13.12.1972
Efri deild: 23. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1138 í B-deild Alþingistíðinda. (862)

39. mál, orlof

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Í félmn. var allmikið og lengi rætt um þessi mál og þá alveg sérstaklega um þetta atriði, sem hér hefur líka verið gert að umræðuefni. Ég held, að það hafi komið alveg skýrt í ljós samkv. þeim upplýsingum, sem fyrir okkur lágu, að einmitt um þetta atriði náðist ekki samkomulag í n. Það náðist ekki samkomulag milli fulltrúa vinnuveitenda þar og fulltrúa Alþýðusambandsins. Það kom alveg skýrt í ljós, að um þetta náðist ekki samkomulag, og því var það, að því er ég gat bezt skilið, að ráðuneytisstjórinn setti inn þessa lagagr., sem nú er lagt til, að felld verði niður, — setti hana í frv. á síðustu stundu til þess, ef verða mætti, að þá félli þetta mál einhvern veginn um sjálft sig, að því er mér bezt gat skilizt. Ég er alveg viss um, að þetta var svo seint fram komið, að það var í raun og veru aldrei fyllilega athugað. Það var að vísu látið óátalið af hv. frsm. n., en að þessi gr. út af fyrir sig hafi verið ítarlega rædd og um hana hafi orðið fullt samkomulag, það held ég, að hvergi hafi komið fram hjá n. Ekki varð ég var við það.

Mér finnst reyndar aðalatriðið í þessu máli vera það, að þarna var verið að skerða fyrri rétt sjómanna. Sjómenn höfðu sem sé fullt orlof, 7%, af aflahlut sínum eins og öðru og einnig af því, sem þeir voru ekki skyldir að greiða skatt af. Nú var þetta skert á þann veg með þessari gr., þegar hún var túlkuð á stífasta máta, að orlof þessara sjómanna gat farið langt niður fyrir 7%. Og ég segi, að mér finnst mjög furðulegt, ef það á að vera svo, að réttlætismál eins og þetta, — þarna er hreinlega verið að — færa þetta mál í fyrra horf samkv. fyrri lögum, eins og þau hljóðuðu upp á, — ef slíkt réttlætismál á ekki að ná fram að ganga, þó að einhver vandi sé á ferðum hjá útgerðinni, enda kom það mjög vel í ljós hjá þeim, sem voru með ýmsar aths. um þessa málsmeðferð, þrátt fyrir langar orðræður hv. 5. þm. Vestf., að þeir töldu málið sjálfsagt. — Ég vildi aðeins láta þetta koma fram.

Þorvaldur Garðar Kristjánsson: Herra forseti. Það var aðeins út af þeim orðum hv. síðasta ræðumanns, að það væri ekki réttur skilningur, sem ég hélt hér fram, að það hefði orðið samkomulag um þetta atriði sem við deilum um, í n., sem undirbjó orlofslögin. Ég hef heyrt hv. þm. segja þetta einu sinni áður. Það var eftir að ráðuneytisstjórinn var búinn að lýsa málinu á fundi félmn. á þann veg, sem ég skildi það. Þegar þessi misskilningur kom svo upp, var ákveðið að fá ráðuneytisstjórann aftur á fund félmn., og það var ástæðan til hinna óvenjulegu vinnubragða að kveðja ráðuneytisstjórann tvisvar á fund. Það var vegna þessa misskilnings, að hann kom aftur á fundinn og lýsti þessu máli á þann veg, sem ég hef skýrt.