14.12.1972
Sameinað þing: 30. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1173 í B-deild Alþingistíðinda. (894)

1. mál, fjárlög 1973

Frsm. meiri hl. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Frv. til fjárl. fyrir árið 1973 var vísað til fjvn, hinn 26. okt. s.l. N. hóf þó fundarstörf nokkru áður, eða strax og frv. hafði verið lagt fram. Hefur n. nú haldið 38 fundi um frv. og rætt við fjölmarga forráðamenn ríkisstofnana, félagssamtaka og sveitarfélaga og yfirleitt reynt að veita þeim viðtöl, sem óskað hafa eftir, svo lengi sem nokkur vegur var, að n. gæti varið tíma sínum til þess. N. hafa borizt óskir um viðtöl nú hina allra síðustu daga, en ég vil. að það komi fram, að það er skoðun mín, að þegar n. hefur setið að störfum frá októberbyrjun og er komin að því að afgreiða mál og undirnefndir eru hvað harðast keyrðar, þá sé naumast unnt að ætlast til þess, að n. hafi nokkurn tíma aflögu til viðtala, sem hefðu getað farið fram fyrir mörgum vikum, ef óskir hefðu þá komið fram um það. Á það verður einnig að líta í þessu sambandi, að miða verður við það, að nm. geti sinnt öðrum þingstörfum jafnframt. N. hafa borizt á milli 450 og 600 erindi, sem mörg hver fjalla um margvísleg atriði. Auk reglulegra funda allrar n. hafa einstakir nm. verið í undirnefndum, sem fjallað hafa um skiptingu fjárveitinga til verklegra framkvæmda og um eftirlaunafé. Hefur því mætt æðimikið á nm. undanfarið.

Samstarf innan n. hefur jafnan verið með sérlega ánægjulegum hætti og ekki síður nú en endranær. Ég er þakklátur fulltrúum stjórnarandstöðunnar í n. fyrir, að þeir hafa staðið að störfum af drengskap og heilindum og hafa á engan hátt látið þann skoðanaágreining, sem jafnan er milli stjórnar og stjórnarandstöðu um heildarafstöðu til mála, hafa áhrif á hin daglegu störf sín í n. Ég færi samstarfsnm. mínum öllum þakkir fyrir störfin og ánægjulegt samstarf og tillitssemi við mig og vona, að fulltrúar stjórnarandstöðunnar telji sig ekki hafa verið misrétti beitta, þó að þeir hefðu kosið aðrar niðurstöður í afgreiðslu mála. Hagsýslustjóri og starfslið hans hefur veitt n. margháttaða aðstoð, sem ber að þakka.

Ég gat þess við 2. umr. um fjárlagafrv. í fyrra, að ég teldi orðið með öllu óviðunandi, hversu seint umsóknir um fjárveitingar bærust. Þetta hefði þær afleiðingar, að rn. og stofnanir, sem gera ættu undirnefndum grein fyrir umsóknum, sem fyrir lægju, væru ekki með grg. á reiðum höndum fyrr en örfáum dögum fyrir 2. umr. Og dæmi voru oft til þess, að ekki reyndist unnt að afgreiða þessa málaflokka fyrr en við 3. umr. af þessum sökum. Fjvn. tók því þá ákvörðun eftir afgreiðslu fjárl. í fyrra að auglýsa umsóknarfrest til 1. maí vegna umsókna um fjárveitingar til verklegra framkvæmda og til 17. júní vegna annarra umsókna. Helzti árangurinn af þessari ákvörðun er sá, að grg. rn. og stofnana varðandi umsóknir um fjárfestingarframkvæmdir lágu fyrir, þegar n. hóf störf í okt. Þetta hefur vissulega orðið til bóta, enda þótt ég telji, að einkum í skólamálum vanti enn verulega á, að fullnægjandi upplýsingar liggi fyrir frá rn. um ýmsar þær umsóknir, sem bárust fyrir tilskilinn tíma, og um kostnaðaráætlanir og greiðslustöðu varðandi einstaka skóla, sem eru í byggingu. Ég tel einnig, að þm. utan fjvn. hafi ekki nógu fljótt kynnt sér þessi gögn, sem nú lágu fyrir miklu fyrr en áður, heldur um of haldið þeim hætti, sem óhjákvæmilegur var áður, þegar gögn bárust ekki fyrr en síðustu daga fyrir umr. Allt stendur þetta þó til bóta, og ég vænti þess, að áhrifin af þeim ákvörðunum að setja ákveðinn frest veitna umsókna eigi enn eftir að auðvelda störfin fyrir fjvn. og þm. alla.

Ákvörðun um tímamörk vegna umsókna um fjárveitingar til annars en fjárfestingar hefur ekki borið nægan árangur að þessu sinni, enda naumast við því að búast í fyrsta sinn, þegar óvíst er, hversu mörgum var kunnugt um, að þessi ákvörðun hafði verið auglýst. Mikið af umsóknum, sem berast, eftir að fjvn. hefur störf, eru þó að sjálfsögðu ítrekanir á umsóknum, sem sendar voru viðkomandi rn., áður en fjárlagafrv. var samið, en hafa þá ekki verið teknar til greina í þeim mæli, að umsækjendur yndu við.

Skorti á vitneskju um auglýstan umsóknarfrest ætti þó ekki að vera til að dreifa um stofnanir ríkisins og rn., en furðulegt má heita í ýmsum tilvíkum, hvernig staðið er að málum gagnvart fjárlagaafgreiðslu á þeim vettvangi. Þess eru dæmi, að rn. hafa sent nú allra síðustu dagana beiðnir um fjárveitingu á einstaka liði fyrir tugmillj. kr., löngu eftir að fjvn. ætti í rauninni ekki að opna eitt einasta bréf. Og ríkisstofnanir hafa þessa dagana verið að senda leiðréttingar á áætlunum sínum, svo að skiptir millj. og jafnvel milljónatugum, um þau atriði, sem hvað ljósust hefðu átt að vera, svo sem fjárþörf vegna greiðslu afborgana og vaxta af lánum, og er helzt að hafa sem fæst orð um það á þessum vettvangi.

Undirnefnd fjvn., sem er þannig skipuð, að hver þingflokkur á þar einn fulltrúa, starfaði að ýmsum málum í sumar, hélt mjög marga fundi, heimsótti ýmsar stofnanir og sinnti fleiri málum en nokkru sinni áður. Ég hef fyrr látið í ljós, reyndar í stjórnarandstöðu þá, að við því sé ekki að búast, að sparnaður og aukin hagkvæmni fáist fram í einu vetfangi með því að lækka tölur á fjárlagafrv., heldur krefst slíkt undirbúnings og athugunar. Óhætt er að fullyrða, að undirnm. vinna störf sín í samræmi við þá skoðun, að hvað sem ágreiningi líður um hin stærri pólitísku mál, þá eigi fulltrúar allra flokka að geta sameinazt um að gera það, sem unnt er, til að auka hagkvæmni og sparnað í starfsemi stofnana ríkisins. Þannig hafa nm. unnið, og breytir engu, hvort menn eru stjórnarstuðningsmenn eða stjórnarandstæðingar hverju sinni. Hér gefst ekki tími til að rekja störf undirnefndarinnar í einstökum atriðum, en ég vil þó aðeins nefna, hvaða mál hún hefur fengizt við.

Ég vil þó fyrst minnast á það í sambandi við eðlilegar kröfur almennings um, að fjárveitingavaldið sporni gegn óþarfa eyðslu og útþenslu í ríkiskerfinu, að enginn vafi er á því, að svo dýrmætt sem það er talið starfsmönnum ríkisins að vera þar fastráðnir til æviloka, þá stuðlar þessi ráðningarregla ekki að því, að ítrustu aðgæzlu og hagkvæmni sé gætt í starfsemi stofnana ríkisins. Þegar ég tala hér um starfsmenn ríkisins, á ég ekki síður við yfirmenn en aðra starfsmenn. Tilraunir til úrbóta í rekstri ríkisstofnana stranda æðioft beint og óbeint á þessari tilhögun um ráðningu starfsmanna ríkisins. Er ég þó ekki á þessu stigi málsins að mæla með því, að þessi regla verði alfarið afnumin og ekkert komi í staðinn. Í því felast ýmsar hættur um misbeitingu af hálfu valdhafa hverju sinni. En þeir menn, sem krafðir eru um athafnir til að draga úr rekstrarkostnaði ríkisins og til að sporna gegn útþenslu, hljóta að rekast á þessa staðreynd. Þetta vil ég, að komi fram, hvernig svo sem orð mín kunna að verða túlkuð.

Undirnefndin fjallaði m.a. um þessi mál í sumar. Hún lét kanna kostnað við rekstur mötuneyta á vegum ríkisins. Ríkissjóður tekur nú þátt í fæðiskostnaði um 2400 starfsmanna, en mötuneyti eru 27 og mikil ásókn er í fleiri. Kostnaður ríkissjóðs í þessum efnum mun hafa numið um 59 millj. kr. árið 1971. Starfslið í mötuneytum, öðrum en í spítölum, er um 60 manns. Undirnefndin hefur nú ákveðið í framhaldi af könnun á kostnaði við núverandi fyrirkomulag að beita sér fyrir því, að erlendur sérfræðingur geri áætlun um kostnað og tilhögun í sambandi við þá hugsanlegu lausn að framleiða allan þann mat, sem með þarf í mötuneytum ríkisins, í hinu nýja eldhúsi Landsspítalans og reikna með flutningi á vinnustaði, eins og nú er ráðgert milli Landsspítala og Kleppsspítala. Þegar samanburður á kostnaði nú og samkv. hugsanlegri nýrri skipan liggur fyrir, mun undirnefndin móta sínar till.

Þá hefur undirnefndin látið kanna kostnað við tryggingar ríkisins, tryggingar vegna eigna og ábyrgðar. Athugun, sem n. lét gera um tryggingaiðgjöld og tryggingabætur hjá 26 ríkisstofnunum, leiðir í ljós, að á þrem árum, 1969–1971, fengu þessi fyrirtæki í tjónabætur um 62 millj.

kr., en iðgjöld á einu ári, 1971, námu alls tæpum 60 millj. kr. Í sambandi við tjónabæturnar árið 1971 verður þess að gæta, að stórtjón á Ægi, 25 millj. kr., er þar innifalið. N. hefur til frekari athugunar, hvort rétt teldist í fyrsta lagi, að ríkið hætti að kaupa tryggingar og myndaði sjálft eigin tryggingasjóð, í öðru lagi, að ríkið semdi við eitt tryggingafélag um allar tryggingar með sérstakri endurgreiðslu af ágóðanum, í þriðja lagi byði út allar tryggingar eða í fjórða lagi hefði allt með sama hætti og nú er.

Þá hefur n. fjallað sérstaklega um verkstæðismál. einkum Pósts og síma. Ákveðið hefur verið að fækka verkstæðum og sameina, enn fremur að fá erlendan sérfræðing, sérfróðan um póst- og símarekstur, til þess að endurskoða allt rekstrarfyrirkomulag fyrirtækisins og gera till. um úrbætur. N. heimsótti Tryggingastofnun ríkisins. Um rekstur þeirrar stofnunar fjallar nú sérstakt hagræðingarfyrirtæki.

Undirnefndin hefur fjallað um till. um aukatekjur sýslumanna og sambærilegra embættismanna, en aukatekjur innheimtumanna ríkissjóðs og umboðslaun og laun fyrir umboðsstörf munu hafa numið um 9 millj. kr. árið 1970. Þá hefur n. kannað tilhögun á skilum á innheimtum sköttum og gjöldum frá embættum innheimtumanna ríkissjóðs.

N. óskaði upplýsinga frá 12 ríkisfyrirtækjum um utanlandsferðir starfsmanna árið 1971. Hjá þessum 12 stofnunum reyndust hafa verið farnar 234 ferðir til útlanda og dagafjöldi alls 2857 og kostnaður um 11 millj. kr. Í ljós kom, að einstakir starfsmenn eru erlendis allt upp í 3 mánuði á ári samtals. Eðlilegar skýringar geta verið á öllu þessu, ráðstefnur sumar æðilangar, en ég held, að undirnm. séu sammála um, að nauðsyn beri til að setja reglur um, hvernig teknar skuli ákvarðanir um einstakar ferðir ríkisstarfsmanna til útlanda.

Þá hefur n. fjallað um, á hvern hátt verði bezt stuðlað að .samræmingu í mælingastörfum í landinu, en í æ ríkara mæli annast einstakar ríkisstofnanir hvers konar landmælingar, og ástæða er til að huga að framtíðarskipan Landmælinga Íslands með tilliti til þessarar þróunar í því skyni, að störfin verði samræmd og sem mest unnin með skipulögðu samstarfi, þannig að betur nýtist en nú þeir starfskraftar, sem að landmælingum vinna, og það fé, sem til þeirra er varið. Þá fjallaði n. um sameiginlegan rekstur að Keldnabolti í því skyni að koma á eina hönd öllu því, sem þar telst sameiginlegt, og koma í veg fyrir, að hver stofnun fyrir sig hlaði upp sérstökum kostnaði vegna eftirlitsmanna, rekstrar sendibíla o.s.frv.

Þá hefur n. fjallað um möguleika á sameiningu ríkisstofnana, t.d. eftirlitsstofnana ríkisins. Enn fremur hefur verið athugað, hvort ekki væri ástæða til að færa a.m.k. saman í húsnæði margar hinar smærri ríkisstofnanir, m.a. í því skyni, að þær hafi sameiginlega vinnuskrifstofu, sem annist símavörzlu, vélritun og fleira, sem þessar stofnanir hafa nú hver fyrir sig. Þegar hefur verið auglýst eftir húsnæði, sem hentugt gæti verið til þessara nota.

Þá hefur undirnefndin fjallað um stofnanir, sem eru tengdar ríkinu, en láta ekki gilda sömu reglur og ríkið um launakjör starfsmanna og stjórnunarlaun, bifreiðamál og hlunnindamál og ýmislegt þess háttar. Má þar nefna ríkisbankana, Framkvæmdastofnun ríkisins, Fiskifélag Íslands, Landsvirkjun, skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurborgar, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins o.fl. Í athugun er, hvort unnt er að tryggja hér nauðsynlega samræmingu, e.t.v. með lagasetningu.

Ég hef hér rakið í nokkurs konar efnisyfirliti það helzta, sem undirnefnd fjvn. hefur verið að vinna að, en að sjálfsögðu væri hvert atriði efni í fyrirlestur.

Ég kem þá aftur að afgreiðslu fjvn. á fjárlagafrv. Afgreiðsla þess markast að sjálfsögðu á hverjum tíma af því ástandi, sem þá ríkir í efnahagsmálum þjóðarinnar. Þróun mála, síðan fjárlög voru afgreidd í fyrra, er sú, að annars vegar hafa verið gerðir kjarasamningar við verkalýðsfélögin, sem færðu launþegum meiri kaupmáttaraukningu en hafði átt sér stað í nokkrum samningum áður. Hins vegar hefur á þessum tíma orðið veruleg minnkun þess afla, sem mestu skiptir í sjávarútvegi og fiskiðnaði, þrátt fyrir aukna sókn. Því hefur kreppt að útflutningsatvinnuvegunum, sem á næstunni eiga að standa undir 6% hækkun launa frá því, sem þau eru nú. Vegna þessa verður ekki undan því vikizt, að stjórnvöld grípi hér inn í og tryggi atvinnuöryggi með efnahagslegum ráðstöfunum. Gera verður ráðstafanir vegna ríkissjóðs, sérstaklega í því skyni að mæta útgjaldaaukningu vegna dýrtíðarráðstafana og vegna annarra óhjákvæmilegra útatjalda á fjárlögum. Ákvarðanir varðandi ríkissjóð í þessu efni liggja ekki fyrir. Meiri hl. n. hefur því á þessu stigi ekki gert till. um breytingar á tekjuhlið fjárlagafrv. Mér er það víssulega óljúft, að 2. umr. skuli fara fram, án þess að séð verði, hvernig tekjuhlið frv. verður afgreidd. Því miður hefur þetta verið of algengt við afgreiðslu fjárlaga á undanförnum árum. Ég hef sjálfur tekið þátt í að gagnrýna það á undanförnum árum, þegar talið var af þáverandi stjórnarvöldum nauðsynlegt að standa þannig að málum. Ég gæti meira að segja orðið hv. talsmönnum stjórnarandstöðunnar hjálplegur við að finna slíkar tilvitnanir, ef þá skyldi vanta texta úr gömlum ræðum, en slíkur lestur er að sjálfsögðu mjög stundaður af stjórnarandstöðu á hverjum tíma og ekki nema gott um það að segja. Fyrir stjórnarandstöðuna rýrir það að vísu afnotagildi þessara texta, sem ég er sérstaklega að benda þeim á, að þeir kæmu e.t.v. í bága við það, sem þeir hafa haldið fram undanfarið, að við 2. umr. fjárl. hafi á árum viðreisnarstjórnarinnar jafnan legið fyrir, hvernig tekjuhlið yrði afgreidd.

Ég sé ekki ástæðu hér til að ræða efnahagsmál almennt, orsakir vandans eða hugsanlegar leiðir. En staðreyndir þær, sem við blasa, eru, að kaupmáttur launa er meiri nú en nokkru sinni fyrr og 6% launahækkun fram undan, en staðreynd er það jafnframt, að gera verður ráð fyrir auknum tekjum ríkissjóðs miðað við þær tekjur, sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Þessi staða ríkissjóðs veldur því, að nauðsyn ber til að takmarka sem mest útgjöldin. Þegar haft er í huga, að mjög verulegur hluti ríkisútgjaldanna er bundinn skv. lögum, leiðir af sjálfu sér, að við þessar aðstæður hefur a.m.k. meiri hl. fjvn. ekki talið fært að veita fé til ýmissa veigamikilla þátta, svo sem verklegra framkvæmda og félagsmála, í svo ríkum mæli sem nauðsyn annars krefði. Skv. heimild í brbl., sem sett voru í júlí s.l. í sambandi við aðgerðir í verðlagsmálum, hafa fjárveitingar á fjárl. þessa árs verið lækkaðar í einstökum málaflokkum: framlög til hafnamála um 28.6 millj., til skólamála 75 millj., til heilbrigðismála 71 millj., samtals um 174.6 millj. kr. Sundurliðun þessara lækkana á einstakar framkvæmdir kemur fram í nál. meiri hl. fjvn. á þskj. 171. Við tillögugerð í þessum málaflokkum hefur verið tekið tillit til þessara lækkana, þótt meiri hl. n. hafi ekki talið fært að ganga lengra í fjárveitingum til verklegra framkvæmda en fram kemur í till. n. Hefur sérstaklega verið haft í huga að reyna að eyða þeim skuldahölum, sem á undanförnum árum hafa safnazt upp, t.a.m. vegna hafnarframkvæmda og íþróttamannvirkja, en í þessum málaflokkum námu skuldir ríkissjóðs við sveitarfélög og íþróttasamtök um 150 millj. kr.

Varðandi þær brtt., sem n. flytur sameiginlega á þskj. 162 og 165, er rétt að taka það fram, að fulltrúar stjórnarandstöðunnar í n. hafa áskilið sér rétt til að hafa óbundnar hendur um fylgi við einstakar till.

Mun ég þá rekja brtt. þær, sem n. flytur, og skýra lítillega þær, sem þörf er á frekari upplýsingum um en textinn veitir.

Við tekjuhliðina er að þessu sinni aðeins 1 brtt.: Liðurinn „slysatryggingaiðgjald atvinnurekenda“ hækki um 45 millj. 345 þús. kr. Tryggingastofnun ríkisins hefur, frá því að fjárlagafrv. var samið, gert nýja áætlun um slysatryggingaiðgjöld, þar sem í ljós hefur komið, að áætlun þessa árs hefur ekki staðizt. Skv. hinni nýju áætlun fyrir árið 1973 þurfa iðgjöld í heild að hækka um þessa upphæð, sem jafnframt færist í fjárlögum sem útgjöld til Tryggingastofnunar ríkisins.

Þá koma brtt. sem heyra undir menntmrn., en þær eru langflestar.

Í lögunum um menntaskóla er gert ráð fyrir því, að námskeið séu haldin fyrir menntaskólakennara. Fram að þessu hefur ekki verið veitt fé til að halda slík námskeið, en að þessu sinni er lagt til. að veittar verði 400 þús. kr. Fjárveiting til námsflokka er hækkuð um 250 þús. kr., og er þá höfð í huga m.a. umsókn námsflokka Akureyrar um fjárveitingu vegna listfræðslu. — Þá eru till. varðandi háskólann. Lagt er til að framlag til læknadeildar hækki um samtals 2 millj. 742 þús. kr. vegna rannsókna og kennslu í sýklafræði og skyldum greinum.

Á móti hækka tekjur um 1 millj. Á brtt. við liði á heilbrmrn. er gert ráð fyrir útgjöldum í sambandi við það húsnæði, sem þessi starfsemi fer fram í. Þá er lagt til, að hækkað sé framlag vegna stundakennslu í verkfræðideild um 504 þús. kr. Háskólinn hefur ekki fengið samþ. þá tölu prófessora í þessari deild, sem bann hefur æskt eftir, og hér er lagt til, að þess í stað verði veittar 500 þús. kr. til aukningar stundakennslu.

Nýlega munu hafa verið gerðir samningar milli fjmrn. og stundakennara við háskólann um hækkun launa, og er hér gerð till, um nýjan lið til að mæta þessum hækkunum. Liðurinn er: hækkun á launum stundakennara 10 millj. kr. Þessi hækkun mun ná til um 250 manns. Fyrirheit hefur verið gefið um, að norrænni jarðeldastöð, sem ákveðið hefur verið að koma á fót í tengslum við Háskóla Íslands, verði séð fyrir innréttuðu húsnæði í atvinnudeildarhúsnæðinu. Lagt er til, að veittar verði 4.8 millj. kr. til greiðslu kostnaðar, og fært á lið til byggingarframkvæmda og tækjakaupa háskólans. Í bréfi menntmrn. kemur fram, að gert ér ráð fyrir, að reglur um jarðeldastofnunina verði staðfestar á fundi ráðherranefndar Norðurlanda nú í desember, og gert ráð fyrir, að húsið verði tilbúið á næsta ári.

Tilraunastöð háskólans á Keldum gegnir mikilvægu hlutverki í baráttu gegn sjúkdómum í búfé, en býr við tækjaskort. Talið hefur verið nauðsynlegt að kaupa tæki fyrir 3 millj. 750 þús. kr., og er lagt til, að veitt verði heimild til þess, en á þessu ári verði veittar til kaupanna 1.2 millj. kr., þar sem tækin mun mega greiða á 3 árum. — Lagt er til, að laun við Raunvísindadeild háskólans hækki um 426 þús. kr., annars vegar vegna hálfrar stöðu rannsóknamanns í jarðvísindadeild og hins vegar vegna annarra launa í reiknistofu. Önnur rekstrargjöld eðlisfræðideildar lækka um 167 þús. kr., en ekki 207 þús., eins og kemur fram í þskj. 162, það er prentvilla og verður leiðrétt. Tekjur lækka um 2 millj. 145 þús. kr., þar af um 1 millj. 150 þús. kr. í efnafræðideild og um 595 þús. kr. í eðlisfræðideild. Hér er um að ræða lækkun á erlendum styrkjum. Tekjur á reiknistofu eru of áætlaðar í frv., og gerð er till. um lækkun um 500 þús. kr.

Ekki er talið stætt á öðru en að gæzlumenn séu hafðir í húsnæði handritastofnunar allan sólahringinn, og er gert ráð fyrir fjárveitingu til stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi af þessum sökum. Enn fremur verði í launaliðnum bætt við laun vegna þriggja sérfræðinga á þann hátt, að þeir hljóti full laun. Það eru sérfræðingar, sem vinna þar skv. lögum stofnunarinnar að sérstökum störfum, og lagt er til, að þeir fái full laun í stað 3/4 launa áður. Launakostnaður vegna þessara manna og gæzlumannanna hækkar þá samtals um 971 þús. kr. og viðhaldskostnaður um 100 þús.

Við Náttúrufræðistofnun Íslands hækkar liðurinn önnur rekstrargjöld um 200 þús. kr. til þess að tryggja, að hægt sé að halda áfram útgáfu jarðfræðikorts. Það er það jarðfræðikort, sem Guðmundur heitinn Kjartansson vann við síðustu ár á stofnuninni. Þá er lagt til, að Rannsóknaráð ríkisins fái 150 þús. kr. til kaupa á steinasafni Tómasar heitins Tryggvasonar jarðfræðings og 323 þús. kr. vegna ráðningar ritara.

Í ljós hefur komið, að rekstrargjöld fyrir Menntaskólann í Reykjavík fyrir árið 1972 hafa verið mjög vanáætluð. Áætlunin fyrir 1973, sem gerð var snemma í vor, áður en fyllilega kom í ljós, að áætlunin fyrir þetta ár hefði verið vanáætluð, er því lág, og er lagt til, að launaliður við Menntaskólann í Reykjavík hækki um 600 þús. kr. og önnur rekstrargjöld um 400 þús. Þá er gjaldfærður stofnkostnaður hækkaður um 350 þús. kr. vegna innréttingar á rishæð, en verulegur hluti kostnaðarins hefur komið árið 1972.

Íþróttakennaraskóli Íslands: Viðhaldskostnaður hækkar um 400 þús. kr. og gjaldfærður stofnkostnaður um 100 þús. kr.

Er þá komið að Vélskóla Íslands. Þegar tækninni fleygir svo ört fram sem raun ber vitni, er hætt við því, að þeir, sem hafa lokið námi fyrir mörgum árum, dragist aftur úr. Vélskóli Íslands og Stýrimannaskólinn hafa því í hyggju að halda sameiginlegt námskeið um meðferð og viðhald nýjustu veiði-, rafeinda- og stýritækja, og er lagt til, að hvorum skóla um sig verði veittar 176 þús. kr. í þessu skyni. Í sama skyni verði veittar 150 þús. kr. til vélskólans í Vestmannaeyjum. Forustumenn vélskólans hafa talið mikla hættu á, að kennsla við skólann dragist aftur úr og fylgi ekki kröfum tímans vegna tækjaskorts. Þeir hafa í skólanum vel menntaða kennara, en slíkt gagnar að sjálfsögðu ekki, ef tæki vantar. Hér er því brýn þörf á að bæta nokkuð úr. Hafa má líka í huga, að mjög mikið af nýjum skipum er nú að koma til landsins með dýrum tækjum, og á miklu veltur, að unnt sé að tryggja sem bezta og fullkomnasta kennslu í vélskólanum, og er því gerð tillaga um, að skólanum verði veittar 5 millj. kr. til tækjakaupa í stað 1.6 millj. kr., sem eru á frv.

Framlag til byggingar iðnskóla hækkar um 2.8 millj. Sundurliðun á einstaka skóla kemur fram á þskj. 162. Í Fiskvinnsluskólanum eru 2 bekkjardeildir, 2 árgangar. Næsta haust, þegar 3. árgangurinn bætist við skólann, skortir skólann húsnæði. Leitað hefur verið eftir leiguhúsnæði, og nú eru horfur á, að tekizt hafi að útvega það. Lagt er til, að rekstrarkostnaður skólans verði hækkaður um 100 þús. kr. og gjaldfærður stofnkostnaður um 3.4 millj., því að vera kann, að skólinn þurfi að kosta innréttingar í leiguhúsnæði.

Lagt er til, að veittar verði 2 millj. 874 þús. kr. til rekstrar nýs hjúkrunarskóla í tengslum við Borgarspítalann í Reykjavík. — Framlag til húsmæðraskóla hækkar um 3.5 millj. kr. Sundurliðun á einstaka skóla kemur fram á þskj. 162. — Styrkur til Verzlunarskóla Íslands hækkar um 3 millj. í 26 millj., til Samvinnuskólans um 500 þús. í 4 millj, og til Bréfaskóla SÍS og Alþýðusambands Íslands um 120 þús. í 520 þús. — Framlag til héraðsskóla hækkar um 254 þús. í 49 millj. og 70 þús. Sundurliðun kemur fram á þskj. 162. Sameiginlegur kostnaður við skólann á Laugarvatni hækkar um 200 þús. kr. Brunavarnaeftirlitið hefur gert athugasemdir um útbúnað þar, og er lagt til, að þessum 200 þús. verði varið til endurhóta brunavörnum. — Lagt er til, að veittar verði 4 millj. 350 þús. kr. til kennslu fjölfatlaðra barna.

Framlög til byggingar gagnfræðaskóla, barnaskóla og íbúða fyrir skólastjóra hækka um 4 millj. 517 þús. kr. og verða 477 millj. 928 þús. kr. Sundurliðun kemur fram á þskj 165. Undanfarin ár hafa fjárveitingar til skólamannvirkja verið miðaðar við 4 ára greiðslutímabíl. Þar sem lög gera ráð fyrir greiðslu á 3 árum, hefur 4 ára reglan verið framkvæmd án heimilda, nema árið eftir að lögin voru sett, þá var aflað sérstakrar heimildar til að miða við 4 ár það eina ár. Raunin hefur jafnvel verið sú, að í ýmsum tilvikum, einkum við hina stærstu og dýrustu skóla, hefur verið stefnt til lengra greiðslutímabils, þar sem fyrstu árin hefur ekki verið tekinn inn fjórðungur kostnaðar hverju sinni, heldur minni upphæðir. Þegar að greiðslu lokaársins kemur, er upphæðin því miklu hærri en vera bæri, ef miðað hefði verið við 4 ár í fyrri fjárveitingu. Þetta hefur valdið erfiðleikum með að skipta fé til skólamannvirkja og veldur því, að horfast verður í augu við, að hverju var stefnt, þegar svo var að staðið hin fyrri árin. Þarna hefur verið skapaður fjárhagsvandi, sem eðlilegast er að leysa á þann hátt, að heimilt sé að miða við, að fjárveitingar til skóla, sem áttu eftir 4 ára reglunni að fá lokaframlag 1973, megi skiptast á árin 1973 og 1974. Heimildar til þessa mun verða aflað með flutningi frv. um breytingar á lögum um skólakostnað, samtímis því sem gert er ráð fyrir að lögfesta 4 ára regluna. Í till. sínum um fjárveitingar til skólamannvirkja hefur nefndin beitt þessu væntanlega heimildarákvæði á þann hátt, að í þeim tilvikum, að gert sé ráð fyrir, að lokagreiðslum sé skipt á árin 1973 og 1974, þá komi 1/3 hluti fjárhæðarinnar á síðara ári. Heimild um slíka skiptingu á 2 ár er ekki beitt, nema um stærri upphæðir en 3 millj. kr. sé að ræða. Ákvæðið um greiðslu á lengri tíma en 4 árum verður bráðabirgðaákvæði skv. frv., sem lagt er fram, og gildir aðeins fyrir fjárveitingar nú, enda nauðsyn vegna þess, hvernig að hefur verið staðið á undanförnum árum. Ákvörðuninni um 4 ára greiðslutímabil í lögum í stað 3 ára, sem nú gildir, er hins vegar ætlað að standa áfram, og munu a.m.k. fjárveitinganefndarmenn telja, að lögfesting þess sé til bóta.

Lagt er til, að framlag til Lánasjóðs ísl. námsmanna hækki um 28 millj. Ráðgerð lántaka sjóðsins lækkar um 10 millj. og kemur í staðinn 10 millj. kr. fjárveiting og veitt er 13% hækkun lána innanlands vegna hækkunar framfærslukostnaðar, eða 18.3 millj. kr. Nemur þá framlag til lánasjóðsins úr ríkissjóði 301.3 millj. kr., en er á núgildandi fjárlögum 190 millj. og var á fjárlögum 1971 90 millj. 625 þús. kr.

Framlag til Myndlistaskólans í Reykjavík hækkar um 50 þús. í 300 þús. kr. í skólanum voru á s.l. vetri 175 nemendur og 4 kennarar og kennt var þar í 10 deildum.

Landsbókasafn Íslands, laun hækka um 523 þús. kr., þar sem ráðgert er að veita Haraldi Sigurðssyni ársleyfi frá störfum til að halda áfram ritun kortasögu Íslands. 80 þús. kr. hækkun á rekstrargjöldum er veitt til greiðslu leiguhúsnæðis. — Rekstrargjöld þjóðskjalasafns hækkar um 1 millj. 115 þús. kr. vegna leigu og innréttingar á geymsluhúsnæði.

Framlag til Listasafns Ásgríms Jónssonar hækkar um 200 þús. kr. Þar er um að ræða uppsetningu á öryggisbúnaði, hæði að því er varðar rakavarnir og eldvarnir. — Lagt er til, að gjöld Listasafns Íslands hækki um 1 millj. 741 þús. kr. Þar er annars vegar um að ræða skuldagreiðslu vegna kaupa á málverkum eftir Jón Stefánsson og hins vegar kvöð um sérstakar lífeyrisgreiðslur sem fylgdi því húsnæði, sem Listasafnið seldi á s.l. ári.

Lagt er til, að launakostnaður náttúruverndaráðs hækki um 1 millj. 89 þús. kr. og rekstargjöld lækki um sömu upphæð, skv. óskum þeirra, sem með málefni þess fara. — Framlag til almenningsbókasafna er hækkað um 100 þús. kr., og er þú höfð í huga umsókn Amtsbókasafnins á Akureyri um styrk.

Þá er tillaga um Tónlistarskólaun í Reykjavík. Skólastjórinn og 4 kennarar eru ríkisstafsmenn. Kennaradeildin sér um að undirbúa söngkennara skyldunáms, og nám í þeirri deild er ókeypis. Við aðrar deildir skólans eru 7 fastráðnir kennarar auk 30 stundakennara. Þessi hluti skólans er rekinn með styrkjum frá ríki og bæ og skólagjöldum og framlagi Tónlistarfélagsins. Talið er, að styrkur til þessarar deildar hafi ekki verið hækkaður í frv. til jafns við styrki til hliðstæðrar tónlistarstarfsemi, og lagt er til, að hann hækki um 200 þús. kr. — Lagt er til. að tónlistarskólunum í Árnessýslu og Mosfellssveit og Hafnarfirði verði hverjum fyrir sig veittur 125 þús. kr. styrkur til innréttinga á húsnæði. Er þá við það miðað, að hér sé um að ræða fyrri greiðslu af tveim. Þessar umsóknir bárust allar nokkuð seint, og er það eina ástæðan fyrir því, að framlagningu er skipt.

Á síðasta Alþingi, var lögum um íþróttasjóð breytt á þann veg, að um fjárveitingar til íþróttamannvirkja gilda nú líkar reglur og um fjárveitingar til skólamannvirkja, þannig að eigi bygging að njóta styrks frá ríkissjóði, er óheintilt að hefja byggingu fyrr en teikningar hafa verið samþykktar og veitt hefur verið fé til byrjunarframkvæmda. Nú hefur svo verið staðið að fjárveitingu til íþróttamannvirkja á undanförnum árum, að hvaða aðili sem var gat hafið framkvæmdir og öðlazt rétt til mótframlags ríkisins, en fjárveitingar voru skornar svo rækilega við nögl ár eftir ár, að skuldahali ríkissjóðs nam á milli 70 og 80 millj. um næstsíðustu áramót og nú eftir síðustu úthlutun um 82 millj. kr., enda þótt framlag til sjóðsins hafi á fyrstu fjárl. núverandi ríkisstj. verið hækkað úr 5 millj. í 13 millj. kr. Þess var þá getið, að á þetta væri litið sem fyrsta sporið í þá átt að eyða þessum gífurlega skuldahala, í stað þess að áfram yrði haldið að safna honum upp, eins og gert hafði verið. Þess má geta t.d. um, hvernig að hefur verið staðið á undanförnum árum, að sum íþróttamannvirki hafa verið á úthlutunarskrá í 18 ár, og við síðustu úthlutun var t.d. lokið úthlutun til sundhallar á Selfossi, en sú sundlaug hefur verið í notkun í 12 ár. Í samræmi við þá stefnu, sem tekin hefur verið upp við afgreiðslu fjárlaga nú, að reyna að greiða sem mest upp í skuldahala viðreisnarstjórnarinnar við sveitarfélög og félagssamtök, er gerð tillaga um að hækka framlag til íþróttasjóðs úr þeim 15 millj., sem á frv. eru, í 25 millj., og er fjárveiting til sjóðsins orðin fimmfalt hærri en hún var fyrir 5 árum, á síðustu fjárlögum viðreisnarstjórnarinnar. Þessi ákvörðun er við það miðuð, að sveitarfélög og íþróttafélög gefi eftir 20% af inneignum sínum gegn því að fá eftirstöðvarnar greiddar á 4 næstu árum. Í þessar skuldagreiðslur fara 16.6 millj. af fjárhæðinni, 6.3 millj. eru ætlaðar til félagsstyrkja, kennslustyrkja o.fl., en eftirstöðvunum, 3.1 millj. kr., er deilt niður á þau íþróttamannvirki, sem hafin hefur verið bygging á og með þeim hætti verða viðurkennd styrkhæf. Ljóst er, að taka verður enn frekar á í þessu efni, þegar betur árar hjá ríkissjóði, til þess að geta séð fyrir greiðslum til nýrra byggingarframkvæmda og koma í veg fyrir skuldasöfnun gagnvart þeim framkvæmdum, sem í gangi eru, á meðan verulegur hluti fer til greiðslu á gamla skuldahalanum, þau 4 ár, sem sú hreinsun fer fram. Sundurliðun á styrkjum til íþróttamannvirkja, sem eru í byggingu, er á þskj. 162.

Lagt er til, að styrkur til Bandalags ísl. skáta hækki um 100 þús. kr. og styrkur til Náttúrugripasafns Akureyrar um 100 þús. Þetta náttúrugripasafn hefur nokkra sérstöðu, þar sem það hefur fastan sérfræðing, sem einnig annast eftirlit og merkingar á plöntum í grasgarði Lystigarðs Akureyrar. — Lagt er til, að Íslendingafélagið í Þrándheimi fái 50 þús. kr. styrk til að innrétta húsnæði, sem félagið hefur til afnota leigulaust frá norskum aðilum. — Lagt er til, að styrkur til Kvenfélagasambands Íslands verði hækkaður um 300 þús. kr. í 1 millj. og 300 þús. og að Sambandi austfirzkra kvenna og Samband vestfirzkra kvenna fái 50 þús. kr. hvort um sig — Þá er lagt til, að Landakotsskólinn í Rvík hljóti rekstrarstyrk að upphæð 500 þús. kr. Skóli þessi hefur ekki notið ríkisstyrks áður, en nemendafjöldi í skólanum er nú 170, og kennsla fer þar fram skv. gildandi fræðslulögum. — Liðurinn til minnisvarða Guðmundar góða hækkar um 15 þús. kr. í 50 þús. — Styrkur til að gera heimildarkvikmynd um atvinnuþróun á Suðurlandi hækkar um 25 þús. kr. í 100 þús. Ráðgert er að sýna myndina víða um land á árinu 1974 í sambandi við fyrirhuguð héraðshátíðahöld þá. — Lagt er til, að Flugskóla Helga Jónssonar verði veittur 200 þús. kr. styrkur. Í skólanum eru nú 62 íslenzkir nemendur. Skólinn hefur ekki notið ríkisstyrks áður, en á nú í fjárhagserfiðleikum, m.a. vegna endurnýjunar á tækjum. — Nýr liður er aðstoð við þróunarlöndin 5 millj. kr. Sams konar liður á núgildandi fjárlögum er að upphæð 3 millj. — Flóttamannaráð Íslands er ráð 12 samtaka og stofnana og hefur staðið fyrir söfnun til hjálpar flóttamönnum. Það fékk 800 þús. á fjárlögum 1972. Þeirri upphæð var varið til endurbóta og viðgerðar, skólahúsa í Suður-Súdan, og lagt er til. að ráðinu verði veitt jafnhá upphæð á þessu ári, 800 þús. kr.

Er þá komið að till. varðandi utanrn. Þar er lagt til, að viðhaldskostnaður við sendiráð í London hækki um 745 þús. kr. og gjaldfærður stofnkostnaður um 528 þús. Hagsýslustjóri hefur athugað ástand sendiherrabústaðarins og skrifstofuhúsnæðisins í London, og kostnaðaráætlun er gerð í samráði við hann. — Framlag til Evrópuráðs hækkar um 147 þús. kr. vegna of lágrar áætlunar.

Þá eru till. varðandi landbrn. Lagt er til, að framlag til Búnaðarfélags Íslands verði hækkað um 250 þús. kr. vegna námskeiða, sem ætlunin er að halda fyrir bændur. M.a. mun þar verða kennd meðferð véla. — Lagt er til, að veittar verði 250 þús. kr. til viðhaldskostnaðar á tilraunastöðinni að Skriðuklaustri, en enn hefur ekki verið lokið við að koma húsinu í það horf, sem óskir gefandans hafa staðið til. — Framlag til Skógræktar ríkisins er hækkað um 610 þús. kr. Þar er annars vegar um að ræða hækkun framlags til framkvæmda í Fljótsdal, 150 þús. kr., og hins vegar er um að ræða 3/4 hluta af launum skógarvarðar, sem starfa mun á Suðvesturlandi. — Framlag til gjaldfærðs stofnkostnaðar hjá Landgræðslu er hækkað um 6 millj. kr., þar af er ein millj. ætluð til byggingaframkvæmda að Gunnarsholti, en nýlega hefur verið gert þar frumskipulag að framtíðarbyggingum á staðnum. — Framlag til fyrirhleðslna hækkar um 3 millj. 230 þús. Sundurliðun kemur fram á þskj. 162. — Framlag til landþurrkunar hækkar um 50 þús. kr. og sundurliðun kemur fram á sama þskj. — Lagt er til. að framlag til einangrunarstöðvar holdanauta verði hækkað um 3 millj. í 6 millj. Kostnaður við byggingarframkvæmdir í Hrísey er áætlaður um 8 millj. kr., annar kostnaður er 2 millj., en af fyrri fjárveitingum mun vera ónotað nálægt 2 millj. — Þá er nýr liður: til stóðhestastöðvar 150 þús. kr. Sérstök n. hefur unnið að undirbúningi þessa máls og skoðað 3 staði, sem talið er, að komi til greina fyrir slíka stöð, þ.e.a.s. Gunnarsholt, Vífilsstaðir, Litla-Hraun á Eyrarbakka, og mælir n. með síðastnefnda staðnum. — Þá er nýr liður: til skipulagningar á Hvanneyri og að Hólum 1 millj. kr. Er þá lokið þeim till., sem varða landbrn., og komið að till., sem heyra undir sjútvrn.

Á frv. til fjárl. er ekki gert ráð fyrir framlagi til leiguskipa hjá Hafrannsóknastofnuninni, og lagt er nú til, að veittar verði 3.1 millj. kr. til leigu á skipum, sem einkum yrðu notuð til leitar að skelfisk, rækju og til merkingar á fiskum. — Framlag til Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins hækkar um 800 þús. kr. Þar er um að ræða kaup á tækjum og innréttingar í nýjar rannsóknarstofur. — Þá er nýr liður: til greiðslu á skuldum Síldarverksmiðja ríkisins, 26 millj. kr. Á 6. gr. núgildandi fjárl. er ríkisstj. veitt heimild til að ábyrgjast greiðslu á skuldum verksmiðjanna á árunum 1973–1976, allt að 87 millj. kr. Samkv. þessari heimild hefur verið samið um greiðslu á skuldum frá árunum 1960–1971, og nema greiðslur samkv. því til ársins 1981 samtals 127 millj. kr., þar af um 26 millj. á næsta ári, eins og hér er gerð till. um, að tekið verði inn í fjárlög. Að auki skulda verksmiðjurnar ríkisábyrgðasjóði um 50 millj. vegna lána, sem sjóðurinn er í ábyrgð fyrir. Þar að auki munu Síldarverksmiðjur ríkisins vera í ábyrgðum fyrir fyrirtækið Þormóð ramma á Siglufirði og eiga. þar inni eitthvert fé, sem að sjálfsögðu fæst aldrei endurgreitt. Aðstöðugjöld fyrirtækisins, tryggingaiðgjöld og fasteignagjöld hvers konar munu nema á þessu ári um 6 millj. kr., og tugmilljónatap er á rekstri fyrirtækisins á ári hverju. Er ljóst, að sem bráðast verður að taka ákvarðanir um framtíð þess.

Þá eru till. varðandi dóms- og kirkjumrn. Embætti sýslumanns og bæjarfógeta á Akureyri, launaliður hækkar um 150 þús. kr. vegna hálfrar stöðu starfsstúlku. — Framlag til landhelgisgæzlu hækkar um 8 millj. vegna vanáætlunar stofnunarinnar. Þessi hækkun sundurliðast þannig: vegna flugvélanna, eldsneyti, viðhald og endurbætur 2.5 millj., vegna launa og kostnaðar flugmanna 0.5 millj. og vegna leiguskips 5 millj. — Þá er gerð till. um að hækka launagjöld Öryggiseftirlits ríkisins um 500 þús. og önnur rekstrargjöld um 50 þús., vegna þess að ráðinn hefur verið nýr starfsmaður til eftirlits með öryggisráðstöfunum við byggingarvinnu samkv. nýrri reglugerð, sem gefin hefur verið út. Þessi útgjöld fást uppi borin af tekjum.

Þá er nýr liður, fíkniefnanefnd. Lagt er til að veittar verði 1.5 millj. kr. til samstarfsnefndar um fíknivandamál til að kosta fræðslustarfsemi, menntun starfsmanna og tækjakaup. Fíkniefnanefnd gerði í ágúst s.l. till. til dómsmrn. um ýmsar aðgerðir til að sporna við notkun fíkniefna, og hefur nú verið lagt fram frv. í framhaldi af þessum till.

Framlag til útihúsa á prestssetrum hækkar um 250 þús. kr.

Er þá komið að till. varðandi félmrn. Þar er lagt til, að veittar verði 200 þús. kr. til rekstrar Tjaldanesheimilisins í Mosfellssveit, en þar njóta 24 drengir umönnunar og kennslu. Tjaldanesheimilið er sjálfseignarstofnun og hefur ekki notið beins styrks frá ríkinu áður. — Þá er lagt til, að Kvenfélagasambandi Gullbringu- og Kjósarsýslu og orlofsnefndum á félagssvæði þess verði veittar 250 þús. kr. til orlofsheimilis í Gufudal. en þessi upphæð hefur áður staðið í fjárl., en var ekki í frv. nú. — Þá er nýr liður. Lagt er til, að Styrktarsjóði lamaðra og fatlaðra verði veittur byggingarstyrkur, 1/2 millj. kr. eða jafnhá upphæð og er á núgildandi fjárl.

Þá er komið að till. varðandi heilbr.- og trmrn. Lagt er til, að framlag til Tryggingastofnunar ríkisins hækki um 71 millj. 570 þús. kr. Annars vegar er um að ræða útgjöld vegna slysatrygginga, 45 millj. 345 þús. kr., og er það í samræmi við þá till., sem gerð var um breytingar á tekjuhlið frv., tryggingaiðgjöldum atvinnurekenda, en atvinnurekendur greiða allan kostnað við slysatryggingu Tryggingastofnunarinnar. Hins vegar er um að ræða útgjöld vegna áhrifa af starfsliðsaukningu, alls 26 millj. 225 þús. kr. Fjvn. hefur samþykkt að mæla með þeirri aukningu starfsliðs hjá ríkisspítölunum, og er þá miðað við, að heimilað verði að ráða á næsta ári nýtt starfslið á ríkisspítalana og þær stofnanir, sem þar eru með taldar, í þeim mæli, að svari til um 30 millj. kr. heildarútgjalda á því ári, 1973. Laun þess starfliðs, sem starfar við sjúkrahúsin, koma fram í útgjöldum til sjúkratrygginga í daggjöldum og greiðast að 90% af ríkissjóði, en að 10% af sveitarfélögum. Því starfsliði, sem hins vegar yrði ráðið t.d. á skrifstofu ríkisspítalanna eða við Blóðbankann, er greitt að fullu af ríkissjóði. En þar sem sú ákvörðun, hvernig þessi upphæð er notuð á árinu 1973, þ.e.a.s. hvort hún er notuð þannig að fastráða sem flest fólk sem síðast á árinu eða ráða færra fólk fyrr á árinu, hefur afgerandi áhrif á útgjöld á næsta ári, þá Er miðað við það, að fjvn. hafi hönd í bagga með þessum ákvörðunum. Miðað við kostnað skiptist starfsmannaaukningin þannig: Vegna vinnutímastyttingar 14.9 millj. kr., vegna nýrra deilda og nýrrar þjónustu 7.5 millj. og vegna eldri deilda og þjónustuaukningar 7.7 millj. Þessi ákvörðun um svo mikla starfliðsaukningu á sjúkrahúsunum er tekin í framhaldi af þeim fjárveitingum, sem samþykktar voru við afgreiðslu núgildandi fjárl., þegar segja má, að í fyrsta skipti um langt árabil hafi nokkuð verið komið til móts við brýnustu þarfir fyrir bætta þjónustu á spítölunum. Árum saman fengust ekki fjárveitingar til þess, að með sómasamlegum hætti væri unnt að taka í notkun nýjar deildir, hvað þá að bæta þjónustu á eldri deildum. Einkum var ástandið í þessum efnum slæmt á Kleppsspítalanum, en nú má segja, að tekið sé að rofa til í þessum efnum.

Þá eru brtt. varðandi Rannsóknastofnun háskólans. Þar er lagt til, að launaliður hækki um a millj. 475 þús. kr. og gjaldfærður stofnkostnaður um 5.5 millj. Hér er um að ræða endurbætur á starfsaðstöðu og aukinn rekstur rannsóknastofu í sýkla- og veirufræði, sem áformað er að koma fyrir í gamla þvottahúsinu á landsspítalalóðinni. Aðstaða til þeirrar starfsemi, sem hér er um að ræða, hefur verið með endemum slæm, og eru þessar framkvæmdir og starfsliðsaukning ætlaðar til úrbóta í þessum málum til bráðabirgða.

Vegna þeirrar starfsliðsaukningar, sem áður var getið, hækka laun við Blóðbankann um 231 þús. kr. — Enn fremur er lagt til, að St. Jósefsspítalanum í Reykjavík verði veittur 5 millj. kr. styrkur til kaupa á röntgentækjum.

Framlög til byggingar sjúkrahúsa og sjúkraskýla, læknamiðstöðva og læknahústaða, annarra en ríkisspítala, hækkar um 6 millj. 130 þús. kr. og nemur þá 168 millj. 787 þús. Sundurliðun á einstakar stofnanir kemur fram á þskj. 162.

Það er öllum ljóst, sem nálægt því verki koma að gera till. um fjárveitingar á fjárl. ríkisins, að fjárveitingar til helztu fjárfestingarframkvæmda eru einkar viðkvæmt mál og erfitt að samræma óskir frá hinum ýmsu stöðum. Á þetta ekki hvað sízt við um fjárveitingar til byggingarframkvæmda í heilbrigðismálum. Valda því að sjálfsögðu hinir miklu erfiðleikar fólksins í dreifbýlinu að tryggja sér þjónustu lækna og annars starfsliðs í heilbrigðismálum, og er þá lögð áherzla á að hafa aðstöðu á hverjum stað sem fullkomnasta, ef það mætti fremur verða til þess, að þetta starfslið fengist. Ákvæði um, að ríkissjóður greiði læknamiðstöðvar að fullu, veldur að sjálfsögðu mjög harðri ásókn í fjárveitingar, og að mínum dómi er það ákvæði óheppilegt og óeðlilegt. Þörfin á því, að fjárveitingar séu á þessum sviðum sem öðrum miðaðar við skynsamlega tæknilega áfanga og tryggð sé sem bezt nýting fjármagnsins, veldur því, að nauðsynlegt er, að unnt sé að ákveða fram í tímann fyrirfram fjárveitingar úr ríkissjóði í samræmi við eðlilegan tæknilegan framgang hvers verks, sem leyft er að hefja. En eins og staðið hefur verið að fjárveitingum í þessum efnum, hefur í reynd ekki verið unnt að skuldbinda ríkissjóð um fjárveitingar til hverrar framkvæmdar nema eitt ár fram í tímann. Við tillögugerð fjvn. er að sjálfsögðu metin staða hverrar framkvæmdar, en þó er ekki því að neita, að samt ber á því, að eftir að veitt hefur verið fé til að hefja framkvæmdir eitt árið og þær framkvæmdir þurfa að geta rakið sig á eðlilegan hátt með útboðum og bindandi verksamningum næsta ár eða næstu ár, þá vill jafnvel við næstu tillögugerð um fjárveitingar upphefjast að nýju endurmat á því, hvort þeirri framkvæmd eigi fram að halda, eða fram kemur nýtt mat á framkvæmdahraða, sem þá er oft e.t.v. í ósamræmi við gerða verksamninga. Þetta gerist, þótt byrjunarfjárveitingar til framkvæmda ættu í rauninni að binda hinar næstu samkv. skynsamlegum áætlunum og eðlilegum byggingaráföngum.

Ég er þeirrar skoðunar, að óhjákvæmilegt sé að gera fjögurra ára áætlun um sérhvern þátt verklegra framkvæmda á vegum ríkisins, þannig að í upphafi verði um hverja framkvæmd ákveðinn framkvæmdahraði verksins og fjárveitingar í samræmi við það bundnar fastmælum. Þetta kæmi í veg fyrir það, sem nú gerist of oft, að framkvæmdum sé hrundið af stað með litlum fjárveitingum til byrjunarframkvæmda, en síðan skapist tregða á að sjá fyrir þeim fjárveitingum, sem óhjákvæmilega ættu að fylgja á eftir næsta ár eða næstu ár, — tregða, sem orsakast af löngun þm. til að veita þeim mun meira af heildarfjármagninu til að hrinda af stað enn nýjum framkvæmdum, sem síðan auka enn á vandann. Í fjárlagafrv. þarf að gera grein fyrir stöðu hverrar framkvæmdar og hvað þær fjárveitingar, sem samþ. hafa verið til hverrar og einnar, kalla á háa fjárveitingu á hverju hinna næstu ára, þannig að unnt sé að búa við raunverulega framkvæmdaáætlun.

Ég er einnig þeirrar skoðunar, að inn í fjárlög eigi að koma þær lánsheimildir, sem nú eru í sérstakri framkvæmdaáætlun, og eigi að tilgreina og afgreiða þannig í fjárlagafrv. allar áætlaðar fjármagnshreyfingar til ríkisins, hvort sem um er að ræða tilfallandi tekjur ársins eða áætlaðar lántökur, og á sama hátt að afgreiða í einu lagi og fullu samhengi ákvarðanir um verklegar framkvæmdir, jafnt þær framkvæmdir, sem fjármagnaðar eru með lánsfé, sem hinar, sem veitt er fé til af tekjum ríkissjóðs.

Í sambandi við fjárveitingar til framkvæmda í heilbrigðismálum vil ég aðeins til viðbótar geta þess í sambandi við fyrirhugaða byggingu geðdeildar við Landsspítalann, að þar sem af hálfu ýmissa aðila er ekki talið með öllu tryggt, að tæknilegum undirbúningi sé svo langt komið, að unnt verði að hefja framkvæmdir á næsta ári, hefur ekki verið gerð till. um að veita meira fé en á frv. er til þessara framkvæmda. Þetta breytir hins vegar engu um þá ákvörðun, að bygging geðdeildarinnar verði næsta verkefni ríkisspítalanna og gangi fyrir öðrum framkvæmdum, sem skemmra eru komnar í undirbúningi nú. Til að tryggja, að strax verði hafizt handa, ef unnt er, og á árinu 1973, ef undirbúningi lýkur nógu snemma, er ætlunin, að við 3. umr., þegar heimildatillögur verða afgreiddar, verði flutt till. um heimild fyrir ríkisstj. til að taka allt að 30 millj. kr. lán til að verja til byggingar geðdeildar við Landspítalann.

Þá er hér nýr liður á málum, sem varða heilbrmrn. Það er Templarahöllin, byggingarstyrkur, 900 þús. kr. Hér er um sömu upphæð að ræða og er á fjárl., en þessi liður féll niður á fjárlagafrv. þessi styrkur mun upphaflega hafa verið veittur þessum samtökum til þess að standa undir greiðslum á ákveðnu láni, sem tekið var til framkvæmdanna, og þá gefið fyrirheit um, að styrkurinn skyldi standa svo lengi sem eftir væru greiðslur af láninu, en á fjárlagafrv. féll þessi liður niður, og er lagt til, að hann verði tekinn upp að nýju. — Framlag til Stórstúku Íslands er hækkað um 100 þús. kr.

Varðandi fjmrn. er ein brtt., launakostnaður við Skattstofu Austurlands hækki um 420 þús. kr. vegna ráðningar nýs starfsmanns hjá embættinu.

Það eru næst till. varðandi samgrn., þ.e. framlag til hafnarmannvirkja og lendingarbóta. Er lagt til, að það framlag hækki um 31.5 millj. kr. Sundurliðun á einstakar hafnir kemur fram á þskj. 162. Við afgreiðslu fjárl. í fyrra stóðu mál svo í sambandi við framlög til hafnarmannvirkja, að ríkissjóður hafði safnað upp hjá hafnarsjóðum 80 millj. kr. skuldum til viðbótar við eldri skuldahala, sem sérstök fjárveiting hefur verið til á undanförnum árum. Þessar skuldir munu um n.k. áramót nema um 64 millj. kr. Í samræmi við stefnu meiri hl. fjvn. að gera sem mest skil við sveitarfélög og aðra aðila á skuldahölum ríkissjóðs hefur við fjárveitingu til hafnarframkvæmda nú verið við það miðað, að þessi skuld hverfi með öllu. Að öðru leyti eru fjárveitingar við það miðaðar, að unnt sé að ljúka áföngum eða vinna heillega nýja áfanga. Staða fjölmargra hafnarsjóða er nú mjög bágborin, en greiðsla á skuldum ríkissjóðs ætti að verða til þess að auðvelda þeim að standa í skilum, enda þótt meira þurfi að koma til úrbóta.

Framlag til ferjubryggna hækkar um 2.9 millj. kr. og sundurliðun kemur fram á þskj. 162. — Liðurinn hafnarmannvirki, eftirstöðvar, hækkar um 2.3 millj. kr. og nemur þá 27.5 millj. Þar af eru gengisbætur 7.8 millj. og eftirstöðvar 19.7. — Framlag til sjóvarnargarða lækkar um 2.3 millj. Sundurliðun kemur fram á þskj. 162.

Launakostnaður við Siglingamálastofnun ríkisins hækkar úr 480 þús. kr. vegna ráðningar eftirlitsmanns með búnaði skipa. Starf hans mun einkum verða það að samræma störf skipaeftirlitsmanna um land allt. — Gjöld vegna flugmálastjórnar hækkar um 8 millj. 554 þús. kr., þar af vextir um 5 millj. 443 þús. kr. og lánahreyfingar 2 millj. 611 þús. kr. Er það vegna vanáætlunar stofnunarinnar, sem fjvn. fékk upplýst um fyrir fáum dögum. — Veðurstofa Íslands, liðurinn veðurstöðvar hækkar um 3 millj. 640 þús. kr. Þar er um að ræða lagfæringu á launum veðurathugunarmanna úti um land og hækkunin gerð til samræmis við breytingar á launum verkamanna. — Þá er lagt til, aðframlag til landmælingar hækki um 300 þús. kr. vegna gróðurkortagerðar.

Er þá komið að till. varðandi iðnrn. Þar er lagt til, að veittur verði 1.4 millj. kr. styrkur til námskeiðs fyrir starfsmenn á þungavinnuvélum, en um þetta námskeið sér u., sem í eiga sæti fulltrúar frá iðnrn. verkamannafélaginu Dagsbrún og Vinnuveitendasambandi Íslands. — Lagt er til. að tekinn verði upp nýr liður, 6 millj. kr. vegna viðræðunefndar um orkufrekan iðnað. Hér er um að ræða greiðslu kostnaðar við störf n., sem starfar á vegum iðnrn. að viðræðum við ýmsa erlenda aðila um orkufrekan iðnað. Þar koma til útgjöld m.a. vegna verkfræðilegra og lögfræðilegra athugana. — Er þá komið að síðustu brtt., sem n. flytur. Það er nýr liður, lagmetisiðjan Siglósíld. Lagt er til. að veittar verði til hennar 5 millj. kr. samkv. 4. gr. l. um þá lagmetisiðju. Er gert ráð fyrir, að ríkissjóður leggi fram 15 millj. kr. til að fullkomna vélakost verksmiðjunnar og til þess að tryggja eðlilegan rekstur hennar, en með till. n. er lagt til, að á árinu 1973 verði greiddar 5 millj. kr. í þessu skyni.

Herra forseti. Ég hef þá lokið við að rekja þær brtt., sem fjvn. flytur sameiginlega við þessa umr. Verði till. n. samþykktar, hefur það í för með sér nettóútgjaldaaukningu um 268 millj. 188 þús. kr., og greiðsluhalli nemur þá 164 millj. 242 þús. N. hefur lagt fram till. um fjárveitingar til allra fjárfestingarframkvæmda annarra en menntaskóla, en óafgreidd er t.d. skipting eftirlauna og styrktarfjár og ýmis einstök erindi, svo og heimildagrein, sem venja hefur verið að afgreiða við 3. umr.

Eins og ég gat um í upphafi, flytur meiri hl. n. ekki till. um breytingar á tekjuhlið frv. við þessa umr., en við 3. umr. munu brtt. verða fluttar við tekjuhliðina, sem tryggja afgreiðslu greiðsluhallalausra fjárlaga.

Ég legg svo til, herra forseti, að till. n. verði samþykktar og frv. vísað til 3. umr.