13.12.1972
Efri deild: 23. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1139 í B-deild Alþingistíðinda. (865)

108. mál, þörungavinnsla á Reykhólum

Frsm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Iðnn. þessarar hv. d. hefur fjallað um málið og eins og fram kemur í nál. á þskj. 152 orðið sammála um að mæla með samþykkt frv. með smávægilegri breytingu. Á þeim fundi iðnn., þar sem um málið var fjallað, mættu sérfróðir menn. Það voru þeir Baldur Líndal efnaverkfræðingur, sem fjallar um málið nú í endurskoðun þess á vegum iðnrn., Ingi Garðar Sigurðsson tilraunastjóri og oddviti Reykhólahrepps, Sigurður V. Hallsson verkfræðingur, sem einna lengst hefur fjallað um þörungavinnslu hér á landi, og loks dr. Vilhjálmur Lúðvíksson, sem hefur haft umsjón með þessum athugunum á vegum Rannsóknaráðs ríkisins og gengið frá þeirri skýrslu, sem lögð er til grundvallar því frv., sem nú er til umr. Með tilliti til þess, að þetta mál fær nokkuð sérstaka meðferð hjá hv. Alþ., sýnist mér rétt og skylt að fara nokkrum orðum um þær upplýsingar, sem þarna komu fram.

En áður en ég kem að því, er nauðsynlegt að rekja í örfáum orðum almenna sögu og þróun þessa máls, þannig að menn geri sér betur grein fyrir aths. og svörunum, sem fengust við þeim.

Stundum hefur heyrzt, að tími sé til kominn, að nýting þörunga hefjist hér á landi, og hefur gætt nokkurrar óþolinmæði hjá sumum mönnum. Ég las jafnvel einhvers staðar í blaði, að þetta væri hið einfaldasta mál. Það væri raunar ekki annað en að skera þangið eða þarana, þurrka hann og selja. Að vísu var í þeirri grein ruglað saman þangi og þara, en það er nú annað mál, sem ég ræddi um hér við 1. umr. þessa máls.

Staðreyndin er þó sú, að málið er töluvert flóknara, eins og ég vil nú rekja. Það er að vísu rétt, að þang, þari og þörungar margs konar hafa verið nýttir, líklega eins lengi og sagan nær frá að greina. En til iðnaðar er notkun þessa gróðurs tiltölulega ný. Á 18. öld var það brennt í Evrópu til framleiðslu á sóda til glergerðar og síðar á joði. Fóðurbætisframleiðsla úr þangi hófst skömmu síðar, en það er ekki fyrr en í lok 19. aldar, að fyrstu einkaleyfi eru skráð til framleiðslu á alginsýrum eða söltum úr þörungagróðri. Sú nýting þessa gróðurs færist hins vegar ekki verulega í vöxt fyrr en eftir fyrri heimsstyrjöld. Þess má geta, að alginefnin eru notuð í fjölmargt, m.a. og e.t.v. einkum er þeim blandað í vökva til þess að ráða því, sem nefnt er flæði vökvans. Nefna má dæmi um mikla og algenga notkun í sambandi við prentun á dúka, til þess að þar fáist betri viðloðun og stjórnun á prentsvertu. Fjölmörg önnur dæmi mætti nefna, sem ég mun þó ekki nefna hér.

Það er einkennandi við þessa nýtingu þangs, þara og annarra þörunga í nágrannalöndum okkar á fyrri öldum og árum, að sólþurrkun er þar fyrst og fremst viðhöfð. Vélvædd þurrkun á þessum gróðri hefst ekki fyrr en löngu síðar.

Hér á landi er raunar saga nýtingar á þörungagróðri einnig æðilöng. Oft hefur slíkt verið vel þegin búbót, þegar hart var í ári, bæði fyrir menn og skepnur, og oft bjargað miklu. Það hefur verið talið meðal kosta á hverri jörð að hafa þangbeit.

Það er hins vegar eðlilegt, að menn hafi lengi dreymt um að nota þennan víðtæka gróður við strendur landsins í iðnaðarskyni. Þangið og þarinn blasa alls staðar við, þar sem klettar og steinar prýða strendur þessa lands. Hafin var brennsla á þangi hér á landi skömmu eftir 1900 á Seltjarnarnesi og framleitt úr því joð, en sú framleiðsla stóð aðeins skamma stund og mun því einkum hafa verið um að kenna, að joðframleiðsla úr öðrum efnum hófst um svipað leyti, og reyndist þangið þá ekki samkeppnisfært.

Fljótlega kom einnig í ljós, þegar farið var að nýta þennan gróður, að sólþurrkun í þessu skyni hér á landi er ekki eins hentug og í nágrannalöndum okkar, þar sem veður er tryggara og sólar nýtur lengur við. Því var snemma farið að leita að leiðum til þess að nota þá orkulind, sem viða blasir við, jarðhitann, til þurrkunar á þangi. Merk tilraun í þessu sambandi var gerð á árunum 1939–1941 í Hveragerði af athafnamönnum, sem enn þá standa sumir hverjir framarlega í íslenzku athafnalífi. Þar var raunar notuð eins konar hlanda af sólþurrkun og þurrkun með jarðhita. Sú tilraun mistókst, e.t.v. að sumu leyti vegna þess, að styrjöldin gerði útflutning erfiðan, en mig grunar einnig, að framleiðslukostnaður hafi reynzt nokkuð mikill. Næsta tilraun er gerð um 1960 á Eyrarbakka. Þang var þar þurrkað með olíuhita. Sú tilraun mistókst einnig. Verðið reyndist fullhátt, eins og segir í skýrslu Sigurðar V. Hallssonar, sem stóð að þeirri tilraun, sem tæknimaður. Ýmsar rannsóknir hafa farið fram á þessum málum hér á landi. Má þar nefna, að Atvinnudeild háskólans gerði, þegar á fyrstu árum þeirrar stofnunar, eða upp úr 1946, allítarlegar athuganir á þessu sviði. Stóðu að henni efnaverkfræðingar og efnafræðingar, eins og Jóhann Jakobsson og Jón Vestdal. Rannsóknaráð ríkisins beitti sér fyrir ítarlegum athugunum í kringum 1950, sem Þorbjörn Sigurgeirsson þáv. framkvæmdastjóri, Baldur Líndal efnaverkfræðingur, Hallgrímur Björnsson og fleiri unnu að. Þær tilraunir beindust einkum að uppskeru á þara, nýtingu hans og framleiðslu á alginötum í því sambandi. Raforkumálastjóri tók þessar tilraunir upp skömmu síðar, eða um 1957, sem þátt í viðleitni þeirrar stofnunar til þess að nýta jarðhita hér á landi. Var þeim síðan haldið áfram nokkurn veginn stanzlaust fram til ársins 1971, en Rannsóknaráð ríkisins tók við rannsóknunum 1967. Öll þessi ár vann Sigurður V. Hallsson að rannsóknunum, fyrst sem fastur starfsmaður Raforkumálaskrifstofunnar, síðar sem ráðgefandi verkfræðingur á samningi við Orkustofnun og loks við Rannsóknaráð.

Á þessum árum beindist athyglin fyrst og fremst að þaragróðrinum, sem er gífurlega mikill á Breiðafjarðarsvæðinu. Það er ekki fyrr en bætt er við þær tilraunir vegna markaðserfiðleika á árinu 1971, að athygli manna snýst aftur að þangi, sem af ýmsum ástæðum, sem áður hefur verið minnzt á, er á uppgangsleið.

Þetta hef ég rakið til þess að leggja áherzlu á, að það er langt frá því, að ekki hafi verið gerð mikil og ítarleg tilraun til þess að nýta þörungagróður við strendur landsins. Bæði hafa þar verið að verki ýmsir athafnamenn, sem hafa áorkað miklu á öðrum sviðum og sömuleiðis opinberar rannsóknastofnanir fyrr og síðar. Staðreyndin er nefnilega sú, að nýting á þessum gróðri er langt frá því að vera eins einföld og auðveld og stundum er látið í veðri vaka af ókunnugum.

Ég vil þá leyfa mér að gera nokkurn samanburð á þeirri þangverksmiðju, sem nú er, og þeim hugmyndum, sem áður voru uppi um verksmiðju á Reykhólum í sambandi við nýtingu á þara. Við nýtingu á þara var gert ráð fyrir að afla þarans með þarakló, flytja hann síðan að landi nokkuð langt frá verksmiðjunni við bryggju, sem er skammt frá Stað í Reykhólasveit. Þaðan skyldi flytja hann í verksmiðjuna, þurrka hann þar, flytja hann aftur út á þessa bryggju, þaðan út í Flatey og umskipa þar í skip til útflutnings. Þegar farið var að athuga þangframleiðslu með tilliti til þess markaðar, sem nú hefur boðist, kom fljótlega í ljós, að þessi meðhöndlun á framleiðslunni var útilokuð af hagkvæmnisástæðum. Það var allt of dýrt að umskipa þanginu svo oft sem þarna var gert ráð fyrir. Því var horfið að því ráði að gerbreyta allri framleiðslurás. Er hún í örfáum orðum þannig.

Gert er ráð fyrir því að vinna þangið með vélrænum tækjum, sérstökum sláttuvélum, sem notaðar hafa verið í Bandaríkjunum með góðum árangri og menn sem þær hafa skoðað, fullyrða, að séu mjög hentugar til skurðar á þangi við þær aðstæður, sem eru á Breiðafirði. Gert er ráð fyrir því, að frá þessum skurðvélum, eða sláttuvélum verði þangið tekið í netum af litlum bátum og flutt í stóran pramma, sem flytur síðan þangið að bryggju, sem yrði rétt við verksmiðjudyr í Karlsey út af Reykhólum. Þar yrði þangið fyrst malað, síðan skolað til þess að losna við ýmis aukasölt, sem eru á þanginu, þegar það kemur úr sjónum. Síðan yrði það þurrkað með jarðhita, þá saxað að nýju og pakkað áður en það er flutt út aftur beint frá þeirri bryggju, sem yrði við verksmiðjudyrnar.

Í þessu — og á það vil ég leggja áherzlu felst að verulegu leyti sú hagkvæmni, sem fram kemur í áætlun um þangþurrkunarstöð á Reykhólum.

Því er þá ekki heldur að neita, að þetta fyrirkomulag krefst langtum meiri opinberra framkvæmda en gert var ráð fyrir með fyrri tilhögun á framleiðslu á þara. Nauðsynlegt verður að gera þarna bryggju. Er áætlað, að hún muni kosta um 25 millj. kr. Nauðsynlegt er að leggja veg frá Reykhólum og yfir nokkra fjöru. Er áætlað, að sá vegur muni kosta um 8 millj. kr. Raflínu verður að leggja að Reykhólum, en það hefði að sjálfsögðu þurft að gera í báðum tilfellum. Er áætlað, að sú raflína kosti um 14 millj. kr. Bora verður að Reykhólum, og er ætlað, að boranir kosti um 12. millj. kr. með leiðslu að verksmiðjustað út í Karlsey. Samtals kosta þessar opinberu framkvæmdir um 59 millj. kr. samkv. áætlun og eru þá a.m.k. rúmlega 30 millj. kr. hærri með þeirri tilhögun, sem nú er gert ráð fyrir, en þeirri, sem áður var til umræðu í sambandi við þarann.

Áætlað er, að verksmiðjan sjálf muni kosta 128 millj. kr., en af því eru 51.5 millj. kr. vegna öflunar tækjanna. Áætlað er, að framleiðslukostnaður yrði um 42 millj. kr., en af því yrðu um 10 millj. kr. laun.

Nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir því, að aðeins er unnt að starfrækja verksmiðjuna í u.þ.b. 7 mánuði ársins, á meðan Breiðafjörður er ekki ísilagður. Þetta veldur vissulega nokkrum erfiðleikum í sambandi við vinnuafl, og mun ég koma að því dálítið síðar.

Áætlað er, að söluverðmæti yrði um 55 millj. kr. Allt er þetta miðað við 4 þús. tonna ársframleiðslu. Rekstrarafgangur við þessa framleiðslu og samkv. áætlunum um það bil 13 millj. kr., sem samsvarar um 10% arðsemi fyrirtækisins, áður en skattar eru greiddir.

Að því er ég bezt man, hefur ekki verið minnzt á starfslið verksmiðjunnar. Það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt atriði, ekki sízt fyrir byggðarlagið, og vil ég gera stuttlega grein fyrir því. Gert er ráð fyrir, að 4 menn yrðu fastráðnir við skrifstofustörf og stjórnun fyrirtækisins allt árið. Þá er gert ráð fyrir því, að 18 manns ynnu við þurrkun í 7 mánuði, 12 manns ynnu við öflun á þangi í 7 mánuði, en auk þess er gert ráð fyrir því, að 12 manns ynnu við öflun í 3 mánuði yfir sumarmánuðina, m.ö.o. þegar unnt er að vinna á vöktum að öflun þangs.

Um markaðinn hefur verið rætt mjög ítarlega, og þarf ég ekki að endurtaka það. Markaður fyrir þessa framleiðslu byggist fyrst og fremst á hinu athyglisverða tilboði frá fyrirtækinu Alginate Industries í Skotlandi. En nauðsynlegt er, að það komi hér fram, að athuganir á mörkuðum hafa leitt í ljós, að aðrir markaðir eru víssulega hugsanlegir, og er sjálfsagt, að þeir verði skoðaðir betur. Fyrirtækið Alginate Industries býður 73 pund á hvert tonn af framleiðslunni, og er rekstraráætlun á því byggð.

Ég vil einnig leggja áherzlu á það, sem fram kemur í skýrslunni, að gert er ráð fyrir, að anka megi framleiðsluna upp í 10 þús. tonn á ári á tiltölulega skömmum tíma. Mun þá hagkvæmni öll batna verulega frá því, sem ég hef rakið.

Með þessar upplýsingar í huga vil ég þá minnast á þau atriði, sem komu fram í viðræðum n. við þá sérfræðinga, sem hjá henni mættu og ég nefndi í upphafi míns máls.

Baldur Líndal verkfræðingur minntist á það, að afhuga þyrfti vel, hvort þarna væri nægilegur þanggróður fyrir það uppskerumagn, sem um er að ræða. Gert er ráð fyrir því, að fyrir 4000 tonn af þurrkuðu þangi þurfi rúmlega 21 þús. tonn af blautu þangi. Þessu svaraði Sigurður V. Hallsson verkfræðingur fyrst og fremst, en hann hefur athugað og unnið að þessum málum manna bezt. Hann kvaðst fullviss um það, að óhætt væri að telja 10 þús. tonn lágmarksmagn af þangi, sem vinna mætti á svæðinu, sem þarna liggur næst. Hann upplýsti, að þangið væri ríkulegt u.þ.b. hálfa leið inni í firði og með öllum skerjum og hólmum, sem eru þarna mjög margir, eins og allir vita. Hins vegar er lögð á það rík áherzla, að um leið og þessi rekstur hefst, þarf að fara fram ítarlegri athugun á þessari uppskeru og nauðsynlegt að fylgjast mjög vel með endurvexti þangsins, þar sem það er skorið.

Þá benti Baldur Líndal verkfræðingur einnig á það, að í skýrslunni er minnzt á breytilegt alginsýruinnhald þangsins eftir árstíðum. Það er einna minnst á haustin. Kom fram, að nauðsynlegt er, að fyrirtækið sjálft geti fylgzt vandlega með alginsýruinnihaldinu. Hins vegar var skoðun sérfræðinganna, að ekki væri um það mikinn breytileika að ræða, að ráðið gæti úrslitum um afkomu verksmiðjunnar.

Einnig var á það bent, að í áætlunum um stofnkostnaðinn komi uppsetningarkostnaður ekki fram sérstaklega nema að litlu leyti. Dr. Vilhjálmur Lúðvíksson upplýsti, að í þeim tölum, sem settar væru fram, væri gert ráð fyrir ríflegum uppsetningarkostnaði. Sömuleiðís hefur komið í ljós í tilboðum í tæki, sem þegar eru farin að berast, í sambandi við nánari könnun á kostnaði við þennan rekstur, að áætlun er öll mjög rúm. Mér virðist því mega treysta því, að tekið sé fyllilega tillit til uppsetningarkostnaðar.

Einnig er á það bent, að gera yrði ráð fyrir því, að vélar yrðu tollfrjálsar, því að um er að ræða útflutningsfyrirtæki og eðlilegt, að það njóti sömu kjara og t.d. Kísiliðjan og fleiri fyrirtæki, sem reist hafa verið til útflutnings og njóta tollfrelsis á stofnkostnaði. N. taldi hins vegar ekki nauðsynlegt, að þetta yrði tekið inn í það frv., sem nú liggur fyrir, en leggur áherzlu á, að þetta ákvæði þurfi að athuga í sambandi við samningu endanlegs frv. um þangþurrkunarfyrirtækið.

Þá kom einnig fram, að varasamt gæti verið að treysta eingöngu á þann markað, sem þið ágæta skozka fyrirtæki býður, og nauðsynlegt væri að athuga fleiri möguleika. Allir í n. og sérfræðingar, sem þar voru, voru sammála þessu sjónarmiði, en hins vegar var upplýst, að ekki hafði verið talið í verkahring þeirra, sem þessar athuganir hafa annazt til þessa, að taka upp viðræður um sölu og sölusamninga á framleiðslunni. Þetta virðist vera eðlilegt verkefni fyrir það undirbúningsfyrirtæki, sem nú á að setja á fót.

Nokkuð var rætt um óvissu í áætlunum. Kom fram hjá sérfræðingunum, eins og ég hef þegar minnzt á, að fremur megi ætla, að áætlunin sé rúm en þröng. Að vísu er ljóst, að arðsemi lækkar úr 10%, áður en skattar eru greiddir, niður í u.þ.b. 6%, ef stofnkostnaður hækkar um t.d. 20%. Aftur á móti bendir allt til þess, að uppskeran með þeim tækjum, sem gert er ráð fyrir, verði töluvert hagkvæmari, en áætlað er í skýrslunni, því að þar er byggt á aðstæðum, sem eru ólíkt erfiðari en hér eru. Þannig bendir allt til þess, að óvissa sé tiltölulega lítil.

Eðlilega er spurt, hvers vegna þyrfti þá að gera ráð fyrir undirbúningsfyrirtæki. Er ekki unnt að leggja þegar fram frv. um endanlegt fyrirtæki og ákveða þar með, að í þessa framkvæmd skuli ráðizt? Því er til að svara, að nú fara fram á vegum rn. athuganir á þessum rannsóknum og niðurstöðum. Ég fyrir mitt leyti tel slíkar athuganir sjálfsagðar. Um rannsóknarverk á vegum Rannsóknaráðs ríkisins er að ræða, en ekki hönnunarverk, og er þar töluverður munur á. Því er nauðsynlegt að bíða eftir tæknilegum athugunum, sem Baldur Líndal verkfræðingur hefur með höndum fyrir hönd rn., og sömuleiðis eftir athugunum á hagkvæmni þessa fyrirtækis, sem Framkvæmdastofnun ríkisins hefur verið beðin um. Hvorugu þessu er lokið. Hins vegar er alveg ljóst, að undirbúningur fyrirtækisins má ekki bíða eftir því, að þessar niðurstöður liggi fyrir, og er það meginástæðan fyrir þeirri leið, sem valin er, að setja á fót undirbúningsfyrirtæki. Þetta fyrirtæki þarf þegar að hefja undirbúning. Því ber að láta hanna verksmiðjuna, ræða þarf við erlenda framleiðendur og ganga þarf tryggilega frá markaðsmálum öllum og frekast er unnt. Skila þarf verkinu að segja má fullsköpuðu í hendur þess endanlega fyrirtækis, sem gera verður ráð fyrir, að stofnað verði mjög fljótlega. N. sýndist við athugun á því atriði málsins, að endanlegt fyrirtæki þyrfti að vera komið á fót í marz n.k., því að ljóst er, að undirbúningsfyrirtækinu er ekki ætlað að byggja þá verksmiðju, sem hér um ræðir. Hins vegar þarf að panta dýrustu tækin, fyrst og fremst þurrktækin, þegar í marz eða apríl n.k. Nefndin leggur því ríka áherzlu á, að þegar verði haldið áfram með undirbúning endanlegs fyrirtækis, annaðhvort á vegum rn. eða á vegum þessa undirbúningsbúningsfyrirtækis, sem nú á að setja á fót.

Eins og ég nefndi í upphafi máls míns, mætti á fundi nefndarinnar fulltrúi heimamanna, oddviti Reykhólahrepps. Ég vil láta það koma fram, að hann lýsti mjög miklum áhuga heimamanna á þessu fyrirtæki og taldi, að það gæti skipt sköpum í allri þróun byggðar og atvinnulífs á þessu svæði. Það kom einnig fram hjá oddvitanum, að heimamenn eru þeirrar skoðunar, að þetta fyrirtæki eigi að meiri hluta að vera í eigu hins opinbera og heimamanna sameiginlega, ef ekki að meiri hluta í eigu hins opinbera eins.

Ég vil einnig í þessu sambandi leggja á það ríka áherzlu, að allur þáttur heimamanna í þessu starfi, bæði við rannsóknir og undirbúning þessa máls, hefur verið með ágætum. Ég vil geta þess sem dæmis um áhuga þann, sem fram kom á rannsóknum og tilraunum á nýtingu þara, að Reykhólasveit og kaupfélagið í Króksfjarðarnesi reistu sjálf og fyrir eigið fjármagn stálgrindarhús á Reykhólum og létu af hendi fyrir þau tilraunatæki, sem þar voru sett upp. Sýnir það gerst, hve mikill og raunverulegur áhugi heimamanna á þessu máli er. Eins og fram er komið, hafa heimamenn stofnað fyrirtæki til þess að koma þessu máli áfram. Oddviti Reykhólahrepps, Ingi Garðar Sigurðsson, var einn af stofnendum þessa fyrirtækis. Auk þess sem Sigurður V. Hallsson, sem mættur var á fundinum, í stjórn fyrirtækisins. Kom greinilega fram hjá þeim, að þeir töldu sjálfsagt, að fyrirtækið yrði þátttakandi í þessu undirbúningsfyrirtæki og að sjálfsögðu í hinu endanlega fyrirtæki, sem verður sett á fót.

Öllum má vera ljóst, að fyrirtæki sem þetta getur og mun hafa gífurleg áhrif á byggðarþróun á Reykhólasvæðinu. 34 menn munu fá þar vinnu 7 mánuði ársins og 12 til viðbótar, t.d. skólafólk, yfir sumarmánuðina. Ljóst er, að þessu mun fylgja mikil þróun í byggingarmálum þessarar sveitar. Það hljóta að rísa íbúðarhús fyrir þetta starfslið. Vil ég í því sambandi leggja sérstaka áherzlu á, að ekki má dragast að skipuleggja þetta svæði nú þegar með tilliti til þess atvinnuvegar, sem þarna á að risa. Í því skipulagi er ekki aðeins nauðsynlegt að gera ráð fyrir almennu skipulagi svæðisins. Þarna eru sögustaðir, sem ber að varðveita og eru vissulega forvitnisefni fyrir þá, sem þarna koma. Ekki aðeins þarf að gera ráð fyrir skipulagi byggðar, heldur einnig fyrir allri félagslegri aðstöðu. Mér virðist t.d. ljóst, að þetta muni hafa veruleg áhrif til breyt. á áætlunum, sem þarna eru nú begar í framkvæmd, í skólamálum og einnig heilbrigðisþjónustu. Ekki er gert ráð fyrir lækni í því frv. til heilbrigðslaga, sem lagt var fram á síðasta Alþ. Með verksmiðjurekstur sem þennan á staðnum virðist mér ljóst, að á þessu þurfi að verða breyting. Fjölmörg fleiri dæmi mætti nefna um áhrif sem þessi framkvæmd mun að sjálfsögðu hafa á byggðarlagið, en ég vil ekki tefja umr. um þetta mál og afgreiðslu þess með því að fara ítarlega út í það.

Eitt vil ég nefna, sem mér sýnist ljóst. Þegar þarf að hefja könnun á því, hvernig nota megi þá aðstöðu, sem hið opinbera leggur þarna til, til frekari atvinnuuppbyggingar. Sömuleiðis er afar nauðsynlegt að athuga, hvernig tryggja megi þeim fastráðnu mönnum, sem þarna starfa, vinnu þá 5 mán., sem þeir gætu ekki starfað í verksmiðjunni. Ég vil geta þess, að þegar eru uppi hugmyndir í því sambandi, jafnvel að nota mætti þessa verksmiðju að einhverju til atvinnurekstrar þennan tíma. Þá vil ég einnig geta þess, sem komið hefur fram í umr., að við byggingu þessarar verksmiðju er nauðsynlegt að gæta náttúruverndar. Fyrirtækið sem slíkt spillir ekki umhverfi sínu. Því fylgir ekki mengun, en þó er rétt að geta þess, að við skolun á þangi skolast frá því ýmis steinefni, sem á því eru, og fara að sjálfsögðu aftur til sjávar og gera þannig sjóinn í kringum verksmiðjuna nokkru steinefnaríkari en hann hefur vanda til. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ég hef fengið frá fróðum mönnum á þessu sviði, getur þetta þó ekki talizt það magn, að um mengun geti verið að ræða. Þó er nauðsynlegt og raunar skylt samkvæmt lögum að leita álits náttúruverndarráðs á þessu máli.

N. fjallar loks að sjálfsögðu um frv. sjálft, og get ég farið um það örfáum orðum. Það er augljóst, þegar frv. er lesið, að til hliðsjónar hafa verið höfð lög um undirbúningsfyrirtæki fyrir olíuhreinsunarstöð. Ekki er laust við, að við hnytum um sum ákvæði þessa frv., sem e.t.v. eiga síður við um þetta fyrirtæki en það, sem ég nefndi. T.d. kemur fram í 2. gr., að ríkisstj. skuli heimilt að kveðja hvers konar aðila, sem áhuga hafa á málinu, innlenda eða erlenda, til samvinnu, og svipað ákvæði er að finna í 6. gr., þar sem minnzt er á erlenda þátttöku í þessum atvinnurekstri. N. var öll á þeirri skoðun, að hér væri ekki um svo umfangsmikið mál að ræða, að nauðsynlegt væri að gera ráð fyrir erlendri þátttöku í þessu fyrirtæki, og þekking raunar svo mikil þegar fyrir hendi, að slíkt væri óþarft. Auk þess er tryggð ágæt samvinna við prýðilegt fyrirtæki á þessu sviði og því ekki ástæða til að kveðja það t.d. til þátttöku í fyrirtækinu sjálfu. N. taldi þó ekki nauðsynlegt að gera brtt. við þetta. Hún taldi þessi ákvæði skaðlaus, en ég vildi þó vekja sérstaka athygli á þessari skoðun nefndarinnar.

Í sambandi við 3. gr. kom fram sú aths., að tryggt yrði að vera, að sá einn af stjórnarmeðlimum fyrirtækisins, sem ekki væri skipaður af ráðh., væri kjörinn af öðrum hluthöfum í þessu fyrirtæki. Hafði n. í huga að gera brtt. þar að lútandi, en fól mér að ræða um það mál við lögfróðan mann, sem vann að undirbúningi þessa frv. Hann fullvissaði mig um, að til þess væru fjölmörg fordæmi, að slíks væri ekki getið í l., en ávallt framkvæmt á þennan veg, sem ég hef rakið. Taldi n. því óþarft að flytja þessa brtt.

Eina brtt., sem n. flytur, er við 6. gr. frv., þar sem n. leggur til. að setningin í 2. mgr., sem hljóðar svo: „Fulltrúar af hálfu ríkisins skulu skipaðir af ráðh.“ — verði felld brott. Þetta gerir hún með tilliti til þess, að í 3. gr. frv. er þegar tekið fram, að tveir aðalmenn og tveir varamenn séu skipaðir af ráðh. Þar sem ég fylgdist vel með undirbúningi þessa frv., veit ég, að um mistök er að ræða í þessu sambandi. 3. gr. frv. var bætt inn í það í seinni umferð, og þá leyfi ég mér að fullyrða, að láðst hafi að strika út þetta ákvæði í 6. gr. frv. Ef þetta er hins vegar nokkurt vafaatriði, er sjálfsagt, að það sé athugað við nánari með ferð þessa máls.

Með tilvísun til þess, sem ég hef nú rakið, vil ég leyfa mér að mælast til þess, að þetta mál fái skjóta afgreiðslu í hv. d. og í hv. Alþ., enda er um þetta mál, að því er ég fæ bezt séð, fullkominn samstaða.