15.12.1972
Neðri deild: 24. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1297 í B-deild Alþingistíðinda. (935)

122. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1973

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða hér sérstaklega um spariskírteinaútgáfuna, þótt tilefni sé kannske til. Það er vissulega erfitt að ræða fjárþörfina vegna framkvæmdaáætlunar, þegar allt er yfirleitt í óvissu um tekjuhlið fjárlagafrv. Efnahagsmálin hafa verið hér mikið rædd, og ég ætla ekki heldur að fara inn á þær brautir. En það er eitt atriði í þessu frv., sem mig langar að vekja athygli á. Það er í 10 gr., þar sem talið er upp, til hvaða framkvæmda fénu verði varið, og þar er m.a. gert ráð fyrir, að 50 millj. kr. fari til Hafnafjarðarvegar í Kópavogi. Ég vil geta þess, að þm. Reykjaneskjördæmis hafa átt fundi með byggingarnefnd Hafnarfjarðarvegar, þar sem málin hafa verið skýrð ítarlega. Mér er óhætt að segja, að skilningur hefur ríkt hjá öllum, sem nálægt þessu máli hafa komið, á nauðsyn þess að afla fjár til framkvæmdanna við þennan veg. Ég læt í ljós þá von, að hv. þn., sem fær þetta mál til athugunar, taki það til gaumgæfilegrar athugunar, hvort ekki sé unnt að verða við óskum byggingarnefndarinnar um það framlag, sem hún hefur talið nauðsynlegt. Ég held, að ég fari þar rétt með, þegar ég segi, að þm. kjördæmisins hafi allir sýnt þessu máli stuðning. En ég þarf að fara um þetta mál örfáum orðum, án þess að ég ætli mér á nokkurn hátt að fara að rekja sögu þess, sem þó væri ef til vill ástæða til, vegna þess að ég hef grun um, að ýmsir haldi, að verið sé að færa Kópavogskaupstað einhverjar fjárfúlgur, sem bæjarsjóður ætti að réttu lagi að leggja fram. Ég skal ekki heldur fara ítarlega út í að lýsa þeim framkvæmdum, sem nauðsynlegt er að gera á þessum vegarkafla.

Í stuttu máli er um það að ræða, að í árslok 1973 verði þeim áfanga náð, að báðar akbrautir vegarins verði fullgerðar í fyrirhugaðri breidd svo langt til suðurs, að þær tengist eðlilega gamla Hafnarfjarðarveginum, þar sem hann sker fyrirhugaða legu hinnar nýju akbrautar. Þá er einnig gert ráð fyrir, að lokið verði frágangi tenginga austan vegarins að öðru leyti en því, að yfirlagsmalbik verði ekki komið á tengiveg frá suðri á Digranesveg. Framkvæmdakostnaður við þennan áfanga er áætlaður 50 millj. kr., og það er sú upphæð, sem farið var fram á. Í frv. þessu er gert ráð fyrir 50 millj. kr. heildarframlagi, en það þýðir, að til framkvæmda verða aðeins rúmlega 21 millj., þar sem vextir og afborganir vegna þessa vegar nema nú yfir 28 millj. kr. Þessi upphæð, sem fer til framkvæmda á árinu 1973, er því allt of lág, til þess að nothæfur áfangi náist. Þessar framkvæmdir, sem þarna er unnið að, byggjast á samkomulagi, sem gert var árið 1966 milli bæjarstjórnar Kópavogs og samgrn. En síðan hafa að sjálfsögðu ýmsar aðstæður breytzt. Upphafleg áætlun, sem farið hefur verið eftir, hefur verið aðlöguð breyttum kröfum, en sumar þær breytingar, sem gerðar hafa verið, hafa verið viðurkenndar af rn., en aðrar ekki. Ég ætla ekki að hefja hér neinar deilur um það, hvað hver á að borga eða hvað eðlilegt þyki, að ríkissjóður borgi, og hvað eðlilegt er, að Kópavogskaupstaður greiði sjálfur. Hæstv. samgrh. hefur, að því er ég bezt veit, þegar skipað viðræðunefnd til að ræða þessi mál, og ég læt í ljós þá von, að sú n. komist að samkomulagi í þessu máli öllu.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um gildi þessa vegar, en ég legg áherzlu á, að hann er ekki eingöngu lagður fyrir Kópavogsbúa. Þetta er, má segja, ein af 3 höfuðtengingum við höfuðborgina sjálfa, og það út af fyrir sig ætti að vera nægilegt að nefna, til þess að menn átti sig á því, að þetta er ekkert einkamál Kópavogsbúa, sem þeir ættu að bera allan kostnað af. Umferðin um þennan veg er meiri en á nokkrum öðrum stað á landinu. Á vissum köflum hans er umferð eitthvað milli 20 og 30 þús. bílar á dag. Það er rétt, að það komi einnig fram, að áður en þetta samkomulag var gert 1966, var þessi vegur þjóðvegur. Núna telst hann til þéttbýlisvega, þannig að Kópavogskaupstaður bindur allt sitt þéttbýlisvegafé um ófyrirsjáanlegan tíma í þessum vegi.

Ég vil einnig upplýsa, að áætlaður kostnaður við þessar framkvæmdir í árslok 1972 er 205 millj. kr., en þá er talið, að eftir standi um 270 millj., þar til vegurinn verður fullgerður, en þá er einnig tekin með í reikninginn yfirbygging vegarins að hluta. En sé miðað við þá liði, sem samkomulag hefur verið um, þá munu vera eftir 82 millj. Ég legg áherzlu á það, að ég er ekki að flytja hér neina till. um hækkun á þessu framlagi, en mælist eindregið til þess, að hv. fjh.- og viðskn. líti sérstaklega til þessa liðar og að hv. þm. sýni þessu máli fullan skilning. Það mætti margt fleira nefna að sjálfsögðu í sambandi við þetta mál, en ég ætla að láta þetta duga.