sé það alveg ljóst, að kjör sjómanna eru ekki svo góð miðað við aðrar launastéttir í landinu, að það sé með nokkrum hætti réttlætanlegt að skerða lögbundin félagsleg réttindi, sem hafa fjárhagslega þýðingu fyrir þá umfram aðra, og þess vegna sé alveg sjálfsagt mál og reyndar algjörlega nauðsynlegt að leiðrétta þau mistök, sem hér hafa vissulega orðið. Ég vil ekki kalla það annað en mistök, að frá lögunum hafi verið gengið á þann hátt, að framkvæmdir gætu undir nokkrum kringumstæðum orðið eins og þær hafa orðið að verulegu leyti.

Í bréfi, sem L.Í.Ú. hefur sent félmn., segir m.a., — og það er, held ég, meginefni bréfsins, það er rétt, að það komi fram: „Oss þykir einkennilegt, ef annar aðili þessa samkomulags, Sjómannasamband Íslands, sem er aðili í Alþýðusambandi Íslands, getur krafizt breytinga á þessu ákvæði og fengið því framgengt. Lítum við það mjög alvarlegum augum, ef samkomulag, sem gert er í stjórnskipaðri nefnd, er brotið með þeim hætti, sem hér er stefnt að. Ástæðan til, að við lögðumst gegn hækkun á orlofi sjómanna úr 7% í 81/3%, er, að ekki þekkist í nálægum löndum að greiða orlof á aflahlut. Voru lögð gögn um það fram í orlofsnefnd. Hækkun á orlofi af aflahlut var því ekki sótt til viðmiðunar við nálægar þjóðir eins og almenna orlofshækkunin. Auk þess er í dönsku orlofslögunum shlj, ákvæði því, sem nú er lagt til að fjarlægja úr lögunum. Ef einhver ástæða þykir til að breyta þessu ákvæði, er mælzt til að fá það bætt með t.d. lækkun á launaskatti, þannig að útvegsmenn greiði 1% af launaskatti í staðinn fyrir 21/2% vegna þess að launahlutfallið í rekstri útgerðarinnar er miklu hærra en í öðrum atvinnurekstri. Þessi launaskattur var hækkaður í 71/2%, og var það gert til að koma í veg fyrir hækkun á kaupgjaldsvísitölu, sem hafði ekki áhrif á aflahlut. Hækkun launaskattsins var því aldrei á rökum reist gagnvart útgerðinni í landinu.“

Það er auðvitað ekkert óeðlilegt, að hagsmunasamtök eins og L.Í.Ú. reyni að verja fjármálalega hagsmuni sína jafnvel í smáatriðum. Við það hef ég ekkert að athuga. Það er ekki nema mannlegt og eðlilegt. En hitt vil ég leiðrétta, að hér hafi, eins og ég reyndar áður sagði, verið um nokkurn sérstakan samning að ræða. Orlofsfélögin í þeirri mynd, sem þau voru samþykkt á síðusta Alþingi, voru að sumu leyti samkomulag og að sumu leyti ekki. Félmrh. varð við framlagningu frv. að höggva á ýmsa hnúta í sambandi við málið, og þar var sem sagt ekki um neitt sérstakt samkomulag að ræða, svo sem L.Í.Ú. heldur fram. Það var ekki um neinn kaupskap að ræða og ekkert sérstaklega rætt um þetta atriði, eftir því sem mér er sagt af greinagóðum mönnum, sem í n. voru. Hér er því um einhvern misskilning að ræða. Hitt er svo annað mál, að það kann vel að vera, að í dag standi útgerðin höllum fæti að taka á sig nýjar álögur. Um það skal ég ekki deila í sambandi við þetta mál. En ég held, að það verði þá að leysa það með öðrum hætti en að ganga á hlut sjómanna. Ég held að það væri aðferð, sem ekki hentaði nú.

Þetta er sem sagt aðalatriði málsins, að taka af öll tvímæli um það, að lögin verði framkvæmd eins og ég vil segja, að allir, sem áttu þátt í að búa til lögin bjuggust við, að þau yrðu framkvæmd, með sérstöku tilliti til innihalds 2. gr. laganna, því að auðvitað gat engum dottið í hug, að hér væri verið að stiga spor aftur á bak, eins og yrði, ef gengið yrði fram hjá ákvæðum 2. gr. og bókstafur 7. gr. látinn einn gilda. Þá er hér um hreina afturför að ræða, og ég hygg, að það geti verið ljóst, að eins og ástandið var, þegar þessi lög voru sett og þeir samningar gerðir, sem stóðu í beinu samhengi við þessar aðgerðir, hafi ekki verið um það að ræða að rýra kjörin frá því, sem þau áður voru.

Þetta er sem sagt aðalatriði frv. En í öðru lagi er svo um það að ræða, að orlofsgjaldið skuli mega taka lögtaki eins og opinber gjöld, og það er í samræmi við reglugerðabreytingu sem á að taka gildi frá næsta vori. Hún hefur ekki tekið gildi enn, en á að gera það á næsta vori, þ.e.a.s. að þá hverfa úr sögunni hin svokölluðu orlofsmerki, en í staðinn kemur, að Póstur og sími innheimti þessi gjöld og geri skilagrein til launþega með vissum fresti, og vegna þessara innheimtuhátta og þess, að orlofsmerkin eru lögð niður, þykir nauðsynlegt, að allar heimildir séu til staðar til þess að geta innheimt þessi gjöld eins og opinber gjöld og samhliða þeim. Býst ég við, að um það geti ekki verið miklar deilur.

Enn fremur er tekið fram í breytingum þessa frv., að kostnaður við framkvæmd laganna, að svo miklu leyti sem vextir af geymslufé Pósts og síma, sem renna til hans, nægja ekki, verði greiddur úr ríkissjóði. Þetta þykir nauðsynlegt að gera í sambandi við hina nýju reglugerð, vegna þess að í lögum hefur eingöngu verið ákvæði um það, að ríkissjóður skuli greiða kostnað af orlofsmerkjum, en engin ákvæði í lögum núna, og þykir rétt að taka af öll tvímæli um það, ef hér verður um umframkostnað að ræða, sem alls ekki er víst, að þá verði hann greiddur úr ríkissjóði með svipuðum hætti og orlofsmerkjafyrirkomulag var áður greitt.

Þá er loks að geta um brtt., sem n. flytur við 16. gr. frv. Ég hygg, að hún verði bezt skýrð með því, að ég lesi hér upp minnisblað, sem n. barst frá félmrn. meðan hún hafði þetta mál til afgreiðslu, en það minnisblað er svo hl jóðandi:

„Lögum nr. 16/1943,“ þ.e.a.s. um orlof, „var breytt með l. nr. 29/1945. Þessi breyting hefur fallið niður í sérprentun, sem gerð var í rn. á lögum um orlof. Af þessu leiddi, að 16. gr. núgildandi l., nr. 87/1971, lögfesti regluna úr l. frá 1943, að félagsdómur fjalli um mál út af orlofsfé. Þar eð enginn mun hafa ætlað að breyta ákvæði l. nr. 29/1945 um, að ágreiningur um þetta heyrði undir almenna dómstóla, er vafalaust rétt að breyta frv., sem nú liggur fyrir Alþingi í samræmi við þetta. Ákvæði 1. gr. l. nr. 29/1945 hljóða svo: „Ef eigi er ákveðið öðruvísi í lögum þessum, skulu öll mál út af réttindum og skyldum skv. þeim og til fullnægingar öllum kröfum í því sambandi sæta almennri meðferð einkamála. Þó þannig, að nægilegt er, að dómari leiti þar sátta.“ Svona ætti að orða 16. gr. l. nr. 87/1971.

N. hefur við athugun málsins fallizt á, að rétt væri að láta þá gerð þessarar gr. haldazt, sem raunar hefur alltaf verið meiningin og allra skilningur, en hér hefur fallið niður og orðið öðruvísi fyrir bein mistök og með brtt., sem fram kemur í nál., er á þetta fallizt og lagt til, að þessi gr. orðist eins og félmrn. leggur til.

Ég held, að ég hafi svo ekki, herra forseti, frekar um þetta að segja, nema sérstakt tilefni gefist til. en legg áherzlu á það, að gildistíminn varðandi það ákvæði, sem sérstaklega áhrærir sjómannastéttina, er í frv. miðaður við áramót, og vil því leggja áherzlu á, að málinu yrði hraðað hér í þessari hv. d., helzt afgreitt út úr henni í dag, þannig að möguleiki væri á því, að málið yrði afgreitt frá Alþ. fyrir jólaleyfi.