13.12.1972
Neðri deild: 23. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1157 í B-deild Alþingistíðinda. (884)

Umræður utan dagskrár

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. lét vera að svara þeirri fsp., sem ég beindi til hans áðan varðandi afstöðu eins stjórnarflokkanna til gengislækkunarleiðar valkostanefndarinnar. Má vel vera, að honum sé ekki kunnugt um, hvað þar hafi verið samþykkt og hverjar séu hugmyndir í þeim flokki. Mig langar þá til þess að ítreka þessa spurningu mína til hæstv. heilbr.- og iðnrh., sem situr hér í hliðarherbergi, hvort hann muni ekki vilja upplýsa þingheim um það, sem hér hefur komið fram og heyrzt hefur utan þinghúss, að flokkur hans hafi í gær látið í ljós skoðanir sínar á einni af þeim leiðum, sem valkostanefndin hefur bent á, þ.e.a.s. gengisfellingarleiðinni. Hæstv. ráðh. gerði hér í ræðu á Alþ. í gær samtengingu á milli gengislækkana og afbrotahneigðar unglinga og lýsti skoðunum sínum í þeim efnum. Ég veit, að það væri fróðlegt fyrir þessa hv. d., ef hæstv. ráðh. vildi tjá sig í þessum málum, sem hér hafa verið til umr. utan dagskrár í dag, og þá sérstaklega um það, hvort það sé rétt með farið, að flokkur hans hafi tekið ákvarðanir varðandi eina af þessum valkostaleiðum.