13.12.1972
Neðri deild: 23. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1167 í B-deild Alþingistíðinda. (888)

76. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég skal ekki fara að þreyta hér langar umr. um skattamálin, því að þau hafa verið svo mikið rædd hér á hv. Alþ., að ég sé ekki ástæðu til að fara mikið út í þau nú. En í sambandi við þetta mál vil ég víkja að örfáum atriðum úr ræðu hv. 1. þm. Reykn.

Það má vel vera, ef ég ætti eftir að sitja í ráðherrastóli í 12 ár, sem ég geri nú ekki ráð fyrir, þá gæti ég skilað af mér skattal., sem ívilnuðu skattborgurunum verulega, en aðrir ættu svo að framkvæma þau. En þannig var það hjá viðreisnarstjórninni, að þær ívilnanir, sem þeir gerðu fyrir skattborgarana, áttu að koma til framkvæmda eftir þeirra dag, eins og t.d. þetta, sem sneri að gamla fólkinu. Eftir 12 ára reynslu hygg ég, að ég mundi geta fundið slíka leið einnig. Hins vegar er það eins og ég sagði hér í haust, að sá munur er á, að nú eru framkvæmdir gerðar, en fyrirheitin áður.

Ég vil út af því, sem hv. 1. þm. Reykn. sagði um þá öldruðu, geta þess, að sá meginmunur er á nú og framvegis, að þegar þetta fólk greiddi sín gjöld til trygginganna, voru þau dregin frá skatti, svo að það var búið með skattívilnun, sem það fékk þá, að fá eftirgjöf á skattinum, vegna þess að framlög persónuskatta til trygginganna voru skattfrjáls. Þess vegna set ég dæmið upp öðruvísi en hann. Ég segi, að það fengi tvisvar sinnum skattfrelsi af þessum sama peningi, ef það fengi það einnig núna, því að það var búið að fá það þá. Ég vil líka minna á, að á aðstöðu hinna öldruðu nú og áður fyrr, er geysilegur munur. Það er ekki neitt pólitískt mat. Menn geta haft á því mismunandi skoðanir. En t.d. eftir að lífeyrissjóðakerfið kom til framkvæmda í jafnríkum mæli og nú er orðið, er ekki hægt að bera saman aðstöðu hinna öldruðu við það, sem áður var. T.d. í ríkiskerfinu eru eftirlaunin miðuð við starfið eins og það er, með þeim verðtryggingum, sem ríkissjóður verður að greiða á hverju ári og eru hvorki meira né minna en yfir 150 millj. kr. Þetta er geysilegur munur, enda þekki ég marga embættismenn, sem hættir eru störfum og hafa vegna þessa ákvæðis hærri laun núna en þeir höfðu nokkurn tíma, meðan þeir voru í sínum embættum. Um þetta getum við þess vegna rætt alveg án tillits til pólitískra skoðana. En ég álít, að það verði að meta þetta út frá þeim breytingum, sem orðið hafa í þjóðfélaginu með lífeyrissjóðunum og með þeim hækkunum, sem hafa orðið í almannatryggingakerfinu.

Ég fékk frá Skattstofunni í Reykjavík yfirlit yfir nokkra borgara, sem ég veit ekki, hverjir eru, því að við beiðni um slík yfirlit tek ég það fram, að ég vil ekki fá nafn. Það voru borgarar, sem voru 67 ára og eldri, en höfðu þó nokkuð hátt á aðra millj. í tekjur, og til voru þegnar, sem fóru yfir 2 millj. í tekjur. Frá mínum bæjardyrum séð er það broslegt í raun og veru að telja, að það sé ávinningur að fara að gefa þessum mönnum sérstakan frádrátt upp á 60, 70, 80 þús. eða hvað það nú er, sem tryggingarnar voru á s.l. ári. Ég lít svo á, að þetta fólk, — hér er ég að túlka þær skoðanir, sem ég hef á þessu, alveg án tillits til pólitískra skoðana, — en ég lít svo á, að þetta fólk sé miklu betur sett en unga fólkið, sem er að mynda heimili, er að fá börn sín í fangið, er að reyna að koma sér upp íbúð og á sem sagt eftir að undirbúa allt sitt líf. Og ég lít líka svo á, að þetta fólk sé betur sett, ef það hefur fulla heilsu og auk þess svona mikil laun, heldur en fólkið, sem er að mennta börnin sin. Yfirleitt býr þetta fólk í íbúðum, sem það á orðið skuldlaust. Hinir búa í íbúðum, sem þeir skulda í og verða að borga háar fjárhæðir af. Þess vegna finnst mér, að svona hluti verði ekki hægt að meta eftir neinum aldri, heldur verði að meta þá eftir því, hvernig afkoma er, þrátt fyrir aldurinn. Hins vegar vil ég í því sambandi, eins og gert var með l. í sumar, vekja athygli á því ákvæði skattal., að reikna megi sérstakan frádrátt, samkv. heimild í 52 gr. skattalaga, ef um verulega breytingu er að ræða á afkomu þessa fólks á greiðsluárinu frá tekjuárinu, sem náttúrlega er eðlilegt að oft verði hjá þessum aldurshópi. Og ég álít, að það þurfi sérstaklega að vekja athygli á þessu núna, vegna þess að áður fyrr var þetta spursmál miklu meira afgerandi hjá sveitarfélögunum, en nú er það aftur orðið meira afgerandi hjá ríkisskattinum vegna breytinganna á milli skattsins hjá ríkinu og sveitarfélögunum. Þetta er skoðun mín á þessu máli, og ég álít, að málið sé ekki svo einfalt, að það eigi bara að slá út ellilaununum og gefa þau eftir alveg án tillits til tekna. Ég álít, að það eigi að vera með því sniði, sem er í brbl. Hvort þetta rými, sem við völdum þar, er nægjanlegt, um það skal ég ekki slá neinu föstu, það er ekki nein heilög tala. En einhvers staðar varð að draga mörkin. einhvers staðar hlaut endirinn að koma. Frá mínum bæjardyrum séð er það ekki rétt stefna að miða þetta eingöngu við aldur, heldur verður að miða við tekjur líka vegna þeirra stóru breytinga, sem hafa orðið í þjóðfélaginu. Og mér finnst þetta að sumu leyti vera orðin spurning um það, hvað þetta fólk skilar miklum arði til næstu kynslóðar, miklu meira spurning um það heldur en aldur þess sjálfs.

Nú skal ég segja það, að mínar skoðanir geta menn auðvitað gagnrýnt og annað eftir því, og þær kunna að vera ekki á rökum reistar. En rök mín eru þau, að með þeim breytingum, sem hafa orðið í þjóðfélaginu, með lífeyrissjóðakerfinu, með almenna tryggingakerfinu, þá er aðstaða þessa fólks orðin svo allt önnur, að ég álít, að það eigi, eftir að það er komið í verulega háar tekjur, að meta þær alveg eins og tekjur annarra skattborgara þjóðfélagsins. Og svo skal ég ekki eyða fleiri orðum um þetta.

Ég vil svo segja út frá því, sem hv. 1. þm. Reykn. vék að sveitarfélögunum, að því var spáð hér í fyrravetur, að mjög yrði að þeim þrengt og þeirra erfiðleikar yrðu miklir. Nú liggja fyrir um þetta skýrslur, og ég hef hér hjá mér skýrslu um bæjarfélögin í landinu, Reykjavík og önnur bæjarfélög, hvað þau höfðu hlutfallslega í afgang til framkvæmda umfram rekstrarþarfir á árunum 1971 og 1972. Mér finnst þessi skýrsla ekki sýna það, að að þeirra kosti hafi verið þrengt. Og það er mín skoðun enn þá, að það standi óhaggað, sem ég hef áður sagt hér, að þau hafi ekki þurft að nota þær heimildir, sem þau hafi gert, nema náttúrlega með tilliti til þess að vilja framkvæma svo og svo mikið, eins og við erum að deila á annað slagið og aftur að tala um hinn daginn, að það sé of lítið að gert. Um þetta má svo sem alltaf deila endalaust, en mig langar að lesa niðurstöður þessarar skýrslu, með leyfi hæstv. forseta. Er þá Reykjavík fyrst á blaði. Hún hafði á árinu 1971 16.45% til framkvæmda umfram rekstur, en á árinu 1972 27.41%. Akranes hafði 26.50% árið 1971, en 40.52% árið 1972. Ísafjörður hafði 10.93% árið 1971, en 19.57% árið 1972. Sauðárkrókur hafði 16.02% árið 1971, en 31.07% árið 1972. Siglufjörður hafði 10.50% árið 1971, en 14.25% árið 1972. Ólafsfjörður hafði 28.19% árið 1971, en 37.12% árið 1972. Akureyri hafði 22.87% árið 1971, en 28.20% árið 1972. Húsavík hafði 23.10% árið 1971, en 37.51% árið 1972. Seyðisfjörður hafði 20.76% árið 1971, en 33.68% árið 1972. Neskaupstaður hafði 15.42% árið 1971, en 30.66% árið 1972. Vestmannaeyjar höfðu 29.14% árið 1971, en 35.32% 1972. Keflavík hafði 22.38% 1971, en 38.47% 1972. Hafnarfjörður hafði 18.40% 1971, en 26.75% 1972. Og Kópavogur hafði 19.67°,% 1971, en 38.45% árið 1972.

Nú skal ég ekki eyða að þessu fleiri orðum en orðið er, en mér finnst, að þessar skýrslur taki af öll tvímæli um það, hvort illa hafi verið búið að bæjar- og sveitarfélögunum í landinu. Ef betur væri að ráð, mundi þetta hlutfall ekki versna. En til frekari deilna um þetta atriði ætla ég ekki að stofna hér.