15.12.1972
Sameinað þing: 31. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1271 í B-deild Alþingistíðinda. (910)

Umræður utan dagskrár

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég leyfi mér að kveðja mér hljóðs hér, áður en gengið er til atkv. um einstakar gr. fjárlagafrv. Í morgun hef ég staðreynt við nánari athugun fjárlagafrv. vegna starfa míns í tryggingaráði, að hæstv. fjmrh. leyndi Alþ. mikilvægum upplýsingum og fór með rangt mál varðandi einfaldar staðreyndir á þingfundinum um miðnæturskeiðið hér í nótt. Raunar er það ekki aðeins hæstv. fjmrh., sem hér á sök, heldur öll ríkisstj. Ég leyfi mér að benda á það í gærkvöld, að ekki væri gert ráð fyrir auknum útgjöldum til Tryggingastofnunar ríkisins í fjárlagafrv., og átti þá við þau gjöld, sem hæstv. ríkisstj. hefur vitað um ákveðið frá því í nóv. s.l. og sumpart miklu lengur. Í skýringum fjmrh. á miðnæturfundi þingsins s.l. nótt kom fram, að ómögulegt væri að segja, hve háar fjölskyldubætur yrðu. Auðvitað veit enginn mennskur maður, hvaða hækkanir valkostirnir hafa í för með sér. En stórkostlegar hækkanir hafa þegar verið ákveðnar. Það er einber blekking að segja, að ómögulegt sé að greina þar frá upphæðum.

Ég hafði samt tilhneigingu til að trúa því, að hæstv. ráðh. færi með rétt mál, svo vel sem hann hlýtur að rata um refilstigu ríkisfjármálanna, og hugsaði aðeins: Hvers vegna skyldi ég, fávís kona, fara að rengja svo vísan mann. Ég kannaði í morgun betur, hvernig máli þessu væri farið, og tel mér skylt að upplýsa það, sem kom í ljós.

Í bréfi til Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. nóv., frá heilbr: og trmrn. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Með vísun til 12. gr. l. nr. 96 1971, þar sem gerð er breyting á 78. gr. l. nr. 67 1971, hefur ríkisstj. ákveðið að hækka upphæð fjölskyldubóta frá og með 1. nóv. 1972 úr 11 þús. kr. á ári með hverju barni og upp í 13 þús. kr. á ári með hverju barni. Er Tryggingastofnuninni hér með tilkynnt þetta og henni jafnframt falið að hefja undirbúning undir útborgun bóta samkv. þessari breytingu.

Þar eð málið er síðbúið, er rn. ljóst, að ekki verður unnt að hefja útborgun bóta þessara fyrir áramótin.

F.h. ráðherra,

Jón Ingimarsson.“

Tilkynningar samkv. þessu bréfi hafa verið sendar umboðum út um allt land. Staðreyndum í þessu bréfi hefur verið haldið leyndum. En þarna dylst vísitöluhækkun, sem raunverulega er orðin og enn er ekki komin til framkvæmda í kaupgreiðslum, og sú er e.t.v. ástæðan fyrir laununginni yfir máli þessu. Í fjárlagafrv. er miðað við 8 þús. kr. fjölskyldubætur á barn, en hækkunin upp í 11 þús. kr. átti aðeins að gilda til áramóta, eins og raunar er sagt frá í aths. við fjárlagafrv. á bls. 148. Það er því hækkun á fjölskyldubótum um 62.5%, sem vantar í fjárl. Heildarupphæð hækkunar er útkoma úr einföldu reikningsdæmi, þótt hæstv. ráðh. teldi þar allt óljóst. Heildarupphæð fjölskyldubóta 1973 hækkar, miðað við núverandi aðstæður og þær staðreyndir, sem þegar liggja fyrir, hátt upp í 400 millj. kr. Þar við bætast 150 millj. kr. vegna ríkisframlags til lögskipaðrar hækkunar annarra bóta, sem þegar er ákveðin, bæði í tryggingalögum og með kaupsamningum, sem eru löngu gerðir. Samtals er því þarna um 550 millj. kr. blekkingu í fjárlagafrv. að ræða. Þetta er alveg fyrir utan þá verðlagsþróun, sem verður á næsta ári og hlýtur að leiða til stórfelldrar hækkunar bóta Tryggingastofnunar ríkisins.

Herra forseti. Ég þakka það, að mér var leyft að taka hér til máls utan dagskrár, en ég taldi mér skylt að upplýsa þetta mál, fyrst mér var um það kunnugt og hér virtist á ferðinni stórfelldari gleymska, mistök og misskilningur en unnt væri að láta liggja í þagnargildi fyrir atkvgr. þá, sem hér er á dagskrá. Þetta er meira en tvöfalt hærri upphæð en allar brtt. hv. fjvn. samanlagt, þær sem voru hér til umr. í gær.