15.12.1972
Neðri deild: 24. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1287 í B-deild Alþingistíðinda. (924)

76. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Það voru nokkur atriði, sem mig langaði að minnast á við þessa umr. Það er að vísu, að ég held, þýðingarlaust að tala almennt um þær skattalagabreytingar, sem gerðar voru á síðasta þingi. Það er þýðingarlaust vegna þess, að það er sama, hvað bent er á, það er ekki hlustað. Það er ekki hlustað nú fremur en á s.l. vetri, þegar hæstv. ríkisstj. var margbent á, hvers konar afglöp hún væri að fremja. Það er ekki hlustað nú fremur en áður, þótt sannanir séu komnar fram í dagsljósið eftir álagningu skattanna á s.l. sumri.

Hér er til umr. frv. til l. um staðfestingu á brbl., sem sett voru á s.l. sumri. Með þessum brbl. hélt hæstv. ríkisstj., að hún gæti þvegið hendur sínar með því að leiðrétta að nokkru eina verstu skyssuna, sem hún gerði í sambandi við skattal., þegar skattbyrði aldraðra var aukin meira en á öðrum þjóðfélagsþegnum. Ég ætla ekki að ræða sérstaklega efni þessa frv. eða brtt., sem fulltrúar Sjálfstfl. í fjh.- og viðskn. hafa lagt fram og hv. 1. þm. Reykn. gerði hér grein fyrir í umr. um daginn. En það voru atriði í ræðu hæstv. fjmrh., sem ég þarf að fá skýringu á.

Hv. 1. þm. Reykn. ræddi um þau áhrif, sem niðurfelling almannatryggingagjaldsins hefði við álagningu skatta nú. Hann sagði réttilega, að áður en breytingin var gerð á þessu ári hefði almannatryggingagjaldið verið frádráttarbært, þ.e.a.s. almannatryggingagjald, sem greitt var á s.l. ári, hefði fengizt dregið frá tekjum nú að óbreyttum lögum við álagningu 1972. Nú var almannatryggingagjaldið fellt niður sem sérstakt gjald, en almannatryggingar eru nú fjármagnaðar gegnum tekjuskattskerfið. Er ekki alveg ljóst, að með þessu er komið aftan að gjaldendum? Þegar svo þar við bætist, að þeir, sem orðnir voru 67 ára, greiddu alls ekki almannatryggingagjald, en gera það nú gegnum tekjuskattskerfið, þá þykir mér liggja í augum uppí, að aðstaðan er verri en áður. En hæstv. fjmrh. sagði hér í umr. í fyrradag, að fólk væri raunverulega búið að fá framlagið til almannatrygginga dregið frá skatti, ekki aðeins einu sinni, heldur raunverulega tvisvar. Lái mér hver sem vill, þótt ég skilji þetta ekki, en ég fer fram á nánari skýringar. En örfá orð til viðbótar um skattbyrði eldra fólksins.

Hæstv. fjmrh. sagði, ég held, að ég hafi það nokkurn veginn orðrétt eftir honum, að það væri broslegt að gefa öldruðu fólki sérstakan frádrátt, ef það hefur miklar tekjur. Hann taldi aldraða fólkið betur sett en unga fólkið eða það fólk, sem er að mennta börnin sín. Það er í sjálfu sér virðingarvert að bera umhyggju fyrir unga fólkinu. Sérstakur frádráttur ætti sem sagt ekki að miðast við aldur, heldur við tekjur, auk þess sem spurning væri um það, hvað fólk ætti að skila miklu til eftirkomendanna. Þá höfum við það. Þetta er skoðun hæstv. fjmrh., sem ég bið menn að taka eftir. En er það raunverulega skoðun hæstv. ríkisstj., að þeir, sem eiga lífið fram undan eða a.m.k. mest af sinni starfsævi, skuli njóta sérstakra skattfríðinda umfram þá, sem fyrir aldurs sakir hafa lokið sinni starfsævi og hafa ekki lengur atvinnutekjur? Mér sýnist, að ef þetta er skoðunin, þá eigi að halda áfram skattpíningunni alveg fram í andlátið, ef svo má segja. Ef svo skyldi fara — (Gripið fram í.) já, raunar fram yfir það, ég kem að því, — ef svo skyldi fara, að ekki næðist nægilega mikið af hinum öldruðu gegnum tekjuskattskerfið, þá er lausnin erfðafjárskatturinn, eins og sýndi sig á síðasta þingi. Þá ætti að vera nokkurn veginn öruggt, að ríkissjóður fengi sitt. En hæstv. ráðh. sagði eitthvað á þá leið, að það væri spurning, hvað rétt væri að leyfa eftirkomendunum að fá. Um leið lætur hann þó í ljós þá skoðun, að sérstaka umhyggju þurfi að bera fyrir yngri kynslóðinni. En það er hins vegar engin spurning um það, hvað menn þurfa nú að greiða í tekjuskatt. Það er engin spurning um það, hve skattbyrði hinna öldruðu hefur aukizt, og þetta frv., sem hér er til umr., bætir þar ekki mikið um.

Ég skal ekki fara út í það að nefna einstök dæmi, sem þó eru fjölmörg um, hve skattbyrði aldraðra hefur aukizt frá því, sem áður var. En má ég nefna eitt? Er t.d. nokkurt réttlæti í því, að ekkja, sem komin er hátt á níræðisaldur, þurfi nú að greiða 140 þús. kr. í skatta, í tekjuskatt og útsvar, móti 17 þús. kr. á s.l. ári, þótt hún hafi eingöngu eftirlaun, bæði vegna eigin starfa áður og eftir mann sinn? Þetta get ég ekki tekið undir, að sé réttlæti.

Þá ræddi hæstv. fjmrh. nokkuð um það hagræði, sem sveitarfélögin hefðu haft af skattalagabreytingunni á síðasta þingi. Hann las upp skýrslu, sem átti að sýna, að kaupstaðirnir hefðu nú meira fé til framkvæmda en áður. Ég leyfi mér að segja, að þessi skýrsla er markleysa, vegna þess að það er ekkert tillit tekið til þeirra miklu hækkana, sem orðið hafa á öllum kostnaði við framkvæmdir. Það kom hér fram í fjárlagaumr. í gær hjá hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni, að byggingarvísitala hefur hækkað um 28.9% frá 1. júlí 1971. Ef hæstv. ríkisstj. hefði hins vegar haldið sig við málefnasamning sinn, þótt ekki væri nema að því eina leyti, sem hún lofaði í sambandi við sveitarfélögin, þá hefði munurinn á því, sem sveitarfélögin ættu nú að hafa til verklegra framkvæmda, átt að vera miklu, miklu meiri en skýrsla hæstv. ráðh. sýnir. Í málefnasamningnum segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Endurskoða ber skiptingu verkefna og valds milli ríkis og sveitarfélaga í því skyni að auka sjálfsforræði byggðarlaga.“

Hvað hefur gerzt? Vald sveitarfélaga hefur fremur verið skert en hitt og verkefnin flutzt yfir á ríkið. Tekjustofnar þeirra hafa einnig verið skertir. Það er tilgangslaust fyrir ríkisstj. að benda á, að létt hafi verið byrðum af sveitarfélögum með því að losa þau við þátttöku í löggæzlukostnaði. Það voru allir sammála um. En með því var ekki verið að auka vald sveitarfélaganna eða fela þeim aukin verkefni, þvert á móti. Af öllum mætti er unnið að auknu miðstjórnarvaldi, og meðan þessi hæstv. ríkisstj. er við völd, verður áreiðanlega haldið áfram á þeirri braut. Það stoðar ekkert að líta til ákvæða í málefnasamningnum margnefnda, —ákvæða, sem þó mætti ætla, að allir skildu, eins og t.d. það ákvæði, sem ég las hér upp áðan. Við getum alveg eins búizt við því, að okkur verði sagt, að við rangtúlkum þetta ákvæði eða bara skiljum það ekki. Þannig kann aukið sjálfsforræði byggðarlaga að nást með því, að ákvarðanir, sem varða þau, verði allar teknar í rn. og fé fái þau ekkert til ráðstöfunar nema gegnum rn. líka og þá náttúrlega eftir að hafa skilað tilheyrandi grg. Það getur vel verið að þetta sé leiðin til þess að auka sjálfsforræði sveitarfélaga. Ég held ekki.

Annars gladdi það mig hér í umr. í gærkvöld að heyra hæstv. fjmrh. taka undir — að vísu með fyrirvara — orð hv. þm. Steinþórs Gestssonar um, að sveitarfélögin ættu að taka að sér þjónustu við unga og aldna. Um þetta vill hæstv. ráðh. gjarnan hugsa. Mig grunar, að hann hafi orðið svona hrifinn af þessu, þar sem hann eygði möguleika á að losna við allt kennaraliðið af launaskrá ríkisins. En mér virtist hins vegar eins og hann væri að heyra þessa hugmynd í fyrsta skipti. Hún er þó sett fram í skýrslu, sem Samband ísl. sveitarfélaga lét gera fyrir um það bil tveimur árum um hugsanlega breytingu á skiptingu verkefna og valds milli ríkis og sveitarfélaga. Ef slík breyting væri gerð, þarf hins vegar að hugsa fyrir auknum tekjustofnum fyrir sveitarfélögin. Þetta veit ég að sjálfsögðu, að hæstv. fjmrh. skilur, svo mikil afskipti sem hann hefur haft af sveitarstjórnarmálum áður fyrr. En ég er hins vegar hræddur um, að till. sem þessar eigi ekki upp á pallborðið hjá ýmsum öðrum meðal stuðningsmanna hæstv. ríkisstj.