15.12.1972
Neðri deild: 24. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1293 í B-deild Alþingistíðinda. (931)

121. mál, launaskattur

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af athugasemd hv. 1. þm. Sunnl. vil ég taka það fram, að ég skal alveg fallast á það að fá ársframlengingu á skattinum eins og verið hefur, því að eins og kunnugt er hefur ekki verið dregið úr niðurgreiðslum. Til þess að það verði ekki deiluatriði, þá má framlengingin vera til eins árs, enda er tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs til athugunar, svo að það breytir engu, þó að þetta hafi verið sett í frv. með tilliti til þess, að um endurnýjun hefur verið að ræða áður fyrr. Það má vera svo áfram og tek ég það fúslega fram, til þess að málið nái fram að ganga.