15.12.1972
Efri deild: 25. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1278 í B-deild Alþingistíðinda. (917)

105. mál, dómari og rannsóknardeild í ávana- og fíkniefnamálum

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Hér er vikið að stórfelldu vandamáli, sem ekki er tími eða tök á að ræða neitt náið nú. Víða virðist þetta vera orðið eitt alvarlegasta þjóðfélagsmeinið í ýmsum háþróuðum menningarlöndum, og það er sjálfsagt erfitt að vita, hvernig við því á að snúast. Hér er vikið að einum þætti þessa máls, þ.e.a.s. hinni lagalegu hlið, og ég geri mér það að vísu ekki ljóst við lauslega athugun, hvort og hversu mikið hér er verið úr að bæta, en veit þó, að fyrir því er góður vilji bæði þeirrar n., sem þarna um ræðir, og eins hæstv. ráðh. En hér spinnst vitanlega margt inn í, og í eiturlyfjaneyzluna, held ég, að spinnist ekki hvað sízt sú gróðahvöt, sem í sambandi við hana er. Það eru á ferð víða erlendis hreinir auðglæpahringar, sem skipuleggja þessa starfsemi sér til ábata, og eins og víða, þar sem slík sjónarmið komast að, er enn erfiðara en ella að komast fyrir vandaan og leysa hann.

Hér er örugglega orðið þegar töluvert vandamál að ræða hér á landi. Hvaðan þessi eiturlyf og fíknilyf koma, skal ég láta ósagt, það veit ég ekki gjörla, en um það hef ég a.m.k. lúmskan og reyndar nokkuð rökstuddan grun, að býsna drjúgan hlut af þessu sé að finna í sambandi við hernámsliðið á Miðnesheiði. Er þetta þá ekki fyrsta vandamálið, sem af því stafar, og þann þátt þyrfti áreiðanlega að rannsaka rækilega, hversu mikinn þátt erlent herlið hér ætti einmitt í sölu og jafnvel dreifingu þessara efna. Það er ekki hvað sízt alvarlegur þáttur þessa máls.

Auðvitað gerum við okkur ljóst, að með þessu finnst ekki lausn á þessu máli eingöngu og hér þarf margt til að koma frekar. En ég treysti því fullkomlega, að núv. hæstv. dómsmrh. sjái rækilega um, eins og hv. þm. Oddur Ólafsson benti hér á áðan, að einmitt í sambandi við þennan dóm verði lögð á það mikil áherzla, að þeir menn, sem um þessi mál fjalla, hafi á því sérþekkingu, hafi fullt vald á því, sem þeir eru að gera. Á því er áreiðanlega full þörf.

Ég ætla einnig að víkja að því stuttlega, að mér þykir svo sem á þessum fíkniefnamálum hafi verið tekið af fjölmiðlum á býsna óhagstæðan máta. Ég á við það, að úr þessu hafi oft verið gerðar hinar verstu og mestu æsifréttir, sem eru til þess líklegar eingöngu að varpa ævintýraljóma á þessa neyzlu og þá ekki hvað sízt í augum nýjungagjarnra og áhrifagjarnra unglinga. Ég held, að það væri full ástæða einmitt til þess að gæta vel að þeim þætti, að fjölmiðlarnir fjölluðu um þessi mál af fullkominni varfærni og hvorki gerðu of mikið úr einstökum þáttum né heldur drægju neina dul yfir þau, — það er alls ekki meining mín, en aðeins að þeir tækju á þessum málum af varfærni og á eins réttan máta og þeim væri nokkur leið.

Að lokum langar mig að geta þess, vegna þess að þessi mál eru komin hér á dagskrá og þegar þessi mál eru rædd og svo myndarlega tekið til hendi eins og hér er óneitanlega um að ræða og þá ekki hvað sízt á fjárhagssviðinu, þá fer ekki hjá því, að áfengisvandamálið komi hér upp einnig, og manni verður hugsað til þess, hvernig okkur hefur gengið baráttan gegn því, og þá ekki hvað sízt vegna þess, að hér hefur verið rætt um unglinga sérstaklega sem neytendur þessara fíkniefna, og vegna þess, hvert vandamál áfengisvandamálið er einmitt gagnvart þessum unglingum. Þá er rétt að gera sér einmitt grein fyrir því, þegar við erum að ræða löggjafaratriði þessa máls, að bak við drykkjuskap unglinga liggja lögbrot, oft fleira en eitt og fleiri en tvö, sem sagt, þessir unglingar mega ekki neyta áfengis að því leyti til, að þeir hafa ekki rétt til þess að kaupa það, og eiga þess vegna ekki að hafa möguleika á því að nálgast það öðruvísi en áður hafi verið framið lögbrot. Þessi lögbrot tíðkast vitanlega ég vil segja hverja helgi og miklu oftar. Það er full ástæða til þess að herða eftirlit með því og sekta þá, sem uppvísir verða að því að stunda slík lögbrot, jafnvel í stórum stíl, ekki bara með málamyndasektum, sem þeir geta með auðveldum hætti aurað sér inn fyrir um næstu helgi á eftir, heldur einmitt þungum fésektum og þungum dómum, sem gætu orðið þeim einhver viðvörun. Ég ætla ekki að fara að tefja þessar umr. núna og skal fara í því að tilmælum hæstv. dómsmrh. En af því að ég veit, að hann hefur einnig mjög góðan skilning og vilja í sambandi við áfengismálin, þá vænti ég þess, að í þeim verði einnig tekið til hendi á myndarlegan hátt og a.m.k. ekki síður hvað snertir bæði þennan þátt og aðra þætti þess vandamáls en hér er lagt til gagnvart þessu vandamáli.