14.12.1972
Sameinað þing: 30. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1265 í B-deild Alþingistíðinda. (907)

1. mál, fjárlög 1973

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Það er nú þannig með mig og hv. 1. þm. Reykv., að það fer ekki vel á því, að við gefum hvorir öðrum föðurlegar áminningar, því að við erum jafnaldrar, og það getur ekki passað, að föðurlegar áminningar eigi þar við.

En út af því, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði um það að afgreiða fjárlög nú og óraunhæfi þeirra, þá vildi ég biðja hv. þm, að kynna sér þingsöguna frá 1968 og framkvæmdir ríkisstj. í efnahagsmálum á því ári og vita, hve skammt var á milli aðgerða hennar í efnahags- og fjármálum þjóðarinnar einmitt á því herrans ári. Gengisfelling var þó um haustið 1967. Það var búið að gera það, áður en fjárlög voru afgreidd, en það voru æðimargir hnútar óleystir og fjárl. var breytt a.m.k. tvisvar sinnum, áður en þingi lauk, og svo nokkrum sinnum þar á eftir, á mánuðunum frá því að þingi lauk og þar til þing kom samana aftur, og síðan varð gengisfelling enn á haustinu 1968. Vildi ég biðja hv. þm. að kynna sér sín fyrri afrek. Ég vil líka biðja hann, að kynna sér ummæli fyrrv. samráðh. sinna: hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar í útvarpi og Alþýðublaðinu í ágúst um gengislækkun og hv. þáv. formann Sjálfstfl. um gengislækkun hér á hv. Alþ., hvað hann sagði þá og hvort hann taldi, að það ætti að leysa þann vanda, sem þá var við að etja, með henni og svo hvað gert var. Út í þetta skal ég svo ekki fara frekar, en það væri gott fyrir hv. þm. að kynna sér þetta, því að þá gæti hann áttað sig dálítið betur en hann virðist gera.

Ég vil svo út af tali hv. þm. um góða viðskilnaðinn minna á hrollvekjuræðu Ólafs Björnssonar. Hún sagði sitt um, hvað þið voruð að skilja við. Það voru allir kjarasamningar lausir í landinu þá, það var búið að semja við ríkisstarfsmennina, og það var fyrirboði þess, sem koma skyldi. Þetta vil ég nú minna ykkur á, mínir ágætu hv. alþm., og þá ættuð þið að fá samhengi í hlutina.

Ég vil þakka hv. 4. þm. Vesturl., sem því miður er ekki hér í salnum, fyrir hans ræðu. Hann gerði mér nefnilega mikinn greiða, því að hann minnti mig á það, sem ég hafði gleymt í ræðu minni hér í dag, þegar hv. stjórnarandstæðingar voru að telja upp fjölgun í starfsmannakerfi ríkisins. — Þá varð mér það á að að gleyma lögregluliðinu, sem kom frá sveitarfélögunum og bæjarfélögunum yfir til ríkisins og var á milli 300 og 400 manns. Þeir eru nú taldir ríkisstarfsmenn, en voru áður bæjarstarfsmenn, og það er stærsti hluti hópsins. Auk þess mun bremsunefnd hafa tekið inn í einu lagi milli 40 og 50 manns a.m.k. hjá Pósti og síma, sem þar hafði áður verið lausráðið. Þá fer þetta að nálgast 4. hundraðið, og 446 voru þeir starfsmenn, sem þarna var um að ræða. Í kennarastétt er fjölgun á hverju ári, svo að það fer að verða harla lítið, sem ríkisstj. hefur ráðstafað af þessu, að öðru leyti en því sem varðar lögreglumennina, sem var bennar ákvörðun, og sumir hv. stjórnarandstæðingar hafa talað með.

Það var atriði, sem kom fram hjá hv. 6. þm. Sunnl., sem mér fannst athyglisvert og ég vil mjög gjarnan hugsa um. Það var hugmynd hans um að færa starfslið frá ríkinu yfir til bæjar- og sveitarfélaga, og nefndi hann börnin og gamla fólkið í því sambandi. Ekki væri mér það á móti skapi, að sveitarfélögin tækju að sér rekstur barnaskólanna, því að það væri mikill fengur fyrir ríkissjóð, ef kennaraliðið færðist þangað yfir. Ég vildi mjög gjarnan láta taka upp samstarf við sveitarfélögin um þessa tilfærslu. Hann tók réttilega fram, eins og ég hef áður talið, að eðlilegt hefði verið, að kostnaður við lögregluna fylgdi ríkinu vegna þess, að enginn ákvörðunarréttur var hjá sveitarfélögunum þar um, og sama var að segja um tryggingarnar. Það má svo deila um persónuskattana, en mitt mat var það og okkar í ríkisstj., að eftir að persónuskattarnir væru orðnir svo háir, að þeir gætu verið um 50 þús. fyrir hjón með tvö börn í skóla, sem vildu borga fyrir börn sín, þá væri það orðin of há tala til þess að leggja á gjaldendur alveg án tillits til tekna. Um þetta má deila, en mitt mat og okkar í ríkisstj. var, að þetta væri ekki framkvæmanlegt á þennan hátt.

Út af ræðu hv. 1. þm. Vestf. vil ég nú segja það, að á margan hátt þótti mér gott að fá slíka ræðu, því að það sýnir, að ríkiskerfið er ekki aðhaldslaust, eins og mér finnst, að sumir álíti, þegar það snýr ekki þannig að þeim. Hins vegar vil ég ekki taka undir það, að þeir, sem vinna í fjárlaga- og hagsýslustofnuninni, vinni ekki vel sitt verk, en ef þeir ættu að taka kröfur allra rn. til greina, eins og þær koma fyrir, mundu fjárl. hækka allverulega. Þegar ég kom upp í fjmrn. í fyrra og tók við gögnum frá rn., þá lágu fyrir kröfur um hækkun milli 4 og 5 milljarða. Í sumar var upphæðin skorin niður um 2–3 milljarða. Ég veit, að það kennir víða til beins, en það er ekki hægt að tala samtímis um að draga úr ríkisútgjöldum og tala einnig um eða leggja til, að þau verði hækkuð. Sum atriði n., sem hv. 1. þm. Vestf. nefndi, eru mál, sem ekki eru búin að fá afgreiðslu nú við 2. umr. og verða athuguð. Hitt verð ég að segja, að ég er ekki búinn að sjá fram á, að lausnin verði sú, að 20 millj. kr. verði veittar í landgrunnsathugunina. Ég þarf a.m.k. að fá að sofa á því í nótt, áður en ég játa mig undir það, og svo er með fleiri þætti.

Út af því, sem frú Ragnhildur, hv. 12. þm., Reykv., sagði um tryggingarnar, þá er gott að eiga sína menn í tryggingaráði, þá geta menn fengið aðgang að því. En ég hef litið svo á, að þær ákvarðanir, sem ríkisstj. hefur tekið í sambandi við niðurgreiðslur, væri mál, sem yrði hennar að sjá um greiðslu á. Ráðstöfun um niðurgreiðslurnar nú 1. des. var ekki nema annar þáttur í því að halda vísitölunni í skefjum fram að áramótum. Þegar ég svaraði því í kvöld, hvað það kostaði að halda vísitölunni í skefjum fram til áramóta, þá svaraði ég því til. að ég gæti ekki gefið upp þá tölu, því að ég vissi ekki núna, hvað niðurgreiðslurnar eða fjölskyldubæturnar kostuðu fram að áramótunum. Ég veit, hvað þær kosta til nóvemberloka, en því, hvað þær kosta í des., get ég ekki svarað í dag. Hins vegar hef ég áætlun um það, og auðvitað lendir það á fjárlagagreiðslu ársins 1972. Með framhald á þeim málum verður auðvitað farið eins og aðra þætti, sem eftir er að ákvarða. Annað í ræðu frúarinnar, hv. 12. þm. Reykv., held ég, að ég sjái ekki ástæðu til að fara út í.

Þá var það út af því, sem hv. 5. þm. Norðurl. e., Lárus Jónsson vék að. Sumt af því var þannig, að það voru góðar ráðleggingar og alls konar vangaveltur um ágæti í efnahagsmálum og skammsýni annarra manna, og gott er að eiga slíka menn að. Það kom einnig fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. e., að bankastjóranum, sem talaði hér áðan, sem hafði ýmislegt við hið opinbera kerfi að athuga, og komið hefur líka fyrir, að maður hafi heyrt bankakerfið gagnrýnt. En það þykir ekki eins hentugt í pólitík að gagnrýna það eins og stjórnkerfið, því að menn þurfa að labba fyrir bankastjórana og slá sér út víxla, en minna er um slíkt gagnvart ráðh. Ég verð að segja það um ræður þessara ágætu manna, sem ég veit, að gengur gott eitt til, að á mínum stutta valdatíma hefur Akureyri komið við ríkissjóð og hækkað hjá mér fjárl., aukið strauminn úr kassanum. Ég er ekki alveg viss um, að Akureyrarbær hefði þolað, þrátt fyrir stjórn þessara ágætu manna, að Slippstöðin á Akureyri hefði verið látin fara á hausinn í fyrra. Það kostaði ríkissjóð 45 millj. kr., og það er eitt dæmið um ráðleysi, óráðsíu og fyrirhyggjuleysi, af minni hendi, sem hv. þm. tala um. Það má vel vera, að þessir hv. þm. hefðu getað séð þar betri ráð en tekin voru. Mitt mat og ríkisstj., sem ég lagði málið fyrir, var það, að halda yrði þessari starfsemi áfram, hún væri á margan hátt merkileg. Fjárhagurinn væri með þeim hætti, að það væri vonlaust nema leggja í þetta stórfé, og það var gert með 45 millj. kr. úr ríkissjóði.

Út af því, sem hv. 5. þm. Norðurl. e., Lárus Jónsson, o.fl. hafa rætt um viðskiptin við útlönd á þessu ári og spádóma þar um, verð ég að segja eins og er, að ég kann ekki skil á því, að það sé óráðsía, eyðslusemi, fyrirhyggjuleysi og allt það, þegar íslenzka þjóðin tekur lán til þess að kaupa atvinnutæki eða þegar hún tekur lán til þess að gera virkjanir, sem eiga að verða atvinnugjafi í landinu, bæði á sviði gjaldeyrismála og annarra mála. Þannig hefur til langflestra þessara mála verið stofnað. Viðskiptahallinn nú er miklu minni en hann var 1971, það ár, sem hv. 1. þm. Reykv. stjórnaði þó að hálfu. Það mun hafa verið svo í júlí 1971, að skuldir út á við voru um 13 þús. millj. kr., gjaldeyrissjóðurinn 4 þús. millj., birgðir ca. 2700 millj., nettóskuld um 6000 millj. Í ársbyrjun voru þessar skuldir um 14300 millj., gjaldeyrissjóðurinn 4700 millj., birgðirnar tæpar 2 þús. millj. og nettóskuld um 7700 millj. Núna eru skuldirnar um 16600 millj., gjaldeyrissjóðurinn tæpir 6 milljarðar, birgðirnar um 2200 millj., nettóskuld 8400 millj. Er skuldahækkunin því innan við milljarð, þegar þetta dæmi er gert upp svona. Menn geta svo lagt mat á það, hvort réttmætt er að taka erlent lán til þess að byggja skip til annarra framkvæmda, sem eiga að vera gjaldeyrisaukandi eða þá að spara gjaldeyri. Skal ég ekki fara lengra út í að ræða það, því að ég ætla að reyna að hafa þetta mál mitt sem stytzt. Hitt vitum við ósköp vel. að það eru vissir erfiðleikar í efnahagsmálum þjóðarinnar. Því hefur á engan hátt verið leynt, og ég hygg, að það sé í fyrsta sinn, sem það hafa verið gefnar út slíkar grg. um þau mál sem nú hefur verið gert. Ég man a.m.k. ekki eftir því. Ef mig misminnir, vildi ég gjarnan fá leiðréttingu á því, og skal ég ekki eyða um það fleiri orðum.

Út af því, sem hv. þm. Lárus Jónsson spurði um loforð mitt um Ólafsfjarðarhöfn, verð ég að segja það, að ég er ekki alveg minnugur á það. Hins vegar hef ég átt þess kost að greiða fyrir Ólafsfjarðarhöfn og gert það. Það, sem um var að ræða í sambandi við Ólafsfjarðarhöfn, var, að af framkvæmd, sem þar átti að fara í, var skilin eftir framkvæmd, sem nú hefur verið greidd með 40% ríkisframlagi, en við breytingu á lögunum mundi framlag til hennar aukast, og ég held, að það hafi ráðið niðurstöðu um, að ekki var lagt í þessa framkvæmd.

Út af fjárveitingu til sjúkrahússins á Akureyri vil ég segja, að það heldur sínum 11 eða 9 millj., ég man nú ekki nákvæmlega töluna, sem var í fyrra, og til viðbótar það, sem er á fjárlagafrv. Hins vegar hafði ég ekki gert ráð fyrir því, að það yrði hærra, og mun það verða skoðað betur milli umr. Út af læknamiðstöðinni á Akureyri, þá er það mál, sem kom til fjvn. mjög seint og liggur ekki ljóst fyrir, hvort um er að ræða raunverulega læknamiðstöð eða t.d. læknahús, eins og læknar hér hafa byggt sér sameiginlega. Ég held, að það hafi verið mat manna, að það þyrfti að vita betri skil á því, áður en ákvörðun væri tekin þar um.

Ég skal ekki fara langt út í ræðu hv. þm. Halldórs Blöndals. Þeir voru að spyrja mig um skilin á 13. söluskattsmánuðinum. Ég vildi svara því til, að þeir gætu líka spurt fyrirrennara minn að því, hvernig hann hefði farið að, þegar hann fékk 13. söluskattsmánuðinn. Ég held, að hann hafi tekið hann tekjumegin, og ég held, að ég muni gera hið sama. Það verður ekkert vandamál að koma því fyrir. Ég held, að þeir, sem vinna að bókhaldi í ríkisbókhaldinu, kunni skil á því, og við báðir á að taka ákvörðun.

Hv. þm. Halldór Blöndal talaði um ágæti þeirra sjálfstæðismanna í skattamálum. Þeir voru, eins og kunnugt er, 12 ár í ríkisstj. og á síðasta þingi viðreisnar lýsti þáv. fjmrh. skattal. landsins m.a. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: Skattakerfið er allt of flókið, álögð gjöld allt of mörg, frádráttarreglur flóknar, allt of þungt á unglingum, allt of mikið um undanþágur og sérreglur.

Þetta var þegar liðin voru hér um bil 12 ár síðan viðreisnarstjórnin tók við. Er svo nokkur hissa á því, þó að núv. ríkisstj. þurfi meira en 12 mánuði til að komast út úr þessari flækju? Ég held, að ef menn bara hugsa þetta rólega, þá geri þeir sér ósköp ljósa grein fyrir því, að það þarf miklu meira en 12 mánuði til þess að komast út úr þessu. Svo skal ég ekki ræða skattamál meira.

Hitt vil ég svo segja í sambandi við fjárveitingar til Norðurl. e., að ég veit ekki, ef við förum að gera það dæmi upp, hvort það kjördæmi sé afskipt. Eigum við ekki að taka skólana með líka og sjá hvernig fer? Á hverjum tíma er í afgreiðslu Alþ. verið að reyna að sinna málum Norðurl. e., Norðurl. v., Vesturlands, Suðurlands, Austurlands, Reykjavíkur og Reykjaness. Það er verið að reyna að sinna þessu af sem mestri sanngirni. Í ár getur eitt kjördæmið komið upp með geysilega háa tölu í heilbrigðisstofnunum, en lága í öðru í skólum, eins og þarna á sér stað. Ég held, að við þurfum ekki að kvarta undan því.

Ég fer víst að verða of langorður, því að það er orðið áliðið. En það voru nokkur orð í ræðu hv. 5. þm. Norðurl. v., sem ég hefði gjarnan viljað víkja að. Menn geta æft sig í að tala um ráðleysi, stjórnleysi og allt það, eins og þá langar til. Þegar hv. þm. slá slíku fram, mega þeir það sér til gagns og gamans eftir þeirra mati. Það skiptir engu máli og hefur engin áhrif. Mér fannst koma fram hjá sumum þessara þm. eins og þetta hefði verið æft í kór. Þeir voru orðnir svo í takt, að það var alveg eins og þeir hefðu æft þetta sameiginlega.

Um halla á ríkisbúskapnum í ár, þá er desember nú bráðum hálfnaður, og við skulum bara bíða eftir úrslitunum. Það er venja hjá mönnum, a.m.k. í kosningum, að reyna að spá framan af. Þegar líður að því, að á að fara að kjósa, hætta menn, bíða og sjá, hvernig fer. Ég held, að það verði að vera eins með þetta.

En svo var það, að heilsugæzlustöðvar á Norðurl. v. væru eitthvað illa settar. Af hverju er það? Af því að það hefur verið byggt meira af héraðssjúkrahúsum í Norðurl. v. en á öðrum stöðum á undanförnum árum. Það hefur verið byggt á Sauðárkróki, Blönduósi, Hvammstanga og ég man ekki hvað meira, læknisbústaður á Skagaströnd, sem er auður. Þið í Norðurl. v. hafið verið þar á undan okkur hinum, og þess vegna er þetta nú svona. Út af landbúnaðarmálum, þá er víst mikill munur á mér eða hv. 1. þm. Sunnl. Ekki kom hv. þm. þó með mikið, sem sannfærði mig um, að svo væri. Ég held t.d., að Landgræðslan þurfi ekki að kvarta undan skiptunum. Þar er um 100% hækkun á tveim árum. Er það til þess að kvarta undan? Þurfa þeir að sakna þess, að það urðu skipti á landbrh.? Þarf Framleiðnisjóður landbúnaðarins að kvarta undan því, að það urðu skipti á landbrh.? Þar var engin fjárveiting 1971, en 30 millj. kr. núna. Er það af hinu verra? Hvað er með nýju jarðræktarlögin? Frá þeim var gengið eins og Búnaðarþing gekk frá þeim. Þau fóru í gegnum þingið nákvæmlega þannig, og fjárveitingarnar eru miðaðar við það, og þar er líka hækkun. Þarf Bændaskólinn á Hvanneyri að kvarta undan skiptum á landbrh.? Eftir að fyrirrennari minn hafði setið í 12 ár og verið búinn að vera með verk í framkvæmd í sennilega ein 8 ár, — ég man það ekki nákvæmlega, — hækkaði fjárveitingin, hún var þrefölduð á einu ári. Ég veit, að betur má, ef duga skal. En er ástæða til að kvarta undan þessu? Ég veit það ekki. Ég veit ekki, hvort þeir biðja um það, að það yrðu skipti aftur og þeir fengju sínar 5 millj. Holdanautastöðin, það voru engar fjárveitingar þar. Nú eru þær 6 millj. Það er líka nýtt. Er ástæða vegna þessa til að breyta um aftur? Hvað er með afgreiðslu í sambandi við Stofnlánadeild landbúnaðarins? Það voru 140 millj. 1970, það voru 254 millj. 1971, og það féll í hlut núv. landbrh. að útvega verulegan hluta af því fjármagni. Það verða 360–370 millj. á þessu ári. Ég veit ekki, hvort þarf að kvarta undan þessum skiptum. Það má vel vera, að hv. 5. þm. Norðurl. v. þurfi að kvarta. En ég fæ ekki séð, að bændur almennt þurfi að kvarta. Hvernig er með kaupgjald bænda á þessu ári? Það hefur samkv. útreikningum Hagstofunnar hækkað í samræmi við kaupgjald annarra stétta, vinnutímastyttingu og orlof tekið þar einnig inn í. Er undan þessu að kvarta? Hvað er með veðdeildina? Hvernig voru hennar fjármál, þegar landbrh.- skipti voru? Það lá bréf uppi í stjórnarráði um að útvega veðdeildinni 5 millj. að láni. Hvers virði var bréfið? Það var pappírsblað með undirskriftinni Ingólfur Jónsson, og ég man nú ekki, hver var annar. En hvar voru peningarnir? Það varð hlutverk núv. landbrh. að útvega þá. Það voru veittar úr veðdeild Búnaðarbankans á árinu 1970 14.5 millj., 1971 15.3 millj., 1972 46.5 millj. Er það til þess að kvarta yfir? Lánin hafa verið hækkuð úr 200 í 500 þús. E.t.v. er þetta allt til þess að kvarta undan af bændastéttinni, en ég er ekki alveg viss um, að hv. 5. þm. Norðurl. v. meti það rétt, þegar hann metur það svo. Hvernig voru afurðalánin, sem bændur fengu út á afurðir sínar á þessu hausti? Þau voru um 1400 millj. kr. úr Seðlabankanum og úr viðskiptabönkunum held ég að þau hafi verið 1700 millj. kr. Hlutfallið er betra en áður hefur verið. Er það þetta, sem þarf að kvarta undan?

Ég ætla ekki að þreyta hv. þm. á lengri ræðu. En ég vona, að hv. 5. þm. Norðurl. v. skoði hug sinn og kynni sér þetta, og þá veit ég ekki nema við komumst að sameiginlegri niðurstöðu.