13.12.1972
Efri deild: 23. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1137 í B-deild Alþingistíðinda. (861)

39. mál, orlof

Auður Auðuns:

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur orð, og það var satt að segja vegna þess, að hv. 5. þm. Vestf. hefur talað sig dauðan, sem kallað er, en síðasti ræðumaður beindi nokkrum skeytum til hans, sem hann, ef ég man rétt, orðaði þannig, að það væri ekki heppilegt af honum að vera að ráðast að sjómönnum, eða eitthvað sagði hann í þá áttina. Ég vil neita því, að hv. 5. þm. Vestf. eða ég, sem skrifum undir þetta nál. með fyrirvara, séum að ráðast að sjómönnum, síður en svo. Það eru sett hér lög, sem snerta aðila vinnumarkaðarins, og lögin eru undirbúin af n., sem í eiga sæti menn frá báðum þessum aðilum. Það kemur fyrir þingið frv., — ég held, að mér sé óhætt að fullyrða það, — með þeim upplýsingum í grg., að um það sé samkomulag þeirra, sem frv. undirbjuggu, nema um ákveðin atriði, sem tekið er beint fram um, að ekki hafi verið samkomulag um, og það er tekið fram af fulltrúum launþeganna, að þeir hafi óskað, að lögin gengju heldur lengra. Í meðförum þingsins í fyrra eru samþykkt öll þessi atriði, sem fulltrúar Alþýðusambandsins höfðu farið fram á að fá inn. Það, sem við vildum undirstrika, er það, hve óheppilegt er, að það sé samþykkt hér í þinginu frv. af öllum grandalausum um annað en það, að nú sé búið að fullnægja óskum manna, og svo komi einn af aðilum vinnumarkaðarins og óski eftir að fá þessu þegar breytt. Það var einungis þetta, sem í okkar fyrirvara fólst. Við höfum við meðferð málsins ekki andmælt því, að þessar breytingar yrðu gerðar, og höfum skrifað undir nál. og munum fylgja frv. eftir, en töldum þó rétt, að þetta sjónarmið okkar kæmi fram.