13.12.1972
Efri deild: 23. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1136 í B-deild Alþingistíðinda. (859)

39. mál, orlof

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður var að tala um fýlu. Hver var í fýlu? Ætlar hv. ræðumaður að halda því fram, að það megi ekki ræða þetta mál? Hver er að tefja þetta mál? Hann er að tala um, að það sé verið að tefja málið. Það er naumast, að hv. ræðumaður telur, að þetta sé mikilsvert mál, ef það má ekki ræða það eðlilega hér í d. En hvers vegna var ég að ræða þan mál, sem við höfum deilt hér um og er að vísu aukaatriði? Hverjar eru staðreyndir varðandi samninga eða ekki samninga? Hver er ástæðan? Hv. ræðumaður hóf sjálfur umr. um þetta atriði, sem var algerlega ástæðulaust að draga inn í þessar umr. En þegar hv. þm. kemur með málflutning byggðan á upplýsingum, sem ég hef beztu heimildir fyrir, að séu rangar, þá tel ég skyldu mína að mótmæla slíku.

Hv. þm. var að tala um, að það væri óþarfi að minnast á útgerðina í þessu sambandi. Hvers vegna er þá minnzt á hana í frv., ef það má ekki ræða hana í umr? Ætli það sé tilviljun eða ekkert atriði fyrir útgerðina? En í hvaða sambandi var ég að ræða um útgerðina? Ég var ekki að ræða útgerðarvandamálin almennt. Ég aðeins vék að því einu eða tveimur orðum til þess að sýna fram á ósamræmið í vinnubrögðum ríkisstj. að koma hikstalaust með slíkt frv. sem þetta, sem þýðir milljónatuga aukin útgjöld fyrir útgerðina, á sama tíma sem er verið að leita með logandi ljósi eftir einhverjum úrræðum til þess að létta byrðar á útgerðinni. Ég vék aðeins að útgerðinni til þess að sýna fram á þetta ósamræmi í vinnubrögðum.

Ég hef í raun og veru ekki ástæðu til þess að víkja fleiri orðum að hv. 6. þm. Norðurl. e. í tilefni af orðum hans nú síðast. Hann var eitthvað að tala um jafnaðarmennsku. Ég skildi það nú ekki, hvort ég ætti að vera meiri eða minni jafnaðarmaður heldur en hann. En mér finnst það skipta litlu máli, því að hver veit næsta dag, hvar þessi hv. þm. verður?