13.12.1972
Neðri deild: 23. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1154 í B-deild Alþingistíðinda. (879)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Fyrst efnahagsvandamálin, sem við er að etja í íslenzku þjóðfélagi í dag, og þann augljóslega ágreining, sem um lausn þeirra er innan stjórnarflokkanna, hefur borið á góma hér utan dagskrár á hinu háa Alþ., finnst mér rétt að láta eitt sjónarmið koma fram. Ég skal ekki lengja þessar umr. og ætla ekki að gera nein efnisatriði málsins að umræðuefni, en hitt finnst mér rétt, að látið sé í ljós og undirstrikað mjög sterklega, að það ástand, sem hefur skapazt undanfarna daga í íslenzku viðskiptalífi og íslenzkum gjaldeyrismálum, er mjög alvarlegt. Ég hef það lengi farið með forstöðu viðskrn. og þar með yfirstjórn íslenzkra gjaldeyrismála, að ég geri mér vel ljóst, hverjar hættur fylgja því, ef það ástand, sem verið hefur hér undanfarna daga og er í dag, helzt öllu lengur. Ég segi þetta til þess að hvetja ríkisstj. sterklega, — og þessum orðum fylgir hinn mesti alvöruþungi, til þess að taka ákvarðanir sínar sem allra fyrst. Af því gætu hlotizt ófyrirsjáanlegar afleiðingar í viðskiptamálum og gjaldeyrismálum, ef ekki er höggvið á þann hnút, sem nú þarf að höggva á, innan mjög skamms tíma, innan örfárra daga. Þess eru dæmi frá fyrri tímum, fyrir löngu, að ástand hafi skapazt líkt þessu, sem nú á sér stað, og um það eru dæmi, sem mörgum eru kunn, sem ollu eftir á stórkostlegum vandkvæðum, deilum og meira að segja málaferlum. Það er vegna þessa, sem ég vildi vara hæstv. ríkisstj. við. Á þessari stundu er ástandið orðið þannig, að það má með engu móti dragast úr hömlu, að úr þeim vanda, sem við er að etja, verði leyst, á hvaða hátt sem það kann að verða gert. Aðalatriðið er, að lausnin finnist og ákvörðun verði tekin. Til þess gefst nóg tilefni síðar að ræða og deila um það, hvort sú ákvörðun, sem tekin verður, er rétt eða röng. En það, sem ég vildi ekki láta ósagt við þetta tækifæri, er það, að ákvörðun verður að taka og það sem allra fyrst, án þess að frekari frestur verði á.