16.12.1972
Sameinað þing: 32. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1313 í B-deild Alþingistíðinda. (951)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þar sem hæstv. bankamálaráðh. er ekki kominn, verð ég að segja hér nokkur orð um ræðu hv. 7. þm. Reykv. Auðvitað hlustuðum við með athygli á varnaðarorð hans í fyrradag og höfum kynnt okkur eftir það, eins og reyndar áður, hvernig ástatt væri um yfirfærslur í bönkum, og höfum staðið í sambandi við bankastjórana og sérstaklega þá bankamálaráðh. í sambandi við Seðlabankann.

Þann dag, sem hv. þm. kom fram með þessi aðvörunarorð hér á þingi, reyndist það svo, þegar upplýsingar lágu fyrir um þann dag, að 140 millj. höfðu verið yfirfærðar. Það er talsvert meira en eðlilegt er. Þó er þess að gæta, að það er alltaf verulega mikið um yfirfærslur í þessum mánuði og á þessum dögum, og þarf ekki út af fyrir sig að vera neitt óeðlilegt við það. Ég hef orð seðlabankastjóra fyrir því, að hann taldi þetta, 140 millj. þennan dag, ekkert óeðlilegt. — Ég sé nú, að hæstv. bankamálaráðh. er kominn, og er hann kannske fróðari um þessi mál öll. — Í fyrradag námu aftur yfirfærslur 115 millj., þannig að þær höfðu lækkað mjög verulega frá því deginum áður, — deginum, þegar ræða hv. 7. þm. Reykv. var flutt. Miðað við þessar aðstæður taldi Seðlabankinu ekki ástæðu til þess að grípa til ráðstafana í gær. En hitt er alveg laukrétt, sem hv. þm. sagði, að útstreymi gjaldeyris í gjaldeyrisbönkunum í gær var miklu meira en dagana áður. Ég hef ekki svo nákvæmar tölur við hendina, að ég vilji fara með þær. En það er alveg rétt, að það var mun meira, og sjálfsagt einhver hættumerki þar á ferð. Þó veit ég ekki og hef ekki heldúr fengið upplýsingar um það, hve mikið af þeim yfirfærslum er hægt að segja, að hafi verið óeðlilegar. Þetta var föstudagur, menn að leysa út mikið af vörum til laugardagssölu og þess vegna ekki óeðlilegt, þó að það væri venju fremur mikið um gjaldeyrísyfirfærslur. Hitt er rétt, að það var óvenjulega mikið. Það er kannske ekkert undarlegt, og það þarf kannske ekki að leita lengi orsakanna til þess. Ekki er þeirra að leita hjá okkur ráðh., ekki höfum við verið með neinar yfirlýsingar um, að það verði gengisfelling. En það hefur hins vegar verið þrálátur orðrómur um þetta, eins og hv. þm. drap á. Sá orðrómur hefur komizt á prent. Og hvar hefur sá orðrómur komizt á prent? Hefur það verið í stjórnarblöðum? Nei, það hefur verið í stjórnarandstöðublöðum. Ef einhver á sök á því að hafa komið orðrómi á kreik um þetta, þá segi ég: Ábyrgðin liggur hjá stjórnarandstæðingum og stjórnarandstöðublöðunum. Það þarf engan að undra, þegar slíkum orðrómi hefur verið komið á kreik, eins og gert hefur verið að undanförnu, — ég segi bara í Morgunbl. og Vísi, — þá þarf engan að undra, þó að einhverjir vilji fara að leita í gjaldeyrisbankana og fá gjaldeyrisyfirfærslu.

Ég veit, að varnaðarorð hv. þm. voru mælt af fullri alvöru, og ég hef tekið þeim vinsamlega og tók þeim vinsamlega þá. Og ég tek þessum aðvörunarorðum hans vinsamlega. Það er alveg augljóst, að ef einhver dráttur verður á aðgerðum í þessu efni, eftir að búið er að koma slíkum orðrómi á kreik, þá verður að grípa í taumana og taka til skoðunar, hvað á að gera varðandi lokun gjaldeyrisbanka, ef þessi orðrómur verður áfram á döfinni. Mér er það að sjálfsögðu jafnmikið kappsmál og ekki minna kappsmál en hv. l. þm. Reykv., að það þurfi ekki að dragast lengi héðan af, að það liggi ljóst fyrir, til hverra ráðstafana verður gripið.