24.10.1972
Sameinað þing: 6. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í B-deild Alþingistíðinda. (86)

7. mál, endurskoðun skattalaga

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Í fjárlagaræðu minni í gær kom ég að þeim þáttum, sem fyrirspyrjandi spyr um í fsp. sinni á þskj. 7. Fyrsta spurningin er: „Hvað líður störfum skattanefndar og endurskoðun skattal.?“ Eins og ég greindi þá frá, þá hefur n. sú, sem vann að endurskoðuninni í fyrra, unnið áfram að endurskoðun skattal. og jafnframt að endurskoðun annarra tekjuþátta ríkissjóðs. Það er ætlunin að ganga frá þessum málum eða vinna að þessum málum á þann veg, að heildaryfirlit fáist yfir tekjuöflun ríkisins og líklegar leiðir til þess, hvernig tekna til ríkissjóðs skuli aflað. Til þess að þetta megi verða, vinnur n. nú að heildarskýrslu um þetta mál, og eins og ég skýrði frá í gær, þá er þingflokkunum kunngert um það, sem gerist í þessu efni. Og það er talið, — og ekki neitt óeðlilegt við það, — að nauðsyn beri til að hafa sem mest yfirlit yfir þessi mál í heild, áður en einstakir þættir þess eru teknir til meðferðar.

Í öðru lagi er því til að svara, að þeir menn, sem vinna að þessari endurskoðun, eru starfsmenn í öðrum störfum og vinna að þessu sem aukastarfi. Hins vegar, eins og ég skýrði einnig frá, þá er nú gert ráð fyrir því, að ráðuneytisstjórinn í fjmrn. fái frí að mestu frá störfum nú um nokkurn tíma til þess að skila þessu verki verulega áfram, og jafnframt mun verða leitað eftir því við fleiri nm., að þeir geti helgað sig þessu verki nú um skeið.

Ég vil taka undir það, sem kom fram í ræðu hv. fyrirspyrjanda í sambandi við síðasta liðinn, að nauðsyn ber til að vinna þetta verk með aðgætni og vel og vandlega. Þess vegna kann ég ekki á þessu stigi málsins að svara því til, að hve miklu leyti þetta mál kann að koma fyrir þetta þing. En því skulu hv. þm. gera sér grein fyrir, að um leið og slakað er á einum þætti í tekjuöflun, verður að sækja á annan, og ýmsir þeir, sem hv. fyrirspyrjandi nefndi hér áðan, eru þess eðlis, að ég er ekki viss um, að öllum þætti gott, að þeim væri sleppt út úr tekjuskattsgreiðslu. Hins vegar verður stefnt að því að koma þessu máli fram hér á hv. Alþ. eins fljótt og auðið er, en um nánari tímasetningu get ég ekki sagt að þessu sinni. Ég vil hins vegar bæta því við, að ég tel, að það sé nauðsynlegt, að einmitt þetta þing, sem nú situr, fái tekjuöflunarmál ríkissjóðs til meðferðar, m.a. vegna þess að kringum þar næstu aldamót, áramótin 1973–1974, kemur til framkvæmda lækkun á tollum vegna EFTA-samninga, og þess vegna er nauðsynlegt, að einmitt þingið í vetur fjalli um þessi mál mjög kostgæfilega og að því verður reynt að vinna.