14.12.1972
Sameinað þing: 30. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1189 í B-deild Alþingistíðinda. (895)

1. mál, fjárlög 1973

Frsm. 1. minni hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka samstarf innan fjvn., sem hefur, eins og jafnan áður, verið með miklum ágætum. Þetta er sú n. í Alþ., sem vinnur mest saman, eða hvern dag frá því að þing hefst að hausti og þangað til afgreiðsla fjárl. fer fram. Samskipti á milli þeirra manna eru því kannske meiri en allra annarra. Þau ár, sem ég hef átt sæti í þessari n., hefur samstarf verið þar mjög gott, þó að auðvitað skilji leiðir, þegar er komið að tillögugerð og brtt. við fjárlagafrv. Mér er bæði ljúft og skylt að þakka ágætt samstarf við nm. alla og þá ekki sízt við formann n., sem hefur eins og einnig í fyrra og formenn n. hafa alltaf gert, haft mjög gott samstarf við okkur nm. og leitað eftir því að láta það sem minnst sjást í n., að þar séu stjórnarstuðningsmenn eða stjórnarandstæðingar, heldur að menn vinni þar saman að mjög mikilvægum verkefnum, eins og skiptingu fjár til hinna ýmsu málaflokka. Einnig vil ég ekki gleyma að þakka fjárlaga- og hagsýslustofnuninni og þá sérstaklega hagsýslustjóra, sem starfað hefur mikið með n., fyrir ágæta fyrirgreiðslu við okkur í minni hl. ekki síður en við meiri hl., eins og jafnan áður.

Fjárlagafrv. það, sem hér liggur fyrir, hefur verið nokkuð rætt við 1. umr. og í raun og veru kemur það hér til 2. umr. ákaflega ófullkomið. En það er ekki að kenna áhugaleysi eða iðjuleysi fjvn., heldur má segja, að það sé opið í báða enda, eins og þegar það var lagt hér fram á s.l. hausti, og sökudólgurinn í þeim efnum er sjálf hæstv. ríkisstj., því að það vantar, eins og í raun og veru kom fram hjá talsmanni fjvn., allar þær upplýsingar, sem öllu og mestu máli skipta í sambandi við afgreiðslu fjárl. Mig langar — að vitna með nokkrum orðum í ræðu, sem einn af helztu talsmönnum núv. ríkisstj. hélt við 2. umr. fjárl. 9. des. 1971, en þar segir hann: „Mér varð það að orði í sambandi við 1. umr. fjárlagafrv. núna á yfirstandandi hausti, að fjárl. væru spegilmynd af þeirri stjórnarstefnu, sem fylgt væri, og enn fremur, að stjórnarstefnan hefði áhrif á efnahagsmál þjóðarinnar og hækkun verðbólgunnar í landinu.“

Nú væri ég ekki að vitna í þessi orð, ef þau hefðu verið sögð af hinum minni spámönnum stjórnarflokkanna, því að maður vill sem minnst um þá tala í þessu sambandi, heldur snúa sér að þeim, sem stærstir eru, og sá, sem viðhafði þessi orð, var enginn annar en hæstv. fjmrh. Nú ætla ég, eins og fyrri daginn, að vera sanngjarn við hann og taka undir með honum, að þetta fjárlagafrv., sem hann leggur fram fyrir hönd ríkisstj., er auðvitað spegilmyndin af því ástandi, sem er í efnahagsmálum þjóðarinnar, eins og hann réttilega sagði, á meðan hann var óbreyttur þm.

Við 2. umr. fjárl. á í raun og veru að liggja fyrir ákveðin stefnumörkun. Ekkert er enn að sjá eða heyra um stefnumörkun nú við 2. umr. þessara fjárl., og samt leyfir hæstv. forsrh. sér að segja í viðtali — og það við ekki ómerkara blað en Vísi — fyrir nokkrum dögum, að það sé stefnt að því að afgreiða fjárlög fyrir næstu áramót. Ég kalla þetta mikla kokhreysti og veit, að ríkisstj. hangir núna í lausu lofti sjálf og ekkert liggur fyrir um, hvað hún ætlar að gera í efnahagsmálunum. Ekkert liggur fyrir um, hvað verður í fjárlagafrv. af liðum, sem hafa verið upp á hundruð millj. kr., hvort þeir eiga að falla út, hvort þeir eiga að hækka um hundruð millj. eða ekki. Samt er fullyrt, að það eigi að stefna að því að afgreiða fjárlagafrv. fyrir áramót, og það er kominn miður desember. Ég kalla þetta kokhreysti hjá hæstv. ríkisstj. En það er vitað mál, að þingið og þingræðisfyrirkomulag á rétt á því að fá skýrslur og upplýsingar og athuga þau mál. sem fyrir liggja, áður en afgreiðsla fjárl. fer fram. Hvað ætlar hæstv. forsrh. fjvn. að starfa á löngum tíma, ef hann ætlar að gera alvöru úr þessum upplýsingum sínum? Á hún kannske að starfa yfir jólin? Ég held, að það muni ekki hrökkva til, þó að fjvn. fengi ekkert jólafrí, en hann, ríkisstj. og þeir aðrir færu í jólafrí.

Vitaskuld þurfa till. að liggja fyrir um tekjuöflun og stefnumótun, til þess að fjvn. og Alþ. í heild geti gert sér ljóst, hvernig heildarstaða ríkisfjármála er, og að því fengnu þarf auðvitað fjvn. og Alþ. óhjákvæmilega að ráðast í það að lækka útgjöld ríkisins, en ekki hækka þau, eins og þetta fjárlagafrv. gerir ráð fyrir, bæði þegar það var lagt fram á s.l hausti og nú í byrjun 2. umr. Það eru takmörk fyrir því, hvað samfélagið getur lagt af mörkum til hinna ýmsu þarfa í þjóðfélaginu. Það verður að vega og meta, í hvaða röð þessar þarfir verða teknar og hve háum fjárhæðum á að verja til hverra einstakra þarfa. Það eru líka og ekki síður takmörk fyrir því sett, hvað samfélagið getur lagt einstaklingnum á herðar að greiða fyrir það að vera til og búa í þessu samfélagi. Kröfuhóparnir með mótmælin, spjöldin og málningardollurnar eiga ekki að segja fyrir verkum í þessu þjóðfélagi frekar en öðrum. Jafnvel þó að þetta fólk segist vilja standa við hlið verkamannsins lífsbaráttu hans, þá vitum við, að þessar óhóflegu kröfur á samfélagið hafa gert það að verkum, að það er verið að leggja alltaf meira og meira, hærri og þyngri byrðar á fólkið, sem vinnur fyrir sköttunum. Við skulum líka gera okkur ljóst, hverjir það eru, sem standa undir skattabyrðinni. Það eru þeir, sem vinna, það eru þeir, sem hafa tekjurnar, skapa tekjurnar í þjóðfélaginn, en þeir eru alltaf að verða hlutfallslega færri en áður, vegna þess að mannsævin lengist. Eldra fólkið fer út af vinnumarkaðinum og hefur þá ekki sömu skatta og þegar það var yngra. Það greiðir lægri skatta. Það er sömuleiðis mikil lenging á námsbrautinni, þannig að fólkið kemur seinna inn til þess að greiða skattana en áður var, vegna þess að það heldur margt áfram, — jafnvel fram undir þrítugsaldur og sumir fram yfir það og koma ekki inn til þess að standa undir þörfum þjóðarbúsins. Þess vegna held ég, að þeir, sem hrópa kröfur sínar, en leggja ekkert af mörkum og segjast standa við hlið verkamanna og sjómanna, sem afla fjár, séu að biðja um meira hjá þessu fólki, því að þótt það eigi að hitta hin svokölluðu breiðu hök, sem áttu að standa undir skattalöggjöfinni á þessu ári, þá skutu ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar yfir markið, því að breiðu bökin voru þá svo mörg, sem skattalögin bitnuðu á, eins og menn muna og vita og þá ekki sízt hæstv. ríkisstj. og hæstv. fjmrh., sem hefur sennilega mest orðið fyrir barðinu á því, kannske ekki að öllu leyti frá andstæðingum sínum, heldur jafnvel frekar frá samherjum sínum, bæði innan ríkisstj. og utan, sem vildu kenna honum einum um skattana, en lofuðu ráðh. eyðsluembættanna, eins og hæstv. heilbr: og trmrh., fyrir gjafmildi hans á öllum sviðum.

Þegar lögin um tekju- og eignarskatt voru til umr. á Alþ. 1971 og þar var ákveðið af fyrrverandi stjórnarflokkum, að frá beinum tekjum skyldi draga fyrir einstakling 134 þús. kr., fyrir hjón 188 þús. kr. og ef þau töldu fram í sitt hvoru lagi, þá helminginn af þeirri upphæð, og fyrir hvert barn 27 þús. kr., þá voru til menn hér á þingi, — þetta var vorið 1971, –sem töldu þennan frádrátt allt of lágan. Þetta náði ekki nokkurri átt, þetta var hrein ósvífni, að bjóða skattborgurunum upp á svona lágan frádrátt. En hann hafði hækkað verulega frá gildandi lögum, þegar þetta var. Þeir komu auðvitað strax með yfirboðstill., og það voru heldur ekki litlir spámenn, sem komu með þá brtt. hað var sjálfur leiðtogi Framsfl. á þingi, sem ég sakna að hafa ekki hér inni, Þórarinn Þórarinsson, og sjálfur sjútvrh. og viðskrh. núverandi, Lúðvík Jósepsson. Þeir vildu alls ekki bjóða upp á minna en að einstaklingurinn fengi 156 þús. kr. í frádrátt af tekjum sínum í staðinn fyrir 134 þús. kr., hjón fengju 220 þús. kr. og frádráttur fyrir hvert barn yrði 35 þús. kr. Það varð breyt á, er ný ríkisstj. tók við, sem lagði fram skattafrv. 1971. Þá skyldi maður ætla, að áhugamennirnir frá vorinu áður, Lúðvík Jósepsson og Þórarinn Þórarinsson, mundu nú standa við till. sína og helzt bæta við hana vegna breyt. á verðlagi, sem urðu í millitíðinni. En þar varð raunin önnur. Ríkisstj. lagði fram skattafrv., sem gerði ráð fyrir 140 þús. kr. frádrætti fyrir einstakling, 220 þús. kr. fyrir hjón, 145 þús. kr. ef þau teldu fram í sitt hvoru lagi, — og 30 þús. kr. fyrir hvert barn. Þetta hækkaði svo í meðferð þingsins, þannig að frádráttur einstaklingsins fór upp í 145 þús. kr. Leiðtogi Framsfl. stakk af til Ameríku og var ekki viðstaddur afgreiðslu skattalagafrv., en Lúðvík Jósepsson viðskrh., sem áður vildi láta einstaklínginn fá 156 þús. kr. í skattafrádrátt, greiddi atkv. með því, að hann fengi 145 þús. kr., einu ári seinna eða 11 þús. kr. minni frádrátt en hann sjálfur ásamt þingleiðtoga Framsfl. lagði til, að veittur yrði. Við skulum nú ætla, að þeir hafi þá hugsað meira um blessað barnafólkið og reynt að hæta þar um. En það var ekki aldeilis, því að í staðinn fyrir 27 þús. kr. frádrátt árið áður, sýndi stjórnarliðið þann höfðingsbrag að hækka frádrátt fyrir hvert barn um 3000 kr., en árið áður vildu þeir Lúðvík og Þórarinn hækka frádráttinn fyrir hvert barn um 8 þús. kr. Þarna var eitt af því, sem hefur borið töluvert á milli í sambandi við skoðanir og málefnaflutning þessara höfðingja, frá því að þeir voru í stjórnarandstöðu og svo aftur þegar þeir urðu aðilar að ríkisstj.

Við myndun núv. hæstv. ríkisstj. var gerður hinn margumtalaði málefnasamningur frá 14. júlí 1971, sem þm. hafa, að beiðni forsrh. lesið lengi vel bæði kvölds og morgna, þó að sumir séu hættir því, því að menn eru farnir að kunna hann. Þessi málefnasamningur mun verða ríkisstj., sem koma á eftir þessari, áminning um, að svona stjórnarsáttmála eigi ekki að gera. Ég held, að það sé sama, hvaða ríkisstj. verði mynduð, hvaða flokkar eða menn mynda ríkisstj., þá munu þeir allir, hvort sem þeir eru til hægri eða vinstri, varast það mjög að láta annað eins plagg frá sér fara, enda minnir þetta plagg og þessi viðbrögð á sögu, sem ég heyrði, þegar ég var unglingur, af strák, sem vissi ekki, hvað hafði gerzt á jólunum. Þegar presturinn spurði hann: „Hvað gerðist á jólunum, vinur minn?“ — þá hugsaði drengur sig um og hugsaði til jólanna á undan og mundi, að þá var borðað hangikjöt heima hjá honum um kvöldið. En þetta var á árum erfiðleika, og þá var hangikjötið mjög til hátíðarbrigða. Þegar hann mundi eftir því að hafa borðað hangikjöt, þá svaraði hann presti og sagði: „Það var haldin veizla.“ Framsfl., sem verið hefur á pólitískri eyðimerkurgöngu í rúmlega 12 ár eftir fall vinstri stjórnarinnar fyrri, hafði í örvæntingu heitið sjálfum sér og sínum því, að þegar hann aftur fyndi frjósama jörð og forðabúr allsnægta, þá skyldi þeim öllum fá að líða vel. Flokkurinn komst til valda með aðstoð kommúnista og flokks, sem hristur var saman úr krötum, kommúnistum, frjálsþýði og þeim, sem töldu sig hvergi eiga samastað og áttu allir það sameiginlegt, að það þyrfti að eyða öllu, sem til væri, á sem skemmstum tíma. Þeir gleymdu þeirri góðu og gömlu hugsun, að til þess að hafa efni á að eyða úr búinu þarf jafnframt að muna eftir að afla því viðurværis. En 12 ára eyðimerkurgangan sljóvgaði foringja Framsfl., svo að þeir mundu ekki eftir öðru en því, að góða veizlu skyldi gera, og fór að því leyti líkt fyrir þeim og stráknum, sem ég nefndi áðan sem hafði borðað hangikjötið á jólunum og hélt að boðskapur jólahátíðinnar fælist eingöngu í því að borða hangikjöt og góðan mat.

Ástandið í efnahagsmálunum væri annað í dag, ef varlega hefði verið af stað farið og minni hefðu verið yfirboð fyrrv. stjórnarandstæðinga, sem nú sitja í ráðherrastólum. Núv. ríkisstj. fann fyrrv. ríkisstj. margt til foráttu. Þeir töldu, að fyrrv. ríkisstj. réði ekkert við dýrtíðina, réði ekkert við verðbólguna í landinu, það ríkti eyðsla og skipulagsleysi í rekstri ríkisstofnana og skrifstofubáknið hefði verið þanið út, ríkisstarfsmönnunum fjölgað jafnt og þétt. Um þetta sagði einn af æðstu postulum núv. ríkisstj., þegar hann var í stjórnarandstöðu, einnig við fjárlagaumr. 9. des 1971:

„Það er ekki talin stefna, þó að við leggjum til og tölum fyrir því, framsóknarmenn, að draga úr kostnaði við reksturinn í landinu. Það er okkar skoðun og okkar mat, að til þess að snúast gegn raunverulegri verðbólgu verði að draga úr rekstrarkostnaði í landinu, það verði ekki hægt að sporna gegn verðbólgunni nema með því að draga úr rekstrarkostnaðinum. Það eru mörg atriði, sem þar koma til greina, sem ég ætla ekki að fara út í að þessu sinni, en stefnan er þessi. Við höldum því einnig fram, að það verði að hafa stjórn og skipulag á fjárfestingu, það sé ekki hægt að láta fjárfestingu gerast með þeim hætti eins og gert hefur verið núna.“

Þetta sagði einn af forustumönnum núv. ríkisstj. Ég læt hann um að þekkja sína eigin ræðu. En það er ekki úr vegi, að athuga nánar hvernig svo hefur tiltekizt, eftir að þessir menn taka við völdum í þjóðfélaginu, sem átt höfðu ráð undir hverju rifi og höfðu ráð á því að gagnrýna aðra með mikilli hörku. Hvernig hefur nú tekizt til með afgreiðslu fjárlaga? Fjárl. á árinu 1971 voru síðustu fjárlög fyrrv. ríkisstj. Þá voru útgjöld ríkissjóðs áætluð 11 milljarðar 23.3 millj. kr. Á árinu 1973, með því að leggja fram þetta fjárlagafrv., eru gjöldin áætluð 19 milljarðar 867.8 millj. kr., og nú hækka útgjöldin samkvæmt till. fjvn. um 268 millj. kr. Og eitt er víst, að hvað sem framundan er og hvaða aðgerðir sem verða gerðar í efnahagsmálum, þá munu útgjöld fjárl. aukast frá því, sem nú er við 2. umr. Þau hafa þegar aukizt við þessa 2. umr. frá fjárl. fyrrv. ríkisstj. um 9 milljarða 424.2 millj. kr., og það er sjáanlegt, að fjárl. munu hækka við lokaafgreiðslu hér. Núv. ríkisstj. hefur tekizt að tvöfalda fjárl. á tveimur árum, og ég hygg, að það megi leita þess viða og lengi, að ríkisstj., í hvaða landi sem er, sem setið hefur við völd á friðartímum, hafi náð jafngífurlegum árangri í hækkun ríkisútgjalda og þessi hæstv. ríkisstj. hefur náð.

Ríkisstj. hefur sjálf haft frumkvæðið að því að auka verðbólguna í landinu, ólíkt því, sem flestar ríkisstj. í öðrum löndum gera. Þær hafa haft þann hátt á að reyna að hamla gegn verðbólgu, þó að þær hafi flestar hverjar orðið að láta að einhverju leyti undan síga, en þessi gekk fram fyrir skjöldu strax eftir að veizlan byrjaði með því að auka þensluna í þjóðfélaginu og verðbólguna með þeim glæsilega árangri, sem nú liggur fyrir. Hún byrjaði á því, ríkisstj., að rýra tekjur útgerðarinnar, sem núna þarf á fyrirgreiðslu að halda, strax eftir valdatöku sína með útgáfu brbl. til þess að gera hosur sínar grænar fyrir sjómönnum, en það varð m.a. til þess að hvetja til almennra launahækkana í landinu, sem leiddu til vaxandi þenslu í efnahagsmálum. Útgjöld atvinnuveganna hafa aukizt jafnt og þétt, útgjöld ríkissjóðs hafa tvöfaldazt, eins og ég sagði áðan.

Ríkisstj. greip til þess örþrifaráðs að stórhækka beina skatta með þeim árangri, að álagður tekju- og eignarskattur hækkaði úr 1525 millj. kr. á árinu 1971 í 4429 millj. kr. á árinu 1972. Flest lönd, sem við þekkjum til, hafa horfið frá beinum sköttum og hafa í ríkara mæli farið yfir í óbeina skatta. Þetta hefur verið stefnan hér á landi á undanförnum árum. En þessi ríkisstj. gat í engu verið eins og fyrri ríkisstj. Hún þurfti að breyta um frá öllu og tók engum skynsamlegum aðvörunum, sem henni voru þó svo sannarlega gefnar við afgreiðslu síðustu tekju- og eignarskattslaga. Hún fór út í þá ófæru, að grundvöllur hennar nötraði og skalf, þegar skattskráin kom út í sumar, og afsakanirnar voru svo margar frá stjórnarþm. og ráðh. og í stjórnarblöðunum, að þær eru óteljandi. Ég held, að það sé eitt, sem við getum fullyrt núna, þótt það sé erfitt að fullyrða nokkuð um það, hvað þessi hæstv. ríkisstj. ætli að gera. Ég held, að ég þori að fullyrða, að hún þori ekki að hækka beina skatta. En ég þori ekki að fullyrða miklu meira, hvað hún ætlar að gera í öðrum efnum, og sennilega veit hún það ekki sjálf enn í dag, þótt hún ætli að afgr. fjárl. fyrir áramót.

Ég sagði áðan, að þessi ríkisstj. hefði metið í hækkun fjárlaga í allri veröldinni á friðartímum. Hún hefur ábyggilega líka metið í hækkun beinna skatta með því að þrefalda þá á einu ári. Þetta er alls ekki ónýt ríkisstj., sem við Íslendingar höfum. Samhliða þessum skattahækkunum eru fríðindi við álagningu skatta bæði til ríkis og sveitarfélaga stórlega skert, svo og fríðindi til aldraðra og öryrkja, að ógleymdri skerðingu á fríðindum til sjómanna, fiskimanna og farmanna. Má því segja, að opinberir aðilar hafi fengið rúmlega helming af því fjármagni, sem útgerðin var svipt eftir valdatöku þessarar ríkisstj. á fyrstu viku valdaferils hennar, á meðan hennar hamingjusól var hæst á lofti. Sú sól sést lítið þessa dagana. Þetta var árangurinn af því, að það þurfti að gleðja sjómenn í upphafi veizlunnar, en það þurfti að taka af þeim aftur glaðninginn, þegar komið var nokkuð fram yfir áramót. Þá voru allar hendur stjórnarsinna á lofti, — það var ekki hönd fjmrh. eins, sem oft er látið liggja að í Þjóðviljanum, einkamálgagni iðnrh., og jafnvel í málgögnum Samtaka frjálslyndra og vinstri manna.

Er ekki byggingarvísitalan allgott sýnishorn af því, hvernig verðbólgan hefur leikið lausum hala í landinu, frá því að þessi hæstv. ríkisstj. kom til valda? 1. júli 1971 var byggingarvísitalan 535 stig. Hvernig hefur það gengið síðan? 1. nóv. s.l. var hún komin upp í 689 stig. Þetta eru mennirnir, sem halda verðbólgunni í skefjum. Þetta er góður árangur, 28.79% hækkun á byggingarvísitölunni. Við hana hefur ekkert verið fiktað. Hvernig hefur þróun hennar verið? 1. júlí –31. okt. 1971, en hún er til fjögurra mánaða í einu, er hún 535 stig. 1/11—29/2 þetta ár fer hún upp í 543 stig, og 1/3–30/6 í sumar hoppar hún upp í 683 stig, og svo núna 1. nóv. tók hún smábreyt., 6 stig, til þess svona að vera í takt við stj. að einhverju leyti.

Í skiptingu ríkisútgjalda eftir hagrænu eðli, miðað við fjárlagafrv. 1972 og það frv., sem hér liggur fyrir, árið 1973, hafa kaup á vörum og þjónustu hækkað úr 5 milljörðum 374 millj. kr. í 7 milljarða 702.4 millj. kr. eða yfir 43%. Það er líka vel af sér vikið.

Þeir ætluðu líka að sjá um það, að ríkisbákninu yrði haldið í skefjum. Það yrði nú eitthvað annað en var hjá fyrrv. stjórn. Samkvæmt fjárlagafrv. fyrir árið 1972 — í upptalningunni, sem því fylgir, — eru fastráðnir ríkisstarfsmenn, miðað við júlímánuð 1971, 6798 talsins. Það er á sama tíma og hin stjórnin fór frá. Í fjárlagafrv. fyrir 1973, sem einnig er miðað við júlímánuð þess árs, voru þeir orðnir 7244. Og nú fyrir nokkrum dögum eru þeir taldir, samkv. upplýsingum, sem fjárlaga- og hagsýslustofnunin útvegaði okkur að okkar beiðni, vera orðnir 7383. Fastráðnum ríkisstarfsmönnum hefur því fjölgað í tíð núv. ríkisstj. um 585. Mér finnst þetta líka vel af sér vikið. Og það hlýtur ráðh. að þykja. Það er ekki öll sagan sögð með þessu. Í þessum frumskógi ríkisstj., í ríkisbákninu, fást engar upplýsingar um það, hversu margir lausráðnir starfsmenn eru starfandi eða hafa verið. Við reyndum að fá upplýsingar um það til þess að fá alla myndina. En kerfið verkar ekki í þessum efnum, sagðist alls ekki hafa þessar upplýsingar. Ég veit ekki, hvort tölvurnar eru hættar að taka við, fjölgunin sé svo mikil.

Ég hygg, að það hafi verið mjög misráðið eins og margt fleira í málefnasamningi hæstv. ríkisstj., þegar hún ákvað að stytta með lögum vinnuvikuna í 40 stundir án breytinga á vikukaupi. Ég hygg, að það hafi skeð án þess, að nokkur þessara 7 ráðherra eða guðfaðir stjórnarinnar hafi vitað, hvað þeir voru að gera, þegar þetta var tekið upp, því að þeir gerðu sér enga grein fyrir því, hve alvarlegar afleiðingar það hefur að stytta vinnuvikuna með lögum án þess að gera sér fyllilega grein fyrir, hvaða áhrif það hefur á fjármálalíf þjóðarinnar og atvinnuveganna. En þegar þetta frv. var lagt fram hér á Alþ., lýsti Sjálfstfl. því yfir, að hann væri andvígur þessari málsmeðferð og teldi hana vera mikið óráð af ríkisstj. Í fyrsta lagi að taka inn í pólitískan málefnasamning lögfestingu vinnutíma, þó að sumir stjórnarsinnar héldu því þá fram, að lögfesting vinnutímans mundi greiða fyrir kjarasamningum, sem þá voru á næsta leyti. Sú varð ekki raunin. Það greiddi ekki fyrir neinum kjarasamningum. Við vitum, hvernig fór. Það urðu almennar hækkanir launa og verðlags í landinu með þeirri þróun, sem ég hef áður sýnt hér fram á, en Sjálfstfl. lýsti því yfir, að hann ætlaði ekki, eins og formaður okkar flokks, Jóhann Hafstein, lýsti yfir, að hann teldi, að hvorki hann né aðrir sjálfstæðismenn mundu bregða fæti fyrir framgang frv., fyrst það væri komið inn í pólitískan málefnasamning og fyrst frv. væri komið hér inn í Alþ. Ástæðan fyrir því, að við vorum ekki á móti frv., eftir að það kom hér fyrir, var fyrst og fremst sú, að við vildum ekki taka þá ábyrgð á okkur — eða láta segja það um okkur réttara sagt, að við hefðum engt verkalýðshreyfinguna til mótmæla og jafnvel orðið til þess, að ekki hefði náðst heildarlausn í kjarasamningum launþega, sem þá voru, eins og ég sagði áðan, á næsta leiti. Þetta vildum við ekki hætta á. Þess vegna settum við okkur ekki upp á móti samþykkt þessa frv. hér á Alþ., þó að við lýstum því yfir mjög ákveðið, að við teldum, að það væri rangt að taka þetta upp í pólitískan málefnasamning og flytja frv. um það, því að um þetta ætti að semja á hverjum tíma af aðilum vinnumarkaðarins.

Mikil var nú gleðin fyrir jólin í fyrra, þegar verið var að afgreiða fjárl., hvað framlög til ýmissa verklegra framkvæmda hefðu hækkað mikið, og þá fylgdi listi með nál. minna ágætu vina og félaga, meiri hl. fjvn., um, hvað verklegar framkvæmdir hefðu hækkað frá árinu á undan, og töluverð skrá um þetta og mörg orð og stórar fyrirsagnir í málgögnum stjórnarflokkanna. Nú gat talsmaður meiri hl. fjvn. sleppt þessum kafla ræðunnar. En hann kom með eina litla rós í hnappagat ríkisstj., að hún hefði bætt pínulítið úr í sambandi við fjárveitingar til íþróttamannvirkja. Það er alveg rétt. Það er litil upphæð í sjálfu sér, og ég skal taka undir það með honum, að ég hefði oft kosið, að það hefðu verið hærri framlög hér fyrr á árum til þeirra hluta og þessi hali yrði ekki svo langur. En það eru nú ýmsir halar að lengjast, skal ég segja bæði honum og öðrum. En eftir að þessar hækkanir áttu sér stað og afgreiðsla á mjög hárri framkvæmdaáætlun rétt fyrir þinglok í vor, fór ríkisstj., þegar var komið fram á sumar, að átta sig á því, að nú væri kassinn að verða tómur hjá Halldóri og nú þyrfti að draga úr útgjöldum og fara að spara. Og það vantaði eitthvað 4–5 daga upp á ársafmæli veizlunnar, þegar henni var skyndilega slitið. Það voru gefin út brbl., sem hétu tímabundnar efnahagsráðstafanir. Þessar ráðstafanir eiga að gilda til n.k. áramóta. Í þeim er heimild fyrir ríkisstj. að skera niður framlög á fjárl. ársins 1972 um allt að 400 millj. kr. Nú liggur loksins fyrir hvernig þessi niðurskurður hefur átt sér stað, en þó ekki nema að takmörkuðu leyti. Það liggur fyrir, að skorin eru niður framlög til verklegra framkvæmda á árinu 1972 um 174.6 millj. kr. Það skiptist eftir þessum liðum: Til hafnargerða 28.6 millj., heilbrigðismál 50 millj., skólar skyldunámsins 53 millj., iðnskólar 2.5 millj., til háskólans 12 millj., þjóðarbókhlöðu 7.5 millj., landsspítalabyggingar 6 millj, og til byggingar fæðingardeildar Landsspítalans 15 millj. Þessir fjórir síðast töldu liðir getum við ekki sagt, að séu hér í Reykjavík, því að þetta eru stofnanir, sem þjóðin öll á, þó að þær séu eða eigi að vera í Reykjavík. En annar niðurskurður skiptist þannig eftir kjördæmum, að Reykjavík er með 17.5 millj. kr., Vesturland 16 millj. kr., Vestfirðir 21.3 millj. kr., Norðurl. v. 13.9 millj., Norðurl. e. 21.7 millj., Austfirðir 20 millj., Suðurland 12 millj. og Reykjanes 11.7 millj. Það má því segja, að framkvæmdir hafi sumar jafnvel verið látnar bíða þar sem sízt skyldi og þó sérstaklega úti um hinar dreifðu byggðir landsins, þar sem kannske er mest þörf fyrir þær. En þar sem peningarnir eru mestir, voru menn fljótir að hefja framkvæmdirnar og voru búnir, þegar ríkisstj. rankaði við sér, að hún þyrfti að skera niðúr, og þá var auðvitað ráðizt á garðinn þar sem hann var lægstur. Og hvað var það? Það var notað til þess ákaflega skemmtilegt kerfi, — þetta skemmtilega kerfi að segja mönnum: Það er ekki hægt að fara út í framkvæmdir. Undirbúningur er ekki nægur. Það nægir ekki þetta fé, sem er í fjárl. — Ég gæti nefnt nokkur dæmi um það, m.a. í hafnarmálum. Þar var reynt að tefja fyrir og kerfið notað til þess, sérstaklega á kostnað þeirra staða, sem sízt máttu við því.

Ég get ekki látið hjá líða að geta þess, að það hefðu einhvern tíma þótt tíðindi, ef fyrrv. ríkisstj. hefði skorið niður framkvæmdir við byggingu fæðingardeildar Landsspítalans um 15 millj. Ég man það, þegar hæstv. utanrrh. núv. og hæstv. heilbrmrh. núv. fóru heim og fóru í sparifötin sín og komu hér nýklipptir og sléttir í ræðustólinn, vegna þess að það var fullt hér á pöllunum af konum, sem höfðu mikinn áhuga á byggingu fæðingardeildar. Þeir héldu sér þá vel til báðir og áttu þá ekki orð að lýsa því, hvað þáv. ríkisstj. stæði sig illa í þessum efnum. Við hinir vorum bara í hversdagsfötunum, þegar þessir tveir töluðu til kvennanna. Ég er hræddur um það, að núv. heilbrmrh. mundi eitthvað segja um ríkisstj., ef hann væri í stjórnarandstöðu, fyrir að fara svona svívirðilega að ráði sínu að skera niður framlög til byggingar fæðingardeildar Landsspítalans um 15 millj. kr. Ég get ekki stillt mig um að nefna þetta og vekja athygli á þessum undarlegu mönnum, sem þá tóku til máls um þetta efni, en á fyrsta heila ári þeirra í ríkisstj. ráðast á þá framkvæmd, sem þeir töldu sig hafa barizt fyrir meira og betur en nokkrir aðrir. — [Fundarhlé.]

Það vekur eftirtekt, að framlög til verklegra framkvæmda á fjárlagafrv. hækka engan veginn í hlutfalli við verðbreytingar. Í því sambandi má nefna, að síðasta fjárlagaár fyrrv. ríkisstj., árið 1971, hækkuðu framlög til bygginga barna- og gagnfræðaskóla úr 206 millj. 860 þús. kr. í 288 millj. 71 þús. kr. eða um 39%. Í fjárl. fyrir árið 1972 hækkuðu þessi framlög í 394 millj. 660 þús. eða um 37%. Í fjárlagafrv. fyrir næsta ár verða þessi framlög samkv. þeirri till., sem liggur nú fyrir frá fjvn., að upphæð 473 millj. 478 þús., en í þeirri upphæð er 53 millj. kr. fjárveiting vegna niðurskurðar á fjárl. á þessu ári, sem ég gerði að umræðuefni hér áðan, þannig að raunveruleg fjárveiting næsta ár, árið 1973, verður því 424 millj. 478 þús. kr. eða rétt um 7.5% hækkun frá síðasta ári miðað við fjárlög. Þetta sýnir mjög glöggt, hvað framlög til verklegra framkvæmda lækka, því að þessi liður til skólabygginga skyldunámsins er langstærsti framkvæmdaliðurinn í fjárlagafrv., og sýnir jafnframt breytingarnar, sem hafa orðið á þessum þremur árum: síðasta ár viðreisnarstjórnarinnar 39%, fyrsta ár þessarar stjórnar 37% og annað ár þessarar stjórnar 7.5%. Í hafnamálum er ástandið mjög svipað, því að við fjárlagaafgreiðslu fyrir s.l. ár, 1972, eru framlög til hafnarmannvirkja og hafnabótasjóðs 183.8 millj. kr., en eru eftir till. fjvn. við frv. nú 228.5 millj. kr., og eru þá endurveittar 28.6 millj. kr., sem skornar voru niður af fjárveitingu í fjárl. þessa árs. Raunverulegt framlag til hafnarframkvæmda verður því 199.9 millj. kr. eða um 9% hækkun frá fyrra ári. Hér nefni ég sem dæmi tvo af stærstu liðum til verklegra framkvæmda, þar sem er nú um 7.5% hækkun að ræða á þeim stærsta, skólabyggingunum, og 9% hækkun til hafnamála.

Mér verður líka í þessu sambandi hugsað til ýmislegs, sem hefur verið sagt hér á liðnum árum í sambandi við verklegar framkvæmdir, þegar talað var um, að verklegar framkvæmdir væru litlar í fjárl. liðinna ára, og þó alveg sérstaklega, að þær hafi stundum ekki fylgt byggingarvísitölunni. Ég man sérstaklega eftir einum af forustumönnum núv. ríkisstj., sem taldi, að það væri engan veginn nóg, að framlög til verklegra framkvæmda fylgdu byggingarvísitölunni. En ef það ætti aðeins að fylgja henni nú, þá ættu þau að hækka um 28.79%. En þessi talsmaður núv. ríkisstj., sem þá var í stjórnarandstöðu, sagði meira: Þau eiga að gera meira en að fylgja byggingarvísitölunni. Þau eiga að fylgja hlutfallslegri hækkun fjárl. — Hann var ekkert að skafa utan af því. Ja, ljótt væri það nú, ef stjórnarandstaðan gerði kröfu til að fylgja hér hlutfallslegri hækkun fjárl. til byggingar skóla og hafna um allt land. Nei, það er önnur stjórnarandstaða nú, a.m.k. frá hendi Sjálfstfl., en var frá hendi núv. stjórnarsinna, þegar þeir voru í stjórnarandstöðu. Ég skal taka fram, og það er mín persónulega skoðun, enda er það orðið móðins nú að lýsa persónulegum skoðunum sínum, en ekki annarra, að ég tel, að eins og ástandið er núna í fjármálum þjóðarinnar, þá hafi hún ekki ráð á því að verja meiru til verklegra framkvæmda en raun ber vitni. Þess vegna tók ég og mínir samflokksmenn í fjvn. fullt tillit til þess ástands, sem nú er ríkjandi, og við skildum mjög vel hæstv. fjmrh., þegar hann sagði við okkur, að þessir liðir mættu ekki fara hærra en þeir hafa þegar farið samkv. till. fjvn. og í fullu samráði og samstarfi við hann. Þá skildi ég vel afstöðu hans, og við tókum því þátt í, eins og formaður fjvn. nefndi hér áðan, af jafnmikilli alvöru eða ekki minni alvöru en aðrir fulltrúar í fjvn. að reyna að skipta þessu fjármagni eftir þeim heildarlínum, sem ríkisstj. markaði: fjármagni til skólabygginga, bæði hinna almennu skólabygginga, gagnfræðaskóla og barnaskóla, sömuleiðis sérskólanna, sem hér hafa þegar verið afgreiddir: iðnskóla, héraðsskóla, húsmæðraskóla, enn fremur um skiptingu á fjármagni til hafnargerða og skiptingu á fé til læknabústaða, sjúkrahúsa, læknamiðstöðva og sömuleiðis til fyrirhleðslna og annars þess, sem hér liggur nú fyrir og hefur verið afgreitt frá fjvn. Ég fyrir mitt leyti tek fulla ábyrgð, alveg jafnt og meiri hl., á skiptingu á þessu fjármagni og treysti mér ekki, þó að ég sé stjórnarandstæðingur, til þess að leggja til að hækka þessar fjárveitingar. Ég tel nóg að gert í hækkunarmálum þrátt fyrir það.

Það getur vel verið, að það sé ekki talið praktískt af stjórnarandstæðingi að vera svo ábyrgðarfullur við afgreiðslu slíkra framlaga, þar sem alltaf má ýta undir kröfurnar og taka undir hvað sem sagt er og hvar sem er. En ég vil þó heldur hafa það á þennan veg og hygg, að þegar fram í sækir, muni það verða affarasælla fyrir stjórnarandstöðu að haga sér þannig, en vera ekki með sífelld yfirboð og þá alveg sérstaklega þegar jafnhörmulegt ástand og nú er í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Í sambandi við hafnamálin tek ég undir það sama, að þó að ég telji, að þarfirnar í hafnamálum séu í raun og veru miklu meiri en í skólabyggingunum og megi jafnvel síður bíða, vegna þess að hafnirnar eru stór þáttur í atvinnutækjunum og atvinnurekstrinum, þá tel ég einnig, að það sé ekki hægt að ganga lengra í nýjum framkvæmdum í hafnamálum, eins og nú standa sakir. En ég harma það aftur á móti, að það liggur ekki ennþá fyrir frá hendi hæstv. samgrh., sem hann lofaði, þegar frv, til nýrra hafnalaga var lagt hér fram. Þá taldi hann, að frv. yrði lögfest fyrir áramót. Ég hef litla eða enga trú á því, að það verði. En hann hét því, að hans rn. mundi vinna að því að gera yfirlit yfir stöðu hinna einstöku hafna í landinu, sem nú eru sligaðar fyrir löngu undan greiðslubyrði sinni, bæði afborgunum og vöxtum, og að það yfirlit yrði lagt fyrir fjvn. og tekið til afgreiðslu við endanlega afgreiðslu fjárlagafrv. Ég veit, að hæstv. fjmrh. þekkir mjög vel til þessara mála, frá því að hann starfaði í fjvn., og veit, hvernig staða hinna mörgu hafnarsjóða á landinu er. Og þrátt fyrir það, að maður vilji ekki standa að hækkunartill., þá held ég, að hér sé um algera undantekningu að ræða, og ég vil mjög eindregið skora á hann að taka þetta mál til bráðrar athugunar og gera till. um, að það verði afgr. við 3. umr., því að við vitum, að það er ekki hægt að reka sveitarfélög, lítil, fámenn sveitarfélög, sem jafnvel þurfa að greiða um fjórðung tekna sinna í afborganir og vexti af hafnarlánum. Ríkissjóður á að greiða til þeirra jöfnunarsjóðsgjaldið, sem er tekið upp í vangoldnar afborganir og vexti af hafnarlánum.

Fyrir nokkrum árum var tekið inn í fjárlagafrv. fyrir tilstilli fyrrv. fjmrh. og fjvn. nokkur greiðsla til hafnanna vegna gengisbreytingarinnar, á þann veg, að ríkissjóður tók að sér að greiða 57.5% af upphæð þeirra lána, sem lánin höfðu hækkað um vegna gengisbreytingarinnar. Það var þá talin töluverð hjálp, þegar þetta var gert. Það hefur sýnt sig, að það var engan veginn nóg að gera þessar ráðstafanir. Bæði hafa framkvæmdir stórvaxið síðan hjá mörgum höfnum, og ég er hræddur um, að fólki hér í Reykjavík og í hinum stærstu bæjum landsins öðrum þætti allnærri sér höggvið, ef fjórðungur af tekjum þessara sveitarfélaga væri tekinn til þess að standa undir afborgunum og vöxtum af lánum. En í mörgum kauptúnum um land allt er þessu þannig varið, að þar er lítið sem ekkert fé og víðast hvar ekkert til þess að standa undir verklegum framkvæmdum og taka þátt í verklegri og félagslegri uppbyggingu á þessum stöðum. Allt verður þetta til þess að ýta undir það, að fólk fari burt af þessum stöðum, sem ekki geta búið því sömu skilyrði og hinir stærstu staðir, og áfram heldur straumurinn á þetta litla svæði hérna, en á sama tíma minnkar og gisnar byggðin víðs vegar um landið. Þetta atriði, þetta eina atriði er að mínum dómi svo mikils virði, að ég vil setja það ofar en öll önnur atriði í sambandi við verklegar framkvæmdir og lán og vexti af þeim.

Ég sagði áðan, að vandinn í fjármálunum nú væri mjög mikið vegna þess, hvað þessi ríkisstj., sem nú situr, fór geyst af stað. Hún fór af stað í spretti, en þeim, sem ætla að ríða langa leið, er hyggilegra að fara gætilega af stað til þess að komast á leiðarenda. Ég held, að hesturinn sé sprunginn undir ríkisstj. og nú sé hún bara á sínum tveimur eða samtals 14 fótum.

Eitt litið atriði í sjálfu sér vil ég gera að umræðuefni, sem sýnir, hvernig ástandið var, þegar til þessa heimilis var stofnað í júlí 1971. Þá var í rauninni ekkert, sem mátti verða eins og hjá fyrrv. stjórn. Engin framlög mátti taka með sama hraða og var hjá fyrrv. stjórn. Það þurfti allt að gerast með meiri hraða en áður. Eitt af þessum málum er mál, sem ég skal sízt af öllu telja, að hafi ekki verið mikils virði, og hefði gjarnan viljað, að hefði verið búið. Það er rafvæðing sveitanna. Fyrrv. iðnrh. hafði látið gera áætlun um rafvæðingu sveitanna, og það hafði verið ákveðið í Sjálfstfl. og Alþfl., fyrrv. stjórnarflokkum, að ljúka rafvæðingu sveitanna á 4 árum. Eftir atvikum held ég, að menn hefðu mátt mjög sæmilega við þetta una. En núv. ríkisstj. gat alls ekki sætt sig við það, að rafvæðing sveitanna tæki 4 ár. Hún varð auðvitað að taka 3 ár. Iðnrh. er búinn að standa upp hér á þingi hvað eftir annað til þess að koma því í útvarpið, að rafvæðingu sveitanna yrði lokið á þremur árum. Og þegar hann hefur komizt út á land, hefur hann eiginlega aldrei sleppt tækifæri að minnast á þetta afrek, auðvitað sitt afrek, ekki stjórnarinnar. Það er Halldór, sem leggur á skattana, en Magnús borgar.

En hver er svo árangurinn eftir fyrsta árið af þremur? Það hefur engan veginn verið staðið við þessa áætlun þegar á fyrsta ári. Ef hæstv. iðnrh. mætti vera að hlusta á óbreytta þm., þá gæti ég frætt hann um það, að ein sú framkvæmd, sem átti að vinna á þessu ári, varð þannig í reynd, að staurarnir voru fluttir í þessa línu og þeim var dreift nokkurn veginn með jöfnu millibili. Þegar komið var langt fram á haust, var ekki búið að koma upp staurunum. Þá fór að snjóa, og það snjóaði mikið í nóv. Ef hann ætlar að koma línunni upp fyrir áramót, þá held ég, að hann þurfi að moka mikinn snjó og leita lengi að staurunum til þess að koma þeim í frosna jörð. Ég nefni þetta dæmi aðeins vegna þess, að það er hyggilegra að flýta sér hægt. Það er hyggilegra að standa við það, sem lofað er, en ekki vera með sífelld yfirboð á öllum sviðum. Ég efast ekki um, að þessi áætlun stenzt ekki. Það mun taka 4 ár að framkvæma hana.

Man nokkur þm. eftir því að hafa séð við 2. umr. fjárl., að engin lausn er fundin á vandamálum stórra ríkisfyrirtækja, og eru þau inni í fjárlagafrv. með stórkostlegan halla, og enginn veit neitt, hvað gera skal? Ríkisútvarpið, sjónvarp, er í fjárlagafrv. með 30 millj. 225 þús. kr. rekstrarhalla. Hin deild þess, hljóðvarpið, er þar með 25 millj. 120 þús. kr. rekstrarhalla. M.ö.o.: Ríkisútvarpið, sjónvarp og hljóðvarp, er inni í fjárlagafrv. nú við 2. umr. með 55 millj. 345 þús. kr. halla. Hvað ætlar ríkisstj. að gera við þessa fjölmiðla? Ég verð að segja, að ég veit ekki, hvaða stofnun á frekar að vera ríkisstj. í minni en ríkisútvarpið, því að ekki nota ráðh. svo lítið hljóðvarp og sjónvarp, að þeir megi við því, að því verði lokað, þegar líður á árið. Það væri fróðlegt að vita, hvað ríkisstj. hugsar sér í bessum efnum.

Í málefnasamningi ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar segir í sambandi við húsnæðismál. — það segir í formála fyrir félags- og menningarmálalið þessa kvers: „Ríkisstj. hefur sett sér þessi höfuðmarkmið í félags- og menningarmálum: Að gera ráðstafanir til að lækka óhóflegan húsnæðiskostnað almennings, m.a. með lækkun byggingarkostnaðar, hagstæðari lánum og afnámi vísitölubindingar húsnæðislána.“ Já, já, það var sannarlega gert. Það var farið í það að afnema vísitölubindingu húsnæðislána. En hann var nú ekki lækkaður, þessi óhóflegi húsnæðiskostnaður almennings. Ég nefndi áðan byggingarvísitöluna. Hannibal og aðrir í ríkisstj. ættu að muna, hvernig þróun hennar hefur verið, úr 535 stigum í 689. Það er vel af sér vikið. Það er von, að þeir geti hælt sér eitthvað. Húsnæðismálastjórn sendi fjvn. bréf, þar sem hún fer fram á það við fjvn., að framlag ríkissjóðs til byggingarsjóðs verði hækkað mjög verulega. Hún segir í þessu bréfi, að ríkissjóði verði nú gert að leggja byggingarsjóði ríkisins til það fé, sem þarf til að mæta þeim skyldum, sem á hann voru lagðar með l. nr. 72 1. júní 1972, og þeim kostnaði, er hlýzt af hinni óhagstæðu lántöku hans hjá ýmsum lífeyrissjóðum á þessu ári. En með lögum frá s.l. ári var niður felld verðtrygging á ársgreiðslum íbúðalána byggingarsjóðs, er í gildi var til þess tíma, en sú ákvörðun skerðir ráðstöfunarfé sjóðsins verulega á næstu árum.

Á næstu árum verður byggingarsjóður ríkisins að standa undir verðtryggingu og vaxtamun vegna lántöku hjá lífeyris- og eftirlaunasjóðum að fjárhæð allt að 210 millj. kr., og samkv. útreikningum Seðlabankans veldur þessi lántaka, svo sem frá henni verður gengið, ca. 290 millj. kr. lækkandi útlánamöguleikum byggingarsjóðs á næstu 10 árum. Með lagabreytingunni á þessu ári var heimild húsnæðismálastjórnar til lánveitinga vegna kaupa á eldri íbúðum sem og vegna viðgerða á eldri íbúðum öryrkja hækkuð úr 50 millj. kr. í 80 millj. kr., en það eru 30 millj. kr. á ári. Byggingarsjóður hefur því verið verulega skertur. Hann verður að taka vísitölutryggð lán. Hann verður að taka á sig skuldbindingar, en hvað snertir lánin, sem hann veitir aftur á móti, þá er vísitöluákvæðið fellt niður. M.ö.o.: tekjurnar eru felldar niður, en útgjöldin vaxa. Það ber allt að sama brunni. Það endar í algeru peningaleysi eins og raun ber vitni, og samt hefur ekki verið breytt lánum til nýrra íbúða eða íbúðabygginga í hinu almenna veðlánakerfi, frá því að síðustu lög voru sett. Þetta er eitt af mörgu, sem ekkert hefur verið hugsað um og látið er fljóta sofandi að feigðarósi.

Það fer ekki á milli mála, að það hefur verið stofnað til fjölmargra nýrra útgjalda í tíð þessarar ríkisstj. og það í stórum stíl. Hún hefur sjálf gengið fram fyrir skjöldu að auka útgjöld þjóðarbúsins og er nú komin í alger vandræði. Og nú, þegar fjárlagafrv. er hér til 2. umr., eigum við þm., að taka efnislega afstöðu til ríkisfjármálanna, og þá á auðvitað að liggja fyrir skár og ákveðin mynd af því, sem gera á og gera þarf. Það á að liggja fyrir skýr mynd, hverjar eru mögulegar tekjur ríkissjóðs nú, miðað við þá tekjupósta, sem eru í fjárlagafrv., og hvað eigi svo að gera því til viðbótar. En ekkert af þessu liggur fyrir. Fjárlagafrv. er eins og ríkisstj. opið í báða enda. Þar er allt í lausu lofti. Við vitum ekki, fjvn.- menn eða aðrir þm., neitt um, hvernig stærstu liðir fjárlagafrv. verða. Tryggingamálin ern langstærsti þáttur fjárl. Við vitum ekkert, hvað er hugsað að gera í þeim efnum eða hvaða breytingar á að gera. Það voru gerðar miklar breytingar á almannatryggingakerfinu á s.l. ári, sem teknar voru inn í fjárlög 1972. Sumir voru mjög hrifnir af þessari breytingu. Að sumu leyti get ég skilið, að það var mjög eðlilegt, að sú breyting yrði gerð að létta útgjöldum af sveitarfélögum í þessum efnum, og það var að mörgu leyti eðlilegt, að ríkið hefði þennan útgjaldalið eða þessa útgjaldaliði. En um eitt var ég algerlega ósammála, og það er niðurfelling persónuskattanna til almannatrygginganna og þar segi ég eins og ég sagði áðan. Ég tala þar fyrir mig persónulega, en ekki aðra. Ég er þeirrar skoðunar, hef verið og er og mun vonandi verða, að framlag til almannatrygginga frá einstaklingunum er eins og hvert annað iðgjald af tryggingu, sem þeir kaupa. Þetta iðgjald vil ég fá að greiða sjálfur beint til almannatrygginga, en ekki greiða það gegnum Magnús Kjartansson eða Halldór E. Sigurðsson. Ég lít á þetta sem iðgjald fyrir tryggingu, sem ég er að kaupa til elliáranna, tryggingu fyrir örorkubótum, ef til þess kæmi, og ég tel mjög eðlilegt, að einstaklingurinn eigi að hafa rétt og skyldur í þessum efnum og vera í raun og veru á þennan hátt félagsmaður, en ekki að vera nafnnúmer: 3212–6539 eða eitthvað þess háttar. Það er ekki þess konar þjóðfélag, sem við flestir sækjumst eftir að vera í. En við erum á móti því að færa alla fjármuni undir eina miðstjórn hér, allir þeir, sem í raun og veru viljum frjálsa hugsun og frjálst athafnalíf.

Einn er sá þáttur í ríkisfjármálunum, sem fer sífellt vaxandi og það mjög vaxandi, en það eru fræðslumálin. Ég hygg, að það þurfi að taka þau mál í heild miklu fastari tökum en nú er gert. Ég held, að það þurfi meiri og betri skipulagningu í sambandi við fræðslukerfið og hvernig fólk velur sér námsefni. Að vísu verðum við að viðurkenna, að hver og einn á að hafa heimild til þess að velja sér námsefni og lífsstarf. En er þetta rétta þróunin, sem á sér stað í okkar landi í þessum efnum? Við skulum taka langskólanámíð. Við skulum taka háskólann. Á árunum 1971–1972 komu 80 nýir nemendur í viðskiptadeild háskólans og voru það ár 245. Á þessu skólaári, sem núna er, eru nýir nemendur í þessari deild 120. Þeim hefur fjölgað um 50% og samtals eru þeir 294 nú í þessari einu deild. Í heimspekideild eru núna 647 nemendur, í læknadeild 386, og samt er alltaf læknaskortur, sérstaklega í strjálbýli. Í þjóðfélagsfræði eru 111. Við skulum svo koma að verklega náminu. Hvernig er það? Langskólanámið er auðvitað gott og nauðsynlegt á sína vísu. Ég gleymdi að geta þess, sem ég má ómögulega gleyma, að í lagadeild komu 48 nýir nemendur á s.l. ári, en 64 nú á þessu ári. Þeir eru samtals 232.

Mín skoðun er sú, að í þessum greinum, sem ég hef nefnt, sé allt of mikið af fólki miðað við þá þróun, sem verður í sambandi við verklega námíð. Stýrimannaskólinn, í hann kom 91 nýr nemandi á s.l skólaári og samtals voru þar 210 nemendur. Á þessu skólaári eru í Stýrimannaskólanum 167 nemendur. Þróunin er með nokkuð öðrum hætti þarna. Í tækniskóla komu 87 nýir nemendur á fyrra ári, en ekki nema 68 nýir nemendur nú í byrjun þessa skólaárs. Við Íslendingar lifum fyrst og fremst á sjávarútvegi og fiskvinnslu. Við stofnuðum loks einn fiskvinnsluskóla, sem hóf starf fyrir rúmu ári. Það stunduðu 30 manns nám í þessum skóla í byrjun. Nú á öðru ári hans eru nemendur orðnir 25, en fjöldi nýrra nemenda, sem bættist við í þessa stóru atvinnugrein á Íslandi, er samtals 11, sem komu á s.l. hausti. 11 manns komu inn í eina fiskvinnsluskólann á landinu, og eru þar samtals 36 nemendur. En alþm. hefur ekki munað um að flytja tvö frv. um tvo nýja fiskvinnsluskóla á þessu þingi. Hvort halda menn nú, að sé meiri vöntun á mönnum, sem læra fiskvinnslu, að verða verkstjórar og aðrir yfirmenn í sífellt betri og afkastameiri fiskvinnslustöðvum í landinu, eða þeim, sem nema við háskólann í heimspekideild, 345 nýir þar, en 11 í fiskvinnsluskólanum?

Eins og ég sagði áðan, verður erfitt að breyta þessu kerfi. Það verður erfitt að segja mönnum fyrir verkum, hvað þeir eigi að gera og eigi að taka sér fyrir hendur. En ég held, að það þurfi a.m.k. af opinberum aðilum að búa þannig að fagskólunum, skólunum, sem taka við fólkinu, sem skapar útflutningsverðmætin í þjóðfélaginn, að það sé eftirsóknarvert að stunda nám við þá skóla. Ég held, að líka eigi að breyta töluvert um í sambandi við námslán, fara töluvert eftir því, hvar er þörf fyrir nýjar greinar, og meta þær greinar, sem vantar fólk í, og aftur hinar, þar sem er of mikið af fólki. Þá verður það fólk, sem er í raun og veru umfram, að sætta sig við að fá lítið eða ekkert til fyrirgreiðslu við sitt nám, þar sem er nóg af fólki fyrir og þjóðfélagið getur ekki komið fleira fyrir, þegar það hefur lokið sínu námi. Mér finnst rétt, að þetta komi hér fram. Ég tel, að það sé þarft verk að nefna þetta hér og það megi mjög gjarnan gera ítarlega könnun á því, hvort eigi ekki að breyta frá þeirri stefnu, sem verið hefur á undanförnum árum og er enn.

Ég sagði áðan, að það væri margt, sem hefði verið gert til þess að auka útgjöldin. Eitt af því, sem núv. stjórn stóð að, var lögfesting Framkvæmdastofnunar ríkisins. Hún ætlaði að koma á betra fyrirkomulagi og sameinaði þrjár stofnanir: Efnahagsstofnun, Framkvæmdasjóð og Atvinnujöfnunarsjóð, undir eina og sömu stjórn og sömu stofnun. Við skulum líta á kostnaðarhliðina, sem varð af þessu. Samtals kostaði starfsemi þessara sjóða allra á árinu 1967 11.9 millj., 1968 13.2, 1969 14.1, 1970 16.4, 1971 18.8. Kostnaður við þessa stofnun, sem var á s.l. ári 18.8 millj. kr., er nú áætlaður 33 millj. kr. Þannig var nú sparnaðurinn hvað þessu viðvíkur. Nokkuð liggur í því, að ríkisstjórnarflokkarnir gátu ekki sætt sig við að hafa einn forstjóra fyrir þessari miklu stofnun, heldur þurftu að koma þar inn 3 pólitískir kommissarar. Og þeir kosta auðvitað allmikið, sennilega hátt á 4. millj. kr. Ég vil benda ríkisstj. á, að hún geti sparað sér þarna. Margt smátt gerir eitt stórt. (Fjmrh.: Rétt er það.) Þakka þér fyrir, fjmrh.

Í fjárlagafrv. segir, að niðurgreiðslur séu byggðar á því, að sú niðurgreiðsluaukning, sem gerð var í júlí s.l. sem hluti verðstöðvunaraðgerða, haldist ekki lengur en til ársloka 1972. Niðurgreiðsla að þessu frátöldu er í heild 1 milljarður 560 millj. kr., það er 374.6 millj. kr. hærri fjárhæð en í fjárl. yfirstandandi árs. Meginorsök þessarar hækkunar felst í því, að niðurgreiðslur á mjólk voru í ársbyrjun hækkaðar allverulega frá áætlun fjárlaga. Þessari hækkun, sem gerð var í sumar með hinum svonefndu tímabundnu efnahagsaðgerðum og gefin út um brbl., er ekki ætlað að standa nema til áramóta. Þarna er einn liðurinn upp á hátt á annan milljarð, sem enginn veit í dag, hvar stendur. Hann hangir eins og fleira í lausu lofti. Allir stærstu liðirnir, allt það, sem hefur mest að segja, þetta er eins óljóst fyrir okkur og stólarnir hérna inni, ef við slökkvum ljósið. Og svo er til þess ætlazt, að við höldum áfram og afgreiðum þetta blindandi, með bundið fyrir augun. Þessar tímabundnu efnahagsráðstafanir renna út nú um áramótin.

Ég skal nefna nokkur dæmi í fjárlagafrv. um það, hvað er ógætilega farið með ýmsar hækkanir, hvað er ástæðulaust að hækka marga liði. Og nú ætla ég ekki að nefna lið, sem er ekki mikilvægur, heldur lið, sem er mjög mikilvægur, verkefni, sem ég sé ekkert eftir, að þetta fjármagn sé veitt í. En það verður að vera ríkjandi við gerð fjárlagafrv., að það sé ekki hægt að fimm- og sexfalda ákveðin verkefni á einu og sama árinu. Það hlýtur að enda á einn veg, að ríkissjóður standi ekki undir þeim útgjöldum. Og nú ætla ég að nefna þetta verkefni, og það er ekki ómerkara verkefni en til náttúruverndarráðs og þjóðgarða.

Framlag til náttúruverndarráðs er hækkað í frv. um tæpar 7.9 millj. og til þjóðgarða utan Þingvalla um tæpar 9.3 millj., eða samtals 17.1 millj. Mér er það ljóst og mjög vel ljóst, að það eru nægileg verkefni, þótt hér væri um miklu hærri upphæð að ræða en er í frv. En við verðum að sætta okkur við, ef við ætlum að halda einhverju jafnvægi í sambandi við gerð og afgreiðslu fjárlaga og láta ekki allt fara upp úr öllu valdi, að þá er ekki hægt að margfalda einhverja ákveðna liði. Það verður að halda að sér höndum. Mér er alveg sama, hvað menn kalla þetta, hvort þeir kalla þetta íhaldssemi eða ekki.

Það er nauðsynleg íhaldssemi í þessu þjóðfélagi, það hefur ekki verið svo mikið um hana.

Í gær var lögð á borðið hjá okkur heimild fyrir ríkisstj. til þess að taka lán vegna framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1973, en það frv átti að fylgja með í sambandi við fjárl. til að sjá heildarmyndina. Það frv. kemur nú eðlilega til umr. og afgreiðslu í þd., og skal ég ekki gera það að umræðuefni að öðru leyti en því, að þar er gert ráð fyrir framkvæmdum upp á 1 milljarð. Jafnframt er sjáanlegt, að til ríkisframkvæmda utan við fjárl. á að fara út í nýja skatta. Það sér maður í sambandi við vegaframkvæmdir, hvað fyrir liggur í þeim efnum, sem kemur seinna á daginn. Eftir er svo stóra dæmið um alla fjárfestingarsjóðina. Hvernig á að afla fjár til þeirra á árinu 1973? Það er sennilega engin smáupphæð, sem fjárfestingarsjóðirnir telja sig vanta, þó að þar beri auðvitað hæst Fiskveiðasjóð Íslands. En útlán fiskveiðasjóðs verða um 1200 millj. kr. á árinu 1972, sem er 200 millj. kr. hærra en áætlað var. Samtals verða þessar fjárveitingar, að ég held, um 1600 millj. kr. Eigið ráðstöfunarfé fiskveiðasjóðs er áætlað á næsta ári 580 millj. kr., og það, sem á vantar, auk halla frá þessu ári, mun nema kringum 1300 millj. kr. Hér er um sjóð að ræða, sem er ekki á nokkurn hátt hægt að skera niður. Það er búið að ákveða að kaupa og byggja skip, lána til fiskiðnaðarins, og það eru ákveðnar skuldbindingar, sem á þessum sjóði hvíla, svo að ekki verður hægt að komast hjá þessum vanda, þegar þar að kemur.

Ég ætla ekki að nefna fleiri fjárfestingarsjóði. En það mætti segja mér, að ekki yrði sú upphæð mikið undir 3000 millj., sem fjárfestingarsjóðirnir koma til með að þurfa á að halda á árinu 1973. Ég er hræddur um það, að ef ríkisstj. lifir fram yfir áramót, sem ég vona, að hún geri, því að ég vil alls ekki, að hún fái að hlaupa frá þessum vanda, þá held ég, að sumir menn verði orðnir þreyttir, þegar þeir verða búnir að sjá öllum þessum greinum fyrir fjármagni á árinu 1973, þó að ekki verði nú horft lengra fram á veginn. Ég öfunda ekki minn ágæta vin, hæstv. fjmrh., að vera í þessari stöðu. Og það er erfitt að halda í hemilinn á þeim í eyðsluráðuneytunum, því að höfuðútgjaldabeiðnirnar, sem koma til fjvn., koma ekki frá fólki úti í bæ eða félagasamtökum. Þær koma frá þessum eyðsluráðh., sem eru alla daga að tala um, að það þurfi að skera niður fjárl. Þeir eru alltaf skrifandi bréf og heimta milljónatugi og milljónahundruð. Það höfum við séð og höfum fyrir augunum, nm. í fjvn.

Ég skal nú fara að stytta mál mitt. En það er ekki vegna þess, að það sé ekki af nógu að taka, heldur hins, að það þurfa fleiri að komast að. Og eins og fram kemur í nál. okkar sjálfstæðismanna, þá segjum við, að þegar fjárlagafrv. var lagt fram, var það marklaust að því leyti, að stórar fjárhæðir vantaði á tekjuhlið frv. til þess að mæta gífurlegri útgjaldaaukningu, sem skapast, þegar verðstöðvun lýkur um næstu áramót, eins og brbl. um tímabundnar efnahagsráðstafanir kveða á um. Fyrir 2. umr. fjárl. var ríkisstj. og er skylt að leggja fram till. um tekjuhlið fjárlagafrv., skýra frá því, á hvern hátt hún ætli sér að leysa þau efnahagsvandamál, sem nú steðja að. Í stað þess að gera það hefur ekkert komið frá ríkisstj. annað en þessi bréf til fjvn. frá einstökum ráðh., sem krefjast aukinna útgjalda. Við teljum þessi vinnubrögð óhæf með öllu; að fjalla um útgjaldabeiðnir, sem skipta hundruðum millj. kr., meðan ekki liggja fyrir upplýsingar um, á hvern hátt tekna skuli aflað. Við flytjum því ekki, fulltrúar Sjálfstfl. í fjvn., brtt. við fjárlagafrv. við þessa umr. umfram það, sem fram kemur í brtt. fjvn., sem hv. formaður fjvn. hefur gert skil í framsöguræðu sinni, og þarf ég þar litlu við að bæta. Kannske eru örfáar aths., sem ég ætla nú að sleppa, en að öðru leyti er ég honum sammála í öllum höfuðatriðum. En við geymum okkur allan rétt til þess við 3. umr., þar sem við teljum, eins og stutt hefur verið rökum hér áður í mínu máli, að mikilvægar ákvarðanir verði að taka um lausn efnahagsmálanna, áður en lengra er haldið, en þær ákvarðanir hljóta að hafa veruleg áhrif á afkomu alls almenning í landinu og endanlegar niðurstöður fjárl. Af þessum sökum er ógerlegt að taka á ábyrgan hátt afstöðu til ákveðinna efnisþátta ríkisfjármála og m.a. til þess, hversu langt megi ganga í fjárveitingum.