14.12.1972
Sameinað þing: 30. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1244 í B-deild Alþingistíðinda. (902)

1. mál, fjárlög 1973

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Við þessa 2. umr. fjárl., sem nú fer fram, er svo að sjá sem fáar eða nær engar brtt. muni koma fram eða líta dagsins ljós. Hvað veldur? Er það svo, að allir hv. alþm. séu ánægðir með frv. í heild sinni eða einstaka þætti þess? Varla getur það verið. Til þess eru sjónarmið hv. alþm. allt of mörg og ólík. Hitt mun sönnu nær, að óvissan er svo mikil um ýmsa veigamikla þætti og staðreyndir, sem byggja verður á, að erfitt er að gera sér fulla grein fyrir framvindu málanna. Menn halda því að sér höndum í lengstu lög og bíða átekta, hvaða leið verður valin út úr þeim efnahagsvanda, sem nú grúfir yfir landinu.

Ég efast ekki um, að það sé erfitt fyrir stjórnarliðið að standa á slíkum krossgötum. En það er ekki heldur auðvelt fyrir einstaka þm. að gera upp hug sinn, meðan ekki er vitað, hvaða leið verður valin út úr þeim ógöngum, sem hv. stjórnarlið hefur lent í. Það er þó nokkuð ljóst nú, að margt verður skammtað úr hnefa og naumt skammtað við afgreiðslu þessara fjárl. miðað við afgreiðslu fjárl. fyrir ári, þegar nægar fyrningar voru í hlöðunni.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að í ríkisstjórnarsáttmálanum var kveðið svo á, að endurskoða ætti tekjuöflunarleiðir hins opinbera með það fyrir augum að dreifa skattabyrðinni réttlátlegar en gert hefur verið. Haldast átti í hendur endurskoðun skattakerfis og tryggingalöggjafar og tryggja öllum bjóðfélagsþegnum lífvænlegar lágmarkstekjur. „Tekjur, sem einungis hrökkva fyrir brýnustu lífsnauðsynjum, verði ekki skattlaðar,“ stendur þar. Einnig átti að stefna að því að leggja niður persónuskatta, svo sem til almannatrygginga, og afla teknanna með öðrum hætti.

Það er ekki úr vegi að fara um þessi efni örfáum orðum, þar sem tekjuskattur einstaklinga er. nú aftur orðinn mjög snar þáttur í tekjuöflun ríkisins, og þá ekki síður vegna hins, að öll þessi mál eiga að vera í endurskoðun um þessar mundir. Hæstv. fjmrh. lýsti því yfir oftar en einu sinni á síðasta þingi, ef ég man rétt, að árið 1972 yrði nokkurs konar tilraunaár á ýmsan hátt að því er varðar skatta og skyldur þegnanna við ríkið. Það hafa líka reynzt orð að sönnu. Ég man ekki eftir því, að álagning skatta til ríkisins hafi vakið jafnmikla öldu óánægju og gremju og réttlátrar reiði sums staðar og s.l. sumar, sérstaklega hjá eldra fólki, sem ekki gerir að jafnaði miklar aths. Hitt er satt, að þessi alda lækkaði til mikilla muna, þegar hæstv. ríkisstj. játaði yfirsjónir sínar og gaf út brbl. til lækkunar þessara gjalda. Það er svo enn rétt, að þrátt fyrir þessi lög voru margir, sem sáralitla leiðréttingu fengu, þrátt fyrir þá heildarmynd, sem hér hefur verið gefin í þingsölunum núna síðustu dagana af þessu máli. Auðvitað hefur margt eldra fólk miklar tekjur. Í frystihúsi einu á Vesturlandi, þar sem vinna upp undir 100 manns, sagði verkstjórinn mér, að á síðustu vertið hefði hann ekki fengið nema eins og 15–18 manns til að vinna næturvinnu, þó að mikið lægi við, þó að mikil verðmæti væru í veði. Þetta væri alltaf sami hópurinn, sömu, gömlu mennirnir, sama gamla fólkið, sem ekki þekkti annað en vinnu og aftur vinnu, sérstaklega þegar mikið lægi við. Flestir aðrir væru farnir að velta því fyrir sér, að aukin yfirvinna þýddi jafnframt aukna skatta og það til mikilla muna, og reikna það dæmi með hliðsjón af eigin hag.

Hæstv. ríkisstj. hefur mikið stært sig af afnámi nefskatta. Satt er það, að gott, nauðsynlegt og þægilegt er að losna við ýmis slík gjöld, t.d. námsbókagjaldið, sem ekki svaraði orðið kostnaði að innheimta. Mun meiri vafi sýnist mér vera t.d. um almannatryggingaiðgjaldið, sem nú er að vísu afnumið. Ég ætla að leyfa mér að fara um það aðeins örfáum orðum.

Iðgjöld voru greidd af fólki á aldrinum 16–67 ára, sem lögheimili átti í landinu. Undanþegnir gjaldskyldu voru ýmsir, t.d. sjúklingar, tekjulágir bótaþegar, og aldrei skyldi iðgjald lagt á þann, sem ekki hafði aðrar tekjur en bætur samkv. almannatryggingalögum. Það var vanaviðkvæðið, þegar rætt var um þessi mál af hálfu valdhafa, t.d. á síðasta þingi, að útgjöld trygginga væru orðin svo há, að hækka yrði iðgjaldið eftir því, t.d. með þreföldun þeirrar fjárhæðar eða eitthvað þar um bil. er síðast gilti, jafnvel meira, en þá var jafnan miðað við ákvæði 23. gr. tryggingarlaga óbreytt, að því er virtist, þ.e. að útgjöld lífeyrirstrygginga skyldu borin uppi af ríkissjóði, hinum tryggð, sveitarsjóðum og atvinnurekendum í þeim hlutföllum, sem þar var skráð. Þetta var þó að vissu leyti blekking. Ekkert er eðlilegra og sjálfsagðara en ríkissjóður taki vaxandi þátt í fjármögnun tryggingakerfisins, þegar því vex fiskur um hrygg og það hefur þróazt að því marki, sem nú er orðið. Ég held samt sem áður, að allir fullhraustir þjóðfélagsþegnar hafi á mjög margan hátt gott af því að greiða einn hóflegan nefskatt eða hóflegt iðgjald til trygginga. Hingað til hefur almannatryggingakerfið íslenzka byggzt á tveimur höfuðsjónarmiðum, að ég held, tveimur meginstefnum í almannatryggingamálum, raunar tvenns konar tryggingakerfi: Annars vegar kerfi, sem byggist á tryggingasjónarmiði, þar sem iðgjaldagreiðslur hinna tryggðu skapa réttinn til bóta ásamt fleiri skilyrðum. Hins vegar kerfi, sem byggist að mestu leyti á framfærslusjónarmiðinu, þar sem þörf hinna tryggðu vegur mest. Reglum um iðgjaldagreiðslur mátti á hinn bóginn breyta á ýmsan veg, t.d. þannig, að fólk þyrfti ekki að byrja að greiða iðgjöld fyrr en t.d. 18–20 ára, með tilliti til fólks, sem er að kosta sig í skóla. En þetta eru sjálfsagt taldar hugleiðingar, sem tilheyra liðinni tíð, þannig að ekki er vert að fara lengra út í þær á þessu stigi málsins.

Um vinnutímastyttinguna hefur nokkuð verið rætt í þessum umr. í dag og þau lúmsku áhrif, sem hún virðist hafa til hækkunar á ýmsum sviðum og hefur án efa í raun. Þar eru þó ekki nærri öll kurl komin enn til grafar, en mér segir svo hugur um, að enn um stund a.m.k. verði íslenzk þjóð að hafa það mark og mið að leggja heldur meira á sig, sætta sig við að vinna örlítið lengri vinnudag en þær þjóðir, sem lengst eru komnar og við bezt skilyrði búa. En látum ekki fleiri orð falla um þetta efni að sinni.

Hin mikla hækkun fjárl., þar sem víst má telja, að útgjöld tvöfaldist nú frá afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1971, er sannarlega uppvænleg. Ofþenslan og verðbólgan er slík, að með algerum eindæmum má telja, a.m.k. á friðartímum, eins og bent er á í nál. l. minni hl. fjvn. Nei, þetta eru vissulega uggvekjandi staðreyndir, þegar þess er gætt, að baráttan fyrir efnalegu sjálfstæði er einn meginþáttur ævarandi sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.

Um frv. þetta mætti að sjálfsögðu margt fleira segja, baeði almennt og eins ræða sérstaka þætti þess, svo sem gjaldahliðina og einstakar greinar hennar og gjaldaliði, og svo sannarlega mætti minnast á mörg mál, sem snúa að mínu kjördæmi, en það læt ég bíða. Í gjaldahlið þessa frv. eru vissulega mörg mál, sem eru áhugaverð og mikil þörf er að styrkja og styðja við með fjárframlögum. Það hefur verið bent á í þessum umr., að launuðu starfsfólki á vegum hins opinbera hafi fjölgað ískyggilega mikið, frá því að núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum. Tæmandi upplýsingar eru þó ekki handbærar í þessu efni. Sjálfsagt er að gæta ítrustu sparsemi og hófs á þessu sviði. En hitt liggur þó í augum uppi, að ógerningur er að neita „kategórískt“ um fjölgun starfsmanna á vegum ríkisins hvar og hvernig sem á stendur. Ég tel t.d. útilokað fyrir hæstv. stjórnarvöld að leggjast gegn sérhverri fjölgun lögreglumanna, enda þótt kostnaður af löggæzlu falli með fullum þunga á ríkissjóð á þessu ári. Vænti ég, að fjárveitingavaldið endurskoði afstöðu sína að þessu leyti, enda þótt ég viðurkenni fyllilega, að fullrar aðgæzlu sé þörf í þessu efni sem öðrum.

Um alla þá mörgu valkosti, sem nú virðast vera fyrir hendi, mun ég ekki ræða að þessu sinni né heldur aðra fleiri þætti þessa fjárlagafrv., þar sem svo margt er á huldu og framtíðin óljós og ótrygg.