13.12.1972
Efri deild: 23. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1132 í B-deild Alþingistíðinda. (857)

39. mál, orlof

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Félmn. hefur mælt einróma með samþykkt þessa frv., sem hér er til umr. En við 2 nm., hv. 6. þm. Reykv. og ég, höfum gert fyrirvara. Það, sem ég ætla að víkja að hér, er að skýra, í hverju þessi fyrirvari liggur. Eins og ég sagði, erum við samþykkir efni frv. og því, að frv. verði samþ. eins og það er. Því flytjum við ekki brtt.

Hv. frsm. n. kom inn á það mál, sem varðar fyrirvara okkar hv. 6. þm. Reykv. En það ber verulega á milli þess, sem hv. frsm. sagði, og þess, sem upplýst var í félmn. Félmn. hélt nokkra fundi um þetta mál, og á tveim fundum mætti ráðuneytisstjórinn í félmrn. Hann skýrði gang þeirra mála, sem liggja á bak við þetta frv. Það vill svo til, að ráðuneytisstjórinn var formaður n., sem undirbjó orlofslögin frá síðasta þingi. Í þessari n. áttu sæti tveir fulltrúar að auki frá Vinnuveitendasambandi Íslands og einn fulltrúi frá Vinnumálasambandi samvinnufélaganna og þrír fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands.

Það er að sjálfsögðu engin tilviljun, hvernig þessi n. var skipuð. Hún var skipuð aðilum vinnumarkaðarins, vinnuveitendum og launþegum. Og óhjákvæmilega hlutu að verða í þessu efni ýmis mál, sem annaðhvort voru bein samningamál eða snertu eða jöðruðu við almenna launasamninga í landinu. Það kom upp í n. þegar ágreiningur varðandi greiðslu á orlofsfé út á aflahlut sjómanna. Af hálfu launþega í þessari n. kom fram það sjónarmið, að það ætti að greiða orlofsfé af aflahlut svo sem öðrum launum. En af hálfu vinnuveitenda kom hins vegar fram það sjónarmið, að hér væri nokkuð ólíku saman að jafna. Það væri annað, föst laun eða aflahlutur. Og það liggur í augum uppi, að það er eðlismunur á þessu tvennu. Það kemur strax í ljós, þegar menn atbuga þetta mál nánar. Er nokkur sanngirni í því, þegar tveir menn fara á sjó, annar er heppinn, aflar vel, fær mikinn aflahlut, hinn er óheppinn, fær lítinn aflahlut, að sá, sem er óheppinn, fái minna orlofsfé? Nei, það er engin sanngirni í slíku. Ef það ætti að fara að mismuna hér mönnum, þá mætti kannske færa rök fyrir því, að það ætti að gera betur við þann, sem óheppinn var og hafði minni aflahlut, heldur en hinn. Það er þó a.m.k. í samræmi við almennar hugmyndir um launajöfnuð. Það eðlilegasta er að mínu viti, að báðir mennirnir hafi jöfn réttindi hvað snertir orlofsfé. Og mér er tjáð, að það muni ekki tíðkast í nálægum löndum eða þar sem við getum borið okkur saman við um skipan þessara mála að greiða orlofsfé af aflahlut, heldur sé greiðslan miðuð við tryggingu. En þó að þessi sterku rök kæmu fram í undirbúningsnefnd orlofslaganna 1971, héldu fulltrúar launþega og þar með sjómanna fram hinu sjónarmiðinu, að það ætti ekki að skerða orlofsfé til sjómanna þannig, að það væri miðað við hlutatryggingu, heldur miða við aflahlut. En ég geri ráð fyrir því, að það hafi verið sterkur vilji hjá nm. að ná sem víðtækustu samkomulagi um þessi þýðingarmiklu mál, og það er auðvitað vel, að slíkur andi ríki á vettvangi, þar sem mætast fulltrúar vinnuveitenda og launþega í landinu. Vegna þessa var samið um málið. Og það var samið um málið á þann veg, að á móti því, að það var ákveðið, að það skyldi greiða orlofsfé af óskertum aflahlut, þá skyldi koma, að það skyldi ekki greiða orlofsfé af tekjum sjómanna, sem eru tekjuskattsfrjálsar. Þetta var það samkomulag, sem varð í undirbúningsnefnd orlofslaganna. Ráðuneytisstjóri félmrn., sem var formaður þessarar n., las upp lokafundargerð n., á fundi félmrn. d. Þar kom fram, að það voru tiltekin nokkur mál, sem ekki var samkomulag um, en um þau mál, sem ekki voru þannig nefnd, var samkomulag, og þar með þetta atriði, sem ég hef verið að greina frá. Þetta var og fram tekið sérstaklega af ráðuneytisstjóranum. Þessi fundargerð er, eins og ég sagði áðan, frá lokafundi n. 11. nóv. 1971. Mér sýnist, að við ættum ekki að þurfa að deila hér um þessar staðreyndir, og þó að við deilum um þessar staðreyndir, ég og hv. frsm. félmn., þá deilum við ekki um það, að rétt sé, að þetta frv. nái fram að ganga. Við mælum báðir með samþykkt þess.

En hvers vegna er ég að ræða þetta hér, og hvers vegna gerum við hv. 6. þm. Reykv, fyrirvara, sem varðar þetta mál? Það er vegna þess í fyrsta lagi, að það er ákaflega þýðingarmikið, og ég vona, að hv. frsm. n. sé mér sammála um það, að þegar aðilar vinnumarkaðarins, vinnuveitendur og launþegar, koma sér saman um ákveðna hluti, leysa deilumálin og ágreiningsefnin með samkomulagi, þá sé staðið við slíkt samkomul. af báðum aðilum. Þetta er eitt af grundvallaratriðum í okkar kjaramálum, í okkar launamálum, og á þessu byggjast möguleikarnir á þolanlegum vinnufriði í landinu og gagnkvæmu trausti milli vinnuveitenda og launþega, sem er ákaflega þýðingarmikið. En í öðru lagi mótast okkar fyrirvari af því, að hér er um beint hagsmunamál útgerðarinnar að ræða. Með orlofsl. frá síðasta þingi var orlofið hækkað úr 7% í 8.33% eða um 1.33%. Og það var gert ráð fyrir, að þessi hækkun þýddi fyrir útgerðina útgjaldahækkun, sem næmi 30–40 millj. kr. En skerðingin á orlofsgreiðslum til sjómanna af tekjum þeirra, sem eru tekjuskattsfrjálsar, nemur álíka upphæð. Þannig voru innviðir þess samkomulags, sem ég var að greina frá áðan.

Hv. frsm. n. tók af mér það ómak að lesa hér upp bréf frá Landssambandi ísl. útvegsmanna til félmn. Í því bréfi kom fram sú hugmynd, hvort hægt væri að bæta útgerðinni upp þann útgjaldaauka, sem fylgir samþykkt þessa frv., með því að lækka launaskattinn á útgerðina úr 2.5% niður í 1%. Ef það væri gert, mundi sú upphæð, sem út kemur og mundi létt á útgerðinni, nema einnig milli 30 og 40 millj. kr. Það er gert ráð fyrir, að aflahlutir útgerðarinnar nemi um það bil 2500 millj. kr. á þessu ári og eitthvað líkt á næsta ári. Þetta er staðfest af ritgerðum valkostanefndar ríkisstjórnarinnar. En 1.5% af þessu nemur 37.5 millj. kr. Þetta er uppástunga eða hugmynd, sem mér þykir sjálfsagt að athuga, en ég fyrir mitt leyti tel, að að sjálfsögðu geti komið ýmsar aðrar leiðir til athugunar til þess að bæta útgerðinni upp þá gjaldabyrði, sem samþykkt þessa frv. veldur.

Það er fullkomin ástæða til þess að leggja áherzlu á þetta atriði, að útgerðinni sé bætt þetta upp, því að um leið og þetta gerist, þá er það staðreynd, að útgerðin berst í bökkum. Það viðurkenna allir, og það hafa meir að segja á þessu ári verið gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að styðja útgerðina, sérstakar ráðstafanir af hálfu ríkisvaldsins. Eitt af þeim vandamálum, sem nú blasa við og eru snar þáttur í heildarvanda þjóðarbúskaparins og eitt að þýðingarmestu málunum, sem ríkisstj. er núna að vinna að til að fá leyst, það er einmitt að skapa útgerðinni rekstrargrundvöll á næsta ári. Samkv. ritgerðum valkostanefndarinnar, hvaða hugmyndir sem hún leggur til grundvallar, hvort það er nr. 1, 2, 3 eða 4, kemst hún alltaf að þeirri niðurstöðu, að útgerðin verði rekin með hundruð millj. kr. rekstrartapi á næsta ári, ef ekki er að gert. Það er því nokkuð furðulegt, að á meðan ástandið er slíkt og á meðan ríkisstj. segist vera að vinna að því að leysa þennan vanda, — og auðvitað efast ég ekki um, að hún er að vinna að því, það er lífsnauðsyn, — þá skuli hún hikstalaust bera fram frv., sem þýðir tugmillj. kr. gjaldaauka fyrir útgerðina. Það er rétt eins og hjá hæstv. ríkisstj. viti ekki vinstri höndin, hvað sú hægri gerir.

Ég tel, að það hafi af þessum ástæðum verið rík ástæða fyrir okkur hv. 6. þm. Reykv. að gera þann fyrirvara við samþykkt þessa frv., sem við höfum gert. En ég endurtek það, sem ég sagði í upphafi míns máls: Við erum samþykk því, að þetta frv. nái fram að ganga. Það er rétt, sem bv. frsm. félmn. sagði, að að óbreyttum lögum getur þetta þýtt það, að ekki einungis sjómenn verði fyrir skerðingu orlofsfjár, heldur einnig giftar konur, eins og hann tók fram, Ég tel líka, að samkv. orðanna hljóðan þýði óbreytt lög, að það megi líka skerða orlofsfé allra launþega í landinu, sem greiða vissa prósentu af launum sínum í lífeyrissjóði, þar sem iðgjöldin eru tekjuskattsfrjáls. Ég tel því, að eins og málum er háttað, hvað sem líður ástandi útgerðarinnar, sé rétt að breyta orlofsl. og samþykkja þetta frv.