15.12.1972
Neðri deild: 24. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1296 í B-deild Alþingistíðinda. (934)

122. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1973

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs aðallega vegna þess, að hæstv. fjmrh. mælist til þess, að n. sú, sem fær málið til meðferðar, verði skjót í afgreiðslu sinni og að við getum afgr. málið, að því er mér skilst frá þinginu, áður en fundum þess verður frestað fyrir jólin. Ég get ekki rætt þetta frv. nú við 1. umr., einfaldlega vegna þess, að ég hef ekki komizt yfir að lesa frv. Síðan því var útbýtt hafa verið stanzlausir fundir fram á miðnætti hér í þinginu, eins og kunnugt er. Í sjálfu sér hefði það ekki sakað neitt, þó að frv. færi til n. og við hefðum ekki átt kost á að ræða um málið við 1. umr. Þetta mál er einmitt þannig væið, að það er fyrst og fremst í n., sem það athugast. En málið vandast miklu meira, ef ætlazt er til, að málið verði afgreitt á örskömmum tíma. Þó að við í stjórnarandstöðunni viljum leggja okkur fram við það og séum ekkert sparir á að eyða tíma í að afgreiða mál á skömmum tíma, þegar þess er þörf, þá má hæstv. ríkisstj. ekki ofbjóða okkur eða misbjóða með því að ætlast til of mikils í þessu sambandi.

Ég minnist þess að í fyrra þurfti að fara fram veruleg athugun og íhugun á frv. um framkvæmdaáætlunina. Hún sætti þá að ýmsu leyti gagnrýni hjá okkur stjórnarandstæðingum. Hvort hún gerir það nú, skal ég ekki dæma um, fyrr en ég er búinn að kynna mér málið betur. En ég vil láta þetta koma fram nú þegar við 1. umr. og áskilja okkur í Sjálfstfl. rétt til þess að gera eðlilegar kröfur til athugunar á þessu máli og öðrum, áður en þinghlé verður veitt, sérstaklega þegar svo stendur á, að segja má, að engu máli skipti í sjálfu sér, hvort málið er afgreitt fyrir áramót eða ekki.

Ég tel, að það sé mjög æskilegt, eins og hér er leitazt við, að afgreiða framkvæmdaáætlunina í tengslum við fjárlfrv. Það má þá ekki verða í senn, að meðferð og afgreiðsla fjárlfrv. sé í raun og veru flaustursverk og framkvæmdaáætlun þannig, að það sé meiri sýndarmennska, hvernig málið er afgreitt. Þetta vil ég láta koma fram núna og skal ekki lengja tímann nú. Málið fer til n., og við munum að sjálfsögðu athuga það í þingflokki Sjálfstfl., hvort við höfum aðstöðu til þess að verða við þessari beiðni, en ég get ekki annað að svo komnu en áskilið mér rétt til fyrirvara um það, að við höfum eðlilegan tíma til að athuga málið.